Hoppa yfir valmynd

3.8 Staðsetning og leiðarkerfi

3.8.1 Vefflokkar og leiðarkerfi

Hvort sem það stendur til að hanna vef frá grunni eða endurskipuleggja eldri vef er rétt að gera greiningu á því hvaða hlutverki vefurinn eigi að þjóna og skilgreina út frá því yfirflokka og undirflokka vefsins.
Slíka greiningu er gott að gera í rýnihópum þar sem þátttakendur gera svokallaða flokkunaræfingu (e. card-sorting), skoða tillögur að efni síðunnar og skipta því niður í flokka. Slíkt má gera með notkun spjalda þar sem flokkar eru skráðir niður á hvert spjald og þeim svo raðað upp eftir umræðu og forgangsröðun hópsins.

Í könnuninni er spurt hvort flokkar í leiðarkerfi séu eins á öllum síðum?

Stigagjöf: 0=nei, 1=já.

Veftré þarf alltaf að vera á sama stað og breytast ekki á milli síðna. Með því að tryggja enn fremur að flokkar leiðarkerfis séu alltaf eins gefst notendum jafnan tækifæri til að smella á flokka sem þeir þekkja sérstaklega. Þannig er einnig komið í veg fyrir að notendur tapi yfirsýn yfir vefinn í heild.

Ef margir ólíkir hópar munu koma til með að nýta sér þjónustu vefsins gæti verið gott að skipta þeim upp í sérstaka markhópa. Markhópar geta verið „eldri borgarar“, „nemendur“ og svo framvegis. Þegar viðkomandi smellir á sinn hóp þá birtist veftré sem er hannað sérstaklega með þarfir og væntingar hópsins í huga.

Mismunandi leiðir að efni

Það er alltaf gott að gefa notendum færi á að leita að efni á annan máta. Góð regla varðandi leiðarkerfi og skjálesara er að gefa notendum kost á að „hoppa yfir endurtekið efni“ og fara beint í meginmál. Tengillinn getur verið falinn svo að skjálesarar finni hann en ekki notendur sem þurfa ekki á því að halda. Með aukinni notkun á headings 1, 2 og3 verður þetta í raun óþarfi en samt er gott að hafa svona tengil inni fyrir þá sem nota lyklaborð en eru ekki skjálesaranotendur (til dæmis fólk með hreyfihömlun)

 • Atriðaorðaskrá eða A-Z listi yfir efnisflokka vefsins getur verið til hagsbóta fyrir notendur. Þetta gæti hentað stórum og efnismiklum vefjum sérlega vel.
 • Notkun „brauðmolaslóða“ er önnur leið sem sýnir notendum hvar þeir eru staddir á vefnum hverju sinni.

Brauðmolaslóð fyrir þessa síðu er eftirfarandi:

Verkefni>Upplýsingasamfélagið>Opinberir vefir>Vefhandbók>3. Aðgengi og nytsemi>3.8 Staðsetning og leiðarkerfi

Notendur geta því áttað sig betur á hvar þeir eru staddir í veftrénu og geta auðveldlega vafrað til baka og á milli flokka. Þessi slóð er yfirleitt sett efst á hverja síðu og er breytileg eftir því hvar notendur eru staddir hverju sinni.

Veftré

Flest vefumsjónarkerfi geta birt veftré í heild á sérstakri síðu og uppfært breytingar sem stofnanir gera á því sjálfkrafa. Mælt er með þessari notkun enda til hagsbóta fyrir notendur.

Rétt er að gæta þess að hafa tengla virka í veftrénu svo að notendur geti auðveldlega smellt á áhugaverða flokka til að kanna efni þeirra nánar. Veftré með engum tenglum þjónar takmörkuðum tilgangi.

Forsíða aðgengileg frá öllum síðum

Ákveðnar síður eru innan vefsins sem gott gæti verið að leyfa notendum að komast inn á með einni tengingu frá öllum öðrum síðum vefsins.

Mikilvægasta síðan er undantekningalaust forsíða vefsins og er algjört lykilatriði að notendur geti alltaf smellt á textatengil og einnig „logo“ vefsins til að komast þangað.

Oft koma notendur inn á vefsíðuna í gegnum beina tengla sem vísa ekki á forsíðu heldur tiltekið efni innan vefsins. Í slíkum tilfellum er hentugt fyrir notendur að sjá strax tengil á forsíðu.

Dæmi

3.8.2 Tenglar og vefslóðir

Löng hefð hefur skapast fyrir undirstrikun tengla á vefnum og það er gott ráð að breyta ekki út af þeirri leið. Gott er fyrir nytsemi vefja að tenglar séu bláir og heimsóttir tenglar fjólubláir. Einnig þarf að gæta þess að tenglar séu lýsandi fyrir það efni sem það vísar á.  Ein meginreglan varðandi tengla í meginmáli er að þeir séu með samræmt útlit og vel aðgreinanlegir frá öðrum texta. Mikilvægt er að tenglar sem benda á sama stað hafi alltaf sama texta.
 
Ósamræmi í vefslóðum er mjög algengt á vefjum. Slíkt er yfirleitt háð þeim vefumsjónarkerfum sem eru í notkun. Mörg umsjónarkerfi eiga það til að velja vefslóð fyrir nýjar greinar sjálfvirkt, bæði til að flýta fyrir innsetningu og til að vísa rétt í gagnagrunna sem liggja bakvið vefsíðuna.

Vefslóðir ættu að endurspegla leiðarkerfi vefsíðna eins og kostur er. Í vefútgáfu handbókarinnar er kaflinn á eftirfarandi slóð:

https://www.stjornarradid.is/verkefni/upplysingasamfelagid/opinberir-vefir/vefhandbokin/3.-adgengi-og-nytsemi/3.8-stadsetning-og-leidarkerfi/

Í vefslóðinni hér að ofan er lagt upp með að vefslóðin endurspegli leiðarkerfi vefsins til hagsbóta fyrir notendur. Hér er einnig kostur að notendur þekkja orðin sem eru notuð, þau eru ekki illskiljanlegt tölvumál nema þá helst síðasti hluti vefslóðarinnar sem er í raun gagnagrunnstenging sem vefkerfið býr til og er tilvísun í grein 7319.

Gæta þarf þess að hægt sé að bókamerkja síður (skrá þær í eftirlætissíður í vafra) og að slóðin haldist alltaf sú sama. Ef rammar eru notaðir á vefsíðum er oft erfitt fyrir notendur að bókamerkja þær.

Önnur góð regla er að forðast skuli langar og flóknar vefslóðir, það er góð regla að hægt sé að skrifa þær niður. Þannig væri mjög til ama fyrir notendur ef slóðin hér að ofan væri t.d. eftirfarandi: ut.is/9868768303947//63904820384234

Sérstaklega þarf að huga að þessu sé skipt um vefumsjónarkerfi. Líkur eru til þess að þá muni samsetning vefslóða breytast og í kjölfarið er líklegt að fleiri gestir fái upp 404 villumeldingu um að síðan sem beðið var um sé ekki til. Sé skipt um vefumsjónarkerfi er best ef annað hvort er hægt að tengja á milli gömlu slóðanna og þeirra nýju eða þá koma fyrir ábendingu á 404 síðunni um að breytt hafi verið um vefumsjónarkerfi og að efnið sem leitað er að finnist ef til vill á öðrum stað á vefnum.

3.8.3 Notkun á römmum

Rammar (e. frames) eru í raun margar stakar vefsíður og birtast sem ein heild. Þessi aðferð var algeng áður fyrr en ýmis vandamál fylgja henni, sérstaklega er varðar notagildi og aðgengi. Ekki skal nota ramma í vefsíðugerð sökum:

 • Erfitt að senda síðuna áfram og slóð hennar er oft ruglingsleg.
 • Erfitt að telja hversu margir gestir koma á vefsíðuna.
 • Erfitt vegna birtingar í símum og spjaldtölvum.
 • Skjálesarar eiga erfitt með að skilja á milli ramma.
 • Prentun á vefnum verður erfið þar sem notendur átta sig ekki á hvaða síðu á að prenta.
 • Leitarvélar eiga erfitt með að vísa notendum á alla ramma síðunnar.
 • Erfitt að vista bókamerki því rammar eru í raun margar síður.

Ef rammar eru notaðir þarf að tileinka sér ákveðnar vinnureglur. Nauðsynlegt er að lýsa tilgangi hvers ramma með því að nota "title"-eigindið. Vefsíður sem nota tvo ramma, einn fyrir veftré og annan fyrir efni, ættu því að heita eftir því.

Þá þarf einnig að ganga úr skugga um að upplýsingar sem settar eru fram í vöfrum geti nýst notendum sem hafa vafra sem styðja ekki ramma. Það má gera með því að nota "noframe" eigindið. Það er rétt að benda á það að með HTML5 verður horfið frá notkun ramma á vefsíðum.

3.8.4 Markhópatenglar

Áður en kemur að útfærslu markhópatengla er lykilatriði að finna út hvaða notendahópar eru líklegir til að heimsækja síðuna. Eftirfarandi spurningar má nota til að kortleggja notendahópa.
 • Hverjir eru viðskiptavinir?
 • Hvaða þarfir hafa viðskiptavinir stofnunarinnar?
 • Hvað eru viðskiptavinir líklegir til að gera á vefnum?
 • Hverjar eru væntingar viðskiptavina?

Markhópar eru þeir aðilar (hópar) sem bera sömu þarfir og væntingar til þjónustunnar. Með því að vita hvaða hópar þetta eru verður mögulegt að safna saman upplýsingum sem tilheyra hverjum hópi sérstaklega og aðlagast að þörfum hans.

Þar sem notendahópar eru skilgreindir út frá þörfum þeirra er mikilvægt að slík greining eigi sér stað með viðtölum við væntanlega notendur, könnunum eða í gegnum sérstaka rýnihópa. Það er aldrei gott að draga ályktanir um væntanlega notendur nema að undangenginni slíkri vinnu. 

Á almennum vefjum er líklega algengasta markhópaskiptingin á milli einstaklinga annars vegar og fyrirtækja hins vegar. Þannig snýst markhópagreining fyrir vefi ekki að öllu leyti um breytur eins og kyn, aldur og tekjur. Frekar er horft til hvaða þjónustu vefurinn er að veita og hvernig mismunandi hópar muni koma til með að nýta sér þjónustuna.

Markhópavefir

Önnur leið til að þjónusta ákveðinn markhóp er í gegnum sérvefi. Þannig er settur upp sérstakur vefur til hliðar við stofnanavefinn sem veitir ákveðna þjónustu. Fyrir þessari leið þurfa að vera gild rök því með fleiri vefjum flækist rekstrarumhverfið, viðhald og kostnaður eykst.

Gott dæmi um markhópavef er þjónustuvefur hins opinbera Ísland.is sem er í raun þjónustugátt fyrir almenning.

Ekki má rugla sérvef við sérhannaðan vef en með því er átt við „aðgengilega“ vefi fyrir markhópa t.d. skjálesaranotendur. Góð regla er að gera þetta ekki heldur einbeita sínum kröftum á að gera almennar síður vel vegna þess að þetta skapar mikla aukavinnu fyrir vefforritara, oft er þeim ekki haldið eins vel við og „venjulegum“ síðum.

Titill (e. title) síðu sjálfrar skal ávallt vera lýsandi og gefa upplýsingar um hlutverk síðunnar, enda sé titill það fyrsta sem skjálestrarforrit lesa þegar síðan hleðst inn. Ef síðan birtist eingöngu ef notandi er skráður inn í netkerfi skal nafn notandans birt í titli síðunnar t.d. (velkomin(n) „nafn“) eða („nafn“  innskráður – aðalsíða).

Ítarefni

Flokkunaræfing (e. card sorting) - Greining rýnihópa með notkun spjalda og umræðna.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira