Hoppa yfir valmynd

4.5 Þjónustuna er auðvelt að finna

4.5.1 Vefsíðuslóðin er auðskiljanleg

Ef nafn stofnunarinnar er langt er sjálfsagt að nota skammstafanir til að auðvelda notendum að slá inn slóðina. Einnig getur verið gott að eiga aðra slóð með fullu nafni stofnunarinnar sem tryggir að notendur geti giskað á slóðina án þess að nota leitarvélar.
 
Til þess að komast inn á heimasíðu Íbúðalánasjóðs er bæði hægt að skrifa slóðina http://www.ils.is/ og http://www.ibudalanasjodur.is/.
 
Ganga verður úr skugga um að þjónustuna megi finna án þess að það þurfi að slá inn „www“ á undan slóðinni. Þannig er heimasíða Íbúðalánasjóðs einnig aðgengileg undir slóðinni ils.is.
 
Tryggja þarf samræmi í undirtenglum, forðast breytilegar eða illskiljanlegar vefslóðir. www.vefslod.is/english er æskileg slóð til að finna upplýsingar á ensku. Slóðin www.vefslod.is/index.aspx?GroupId=281 er það ekki.

4.5.2 Vefsíðuna má finna í leitarvélum

Í könnuninni er spurt hversu ofarlega nafn stofnunar birtist í leitarniðurstöðum á Google?
 Stig: 0=ekki ofarlega, 1=frekar ofarlega, 2=efst.


Nokkrum aðferðum má beita til að leitarniðurstöður skili sér hátt í leitarvélum.


Fyrirsagnir (e. headings)
Fyrst og fremst ber að ganga úr skugga um að fyrirsagnir innan vefsíðna (e. headings) séu lýsandi fyrir það efni sem þar er að finna.

Titill (e. title)
Title-ívafið er skilgreint fyrir hverja síðu í kóðanum sem liggur að baki síðunni og þarf það að vera mjög lýsandi fyrir innihald hennar. Leitarvélar setja orð sem birtast þarna mjög ofarlega á niðurstöðusíðu leitarinnar. Vefumsjónarkerfi eru yfirleitt stillt þannig að fyrsta fyrirsögn síðunnar fer sjálfkrafa inn í titil hennar.

Titill þessarar tilteknu síðu má sjá efst í vinstra horni vafrans. Eftirfarandi skjámynd af síðunni er tekin úr Internet Explorer vafranum:

GP: setja inn mynd

Kostaðir tenglar
Mögulegt er að kaupa lykilorð á helstu leitarvélum til að tryggja stofnunum að vefsíðan komi upp við leit. Þetta nefnast kostaðir tenglar og birtast oftast undir því nafni efst á hverri leitarsíðu.

Lykilorð
Mikilvægt er að nota orð sem líklegt er að einstaklingar þekki og eru þau oft frábrugðin formlegri orðanotkun úr lögum og reglugerðum. Líklegt er að einstaklingar byrji leit sína á því að nota daglegt talmál. Gott dæmi þar um er orðið „bíll“ frekar en „bifreið“.

Tengingar frá öðrum síðum
Leitarvélar skoða hversu margar tengingar eru af öðrum vefsvæðum til annarra á því leitarorði sem leitað er að hverju sinni. Af þeim sökum er gott ráð að fá aðrar stofnanir og tengda aðila til þess að tengja á vefsíðuna.

Notkun ramma (e. frames) á það til að torvelda leitarvélum að finna það efni sem leitað er að. Best er að forðast alfarið að nota ramma á opinberum vefjum ef þess er kostur.

4.5.3 Tengt er á vefslóðina frá öðrum opinberum síðum

Auðvelt er að ganga úr skugga um hvort aðrar stofnanir tengi á þjónustuna frá viðeigandi vefsíðum. Önnur góð leið til að kynna þjónustuna er í gegnum vefsvæðið Ísland.is sem er opinber upplýsingavefur stjórnvalda og þar er tengt á opinbera vefi og rafræna þjónustu þegar slíkt á við.

Hafið samband við ábyrgðaraðila annarra vefja og óskið eftir tengingu við síðuna ef þið teljið að það hjálpi notendum. 

Þegar stofnanir og sveitarfélög tengja á milli vefsíðna stuðlar það einnig að betri leitarniðurstöðum í leitarvélum eins og Google.

4.5.4 Notkun efnisveitna (RSS)

Efnisveita er sett upp í reglum XML-staðalsins og þannig streymt út á vefinn. Með því er öðrum miðlum eða einstaklingum gert mögulegt að taka við straumnum og birta á þann hátt sem þeim hentar, annað hvort á öðrum vefjum eða í til þess gerðum forritum.


 RSS-tæknin hentar vel við miðlun efnis til og frá tilteknum vefsíðum. Fréttir og tilkynningar frá stofnunum geta þannig birst sjálfkrafa á öðrum vefjum sem kjósa að birta þær. Einnig gerir þetta stofnunum mögulegt að birta efni frá öðrum vefsíðum á sínum eigin vefjum.


 Á opinberum vefjum má víða finna efnisveitur í gegnum RSS. Efnisveitur eru yfirleitt tilgreindar með notkun táknmynda GO: Setja inn mynd RSS-efnisveita. Virknin tryggir að nýtt efni berst notendum í einföldu formi og án þess að þeir þurfi að fara á vefinn sem efnið kemur frá. Efni á vefsíðum sem hentar sérstaklega vel í efnisveitur eru fréttatilkynningar eða annað efni sem er uppfært reglulega.

Efnisveitur eru yfirleitt eingöngu í textaformi, þó er myndnotkun einnig möguleg. Fréttir frá stofnunum birtast oftast með titli, dagsetningu og samantekt. Ef samantekt er birt er hægt að fara beint á þá vefsíðu sem birtir efnið til að lesa alla greinina.


 Efnisveitur henta farsímum sérstaklega vel þar sem einstaklingar geta skráð sig fyrir ákveðnum fréttum og fengið þær beint í símann sinn í textaformi. Þannig er gagnamagni haldið í lágmarki.


Notkun

Nýjustu vafrar gefa notendum ýmsa möguleika til að skrá sig fyrir RSS-straumum. Bæði Internet Explorer og Mozilla Firefox hafa núna innbyggðan RSS-lesara sem gerir það að verkum að hægt er að kalla fram lista yfir nýtt efni á tilteknum vefsíðum beint í vafra. Aðra RSS-lesara má finna víða á vefnum.

Flest vefumsjónarkerfi gera stofnunum kleift að senda út sinn eigin RSS-straum og taka við öðrum til birtingar á sínum vefjum.

Þegar RSS-straumur er sendur út er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  1. Notið RSS útgáfu 2.0 eða Atom 1.0 til að senda út strauminn.
  2. Gangið úr skugga um að straumurinn sé í lagi með því að prófa hann. Þetta má gera í prófunartólum á netinu.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira