Hoppa yfir valmynd

Upplýsingatækni ríkisins

Ríkið rekur eitt stærsta tækniumhverfi landsins og gegnir upplýsingatækni fjölþættu hlutverki í rekstri ríkisins. Upplýsingatækni er einn helst drifkraftur í endurmótun á opinberri starfsemi og grundvöllur til að auka þjónustu, stuðla að nýsköpun og bæta samhæfingu til hagsbóta fyrir notendur. Með framþróun í upplýsingatækni, og tilkomu svokallaðra tölvuskýja, gefast tækifæri til frekari samreksturs og bættrar nýtingu þeirra fjármuna sem varið er í rekstur upplýsingatæknikerfa.

Upplýsingatæknimál ríkisins snerta alla þætti stjórnsýslunnar, þvert á ráðuneyti og stofnanir. Þau ráðuneyti sem bera helstu ábyrgð á málaflokknum eru:

 • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, en eitt af meginverkefnum þess var að leiða stefnumótun um upplýsingasamfélagið. Ráðuneytið ber jafnframt ábyrgð á fjarskipta- og netöryggismálum.
 • Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem ber ábyrgð á framkvæmdum og eignum ríkisins ásamt innkaupum, hagræðingu til bættrar nýtingar fjármagns í ríkisrekstri og umbótum til bættrar þjónustu til almennings. Verkefni ráðuneytisins ná þvert á alla málaflokka og þar með innleiðingu á upplýsingatækni hjá ríkinu.
 • Forsætisráðuneytið, en aðkoma þess snýr að ábyrgð hvað varðar umbætur í stjórnsýslu, ábyrgð á upplýsingalögum og samþættingu verkefna sem þvera ábyrgðarsvið ráðuneyta.
 • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sem ber ábyrgð á málefnum rafrænna viðskipta.

Upplýsingakerfi ríkisins

Stærstu upplýsingakerfi ríkisins halda utan um fjárhag, tekjur og gjöld auk grunnskráa fyrir fasteignir, ökutæki, fyrirtæki og síðast en ekki síst þjóðskrá: 

 • Orri, fjárhags- og starfsmannakerfi íslenska ríkisins, byggist á Oracle hugbúnaði. Það samanstendur af fjölmörgum kerfishlutum, m.a. launakerfi, fjárhagsbókhaldi, áætlanakerfi, eignakerfi, sölukerfi, verkbókhaldi og innkaupakerfi.
 • TBR, tekju- og bókhaldskerfi ríkisins, er hið almenna innheimtukerfi ríkisins. Kerfið er upplýsingakerfi þar sem haldið er utan um innheimtu skatta og gjalda fyrir hönd ríkissjóðs, ríkisstofnana og annarra opinberra aðila. TBR er meðal stærstu hugbúnaðarkerfa sem hafa verið sérsmíðuð hér á landi.
 • Lánakerfi. Á árinu 2007 var tekið upp staðlað lánakerfi, Libra, til að halda utan um lán ríkissjóðs, þ. e. veitt og tekin lán sem og skuldaviðurkenningar. Kerfið er fullgild undirbók í aðalbókhaldi ríkisins. Upplýsingar úr lánakerfinu flæða vélrænt inn í Orra, fjárhagskerfi ríkisins, og eru kerfin stemmd af með reglubundnum hætti. Seðlabankinn skráir beint inn í lánakerfið öll þau lán, bæði innlend og erlend, sem hann tekur í nafni ríkissjóðs. Fjársýslan sér um skráningu á öðrum lánum og skuldaviðurkenningum inn í kerfið.

Grunnskrárkerfi

Skráarhaldi hins opinbera er sinnt úr sérstökum kerfum þar sem til rekstrar skráa þarf ekki eingöngu gagnagrunnskerfi heldur skráningarkerfi, umsýslukerfi og miðlunarkerfi ásamt ýmsum vélbúnaði og tæknilegum innviðum. Flestar stofnanir hafa aðgang að upplýsingum úr grunnskrám ríkisins. Fjórar grunnskrár eru langstærstar og rekstrarumfang er umtalsvert.

 • Þjóðskrá – á ábyrgð Þjóðskrár Íslands
 • Fyrirtækjaskrá – á ábyrgð ríkisskattstjóra
 • Fasteignaskrá – á ábyrgð Þjóðskrár Íslands
 • Ökutækjaskrá – á ábyrgð Samgöngustofu

Aðrar skrár eru minni en tækifæri gætu þó legið í frekari samþættingu á þessu sviði.

Innkaup rekstur og eignarhald upplýsingatæknikerfa

Ríkið er stór kaupandi upplýsingatæknibúnaðar og þjónustu tengdri upplýsingatækni. Rekstur upplýsingakerfa ríkisins kosta um 15 milljarða árlega að meðtöldum launakostnaði um 400 starfsmanna sem beint og óbeint vinna að þróun og rekstri upplýsingatæknikerfa. Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að sameiginlegum innkaupum og hefur verulegur árangur unnist í þeim efnum. Í heildina er áætlað að upplýsingatæknikostnaður sé um 7% af rekstrarkostnaði stofnana. Ekki er þar þó tekið tilliti til afskrifta eigna í upplýsingatækni auk þess sem fjárfesting á undanförnum árum hefur verið í lágmarki. Skv. greiningar- og ráðgjafafyrirtækinu Gartner er hlutfall upplýsingatæknikostnaðar af rekstri hjá opinberum aðilum í samanburðarhæfum löndum um 9,2%.

Með nýjum lögum um opinber fjármál verður sú breyting að upplýsingatæknikerfi ríkisins verða eignfærð og afskrifuð. Með þessu fæst betri sýn á verðmæti sem falin eru í upplýsingatækni hjá hinu opinbera. Jafnframt verður skýrara hvaða fjármagn þarf til þessa málaflokks til að viðhalda verðmæti eigna.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira