Hoppa yfir valmynd

3.4 Að sjá eða heyra efni

3.4.1 Bakgrunnslitir og litaval

Á vefsíðum er mikilvægt að ákveðið jafnvægi sé í litasamsetningu og svokallaðri mótsetningu (e. contrast) eða kontrast. Með þessu er átt við að litasamsetning á milli texta og bakgrunns þarf að lúta ákveðnum reglum.

Ef kontrast er of lítill rennur texti fullmikið saman við bakgrunninn og það verður erfitt fyrir notendur að lesa hann. Þetta á sérstaklega við lesblinda. Af þessum sökum er rétt að byggja upp vefsíðu með litasamsetningu sem vitað er að reynist flestum notendum vel.

Setjið fram dökkan texta á ljósum grunni, gott dæmi er svartur texti á hvítum bakgrunni.

Ekki nota óhefðbundna litasamsetningu eins og rauðan texta á grænum bakgrunn. Almennt er mælt með að kontrast sé í hlutfallinu 4,5:1 nema að um sé að ræða texta sem er 14 punktar feitletraður eða stærri.

Æskilegt er að bjóða notendum að breyta bakgrunnslit. Það er tiltölulega einfalt í framkvæmd og er stjórnað í gegnum mismunandi stílsnið. Iðulega eru þessar stillingar settar efst í hægra horn á hverja síðu og auðkennt með tákni.

Mikilvægt er að allar breytur fyrir bakgrunn og letur séu rétt skilgreindar í kóða. Í sumum tilvikum eru einstaklingar með litla sjón með vafra sína stillta þannig að hvítur texti er sjálfvirkt stilltur á að birtast á svörtum bakgrunni og hafa slíkar notendastillingar forgang á undan stillingum sem hönnuðir hafa skilgreint á sínum síðum. Af þessum ástæðum er mikilvægt að skilgreina allar breytur því hönnuður sem gleymir að stilla bakgrunnslit en skilgreinir leturgerð getur ekki verið viss um að hlutfallið 4,5:1 haldi sér.

Besta leiðin til að ná ofangreindum markmiðum er að tryggja að efni sem er sett fram í lit sé einnig aðgengilegt í texta án litabreytinga. Það hentar raunar lesblindum betur ef bakgrunnur er ekki alhvítur heldur „off white“ eða ljósgrár.

Prófanir á mótsetningu

Prófun á mótsetningu

Ákveðnar leturgerðir henta betur til lestrar á skjá en prenti. „Verdana“, „Georgia“ og „Trebuchet“ eru dæmi um slíkar leturgerðir. Til að tryggja samræmi í leturgerðum, litanotkun og stærðum er rétt að nota stílsnið. Þannig verði í raun ómögulegt fyrir vefumsjónarmenn að nota aðrar leturgerðir eða liti en skilgreint hefur verið innan vefsins.

Litaval á tenglum

Hefð er fyrir því að skilgreina tengla bláa og undirstrikaða. Þetta á sérstaklega við tengla sem birtir eru samhliða texta í meginmáli vefsíðu. Tenglar sem notendur hafa heimsótt eru gerðir fjólubláir.

Í meginmáli er góð regla að hafa ekki marga tengla mjög nálægt hvor öðrum. Tenglar þurfa að vera aðgreinanlegir frá öðrum texta, t.d. með undirstrikun.

Óháð litavali er það góð vinnuregla að hafa í huga hvort notendur geti aðgreint fljótt venjulegan texta frá tenglum sem hægt er að smella á. Þetta litaval á þó ekki við tengla í veftré sem oft er sett fram í áberandi hönnun til hliðar við meginmál og því átta notendur sig fljótt á tilgangi þess.

Þegar myndir eru notaðar sem tenglar á aðrar síður þarf að lýsa því í skýringartexta hvert tengillinn vísar. Textaútgáfa af tenglum er þó alltaf æskilegust og í gæðakönnunum er sú framsetning almennt talin vefjum til tekna.

3.4.2 Leturgerðir, stækkanir, hljóð og myndasvæði

Ákveðnar leturgerðir henta betur til lestrar á skjá en prenti. „Verdana“, „Georgia“ og „Trebuchet“ eru dæmi um slíkar leturgerðir. Það er gott ráð að skilgreina leturgerðir sem taka við ef notendur hafa eldri vafra eða ekki réttar leturgerðar uppsettar á tölvum sínum og geta þannig ekki birt fyrsta valkost. Algengari leturgerð eins og „Arial“ getur tekið við af „Verdana“ ef vafrinn getur ekki sett fram rétta leturgerð.

Forðist að láta letur taka breytingum þegar notendur fara með músina yfir tengla eða annan texta. Þetta á við breytingar eins og stækkun leturs, feitletrun og skáletrun. Til að uppfylla nútímakröfur um aðgengi þarf að vera hægt að stækka letur á vefsíðum um allt að 200%.

Leturstærðir er rétt að skilgreina og stilla með notkun stílsniða og þannig er einnig auðvelt að leyfa notendum að stækka og minnka letur á vefsíðum með stillingum efst á síðunni. Nútíma vafrar bjóða einnig upp á þann möguleika að hægt er að stækka texta án þess að gert sé ráð fyrir sérstökum stillingum á vefnum þótt það sé oft betri kostur.

Hér á eftir má sjá stillingar á vef Stjórnarráðs Íslands sem gefur notendum færi á að stækka letur og minnka.

Sjálfvirk hljóð á vefjum

Forðast skal að setja í gang sjálfvirka spilun á hljóði á vef. Ef einhver hljóð eru spiluð eða heyrast án atbeina notenda í meira en þrjár sekúndur þarf að tryggja að notandi geti gert á því hlé eða stöðvað hljóðið, eða að til staðar sé stjórntæki sem stýri hljóðstyrk óháð þeim hljóðstyrk sem notandi hefur valið á sinni eigin tölvu.

Mikilvægt er að hljóðstyrkur efnis yfirgnæfi ekki hljóðstyrk skjálesara, og skal því gæta þess að hafa hann í lægri kantinum. Einnig er nauðsynlegt að hnappar til að stjórna hljóðstyrk séu vel merktir fyrir notendur skjálesara og helst að skilgreindir séu flýtilyklar til þess að stýra hljóðspilun beint af lyklaborði (t.d. ctrl-0 til að hækka ctrl-9 til að lækka og svo framvegis).

Viðmið varðandi hljóð á einnig við um efni sem sett er fram með Flash og Silverlight.

Myndasvæði (e. image map)

Myndasvæði er í raun mynd á vefnum sem býður notendum upp á ýmsa möguleika. Oftast eru þessi svæði notuð til að koma á framfæri tenglum eða ýmsum upplýsingum. Á eftirfarandi vefslóð eru til dæmis yfirlitsmyndir af landshlutum og með því að færa músina yfir ákveðið landsvæði birtast nöfn þeirra sveitarfélaga sem tilheyra mismunandi landshlutum.

Íslensk sveitarfélög - kort á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga

Til þess að þetta sé mögulegt þarf að búa til svokölluð myndasvæði þar sem vafrinn gefur notendum aðgerðamöguleika þegar músin er færð á milli svæða. Tvær leiðir eru færar til að hanna og viðhalda myndasvæði á vefnum. Client-side myndasvæði er algengasta leiðin og sú sem mælt er með að notuð sé. Til að tryggja aðgengi þeirra sem nýta sér skjálesara á vefjum þarf að ganga úr skugga um að skýringartexti fylgi öllum skilgreindum svæðum á þeirri mynd sem notuð er sem myndasvæði.

„Client-side“-myndasvæði

Með því að nýta „Client-side“ myndasvæði er vafri notenda látinn sjá um að reikna út hvar músin er staðsett yfir viðkomandi myndasvæði og sendir notendum þá viðeigandi upplýsingar (eins og gert er á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga í dæminu hér að framan). Myndasvæðið er þannig hannað, oftast í til þess gerðu forriti, þar sem svæðin eru valin og merkt með ákveðnum hnitum.

„Server-side“-myndasvæði

Þegar myndasvæði er „Server-side“ er vafri notenda ekki nýttur í þeim tilgangi að koma viðeigandi upplýsingum á framfæri heldur er það skrá sem liggur á þeim vefþjóni sem hýsir síðuna. „Server-side“ myndasvæði gera þeim erfitt um vik sem þurfa að styðjast við önnur tæki en músina til að skoða vefi. Ekki er mælt með notkun „Server-side“ myndasvæða á opinberum vefjum.

Ítarefni

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira