Hoppa yfir valmynd

3.5 Lyklaborð og skoðun vefja

3.5.1 Stuðningur við lyklaborð

Markmiðið er að allar aðgerðir á síðunni virki þegar eingöngu er stuðst við lyklaborð. Þegar öll virkni er til staðar með lyklaborði er nokkuð öruggt að notendur sem nýta sér skjálesara eða önnur hjálpartæki geti nýtt sér efni og innihald vefja. Önnur hjálpartæki gætu verið talgreinir, höfuðmús og skjáalyklaborð (e. on-screen keyboard). Öll þessi tæki virka sem lyklaborð, ekki sem mús.

Það þarf ávallt að skoða hvaða virkni er í boði fyrir notendur á síðunni. Mikilvægt er að íhuga hvaða aðgerðir eru framkvæmdar með því að nota bæði músina og lyklaborðið saman. Dæmi um virkni er að ýta á tengla, valmyndir, hnappa, gátreiti og myndir. Ef til staðar er möguleiki á að velja, draga og eyða efni eða texta í einhverjum tilgangi þarf einnig að tryggja að það sé hægt með því að styðjast við lyklaborð eingöngu.

Önnur dæmi um virkni sem þarf að prófa eru að „bæta við“ eða „fjarlægja“ atriði úr framsetningu sem þekkist undir nafninu „innkaupakarfa“ eða hefja spjalllotu við afgreiðslu í gegnum netspjall. Þegar notuð eru venjuleg html-tög kemur lyklaborðsaðgengi oftast með en útfæra þarf lyklaborðsaðgengi sérstaklega þegar virkni er útfærð með div, span, Javascript eða annars konar Web 2.0 tækni.

Þegar ljóst er hvaða virkni er á síðunni staðfestir höfundur að hver aðgerð sem tilgreind er sé hægt að framkvæma með því að nota aðeins lyklaborðið.

Í javascript hönnun þar sem mikið er um notkun á „onMouseover“ og „onMouseout“ þarf að nota „onFocus“ og „onBlur“ til að tryggja lyklaborðsaðgengi.

Dæmi sem vert er að hafa í huga:

  • Vefsíða notar myndir sem tengla og myndin breytist þegar notandi stöðvar músina yfir myndinni. Tryggja þarf að myndin muni einnig breytast þegar notandi notar lyklaborð til þess að fara á tengilinn.
  • Vefsíða sem gerir notendum kleift að smella og draga hluti í lista til að endurraða þeim þarf einnig að fela í sér virkni sem gerir notendum lyklaborðs kleift að færa atriði upp, niður eða til upphafs og loka á lista.
  • Mikilvægt er að lyklaborðsfókus sé ávallt sýnilegur og að prófa þurfi fókusinn í fleiri en einum vafra (sérstaklega IE, Firefox og Chrome). Margir notendur, t.d. fólk með Parkinsons (eldri borgarar og fólk með hreyfihömlun) treysta á að geta alltaf séð lyklaborðsfókusinn á síðunni.

3.5.2 Aðgengi og tenglar

Ekki geta allir notað mús til að skoða vefsíður og verða því að nýta sér lyklaborð.

Skjálesarar og önnur forrit notfæra sér nú vel skilgreindar fyrirsagnir í HTML-strúktúr, til dæmis H1, H2 og H3, til að brjóta upp lengri síður og hoppa á milli ákveðinna hluta.

TAB-takkinn á lyklaborðum (PC-tölvur) eða CTRL (á Apple vélum) getur einnig komið notendum vel. TAB-röðin þarf að vera rétt skilgreind og rökrétt. Þetta þarf að tryggja á vefsíðum en einnig í PDF-skjölum og vísað er til gátlista um PDF-skjöl til að tryggja rétta röðun.

Oft eru síður settar þannig upp að notendur þurfa að fara yfir talsvert magn af efni, til að mynda í efnisyfirliti eða ýmsar upplýsingar í haus. Í gátlista WCAG 2.0 um aðgengismál á vefnum eru hönnuðir hvattir til bæta tengli efst á hverja síðu sem fer beint í meginmál. Þetta má gera falið en í raun nýtist þetta öllum notendum ef það er sýnilegt, til dæmis þeim sem kjósa að nota TAB-lykil til að skoða vefi. Einnig nýtist þetta snjallsímanotendum og fleirum. Mikilvægt er að tengillinn sé skýr og gæti verið „beint í meginmál“.

Gott dæmi um útfærslu á „beint í meginmál“

Þegar tengt er í annað efni eða ytri skrár er góð vinnuregla að hafa heiti tenglanna eins lýsandi og mögulegt er. Ekki er rétt að nota tengla með textanum „smellið hér“. Meira lýsandi fyrir efni tengilsins gæti verið „Skýrsla um ...“.

Mikilvægt er að tegund skrár (PDF skrá, Word skrá eða annað) komi fram í texta tengilsins. Ef um tengil er að ræða sem opnar slíka skrá eða býður notanda að hala hana niður þarf að gefa það til kynna í texta tengils („hala niður skrá á PDF-formi“  eða „sækja skrá x. pdf").

Gildrur varðandi notkun lyklaborða

Ekki er mælt með því að tenglar séu stilltir þannig að þeir opnist í nýjum glugga í vafra nema þegar um tengla í viðhengi er að ræða. Ef slíkt er gert þarf að tilkynna notendum það við hlið tengilsins með tákni eða texta því það getur verið hvimleitt að fara óvænt af því vefsetri sem notandinn er að nýta sér. Þetta gerir það einnig að verkum að „Back“-hnappurinn virkar ekki en hann er mjög mikið notaður af notendum vefja. Alltaf þarf að tryggja að notendur læsist ekki inni í efni og komist ekki til baka til þess staðar sem þeir voru á.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira