Hoppa yfir valmynd

3.9 Læsilegur og skiljanlegur texti

3.9.1 Auðlesið efni

Texti á opinberum vefjum er oft mjög formlegur og tilvitnanir í lög eða reglugerðir má finna víða. Þetta gerir það að verkum að textinn verður erfiður viðureignar fyrir einstaklinga með lestrarörðugleika eða þroskahömlun. Gera má ráðstafanir til að mæta þörfum þessara einstaklinga með því að birta auðlesið efni á vefnum. Þessi framsetning nýtist vel hinum almenna notanda og ekki sístu ungu fólki sem á oft erfitt með að skilja ýmis hugtök sem notuð eru í stofnanamáli.

Í auðlesnu efni verður að gæta þess að lengd orða sé hófleg. Samsett orð má slíta í sundur með bandstriki og forðast flóknar beygingar. Rétt er að hafa engar tilvísanir í lög og reglugerðir. Setningar skulu standa einar og sjálfstæðar og kommusetningar hafðar í algjöru lágmarki. Best er að skilgreina lágmarksstærð 12 punkta letur og hafa gott línubil.

Í auðlesnu efni gæti verið gott að hafa helstu upplýsingar um stofnunina, einnig um réttindi einstaklinga og hvernig megi hafa samband við stofnunina. Textinn er oft settur fram á hvítum bakgrunni með svörtum og stórum texta. Myndnotkun getur einnig hjálpað til að auka skilning á texta.

Skáletrun

Ekki ráðlegt að nota skáletraðan texta á vefnum eða í skýrslum á vefnum því að einstaklingar með lestrarörðugleika gætu átt erfitt með að lesa skáletraðan texta. Það er því góð vinnuregla að sleppa skáletrun alltaf.

3.9.2 Mismunandi tungumál í texta

Gera þarf vöfrum viðvart þegar tungumálabreytingar eiga sér stað innan meginmáls í texta, til dæmis þegar ensk tilvitnun er birt innan íslensks meginmáls er vafra tilkynnt í kóða um breytingu á tungumáli. Þetta á einnig við um vefsíður á öðru tungumáli á vef sem er að mestu á íslensku. Eftirfarandi dæmi eru um textabreytingar á ensku í HTML-kóðanum.

Text in English

Þó að það sjáist ekki hér á þessari síðu liggur í kringum þessa setningu kóði:

<p lang="en">Text in English</p>

Þetta er gert til þess að skjálesarar átti sig á breytingunum og skipti um tungumál í upplestri til notenda. Í XML er samsvarandi kóði xml:lang.

Vefumsjónarkerfi eiga að auðvelda þeim sem skrifa á vefinn að merkja texta í réttu tungumáli. Notendur sem þekkja og get unnið beint í kóða vefsíðunnar geta gert þetta handvirkt.

Ekki er þörf á því að skilgreina tungumálabreytingar nema um sé að ræða textabút, það er efnisgrein eða meira. Óþarfi er að nota tungumálabreytingar ef eingöngu er um eitt til tvö orð að ræða.

Sams konar skammstafanir eru til fyrir önnur tungumál samkvæmt ISO639 staðlinum.

fr: franska

it: ítalska

de: þýska

nl: hollenska

es: spænska

pt: portúgalska

ru: rússneska

Mikilvægt er að skilgreina tungumál síðu í header (haus). Ef þetta er ekki gert fer skjálesari að lesa síðuna með öðrum talgervli en ætlað er (yfirleitt er sjálfgefið að síður þar sem tungumál er ekki skilgreint séu lesnar með enskum raddgervli og er það óheppilegt).

Á íslenskum vefjum skal því ávallt setja lang=“is“ í header hluta síðu.

Ítarefni

W3C - Tungumálabreytingar

Myndband af skjálesara reyna að lesa síðu þar sem tungumál var ekki skilgreint rétt

3.9.3 Skammstafanir

Skammstafanir geta reynst einstaklingum með lestrarörðugleika erfiðar. Fyrsta vinnuregla um skammstafanir er sú að það eigi að forðast notkun þeirra alfarið. Ef það er ekki raunhæft af einhverjum sökum, eða skammstöfunin er þekkt heiti á alþjóðlegum stofnunum, er rétt að birta skýringar við hlið þeirra.

Skýringar er einnig hægt að gera í kóða með abbr eða acronym breytunum. Þannig veit skjálesarinn hvernig á að lesa skammstöfunina. Hér að neðan má sjá notkun abbr til að útskýra skammstöfun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem oft er vísað til á vef velferðarráðuneytisins.

ILO

Með því að færa músina yfir skammstöfunina birtir vafrinn útskýringar. Þetta virkar þó ekki í elstu vöfrunum.

Þetta er gert á eftirfarandi máta:

<abbr="Alþjóðavinnumálastofnunin ILO">ILO</abbr>

Til að tryggja enn betur lestur á „tool tips“, það er að segja upplýsingum sem birtast þegar mús er færð yfir atriði á síðu skal nota aria-describedby.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira