Hoppa yfir valmynd

Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara

Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara starfar samkvæmt lögum nr. 103/1994. Markmið laganna er að jafna flutningskostnað olíuvara á milli landshluta. Ákveðið flutningsjöfnunargjald er lagt á allar olíuvörur, sem fluttar eru til landsins og  eru ætlaðar til nota innan lands. Gjaldið rennur í sérstakan sjóð, Flutningsjöfnunarsjóð olíuvara.

Byggðastofnun, að fenginni tillögu stjórnar Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, ákveður gjald á olíuvörum fyrir minnst þrjá mánuði í senn. Skal fjárhæð flutningsjöfnunargjalds hvers flokks miðuð við það að tekjur af gjaldinu nægi til að greiða flutningskostnað á því magni af framangreindum olíuvörum sem flytja þarf frá næstu innflutningshöfn eða olíuhöfn til þeirra olíuhafna eða útsölustaða sem jöfnun flutningskostnaðar nær til, svo að fullnægt verði eftirspurn eftir þeim olíuvörum sem er dreift þaðan.

Stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og Byggðastofnun sjá um daglegan rekstur og greiðslum á kostnaði við flutningsjöfnun í samræmi við lög, reglur og ákvarðanir stjórnar sjóðsins. Stjórn sjóðsins úrskurðar hvað teljast skuli flutningskostnaður. Stjórninni er skylt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli innflutningshafnar, olíuhafnar og útsölustaða skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma. Enn fremur er stjórn sjóðsins heimilt að synja um greiðslu tiltekins kostnaðar úr sjóðnum að hluta til eða af fullu ef hún telur að um misnotkun á jöfnunarkerfinu sé að ræða.

Stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara er skipuð þremur mönnum sem ráðherra skipar til tveggja ára í senn. Forstjóri Byggðastofnunar eða staðgengill hans er formaður stjórnarinnar, ráðherra skipar einn stjórnarmann án tilnefningar en jafnframt situr í henni einn stjórnarmaður, tilnefndur sameiginlega af þeim olíufélögum, sem annast olíudreifingu í öllum landshlutum, eða meiri hluta félaganna. Þó má ráðherra ákveða að í stað eins sameiginlegs fulltrúa sitji í stjórninni einn fulltrúi frá hverju slíku olíufélagi. Þá fara olíufélögin sameiginlega, eða meiri hluti þeirra, með eitt atkvæði við ákvarðanatöku í stjórn sjóðsins.

Stjórn sjóðsins er þannig skipuð:

Arnar Már Elíasson, formaður,
Ólafur Kr. Hjörleifsson, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins,
Heiðrún Björk Gísladóttir, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, f.h. olíufélaganna.

Skipunartími stjórnar er til tveggja ára frá og með 1. janúar 2019.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 7.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira