Hoppa yfir valmynd

5.3 Gagnvirkni og samskipti

5.3.1 Tækni til að styðja við gagnvirkni og samskipti

Margs konar nýjungar í samskiptatækni á vefnum hafa litið dagsins ljós á undanförnum árum og eru samfélagsmiðlar oft þar efst á blaði. Stofnanir geta nýtt þessa tækni til samskipta og byggt upp tengsl við íbúa, bætt og aukið aðgang að upplýsingum. Þá geta þær veitt borgurunum tækifæri til þátttöku utan „formlegri samráðsaðferða“ sem fjallað var um í kafla 2. Einnig er hægt að nýta miðlana til undirbúnings við ákvarðanatöku, að vel athuguðu máli.

Stofnanir og sveitarfélög hafa í auknum mæli notað samfélagsmiðla til að stuðla að umræðu, deila skoðunum og upplýsingum. Er þetta í takt við það sem hefur verið að gerast víða erlendis. Samfélagsmiðlun er ekki lengur tískufyrirbrigði heldur viðurkennd þróun sem snýst um að notendur stýri því efni sem til þeirra kemur á vefnum. Þannig eru notendur eigin ritstjórar, taka þátt og deila upplýsingum um málefni sem þá varða og telja áhugaverð fyrir sitt félagslega net. Þessi aðferð getur hentað ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum.

5.3.2 Facebook

Í könnun Sameinuðu þjóðanna um lýðræðislega þátttöku var 73% aukning í flokki sem nefnist „önnur lýðræðisleg virkni“ en það er einmitt í þeim flokki sem samfélagsmiðlar tilheyra í könnuninni 2012. Af henni er dregin sú ályktun að aðgengi og vinsældir samfélagsmiðla stuðli að þessari þróun.

Nokkur lönd líta markvisst á samfélagsmiðla sem lykilþátt í lýðræðislegri virkni og er það sérstaklega einkennandi í Rómönsku Ameríku. Facebook er þar og víðar viðurkennt tæki til að stuðla að þátttöku borgara, sérstaklega meðal yngri kynslóðarinnar. Fólk getur þar komið á framfæri athugasemdum og sent inn ábendingar til stjórnvalda og á sama tíma er hægt að ná gríðarlegum árangri með því að lesa í almenningsálitið. Um 79% Íslendinga eru með Facebook-síðu og því er augljóst að hér er tækifæri fyrir íslenska stjórnsýslu að nýta þennan miðil. Nánar er fjallað um samfélagsmiðla í næsta kafla.

5.3.3 Samspil ólíkra miðla

Hægt er að nýta ýmiss konar tækni sem kennd er við Vef 2.0 á bloggsíðum. Með vef 2.0 tækni opnast tækifæri til að tengja á mjög auðveldan hátt á milli vefja stofnana, bloggsíðna, samfélagsvefja og notenda. Þannig er blogg með Vef 2.0 tækninni orðið virkara tæki en áður var.

Með slíka samvirkni að leiðarljósi verða ekki eingöngu til „samræður“ við borgarana heldur samspil á milli stofnana og notenda þar sem þeir eru ekki eingöngu „neytendur“ heldur „gerendur“ og stýra sjálfir efnisvali.

Þannig er hægt að opna inn á aðra miðla og gera notendum kleift að dreifa efni á ýmsan hátt í gegnum ólíka miðla. Hér má einnig nefna Youtube sem er þekkt myndbandssíða og gerir notendum kleift að hlaða upp myndböndum.

Youtube er upplagt fyrir ýmiss konar kennslu, meðal annars í notkun rafrænnar þjónustu þar sem notendur þurfa oft aðstoð sem erfitt er að veita í síma. Einnig getur verið erfitt að koma leiðbeiningum á framfæri í texta. Því er góð lausn að setja upptökur á Youtube af einstaklingum sem eru að nota þá rafrænu þjónustu sem um ræðir. Þessum upptökum má svo dreifa og birta þær á öðrum síðum.

5.3.4 Blogg notenda

Sama gildir um blogg notenda og stofnana að það hefur breyst töluvert með Vef 2.0 virkni. Ekki er lengur um „dagbókarfærslur“ að ræða líkt og margir muna eftir frá árdögum bloggsins.

Opinberar stofnanir geta auðveldað notendum að birta efni til umfjöllunar á sínum bloggsíðum, meðal annars með RSS straumum sem áður var fjallað um en einnig með því að birta gögn, til dæmis í rauntíma, á sínum síðum.

Stofnanir eru hvattar til þess að gefa notendum færi á að dreifa og meðhöndla efni sem er á vefjum opinberra aðila með þessum hætti. Hægt er að miðla efni með því að nota tilheyrandi hnappa, til dæmis Twitter-hnapp, Facebook-hnapp og Google+-hnapp.

5.3.5 Twitter

Mikill áhugi er á Twitter og er hann að aukast hér á landi. Nokkrar stofnanir eru þegar byrjaðar að nota „tístið“ og má segja að virknin sé sambærileg „ábendingadálki“ þar sem stofnanir hafa eingöngu 140 stafabil til að koma efni á framfæri. Slíkt efni er hnitmiðað og þægilegt er fyrir móttakendur að vinsa úr áhugaverð tíst frá öðrum.

Samfélagsleg virkni á Twitter er mikil þar sem notendur endurdeila áhugaverðu efni til þeirra sem fylgja þeim og samræðuvirknin getur orðið gríðarleg. Með notkun á # (e. hash-tag) tákninu er hægt að tísta um áhugaverð efni og ekki er loku fyrir það skotið að stofnanir geti nýtt þennan miðil til lýðræðislegrar þátttöku.

Alþingi nýtir Twitter á áhugaverðan hátt, meðal annars með því að streyma út öllum nýsamþykktum lögum. Samkeppnisstofnun dreifir úrskurðum stofnunarinnar í gegnum Twitter. Aðrar stofnanir nýta Twitter til að vekja athygli á málefnum stofnunarinnar og má nefna þjóðkirkjuna í því sambandi.

Líkt og á Facebook og Google+ er auðvelt fyrir stofnanir að birta hnappa sem gefa notendum kost á að senda efni á sinn samfélagsmiðil og vekja þannig athygli á einhverju sérstöku máli og skapa umræðu á sínu samfélagsneti.

Ítarefni

Samkeppnisstofnun á Twitter

Alþingi á Twitter

Fjármálaráðuneytið á Twitter

Þjóðkirkjan á Twitter

5.3.6 Google +

Google+ er samfélagsvefur sambærilegur við Facebook en hefur ekki náð sömu útbreiðslu. Líklegt er þó að það muni breytast í nánustu framtíð. Líkt og á Facebook og Twitter er auðvelt að birta hnappa sem gefa notendum kost á að senda efni á sinn samfélagsmiðil og vekja þannig athygli á einhverju sérstöku máli til að skapa umræðu á sínu samfélagsneti.

Ólíkt Facebook er Google+ að mestu byggt upp í kringum einstaklinga og þeirra samfélagsnet. Fyrirtæki og stofnanir hafa ekki markvisst unnið að því að stofna til sérstakra síðna (e. pages) á þessum miðli til að koma á framfæri efni af sinni eigin síðu en það fer þó heldur vaxandi. Frekar hefur verið farin sú leið að leyfa notendum að miðla efni í gegnum vefinn á þeirra forsendum með tilheyrandi hnappi.

5.3.7 Wiki-virkni

Flestir þekkja vef Wikipedia þar sem notendur hafa tækifæri til að skrifa inn efni, uppfæra efni annarra og geta unnið í samstarfi við marga aðra aðila. Í „wiki“ geta notendur skrifað, rýnt og uppfært vinnu hvers annars og með tímanum byggt upp texta sem margir koma að og uppfæra.

Wiki-tæknin býður upp á mikla möguleika á sviði lýðræðislegrar þátttöku, sérstaklega þegar kemur að umsögnum um ákveðin mál, lagafrumvörp, drög að reglugerðum eða stefnumótandi ákvörðunum.

Útfærsla á slíkri Wiki-síðu yrði ólík Wikipedia að því leyti að réttindi notenda yrðu stillt þannig að notendum yrði gert kleift að skrifa efnislega um ákveðna hluta, til dæmis efnisgreinar eða kafla. Undir kaflanum yrði hægt að smella á innlegg notandans, lesa það og bæta við innleggi, annað hvort til að vera sammála eða ósammála, benda á frekari atriði og rök sem tengjast viðfangsefninu.

Að lokum yrði hægt að prenta út öll innlegg og rýna með tilheyrandi vinnu. Einnig væri mjög æskilegt að unnin yrði greinargerð um samráðsferlið, hverju hefði verið safnað, hverju hafnað og af hverju.

Nokkur kostnaður fylgir því að nota „wiki“, bæði vegna uppsetningar á kerfi og vinnuframlags starfsfólks. Kostirnir eru aftur á móti ótvírætt miklir og ættu stofnanir að skoða þennan valkost í samráðsferlum vel.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira