Hoppa yfir valmynd

3.2 Margmiðlunarefni

3.2.1 Margmiðlunarefni

Þumalputtareglan er sú að allt efni sem sett er fram með notkun myndskeiða eða annars konar margmiðlun þarf að vera aðgengilegt á öðru formi, til dæmis með hefðbundnum textalýsingum eða hljóðskrám. Þannig er mikilvægt að texta myndskeið fyrir heyrnarlausa notendur eða birta góða samantekt úr efninu.

Eftirfarandi er gátlisti fyrir vefumsjónarmenn opinberra vefja:

  • Ef hljóðskrá er hlaðið upp á vef þarf einnig að vera aðgengileg textaskrá með sama efni eða ígildi þess nema ef efni hljóðskrár er að öllu leyti gert skil í texta sem fyrir er.
  • Ef myndbandi er hlaðið upp á vef þarf að vera texti í annarri útgáfu myndbandsins eða textaskrá sem lýsir efninu eða ígildi þess.

Ef textun á ekki við, til dæmis um myndefni sem er til þess fallið að sýna fram á leiðbeiningar, er stuðst við yfirskrift (e. caption). Yfirskrift er fyrir heyrnarlausa notendur og eftirfarandi ítarefni má styðjast við þegar það á við:

Hvernig má gera þetta á auðveldan máta?

Í gátlista W3C um aðgengismál er lagt til að myndefni sé textað en sé einnig með lýsingu á efni myndefnis á hljóðformi. Hægt er að gera undantekningu á því ef efni myndbandsins kemst til skila í talmáli myndbandsins. Ef stofnanir nýta tækni þriðja aðila til að miðla margmiðlunarefni, til dæmis YouTube, þá er mjög auðvelt að texta myndbönd og gera þau aðgengileg en um er að ræða virkni sem YouTube býður upp á til að tryggja aðgengi. YouTube styður einnig við yfirskrift (e. captions).

Notendur sem þurfa ekki sérstaka lýsingu geta auðveldlega notað stýringar á YouTube til að slökkva á henni og horfa á myndbandið eftir sínu höfði án lýsingar eða texta. Athugið að yfirskriftir (e. captions) má ekki rugla saman við textun (e. subtitles) þar sem textun virkar best þegar texta skal talað mál en yfirskrift betur þegar umhverfishljóð eru mikilvæg til að efnið skili sér.

Ef stofnanir eru að hlaða upp myndböndum, beint á eigin síður, er rétt að vinna myndefnið þannig að það sé sett inn í tvennu lagi, annars vegar óbreytt myndbandsskrá og hins vegar textuð útgáfa með möguleika á lýsingu á efni myndbandsins, ef það er metið sem svo að efnið komi ekki nógu skilmerkilega fram í talmáli myndbandsins.

Myndbönd skulu þá einnig hafa hljóðlýsingu (e. audio descriptions). Það er lýsing á því sem skiptir máli en kemur ekki fram í hljóði myndbands.

Beinar útsendingar mynd- eða hljóðefnis á opinberum vefjum

Talsverðar kröfur eru gerðar til mynd- eða hljóðefnis sem sent er út beint á vefnum og er það gert fyrir heyrnarlausa notendur og aðra sem búa við skerta heyrn. Eftirfarandi gátlista þarf að hafa í huga í þessum efnum:

  • Nota þarf tækni á þessu sviði til að slá inn yfirskriftir (e. captions) til að heyrnarlausir notendur hafi sama aðgang að efni og aðrir meðan á útsendingu stendur.
  • Ef ekki reynist unnt að texta útsendingar á meðan á þeim stendur er nauðsynlegt að innihald útsendinganna sé aðgengilegt á vefnum við fyrsta tækifæri - helst innan sólarhrings. Tilkynna má notendum hvenær búast megi við að efni verði aðgengilegt.

Ítarefni

Captioning Key: Guidelines and Preferred Techniques

Best Practices in Online Captioning

3.2.2 Myndefni sem sett er fram í Flash eða Silverlight

Gera þarf ráðstafanir að setja texta í Flash-skrár sem sýna myndefni. Textann þarf að setja inn í "object title" til að skjálesarar geti lesið textann upp fyrir notendur. Það er sjálfsagt að nýta sér tækni á borð við Flash eða Silverlight. Slíkt kallar á að notendur hlaði niður viðbót (e. plug in) í vafrann, yfirleitt er það sjálfvirkt ferli sem fer af stað ef viðbótin er ekki til staðar en sumir kjósa að setja ekki upp viðbætur í vafrann.
 
Þrátt fyrir að viðbætur í vafra hlaðist yfirleitt sjálfkrafa, niður eftir samþykki notenda, er engu að síður góð vinnuregla að safna saman tenglum til að aðstoða notendur við að ná sér í þær viðbætur sem nauðsynlegar eru og útskýra tilganginn með þeim.
 
Vegna þess að viðbætur eru notendum valfrjálsar og ekki endilega mjög útbreiddar er oft gott ráð að byggja ekki mikilvæga virkni á Flash eða Silverlight og á það að tryggja að sem allra flestir notendur geti nýtt sér þjónustuna. Mikilvæg virkni felst í leiðarkerfi vefsins og í formum eða eyðublöðum sem viðskiptavinir geta notað til að senda stofnuninni upplýsingar.

Mikilvægt er að Flash-spilarar sem notaðir eru til að streyma Flash-efni á síðu hafi aðgerðarhnappa (helst á íslensku).

Ganga þarf úr skugga um að hnappar á borð við „spila, pása, spóla áfram, spóla aftur á bak, hækka og lækka“ séu merktir. Einnig er afar mikilvægt að hljóð sem sent er út í Flash-skrá sé ekki svo hátt að ekki sé hægt að nota skjálestrarforrit (um 20db lægra en sjálfgefið hljóð tölvunnar (e. system volume) er viðmið, þó hljóð megi vera aðeins hærra en það).

Ítarefni

Myndband um aðgengilegt og óaðgengilegt flash-efni

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira