Hoppa yfir valmynd
06. september 2019 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

16. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

16. fundur – haldinn föstudaginn 6. september 2019, kl. 13.00-15.00, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).

Logi Einarsson (Samfylkingu) er forfallaður.

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Gestur fundarins er Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands (2. liður).

1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar er samþykkt.

2. Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar - niðurstöður
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir kynnir niðurstöður könnunar á viðhorfum almennings til stjórnarskrárendurskoðunar. Alls svöruðu rúmlega tvö þúsund manns könnuninni. Fram kemur hjá Guðbjörgu að vegna þess að skoðanakönnunin sé þáttur í lengra ferli þar sem rökræðukönnun sé fyrirhuguð í kjölfarið þá verði ekki gerð ítarleg skýrsla um könnunina að svo stöddu. Fundarmenn gera ekki athugasemdir við að greint verði frá könnuninni á þessu stigi enda séu niðurstöður hennar mjög athyglisverðar.  

3. Samantekt athugasemda af samráðsgátt varðandi umhverfisákvæði og auðlindaákvæði
Unnur Brá fer yfir samantekt athugasemda sem bárust í opnu samráði um frumvörp til stjórnarskipunarlaga um umhverfisvernd og um auðlindir náttúru Íslands. Um fyrra frumvarpið bárust umsagnir frá 7 einstaklingum og 5 lögaðilum. Um síðara frumvarpið bárust umsagnir frá 19 einstaklingum og 7 lögaðilum. Einnig er lagt fram minnisblað frá Aðalheiði Jóhannsdóttur og Hafsteini Dan Kristjánssyni aðjúnkt dags. 14. júlí 2019 en þau voru beðin að rýna frumvarpið um umhverfisvernd.

Nokkuð er rætt um þá afstöðu Aðalheiðar og Hafsteins að ákvæðin tvö ætti að sameina. Allir sem taka til máls eru á því að betra sé að vera með aðskilin ákvæði. Bæði vegna þess að viðfangsefni ákvæðanna sé ólíkt og með tilliti til þess að flækja ekki um of umfjöllun Alþingis.

Fyrir næsta fund munu starfsmenn forsætisráðuneytisins vinna frekar úr þeim gögnum sem borist hafa og leggja fram breytingartillögur.

4. Drög að frumvarpi forseti/framkvæmdarvald
Fyrstu drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um forseta og framkvæmdarvald unnin af Skúla Magnússyni héraðsdómara höfðu verið send fundarmönnum 5. september sl. Jafnframt er lagt fram skjal þar sem fyrirhugaðar breytingar hafa verið felldar inn í gildandi stjórnarskrárákvæði.

Eftir stuttar umræður er ákveðið að taka tillögurnar til nánari umræðu á næsta fundi. Fyrir þann fund verði búið að draga saman helstu breytingar í stutt skjal til að auðvelda umræðu.

5. Önnur mál
Ákveðið að næsti fundur verði lengri vinnufundur og verði haldinn 4. október 2019.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 14.30


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum