Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2019 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

9. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

9. fundur – haldinn miðvikudaginn 16. janúar 2019, kl. 16.00-18.00, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Kristín Haraldsdóttir er gestur fundarins undir lið 3.

1. Fundargerð síðasta fundar
Lögð eru fram drög að fundargerð síðasta fundar og er hún samþykkt með smávægilegum orðalagsbreytingum.

Ákveðið að setja Samantekt um stöðu þeirra málefna sem á að taka fyrir á tímabilinu 2018-2021 og atriði til umræðu dags. 4. apríl 2018 á vefinn stjornarskra.is.

2. Verklag
KJ kynnir minnisblað um verklag við endurskoðun stjórnarskrár, dags. 12. des. 2018. Á næsta eða þar næsta fundi verði til viðbótar lögð fram áætlun um samráð, þar sem rakið verði nánar hvernig samráði, skoðanakönnun og rökræðukönnun verði háttað.

Fram kemur ósk um að sú áætlun verði send fundarmönnum í tæka tíð áður en málið verður tekið á dagskrá.

Formaður Samfylkingar óskar að eftirfarandi verði fært til bókar: „Í minnisblaði um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár kemur skýrt fram að markmið formannanefndarinnar er heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar segir m.a. að sú áætlun sem hér liggur fyrir sé metnaðarfull og feli í sér skuldbindingu um heildarendurskoðun á afmörkuðu tímabili. Í ljósi bókunar formanns Sjálfstæðisflokksins á fundi 8.10.2018 vakna þær spurningar hvort forsendur áframhaldandi vinnu séu brostnar.“

Nokkar umræður fóru fram um verklag og þær bókanir sem lagðar hafa verið fram á fundum formanna.

Forsætisráðherra tekur fram að hægt sé að vinna að endurskoðun með ýmsum hætti. Hver og einn gæti til dæmis lagt fram sitt frumvarp. Hún telji að útkoman verði betri ef menn leggi sig fram um að ræða saman. Að svo búnu leggur hún fram eftirfarandi bókun: „Ég vil ítreka að fundir formanna hafa gengið vel og samkvæmt þeirri áætlun sem lögð var fram við upphaf vinnunnar. Ljóst er að fulltrúar flokkanna munu þurfa að taka reglulega afstöðu til vinnulagsins í þessu ferli. Enn fremur liggur fyrir að fulltrúar flokkanna hafa ólíka afstöðu til inntaks stjórnarskrárbreytinga. Ég tel mikilvægt að halda áfram því verkefni sem við höfum hafið sem er að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum og vonandi ná mikilvægum áföngum í breytingum á stjórnarskrá.“

Formaður Viðreisnar kveðst vilja taka undir bókun forsætisráðherra.

Formaður Flokks fólksins tekur undir bókun forsætisráðherra.

Formaður Framsóknarflokksins tekur undir bókun forsætisráðherra.

Formaður Miðflokksins kveðst vilja taka undir bókun formanns Sjálfstæðisflokksins frá fundinum 8. október 2018.

Samþykkt er að minnisblað forsætisráðherra dags. 12. desember 2018 verði birt á vefnum.

3. Auðlindaákvæði
Kristín Haraldsdóttir lektor kynnir minnisblað dags. 11. janúar 2019 um fyrirliggjandi tillögu að auðlindaákvæði. Athugasemdir lúti aðallega að atriðum sem geti aukið skýrleika greinargerðarinnar, til dæmis varðandi það hvað falli undir þjóðareign. Þá þurfi að gæta að samspili væntanlegs umhverfisákvæðis og auðlindaákvæðis varðandi sjálfbæra nýtingu. Varðandi texta ákvæðisins sjálfs setji hún fram spurningar um hvort allar málsgreinar í tillögunni séu nauðsynlegar, hvort stytta og skýra megi textann án þess að ákvæðið tapi efnislegri merkingu.

Í umræðu er m.a. fjallað um notkun á hugtakinu „háð einkaeignarrétti“ og hvers vegna ekki gangi að tala um „í einkaeigu“; um það hvort réttur til nýtingar sólarorku og vindorku geti talist þjóðareign; áhrif slíks ákvæðis á fiskveiðistjórnunarkerfið; gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda og hvort hún ætti að vera skilyrðislaus; hvort ástæða væri til að taka eitthvað sérstaklega fram um tímalengd nýtingarleyfa; vandkvæði við að fella allar auðlindir undir sama ákvæði sem sé hugsað út frá sjávarútvegi og hvort sú staðreynd að gert er ráð fyrir að þjóðlendur verði þjóðareign hamli framtíðar landbúnaðarnotum t.d. í kjölfar hlýrra loftslags.

Forsætisráðherra boðar að lokum að á næsta fundi verði kynntar mögulegar breytingar á fyrirliggjandi tillögu í ljósi ábendinga Kristínar Haraldsdóttur og umræðunnar á fundinum.

4. II. kafli stjórnarskrárinnar
Umræðu frestað til næsta fundar.

5. Fundaáætlun 2019
Lögð eru fram til umræðu drög að fundaáætlun ársins.

6. Önnur mál
Ákveðið er að næsti fundur verði 1. febrúar.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 18.00


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum