Hoppa yfir valmynd

5.1 Mælingar

5.1.1. Mælingar á lýðræðisþátttöku á netinu

Mælingar á þátttöku í samráði og samskiptum við opinbera aðila

Með nýjustu könnunum og mælingum á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins, sem og hérlendis, er verið að beina einstökum ríkjum í þá átt að efla lýðræði með notkun upplýsingatækni. Því sem mælt er á alþjóðlegum vettvangi má í stórum dráttum skipta í þrennt og eru einkunnir hærri eftir því á hvaða stigi viðkomandi ríki eru:

  1. Samráðsferli er ráðgefandi og í „eina átt“. Hér er athugað hvort gefnar séu upplýsingar um stefnu, verkefni og áætlanir. Hvernig lögum og reglugerðum er komið á framfæri og hvort til staðar sé vísir að lýðræðislegri virkni með notkun tölvupóstlista, umræðutorga og spjallrása. Hvort og hvernig staðið er að samráði í gegnum opinbera vefi. Hér getur verið átt við umsagnir um frumvörp og aðgengi að upplýsingum sem notendur geta gefið sitt álit á. Engar eiginlegar „samræður“ við almenning eiga sér stað á þessu stigi.
  2. Umsagnir fara í ferli og erindi þess efnis sent viðkomandi. Stofnanir hafa komið á ferli í kringum samráð og hvetja fólk til þess að taka þátt, stofnanir gefa sér tíma til að taka saman ábendingar og fara yfir þær og taka tillit til þeirra eftir atvikum. Þannig verður umsagnarferlið til þess að undirbúa ákvarðanir. Lítilsháttar „samræður“ eiga sér stað í þessu ferli og ríkir meira gagnsæi en áður um það sem er tekið tillit til í ákvarðanatökuferlinu.
  3. Stjórnvöld hvetja til fullrar aðkomu að undirbúningi ákvarðanatöku og birta niðurstöður samráðs. Á þessu stigi er ekki eingöngu tekið mið af ábendingum og sjónarmiðum fólks í gegnum samræður á netinu heldur einnig stuðlað að gagnsæi í umræðum. Slíkar umræður eru oftast alfarið fyrir opnum tjöldum og aðilar fá upplýsingar um framgang ákvörðunarferlisins og niðurstöður umræðna og mótrök þegar slíkt liggur fyrir. Hér geta orðið lífleg samskipti þar sem stjórnvöld taka virkan þátt í umræðum meðan á samráðsferli stendur.

Í könnun Sameinuðu þjóðanna frá 2012 er Ísland neðarlega á lista landa sem hafa tileinkað sér lýðræðislega virkni, eða í 84. sæti af 193. Ísland mælist með rúmlega 15 í þátttökuvísitölu á meðan efstu löndin tvö, Holland og Suður-Kórea, eru með full 100 stig.

Þetta endurspeglast einnig í könnuninni „Hvað er spunnið í opinbera vefi 2013“ þar sem rafrænt lýðræði mælist lágt hjá öðrum en ráðuneytunum.

Ísland 2020

Ef litið er á alþjóðlegar mælingar sem einhvers konar ytri þrýsting fyrir stofnanir að koma á lýðræðislegri virkni má að sama skapi segja að hér á landi sé einnig „innri“ þrýstingur þar sem pólitísk sátt er um aukna aðkomu almennings að undirbúningi ákvörðunartöku. Þetta má meðal annars sjá í opinberum stefnuyfirlýsingum. 

Eitt af opinberum markmiðum sem felst í sóknaráætluninni Ísland 2020 felur í sér að Ísland verði á meðal 10 efstu þjóða árið 2020 í rafrænni stjórnsýsluvísitölu og rafrænni þátttökuvísitölu Sameinuðu þjóðanna. Hægt er að fylgjast með mælikvörðum Ísland 2020 á vef forsætisráðuneytisins.

Efling sveitarstjórnarstigsins

Í skýrslu um eflingu sveitarstjórnarstigsins frá árinu 2012 kemur fram að „opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, hafi samstarf um og samnýti lausnir á sviði rafrænnar stjórnsýslu og lausnir sem stuðla að aukinni lýðræðisvirkni [...]. Sveitarfélög vinni með ráðuneytum, undir forystu innanríkisráðuneytis, að því að finna bestu leiðir til að auka möguleika almennings til lýðræðislegrar þátttöku á netinu.“

Í næsta kafla er fjallað um aðferðir til auka lýðræðislega virkni hérlendis. Til að yfirlýst markmið nái fram að ganga er ljóst að íslenskar stofnanir þurfa í auknum mæli að innleiða aðferðir sem stuðla að aukinni þátttöku almennings. Það er þó mikilvægt að taka fram að aðferðin sjálf skiptir ekki öllu máli. Aðalatriðið er að það náist þátttaka sem leiði af sér umræður og skoðanaskipti sem skila sér inn í ákvarðanatöku og stefnumótun innan stjórnsýslunnar. Formið skiptir minna máli en sjálft samráðsferlið. Tryggja þarf, burtséð frá forminu, að ábendingar og athugasemdir hagsmunaaðila og íbúa séu teknar til efnislegrar meðferðar. Þannig ná Íslendingar árangri í virku íbúalýðræði.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira