Hoppa yfir valmynd

4.7 Vefmæling

4.7.1 Tilgangur vefmælinga og túlkun niðurstaðna

Það er eitt að mæla notkun á vefsíðum en annað mál að túlka og lesa úr niðurstöðunum. Vefmælingar geta gefið stofnunum mjög mikilvægar upplýsingar um hvernig viðskiptavinir nýta sér þjónustuna. Þar má nefna fjölda heimsókna á vefsíðuna, fjölda endurkoma og fjölda síðna sem notendur skoða í hverri heimsókn.

Leitarorð

Vefmæling getur gefið stofnunum upplýsingar hvaða leitarorð notendur setja í leitarvél vefsíðunnar. Í tilfelli velferðarráðuneytisins er oftast leitað eftir upplýsingum um „húsaleigubætur“ og „atvinnuleysistryggingar“. Gefur það ráðuneytinu ákveðna vísbendingu um hvaða væntingar notendur hafa og að búið sé þannig um hnútana að vinsælar síður séu aðgengilegar beint af forsíðu vefsins.

Vinsælar síður

Vefmælingar gefa upplýsingar um hvaða síður eru mest sóttar, bæði í gegnum ytri leitarvélar, beint í gegnum tengla frá öðrum síðum eða einfaldlega með því að notendur heimsæki vefinn beint. Með þessum upplýsingum getur stofnunin áttað sig á hvað megi betur fara á vefnum.

Það getur þó verið erfitt að lesa úr einstökum heimsóknartölum úr vefmælingu. Innri heimsóknir geta gefið villandi mynd. Með innri heimsóknum er átt við starfsmenn stofnunarinnar sem nýta vefinn með margvíslegum hætti í starfi sínu, þar á meðal til að gefa upplýsingar í síma.

Til að nálgast raunhæfar niðurstöður verður eingöngu að byggja á ytri heimsóknum. Er þá stuðst við IP-tölur stofnunarinnar til að geta dregið notkun starfsmanna frá vefmælingartölum.

Hvaðan koma heimsóknir

Flest vefmælingartól geta gefið vefstjórum upplýsingar um hvernig notendur finna þjónustuna. Það eru fjórar meginleiðir mögulegar fyrir notendur.

 1. Beinar heimsóknir með því að slá inn vefslóð í vafra.
 2. Heimsóknir í gegnum leitarvélar.
 3. Heimsóknir frá öðrum vefsíðum eða úr tölvupósti í gegnum tengil.
 4. Heimsóknir í gegnum deilingar af samfélagsmiðlum.

Vefstjórar geta þannig áttað sig á því hvaðan notendur koma. Upplýsingar um heimsóknir frá öðrum vefsíðum geta gefið vefstjórum ýmsar áhugaverðar upplýsingar. Einnig er auðvelt að sjá frá hvaða landi notendur koma.

Þó að það eigi sér stað stöðug þróun í vefmælingum er rétt að setja fyrirvara á allar tölur úr þeim. Einstakar IP-tölur gefa oft ekki rétta mynd af heimsóknum enda mörg stór fyrirtæki sem hafa allar vélar innanhúss á einni IP-tölu - þannig geta margar heimsóknir talist sem ein.

Markmiðasetning

Tölur úr vefmælingu má nota í markmiðasetningu. Aukning í heimsóknartölum gefur til kynna að stofnunin sé að gera margt rétt og í kjölfarið er hægt að setja ný markmið um að bæta þjónustuna og auka heimsóknir enn frekar.

Tölur sem sýna minnkandi heimsóknir má aftur á móti oft túlka sem vísbendingu um að ýmislegt megi betur fara.

4.7.2 Aðferðir við vefmælingar

Ýmsum aðferðum hefur verið beitt við vefmælingar hérlendis í gegnum tíðina. Vert er að nefna sérstaklega tvær áhrifaríkar leiðir.

Teljari.is

Fyrirtækið Modernus býður upp á vefmælingu. Samræmd vefmæling fyrirtækisins hefur þá kosti að auðvelt er að bera saman upplýsingar á milli vefja því engin vefmælingaraðferð er eins. Yfir 150 íslenskir vefir taka þátt í verkefninu og er þjónustan aðgengileg öllum gegn gjaldi.

Google verkfæri

Flestir þekkja Google sem vinsælustu leitarvélina á vefnum. Á vegum Google er rekin þjónusta þar sem hægt að skrá vefi í vefmælingar, Google Analytics. Þjónustan er aðgengileg öllum án endurgjalds. Google er einnig með verkfæri sem er sérstaklega ætlað vefstjórum, Google Webmaster Tools. Þar má meðal annars finna ábendingar frá Google um það sem þarf að laga á vefnum, hvar vefurinn birtist í leitarniðurstöðum og hversu margir smella á vefinn eftir leitarorðum.

Önnur algeng vefmælingartól

 • Livestats
 • Webtrends
 • Awstats
 • Webstat
 • Netstat
 • Xena
 • Webalizer
 • Statcounter
 • Outcome
 • Advanced Web Statistics

 

 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira