Hoppa yfir valmynd

Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs

Í kjölfar flutnings á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga færðust yfirráð allra fasteigna í eigu ríkisins sem nýttar höfðu verið í þjónustu við fatlað fólk til sérstaks Fasteignasjóðs sem er í umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Jafnframt tók Fasteignasjóðurinn yfir réttindi og skyldur Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem var lagður niður við yfirfærsluna í ársbyrjun 2011.

Með starfsemi Fasteignasjóðsins skal tryggja sem jafnasta aðstöðu sveitarfélaga vegna fasteignamála í þjónustu við fatlað fólk. Núgildandi reglugerð um sjóðinn er nr. 578/2012.

Verkefni Fasteignasjóðsins er m.a. að leigja eða selja sveitarfélögum eða þjónustusvæðum þær fasteignir sem heyra undir sjóðinn og verður söluandvirði eignanna og öðrum tekjum sjóðsins umfram gjöld ráðstafað til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða til jöfnunar vegna búsetuþjónustu við fatlað fólk.

Tekjur

Tekjur Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs eru framlög úr sérdeild Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk sbr. fyrri framlög á fjárlögum vegna fasteigna Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þá renna til Fasteignasjóðsins söluandvirði og/eða leigutekjur af þeim eignum sem færðust til sjóðsins í ársbyrjun 2011 þegar Framkvæmdasjóður fatlaðra var lagður niður.

Húsnæðisjöfnun

Meðal hlutverka Jöfnunarsjóðs vegna yfirfærslu á málum fatlaðra er jöfnun vegna húsnæðiskostnaðar. Úthlutað er framlögum til sveitarfélaga/þjónustusvæða til að mæta kostnaði vegna leigu eða reksturs íbúða- eða þjónustuhúsnæðis fyrir fatlaða, að teknu tilliti til þess hvaða þörf er fyrir jöfnun á fasteignakostnaði. Þessi framlög koma til viðbótar tekjum af framleigu til notenda þar sem það á við. Úthlutun framlaga hófst 2012. Á árinu 2011 nýttu sveitarfélög og þjónustusvæði endurgjaldslaust fasteignir þær sem Fasteignasjóðurinn hefur umráðarétt yfir og nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk. Sveitarfélögin og þjónustusvæðin greiddu hins vegar árið 2011 ýmsan kostnað sem telst til reglubundins rekstrarkostnaðar fasteignanna í samræmi við reglugerð um Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Ársuppgjör Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs

Ársreikningar Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir í B-deild Stjórnartíðinda.

Sjá má ársreikninga sjóðsins hér.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira