Hoppa yfir valmynd

Listi yfir opinn hugbúnað

Frjáls og opin stýrikerfi

Stýrikerfi tölvu er hugbúnaður sem sér um stjórnun og skipulagningu á vinnslu tölvunnar. Til eru fjölmörg mismunandi stýrikerfi sem stjórna allt frá farsímum til geimflauga. Stýrikerfi einkatölva hljóta mesta athygli almennra notenda og upplifun af tölvunni er að vissu leyti háð því hvaða stýrikerfi er notað. Microsoft Windows stýrikerfi er ráðandi á einkatölvum (PC tölvum) og Mac OS X á sérhönnuðum tölvum frá Apple fyrirtækinu. Bæði Microsoft Windows og Mac OS X eru lokuð og ófrjáls stýrikerfi. Mac OS X er reyndar byggt á hlutum úr frjálsum stýrikerfum (FreeBSD og NetBSD) sem eru gefin út undir leyfum sem heimila Apple að umbreyta þessum hlutum í séreignarhugbúnað. Þó svo að Microsoft Windows og Mac OS X séu lokuð stýrikerfi geta þau keyrt frjálsan og opinn hugbúnað sem oft á tíðum er einungis hannaður og skrifaður fyrir þessi stýrikerfi. Það eru samt til ýmis frjáls og opin stýrikerfi sem eru vinsæl og mikið notuð sem stýrikerfi einkatölva, vefþjóna og annarra tækja.

GNU/Linux stýrikerfi

GNU/Linux stýrikerfi er öflug blanda frjálsa stýrikerfisverkefnisins GNU og opna stýrikerfiskjarnans Linux. Stýrikerfi af þessari gerð er oft kallað Linux en það einblínir á stýrikerfiskjarnann og aðilar innan GNU verkefnisins vilja að stýrikerfið sé kallað GNU/Linux. Frelsið sem fylgir GNU/Linux stýrikerfinu og frjálsum hugbúnaði hefur orðið til þess að margar útgáfur af kerfinu eru til með mismunandi áherslum. Þessar mismunandi útgáfur eru kallaðar dreifingar (e. distributions eða distros). Hver dreifing týnir til þann frjálsa hugbúnað sem þróunaraðilar hennar vilja bjóða upp á. Mögulega aðlaga þróunaraðilarnir hugbúnaðinn að áherslum og markmiðum dreifingarinnar ef þeim finnst þörf vera á því. Vegna frelsisins sem fylgir frjálsum hugbúnaði geta dreifingarnar endurdreift frjálsum hugbúnaði og því er það oftast þannig að eftir að notandi hefur sett upp GNU/Linux dreifingu að þá eru forrit eins og skrifstofuvöndlar, öflug teikniforrit og fleira þegar uppsett.

Red Hat

Árið 1994 var fyrirtækið Red Hat stofnað til þess að sjá um útgáfu GNU/Linux dreifingarinnar Red Hat Linux. Sú dreifing var sú fyrsta sem bauð upp á pakkauppsetningu sem auðveldar uppsetningu hugbúnaðar á GNU/Linux dreifingum til muna.  Red Hat Linux er ekki lengur gefið út heldur skipti fyrirtækið því upp í tvö aðskilin verkefni, Fedora verkefnið og Red Hat Enterprise Linux. Fedora verkefnið er GNU/Linux dreifing fyrir frjálsa og opna samfélagið þar sem notendur geta tekið þátt í þróuninni. Red Hat Enterprise Linux er aðallega þróað af Red Hat með þarfir fyrirtækja frekar en almennra notenda í huga.

Ubuntu

Fyrirtækið Canonical var stofnað árið 2004 til þess að þróa Ubuntu GNU/Linux dreifinguna. Ubuntu dreifingin hefur einkunnarorðin „Linux fyrir manneskjur“ og reynir að gera notkun auðveldari og upplifunina betri. Til eru nokkrar útgáfur af Ubuntu sem hafa stillt dreifinguna að þörfum mismunandi markhópa (til dæmis Kubuntu og Xubuntu). Ubuntu fylgir mjög ströngu þróunarferli hvað varðar tímamörk, á 6 mánaða fresti kemur ný útgáfa af Ubuntu með nýjustu útgáfum hugbúnaðarins sem Ubuntu býður upp á (þess á milli fá eldri útgáfur villu- og öryggisuppfærslur). Ubuntu er vinsælasta GNU/Linux dreifingin í dag og nýlega var gangsett Ubuntu síða fyrir Norðurlöndin[http://planet.ubuntu-nordic.org/]. Sú síða er aðgengileg á öllum tungumálum Norðurlandanna, þar á meðal íslensku[http://planet.ubuntu-nordic.org/index.html.is] og tekur saman veffærslur (blogg) um Ubuntu frá Norðurlöndunum.

LNX-BBC

LNX-BBC er GNU/Linux dreifing sem var sérhönnuð til þess að passa á sérstaka geisladiska í nafnspjaldastærð (LNX-BBC stendur fyrir Linux Bootable Business Card). Þannig er hægt að geyma litla GNU/Linux dreifingu í veskinu sínu sem hægt er að nota beint af geisladisknum til þess að gera við tölvur eða nota sem tímabundna vinnustöð. Þróun LNX-BBC hefur verið hætt en aðrar útgáfur eins og Damn Small Linux taka svipað diskapláss og eru gjarnan settar á geisladiska í nafnspjaldastærð eða á USB lykla.

BSD stýrikerfi

UNIX stýrikerfið var þróað af símafyrirtækinu AT&T upp úr 1970. UNIX náði fljótt mikilli útbreiðslu sem öflugt stýrikerfi og er til dæmis fyrirmynd GNU verkefnisins (GNU stendur fyrir GNU's Not UNIX) og Linux stýrikerfiskjarnans (í sameiningu GNU/Linux stýrikerfið). Upphaflega var UNIX gefið út frjálst vegna bandarískra laga sem hvíldu á AT&T en eftir að lögin voru afnumin ákvað AT&T að reyna að græða á UNIX með því að loka því og selja. Nemendur og kennarar við Berkeley háskólann í Bandaríkjunum sem höfðu unnið að sérstakri UNIX útgáfu byrjuðu þá að endurforrita UNIX kerfið og gera það aftur frjálst. Útgáfa Berkeley háskólans er kölluð BSD (Berkeley Software Distribution) og hefur í dag skipst upp í nokkrar dreifingar. Hér að neðan eru þær helstu taldar upp. 

NetBSD

NetBSD er útgáfa af BSD stýrikerfinu byggð á 386BSD og 4.4BSD (sem unnið var að við Berkeley háskólann) sem kom fyrst út árið 1993. NetBSD er þróað með markmiðið að geta á auðveldan hátt flutt það yfir á nýjar tölvur, þannig að NetBSD er hannað með fjölbreytni tölva í huga. Nafnið á dreifingunni er dregið af Netinu sjálfu vegna þess að þróunaraðilar NetBSD komu saman í gegnum Netið til þess að þróa dreifinguna. Nafnið er vel við hæfi því BSD dreifingarnar voru með fyrstu stýrikerfunum sem studdu Netið.

FreeBSD

FreeBSD er útgáfa sem byggir á sömu BSD stýrikerfum og NetBSD og kom út nokkrum mánuðum á eftir NetBSD. FreeBSD er þróað með markmiðið að ná fram sem bestri nýtingu á tölvunni, það er hámarka afköst tölvunnar. FreeBSD er gjarnan notað á vefþjónum vegna orðspor þess um uppitíma. Nafn dreifingarinnar er dregið af frelsi, en ekki kostnaði þótt stýrikerfið sé aðgengilegt ókeypis, líkt og flest önnur frjáls stýrikerfi.

OpenBSD

OpenBSD er BSD dreifing sem byggir á NetBSD og kom út fyrst árið 1996. OpenBSD er þróað með það markmið að hámarka öryggi stýrikerfisins og þar með öryggistilfinningu notandans. OpenBSD hefur aðeins orðið fyrir tveimur öryggisgloppum í hefðbundinni uppsetningu síðan það kom fyrst út. Nafn dreifingarinnar er líkt og FreeBSD dregið af frjálsa og opna samfélaginu, í þessu tilfelli opinni hugbúnaðargerð. OpenBSD er gott dæmi um það öryggi sem fylgir opnu þróunarferli á frjálsum hugbúnaði.

Frjálsir og opnir gagnagrunnar og gagnaumsjónarkerfi

Opna og staðlaða fyrirspurnarmálið SQL (Structured Query Language) hefur náð gríðarlegri fótfestu í gagnagrunnsvinnslu og er notað af flestum gagnagrunnslausnum í dag. SQL er hannað fyrir töflugagnasafnskerfi en þó eru til skráargagnasafnskerfi sem einnig bjóða upp á SQL viðmót. Mikið er til af mismunandi frjálsum og opnum gagnagrunnshugbúnaði, gagnagrunnsþjónum og forritum til að vinna með gagnagrunna. Flestar af þessum frjálsu gagnagrunnslausnum nota SQL fyrirspurnarmálið til þess að sækja upplýsingar í gagnagrunninn.

Töflugagnagrunnskerfi

Töflugagnagrunnskerfi (e. relational database management system) er ákveðin gerð af gagnagrunnsuppbyggingu fyrir gagnagrunnslausnir. Vinsælustu gagnagrunnslausnirnar sem eru almennt notaðar í dag eru töflugagnagrunnskerfi. 

MySQL

MySQL er einn vinsælasti gagnagrunnsþjónn í heiminum. MySQL er töflugagnagrunnskerfi frá Svíþjóð og þróunin er í höndum sænska fyrirtækisins MySQL AB sem nú er í eigu tölvufyrirtækisins Sun Microsystems. Notendur MySQL geta valið á milli þess að fá MySQL ókeypis sem frjálsan hugbúnað undir GNU GPL leyfinu eða fengið MySQL undir sérstöku séreignarleyfi og þurfa því ekki að uppfylla skilyrði GPL. Fyrir vefsíður er vinsælt að setja upp GNU/Linux stýrikerfi, Apache vefþjón, MySQL gagnagrunn og nota svo forritunarmálin PHP, Python eða Perl til að vinna með efnið. Þessi verkvangur er þekktur sem LAMP (Linux/Apache/MySQL/PHP-Perl-Python) og er byggður upp af frjálsum og opnum hugbúnaði. Til dæmis keyrir vinsæla netalfræðiritið Wikipedia og hreyfimyndasíðan á LAMP verkvangnum (Wikipedia notar PHP en YouTube Python).

PostgreSQL

PostgreSQL er annar mjög  vinsæll gagnagrunnsþjónn sem er mikið notaður í dag. PostgreSQL byggir á hugmyndafræði Ingres gagnagrunnsins. Ingres gagnagrunnskerfið (sem í dag er einnig frjáls og opinn hugbúnaður) var í harðri samkeppni við Oracle og var af mörgum talin vera betri gagnagrunnslausn. Vinsældir Ingres fóru dvínandi upp úr 1985 og Oracle varð oftar fyrir valinu. Ein af ástæðunum var sú að Ingres notaðist við QUEL fyrirspurnarmálið en Oracle bauð upp á SQL. PostgreSQL er hlutbundið töflugagnasafnskerfi og gefið út undir BSD leyfinu. BSD leyfir notkun og aðlaganir á PostgreSQL í lokuðum hugbúnaði en kerfið er notað af til dæmis Skype og Yahoo!

SQLite

SQLite er lítið en öflugt töflugagnasafnskerfi sem virkar ekki sem sjálfstæður gagnagrunnshugbúnaður heldur er SQLite hugbúnaðarsafn sem frumþulur forrita kalla beint á. Þannig er gagnagrunnurinn sjálfur byggður inn í forritið sem notar gagnagrunninn. Gagnasafnskerfið er afskaplega lítið og þannig hentugt fyrir margar hugbúnaðarlausnir. SQLite frumþulan er í almenningseign og notuð í fjölda hugbúnaðarlausna eins og Firefox vafranum, Solaris stýrikerfinu, Symbian farsímum og fleiri lausnum.

Gagnaumsjónarkerfi

Gagnaumsjónarkerfi (e. data management application) bjóða upp notendum upp á þægilegt viðmót til þess að vinna með gögn sem geymd eru í gagnagrunnum. Gagnagrunnarnir sem er stjórnað með kerfunum geta annaðhvort verið innbyggðir eða tengdir sérstaklega við kerfin. 

OpenOffice.org Base

OpenOffice.org Base er gagnaumsjónarkerfi fyrir OpenOffice.org skrifstofuvöndulinn. Kerfið notar HSQLDB gagnasafnskerfið sem er forritað í Java. OpenOffice.org Base styður einnig tengingar við gagnasafnskerfi eins og MySQL og PostgreSQL í gegnum netið. OpenOffice.org Base er eins og OpenOffice.org skrifstofuvöndullinn gefinn út undir LPGL leyfinu.

Kexi og GNOME-DB

Kexi og GNOME-DB eru gagnaumsjónarkerfi svipuð og OpenOffice.org Base en sérsniðin að gluggaumsjónarkerfunum KDE (Kexi) og GNOME (GNOME-DB). Kexi er hluti af KOffice skrifstofuvöndlinum og Gnome-DB er hluti af GNOME Office skrifstofuvöndlinum. Báðir gagnagrunnarnir geta tengst MySQL og PostgreSQL gagnasafnskerfum yfir netið eða notað innbyggða SQLite gagnagrunnstengingu.

phpMyAdmin og phpPgAdmin

phpMyAdmin og phpPgAdmin eru veftól forrituð í PHP til þess að stjórna gagnasafnskerfunum MySQL (phpMyAdmin) og PostgreSQL (phpPgAdmin) yfir veraldarvefinn. Einnig eru til phpMSAdmin sem býður upp á stjórn yfir Microsoft SQL Server. Öll þessi veftól eru gefin út undir GNU GPL leyfinu og hafa náð vinsældum vegna þess hversu auðvelt er að setja þau upp og stjórna gagnasöfnum með þeim.

Frjáls og opinn skrifstofuhugbúnaður

Skrifstofuhugbúnaður er hannaður fyrir skrifstofufólk og aðra sem vinna við meðhöndlun upplýsinga og útgáfu efnis. Microsoft Office skrifstofuvöndullinn er líklegast vinsælasti skrifstofuhugbúnaðurinn í dag en aðrar séreignarlausnir hafa sótt í sig veðrið. Þar má meðal annars nefna iWork skrifstofuvöndulinn fyrir Mac OS X og vefræna skrifstofuvöndulinn Google Docs. Mismikill stuðningur er fyrir opnum skrifstofuskráarsniðum í séreignarlausnunum. Microsoft Office styður til dæmis Office Open XML (OOXML) og Google Docs styðja Open Document Format (ODF). Margir skrifstofuvöndlar bjóða upp á PDF útflutning með einhverju móti en stundum þarf að setja upp sérstakan hugbúnað til þess að ná fram PDF útflutningi.

Hefðbundnir skrifstofuvöndlar

Með hefðbundnum skrifstofuvöndlum er átt við þá sem settir eru upp á tölvum sem forrit, það er ekki vefrænn hugbúnaður sem notandi nálgast með hjálp vafra.

OpenOffice.org

Frjáls og opinn skrifstofuvöndull sem varð til í kringum þróun StarOffice. Sun Microsystems heldur utan um þróun vöndulsins. OpenOffice.org (viðaukinn .org er nauðsynlegur því vörumerkið OpenOffice er í eigu annars aðila), skammstafað OOo, er talinn vera aðalkeppinautur Microsoft Office á skrifstofumarkaðinum. OpenOffice.org býður upp á öll helstu skrifstofutólin: Ritvinnslu (Writer), töflureikni (Calc), glærusýningar (Impress), gagnagrunnsvinnslu (Base), myndvinnslu (Draw) og jöfnuskrifara (Math). Go-oo er annar skrifstofuvöndull sem byggir á OpenOffice.org. Munurinn liggur í því að Go-oo inniheldur breytingar sem ekki hafa verið samþykktar í OpenOffice.org verkefninu. Til dæmis hefur Go-oo betri stuðning við Microsoft Office en OpenOffice.org. OpenOffice.org (og Go-oo) virkar fyrir öll helstu stýrikerfin og styður öll helstu skráarsniðin, þar á meðal PDF útflutning.

GNOME Office

Skrifstofuvöndull tekinn saman fyrir frjálsa og opna GNOME gluggaumhverfið. GNOME Office er ekki sérstaklega þróaður skrifstofuvöndull heldur samantekt helstu forrita sem notuð eru í skrifstofuvinnu í GNOME gluggaumhverfinu. Endanlegur listi skrifstofutóla í vöndlinum er ekki fastsettur en það eru nokkur forrit sem oftast eru talin með: Abiword fyrir ritvinnslu, Gnumeric sem töflureiknir, Evolution fyrir tölvupóst og hópvinnu, GNOME-DB sem gagnagrunnskerfi og stundum er PDF lesarinn Evince tekinn með í listanum. Með þessum skrifstofutólum styður GNOME Office helstu skráarsniðin og önnur minna þekkt. Þessi forrit virka sérstaklega vel í GNU/Linux og BSD kerfum.

KOffice

Á sama hátt og GNOME Office er skrifstofuvöndull GNOME gluggaumhverfisins, þá er KOffice skrifstofuvöndull KDE gluggaumhverfisins. Aftur á móti er unnið sérstaklega að KOffice í stað þess að taka saman ýmis forrit eins og gert er fyrir GNOME Office. Með KOffice fylgja hefðbundin skrifstofutól eins og ritvinnsluforrit (KWord), töflureikni (Kspread), glærusýningar (KPresenter), gagnagrunnsvinnslu (Kexi) og jöfnuskrifara (Kformula). Auk þessara hefðbundnu skrifstofutóla býður KOffice einnig upp á fjölbreytt úrval skrifstofutóla sem oft eru ekki í öðrum skrifstofuvöndlum: Flæðiritagerð (Kivio), vigramyndir (Karbon14), teikningar (Krita), skýrslugerð (Kugar), grafateikningu (KChart) og verkefnisstjórnun (KPlato). KOffice styður helstu skráarsniðin, þó mismikið eftir forritum og líkt og GNOME Office virkar KOffice best í GNU/Linux og BSD kerfum.

Vefrænir skrifstofuvöndlar

Með vefrænum skrifstofuvöndlum er átt við þá sem eru gerðir aðgengilegir yfir netkerfi eins og til dæmis Netið sjálft. Notendur nálgast skrifstofuvöndlana í gegnum vafraviðmót og þurfa nettengingu frekar en að setja hugbúnaðinn upp á sinni tölvu.

OpenGoo

Frjáls og opinn skrifstofuvöndull fyrir einstaklings- og hópvinnu. Vefsvæðið býður upp á ritvinnslu, glærusýningu, tölvupóst, hópvinnukerfi og persónulega upplýsingastjórn. Ritvinnslan notast við FCKEditor, sem er frjáls textaritill fyrir vefsíður og er notaður á mörgum vefsíðum. Glærusýningin notast við Slimey glærugerðarforritið. OpenGoo styður ekki nein þekkt skrifstofuskráarsnið en getur vistað vinnuna í HTML skjölum og Slim skjölum (skráarsnið sem Slimey notar). Þar sem OpenGoo er vefrænn hugbúnaður virkar hann á þeim stýrikerfum sem hafa uppsettan vafra.

Simple Spreadsheet

Frjáls og opinn vefrænn töflureiknir sem er hluti af Simple Groupware hópvinnukerfinu. Töflureiknirinn styðst ekki við nein skráarsnið og vistar ekki skjölin á vefþjóninum líkt og aðrir vefrænir skrifstofuvöndlar. Þess í stað er hægt að afrita texta og geyma í skjali hjá sér. Ef vinna á með skjalið aftur er textinn afritaður til baka og þá er hægt að vinna með hann í vefrænu töflureiknisviðmóti. Það er þó hægt að flytja efnið út á einfaldasta töflureiknissniðinu sem stutt er af öðrum forritum, CSV. Simple Spreadsheet virkar í flestum vöfrum og stýrikerfum.

Frjáls og opinn hugbúnaður í skólastarfi

Frelsi 1 sem fylgir frjálsum hugbúnaði, frelsið til að kynna sér hugbúnaðinn og aðlaga hann að sínum þörfum, gerir frjálsan hugbúnað að tilvalinni lausn í kennslu. Ekki einungis kennslu fyrir tölvunar- eða hugbúnaðarverkfræðinema heldur einnig til dæmis fyrir tungumálanemendur, þá sérstaklega íslenskunema, sem geta tekið þátt í þýðingum frjáls hugbúnaðar og þannig bætt hugbúnaðinn á sama tíma og þeir stuðla að varðveitingu íslensku tungunnar í upplýsingasamfélaginu.

Gegnsætt þróunarferli opins hugbúnaðar býður einnig nemendum í laganámi að kynna sér leyfissamninga, vörumerkjarétt, einkaleyfi og höfundarétt, viðskiptanemum að kynna sér viðskiptalíkön og stjórnunaraðferðir, félagsfræðinemum að skoða samfélagið sjálft og svo framvegis. Kennsla sem byggð er í kringum frjálsan og opinn hugbúnað þarf heldur ekki einungis að snúast um þróun hugbúnaðarins og atriði tengd henni heldur einnig notkun frjáls og opins hugbúnaðar í skólastarfi.

Frjáls stýrikerfi fyrir skóla

Fyrir frjáls og opin GNU/Linux skólastýrikerfi hafa kennarar og aðrir áhugasamir valið frjálsan og opinn hugbúnað sem hentar vel í skólum. Með notkun þessara stýrikerfa ættu skólar að hafa í höndunum mörg kennsluforrit sem henta skólunum.

Skolelinux

Skolelinux er norsk GNU/Linux dreifing byggð á Debian. Markmið dreifingarinnar er að gefa notendum heilt skólakerfi tilbúið til notkunar. Kennarar hafa í höndunum gott tól til þess að kenna tölvutengt nám, kerfisstjórar eiga auðveldara með viðhald, skólayfirvöld spara pening og geta endurnýtt eldri tölvur, nemendur geta notað hentugan hugbúnað á sínu tungumáli.

Ubuntu Education Edition

Ubuntu Education Edition er viðbót við Ubuntu GNU/Linux stýrikerfisdreifinguna (einnig þekkt sem Edubuntu) sem inniheldur hugbúnað og aðferðir sniðnar með kennslustofur í huga. Ubuntu Education Edition er unnin í samvinnu við kennara í mörgum löndum með það að markmiði að krakkar hafi aðgang að lærdómsríkum og skemmtilegum leikjum, nemendur hafi besta mögulega opna hugbúnað í höndunum, kennarar hafi uppsett og nothæf tól til þess að hafa betri umsjón með bekknum og skólayfirvöld hafi öflugan og hagstæðan verkvang fyrir menntun 21. aldarinnar.

Frjáls og opinn kennsluhugbúnaður

Nemendur í grunn- og framhaldsskólum geta valið úr ógrynni af frjálsum og opnum kennsluhugbúnaði. Þessi hugbúnaður kemur oft með stýrikerfisdreifingum eins og Skolelinux og Ubuntu Education Edition en virkar einnig sem sjálfstætt forrit. Markmið og lærdómur hugbúnaðarins er jafnbreiður og forritin eru mörg. Hér fyrir neðan eru aðeins nokkur dæmi um frjálsan og opinn kennsluhugbúnað sem sýna þá fjölbreytni sem er í úrvali frjáls og opins kennsluhugbúnaðar.

KLogo-Turtle

KLogo-Turtle byggir á LOGO forritunarmálinu, sem var fundið upp við MIT háskólann. Í forritinu stjórna nemendur skjaldböku með því að gefa henni skipanir um það hver á að fara. Forritið kennir þannig á auðveldan hátt rökhugsun og forritun.

Dr. Geo

Dr. Geo kennir rúmfræði á gagnvirkan hátt fyrir nemendur grunn- og framhaldsskóla. Hægt að teikna og vinna með myndir innan rúmfræðilegra marka og jafnvel nota fjölva og önnur forritunarmál til þess að auka lærdómsmöguleikana enn frekar.

Stellarium

Stellarium er hugbúnaður sem endurskapar sólkerfin, stjörnurnar, stjörnumerkin og aðrar upplýsingar tengdar himingeimnum. Himinhvolfið er teiknað upp í þrívídd út frá þeim stað sem notandinn velur sér og býður upp á þægilegt notendaviðmót til þess að hámarka stjörnufræðilærdóminn.

Frjáls og opin skólaumsjónarkerfi

Frjáls og opin umsjónarkerfi fyrir skólastjórn og kennara auðvelda stjórnsýslu og yfirferð heimaverkefna. Það eru einnig til ýmis vel þekkt verkefni sem aðstoða við uppbyggingu og viðhald námskeiða í skólastofunni og/eða í fjarkennslu. 

Moodle

Lærdómsstjórnunarkerfið Moodle hjálpar skólum að setja upp og stjórna námskeiðum á Netinu. Moodle hefur talsvert verið notað á Íslandi og býður upp á margar íbætur til þess að auka notkunarmöguleikana enn meira.

SchoolTool

SchoolTool er vefrænt stjórnsýslustoðkerfi fyrir skólastjórnir. SchoolTool heldur utan um nemendaupplýsingar og auðveldar stundatöflugerð. Stundatöflur eru sjálfkrafa búnar til og gerðar aðgengilegar á Netinu fyrir þá sem eiga að fylgja þeim.

Frjálsir og opnir vafrar

Microsoft Internet Explorer er líklegast vinsælasti séreignarvafrinn sem notaður er í dag. Aðrir lokaðir séreignarvafrar eins og Safari og Opera sækja hart á Internet Explorer en eru samt á eftir Mozilla Firefox sem er líklegast vinsælasti frjálsi og opni vafrinn. Það eru til margir vafrar, frjálsir og ófrjálsir, hannaðir með sérstaka virkni í huga eða sem tilraunaverkefni notenda.

Almennir vafrar

Almennir vafrar eru hannaðir til þess að veita almennum netverjum einfaldan hugbúnað til þess að vafra um Netið. Vafrarnir eru þannig ekki hugsaðir til þess að uppfylla sérþarfir heldur einungis almennar þarfir flestra notenda.

Mozilla Firefox

Mozilla Firefox er vafri byggður á Mozilla netsvítunni (alhliða hugbúnaður fyrir netnotkun) sem er ekki lengur í þróun. Mozilla Firefox er endurbættur vafri upphaflegu netsvítunnar sem hefur verið gerður að sjálfstæðum vafra. Mozilla Firefox var hannaður sem einfaldur vafri sem má bæta og auka virknina með íbótum. Mozilla Firefox er líklegast vinsælasti frjálsi og opni vafrinn í dag. Það hafa þó komið upp deilur innan frjálsa samfélagsins um það hversu frjáls vafrinn er (deilur sem snúa að vörumerkinu Firefox). Þeir sem telja vörumerkisbann hefta sitt frelsi nota GNU IceCat vafrann. GNU IceCat hefur sömu virkni og Mozilla Firefox en vörumerkið Firefox og myndir tengdar því í vafranum hafa verið fjarlægð.

Google Chrome

Leitarfyrirtækið Google hefur gefið út Google Chrome, líklegan keppinaut Mozilla Firefox um vafra frjálsa og opna samfélagsins. Google setti af stað verkefnið Google Chromium sem þróar frjálsan og opinn vafra með nýjum hugmyndum um það hvernig megi auka hraða og öryggi netvafra byggðar á almennri notkun vafra og vefsíðuhönnun í dag. Google Chromium er síðan gefinn út sem Google Chrome og þannig heldur Google vafranum sjálfum og opnu þróuninni aðskildri fyrir almenna notendur. Google Chrome hefur aðeins verið gefinn út fyrir Microsoft Windows en það er unnið hörðum höndum innan Chromium verkefnisins að stuðningi við önnur stýrikerfi.

Sérhannaðir vafrar

Vafrar hannaðir með sérstakar þarfir í huga eru sérstaklega vinsælir innan frjálsa og opna samfélagsins. Vafrarnir geta verið allt frá innbyggðar viðbætur við vinsæl forrit (svo sem textaritilinn Emacs) til vafra sérstakra tilraunastýrikerfa. Sérhannaðir vafrar eru ótalmargir og hér fyrir neðan verður aðeins farið stuttlega yfir lítinn hluta af þeim fjölmörgu sérhönnuðu vöfrum sem til eru. 

SeaMonkey

Þróun Mozilla netsvítunnar hefur verið lögð niður eftir að vinsældir Mozilla Firefox. Þróunin var þó ekki lögð alveg niður heldur var hún tekin yfir af hópi fólks sem gefur netsvítuna út undir nafninu SeaMonkey. Þróunin er í höndum sérstaks SeaMonkey ráðs sem stýrir verkefnis- og útgáfustjórnuninni. SeaMonkey býður upp á vafra, tölvupóstforrit, vefsíðugerð, fréttaveitulesara og IRC samskiptaforrit og virkar á vinsælustu stýrikerfunum.

Dillo

Vafrinn Dillo er sérstaklega hannaður með diskapláss og hraða í huga. Vegna hönnunar sinnar getur Dillo ekki boðið upp á ýmsa virkni sem heimasíður hafa, eins og Flash eða JavaScript. Þess vegna má búast við því að vefsíður hagi sér ekki eins og til var ætlast af vefsíðuhönnuðum þegar Dillo er notaður. Aftur á móti er hægt að nota Dillo á gömlum tölvum og í innbyggðum kerfum vegna þess að hann tekur lítið diskapláss og er mjög hraðvirkur.

Lynx

Lynx er textavafri sem er enn takmarkaðri en Dillo vafrinn.  Notendur Lynx nota örvatakkana á lyklaborðinu til þess að heimsækja tengla og ná í skrár. Vafrinn hefur ekkert myndrænt viðmót (heldur aðeins texta) sem þýðir að það er ekki hægt að smella með músinni á tenglana eða skoða myndir sem eru settar á heimasíður. Lynx er mjög hraður vafri vegna notkunar textaviðmóts og ásamt því að nýtast sérstökum tölvunotendum getur Lynx einnig sýnt hvernig leitarvélar eins og Google sjá vefinn (aðeins skrifaðan texta, ekki texta í myndum). Þannig má á einfaldan hátt skoða hvort allar upplýsingar vefsins séu tiltækar fyrir leitarvélar.

Songbird

Songbird er samblanda af vafra og margmiðlunarspilara í einu forriti. Songbird er kallaður fyrsti vafrinn sem vinnur með „opna margmiðlunarvefinn“. Songbird er byggður á XUL, sem liggur að baki vefverkefnum eins og Mozilla Firefox. Á meðan hlustað er á tónlist í Songbird getur hugbúnaðurinn sótt myndir af tónlistarmanninum á vefsvæði eins og Flickr, myndskeið á YouTube vefsvæðið, lífsferil hans og fleira. Songbird býður einnig upp á útvarpshlustun, bókamerki og það er jafnvel hægt að sjá lista af tónleikum þeirra tónlistarmanna sem notandinn hlustar á í gegnum Songbird.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira