Hoppa yfir valmynd

4.1 Ritstjórn

4.1.1 Hlutverk ritstjórnar

Vefsíða þarf jafnan að hafa fram að færa nýjustu upplýsingar. Vefþjónusta krefst viðhalds og líta ber á hana sem langtímaverkefni sem stöðugt er unnið að.

 
Ritstjórn vefsins ber ábyrgð á uppfærslum hans og ákveður hvaða efni þurfi að semja á hverjum tíma. Í ritstjórn geta setið stjórnendur stofnunarinnar sem hafa umboð til að úthluta verkefnum til höfunda (sérfræðinga) í ákveðnum málaflokkum.
 
Ganga þarf úr skugga um að starfsfólk stofnunarinnar hafi tíma, getu og kunnáttu til að halda vefsvæðinu við. Ef starfsfólk stofnunarinnar er önnum kafið er sjálfsagt að leita til utanaðkomandi aðila til að útfæra efni með leiðbeiningum frá ritstjórn.

Ritstjórn getur einnig borið ábyrgð á stefnumótun til framtíðar. Nauðsynlegt er að ritstjórnin hafi þá skilgreint umboð til að ráðast í verkefni á hverjum tíma og er það best gert á grunni samþykktrar áætlunar til eins árs í senn.

4.1.2 Uppfærslur og viðhald

Stöðug endurskoðun
Ábyrgðarmenn vefja bera ábyrgð á að allt efni sé uppfært.
 
Eldra efni á opinberum vefjum
Það er nauðsynlegt að skipuleggja efni á þann máta að notendur átti sig á hvaða upplýsingar séu réttar og í gildi hverju sinni.
 
Leitarvélar geta verið varasamar og leitt notendur í efni sem á ekki lengur við. Þetta á sérstaklega við um gömul PDF-skjöl og ytri skrár í skjalasafni. Þess vegna er gott að taka þau úr birtingu eða merkja þau rækilega og tilkynna notendum að þau eigi ekki lengur við. Þetta á einnig við um efni sem birt er í vefsíðum á netinu.
 
Upplýsingar um að efni eigi ekki lengur við þurfa að vera mjög áberandi og tilkynningar þar um skulu vera efst á viðkomandi síðum. Það er mikilvægt að þessar upplýsingar komi fram á öllum vefsíðum sem slíkt á við því notendur koma oft inn á vefsíður beint á undirsíðu og taka því ekki eftir tilkynningum sem settar eru ofar í veftré.

4.1.3 Forsíða vefsins

Á forsíðunni þarf að koma mjög skýrt fram nafn stofnunar eða hvaða ábyrgðaraðilar standa að baki vefþjónustunni. Forsíðan er inngönguleið inn á allar aðrar vefsíður.
 
Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga þegar efni er valið á forsíðu:
 
  • Á forsíðu er gott ráð að setja stuttan texta þar sem viðskiptavinir eru upplýstir um tilgang þjónustunnar.
  • Nýjasta efni tekið saman – hentar einstaklingum sem koma oft á vefinn.
  • Hvað er efst á baugi hverju sinni, til dæmis í ákveðnum málaflokkum og hvað þykir líklegt að fólk sæki. 

4.1.4 Opnir gagnagrunnar


Opin gögn
Í könnuninni er spurt hvort hægt sé að fletta upp eða sækja gögn í skráargeymslur stofnunarinnar í gegnum vefviðmót, samkvæmt hugmyndum um opin gögn?
Stig: 0=nei, 1=já, að hluta, 2=já.
 
Þegar því er velt fyrir sér hvort opna eigi gagnagrunna út á vefinn þarf að meta hvert tilvik sérstaklega. Ef vafamál er hvort hægt sé að misnota gögn úr gagnagrunni er ráðlegt að leita eftir áliti frá hagsmunaaðilum og með aðstoð frá Persónuvernd.
 
Opnir gagnagrunnar geta nýst í þjóðarhag, meðal annars í rannsóknir og fræðistörf. Einnig fyrir áhugasama. Hugmyndafræðin snýst um það að gögn sem eiga vera öllum opinber og aðgengileg séu það í raun og til þess má nýta vefinn.
 
Athugið hvort stofnunin hafi gagnagrunna á sínum snærum sem ættu að vera opinberir og aðgengilegir öllum.

 

Ýmsir opnir gagnagrunnar á vegum opinberra aðila

 

Ítarefni


Opin gögn á Íslandi

 

4.1.5 Ábendingar notenda

 

Í könnuninni er spurt hvort viðhorf notenda hafi verið könnuð með einhverjum hætti, til dæmis með því að gefa þeim kost á að svara viðhorfskönnun á viðkomandi vef?

Stig: 0=nei, 2=já.


Með því að bjóða notendum upp á að senda inn tillögur eða ábendingar um hvað betur megi fara á vefsvæðinu má auka gæði þess. Hægt er að setja upp einfalda könnun og/eða bjóða upp á að koma með endurgjöf á efni allra helstu síðna á vefnum.
 
Þetta auðveldar einstaklingum að hafa samband og leggja til breytingar eða tilkynna um villur á vefsíðunni. Ritstjórn fær með þessu í hendur ábendingar frá notendum þar sem fram koma tillögur til úrbóta.
 
Það er mikilvægt að innan stofnunar sé til ákveðið ferli sem tekur við ábendingum og tryggir að þær berist réttum aðilum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira