Hoppa yfir valmynd
05. september 2014 Fundargerðir stjórnarskrárnefndar 2013-2017

13. fundur stjórnarskrárnefndar

Dagskrá

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Frekari kynning áfangaskýrslu (1) og önnur umræða um stjórnarskrármál 
  3. Tilhögun starfsins á næstunni 
  4. Áframhaldandi umfjöllun um efnisatriði:
    a) Embætti Forseta Íslands
    b) Alþingi
    c) Ríkisstjórn og ráðherrar
  5. Önnur mál

Fundargerð

13. fundur - haldinn föstudaginn 5. september 2014, kl. 9.15, í Safnahúsinu (Þjóðmenningar-húsinu), stofu Jóns Sigurðssonar, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir:Sigurður Líndal, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Jón Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir, Skúli Magnússon, Valgerður Bjarnadóttir og Valgerður Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson og Páll Valur Björnsson höfðu boðað forföll. Þá sat fundinn Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis og ritari nefndarinnar.

Sigurður Líndal, formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir lausnarbeiðni sinni til forsætisráðherra, dags. 1. september sl. Þar segir m.a. svo:

Í júní síðastliðnum – 2014 skilaði nefndin fyrstu áfangaskýrslu með heitinu Starf stjórnarskrárnefndar, 1. áfangaskýrsla, júní 2014. Þar er gerð grein fyrir starfi nefndarinnar. Mér finnst þessi áfangi heppilegur til að biðjast lausnar og hverfa úr nefndinni. Ástæðan er aldur og annir við önnur störf, einkum útgáfa rita fyrir Hið íslenzka bókmenntafélag, þar sem ég gegni enn formennsku. …

Nefndarmönnum var gerð grein fyrir lausnarbeiðni formanns með tölvupósti 4. september.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 12. fundar, sem haldinn var þriðjudaginn 24. júní 2014, var send nefndarmönnum með tölvupósti 2. september. Fundargerðin var samþykkt án athugasemda.

2. Frekari kynning áfangaskýrslu (1) og önnur umræða um stjórnarskrármál

Áfangaskýrsla stjórnarskrárnefndar var tekin til umfjöllunar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 26. ágúst sl. Skýrslan var send nefndinni 24. júní sl., sbr. skipunarbréf nefndarmanna þar sem segir að nefndin skuli gera stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir framvindu nefndarstarfsins eftir því sem eðlilegt er.

Af hálfu stjórnarskrárnefndar sóttu fundinn þeir Sigurður Líndal, formaður, og Skúli Magnússon, nefndarmaður. Auk þess sat fundinn Sif Guðjónsdóttir, ritari nefndarinnar og starfsmaður forsætisráðuneytis. SM fór yfir eftirfarandi atriði (sbr. glærur): Hlutverk nefndarinnar; Tímarammi; Starf nefndarinnar; Nálgun; Efnisatriði í fyrstu áfangaskýrslu (Þjóðaratkvæðagreiðslur – Framsal valdheimilda – Auðlindir – Umhverfisvernd); Næstu skref. Að lokinni kynningu SM fóru fram almennar umræður og skoðanaskipti. Meðal annars var rætt um mikilvægi þess að hugmyndir stjórnarskrárnefndar fái góða kynningu og að hún taki til landsins alls.

Athugasemdafrestur vegna fyrstu áfangaskýrslu rennur út 1. október næstkomandi. Enn sem komið er hafa fáar athugasemdir borist, sjá nánar á vefnum stjornarskra.is. Samþykkt var að leita leiða til að vekja frekari athygli á skýrslunni og athugasemdafrestinum, svo sem með fréttatilkynningu. Talið var eðlilegt að umfang kynningar vaxi eftir því sem vinnu nefndarinnar vindur fram. Í því sambandi er ljóst að auðveldara er fyrir fólk að taka afstöðu þegar þau fjögur efnisatriði sem fjallað er um í áfangaskýrslunni hafa verið útfærð nánar. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að slík kynning taki bæði til landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Í því sambandi kemur m.a. til greina að gangast fyrir málþingum, eftir atvikum í samvinnu við háskólana. Þá hefur jafnframt verið rætt um að halda ráðstefnu eða málþing um kosningar og kjördæmaskipan (sem ekki er til umfjöllunar í áfangaskýrslunni), einnig eftir atvikum í samvinnu við háskólana, þar sem leitast yrði við að hefja umræðu. Fram kom það sjónarmið að mikilvægt væri að skipulag slíkra viðburða væri í samráði við nefndina og endurspeglaði nægilega þau mismunandi viðhorf sem uppi væru.

Samþykkt var að fresta frekari umræðu um málið og taka hana upp aftur með nýjum formanni.

Tilhögun starfsins á næstunni

Talið nauðsynlegt að vinna við útfærslur á hugmyndum nefndarmanna hefjist sem fyrst að loknum athugasemdafresti. Forsætisráðuneyti mun sjá nefndinni fyrir sérfræðilegri aðstoð, m.a. með samvinnu við önnur ráðuneyti. Þá er jafnframt til fyrirliggjandi vinnu fyrri ára að líta í því sambandi.

Í þeim tilvikum að nefndarmenn greinir á þarf að móta fleiri en eina rökstudda tillögu um viðkomandi atriði. Drög að útfærslum koma til umfjöllunar hjá nefndinni og þegar úrvinnsla er komin nægilega langt er hægt að leita eftir mati (úttekt) faghópa. Faghóparnir yrðu skipaðir sérfræðingum á viðkomandi sviði, innan mismunandi fræðigreina, og breytilegir eftir viðfangsefnum.

Samþykkt var að fresta frekari umræðu um málið og taka hana upp aftur með nýjum formanni.

Áframhaldandi umfjöllun um efnisatriði

a) Embætti Forseta Íslands
Fyrirliggjandi er minnisblað um þetta efni (drög nr. 2), dags. 6.5.2014. Allri umfjöllun frestað.

b) Alþingi
Um þetta efni var fjallað síðast á  9. fundi. Allri umfjöllun frestað.

c) Ríkisstjórn og ráðherrar
Allri umfjöllun frestað.

Önnur mál

Ekkert var tekið fyrir undir þessum lið.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.34.

SG skrifaði fundargerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum