Hoppa yfir valmynd

Tekjur og úthlutanir framlaga

Á grundvelli samkomulags ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða frá 6. júlí 2010 er áætlað að 13.116 m.kr. samtals renni til málaflokksins í á árinu 2014 með hækkun útsvars um 1,24 prósentustig.

Af útsvarshækkuninni renna 0,25  prósentustig beint til sveitarfélaga/þjónustusvæða.

Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélag í tengslum við yfirfærsluna nema nú 0,99 prósentustigum af framangreindri útsvarshækkun auk beinna framlaga frá ríki sem renna til sérstakra verkefna í tengslum við yfirfærsluna.

Árin 2011, 2012 og 2013 var um bein framlög að ræða úr ríkissjóði vegna ýmissa verkefna er tengjast yfirfærslunni. Framlögin féllu niður 1. janúar 2014. Í stað þess var hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarshækkuninni vegna yfirfærslunnar hækkuð í 0,99%.

Úthlutanir framlaga

Á grundvelli  reglugerðar nr. 242/2014 um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2014 er framlögum úr Jöfnunarsjóði skipt í almenn framlög vegna þjónustu við fatlað fólk, framlög vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), framlög vegna breytingakostnaðar, framlög í Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, svo og sérstök viðbótarframlög.

Almenn framlög vegna þjónustu við fatlað fólk

Á árinu 2011 tók útgjaldaþörf þjónustusvæða og sveitarfélaga mið af framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010. Vægi SIS matsins (mæling á útgjaldaþörf) í útreikningi almennra framlaga vegna þjónustu við fatlað fólk hefur farið stigvaxandi með árunum. Að sama skapi hefur vægi kostnaðarmatsins frá árinu 2010 farið minnkandi. Á árinu 2012 hafði SIS matið 26,67% vægi í útreikningi framlaganna. Á árinu 2013 var vægið 53,33%. Á árinu 2014 lýkur innleiðingu jöfnunarkerfisins og hefur SIS matið nú  80% vægi í útreikningi framlaganna  og áætlaður útsvarsstofn 20%.

Við áætlun almennra framlaga úr Jöfnunarsjóði til þjónustusvæða/sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða eru útsvarstekjur sem renna til einstakra þjónustusvæða og sveitarfélaga vegna yfirfærslunnar áætlaðar. Mismunur heildarútgjaldaþarfar svæðisins og áætlaðra útsvarstekna þess er grunnur almennra framlaga á viðkomandi ári.

Framlögin koma til greiðslu mánaðarlega og taka mið af innkomnum tekjum Jöfnunarsjóðs af 0,99% hlutdeild sjóðsins í staðgreiðsluskilum viðkomandi mánaðar að frádregnum framlögum sem veitt eru til miðlægra verkefna.

Að teknu tilliti til áætlunar um ráðstöfunarfjármagn Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lagði ráðgjafarnefnd sjóðsins til í apríl að endurskoðuð áætlun um úthlutun almennra framlaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2014 næmi 10.192 m.kr. Þar af nemur leiðrétting vegna ársins 2012 70 m.kr. Framlagið verður tekið á ný til endurskoðunar í nóvember.

Önnur framlög

Í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða frá 6. júlí 2010 voru sérstök framlög á fjárlögum fyrir árin 2011,  2012 og 2013 til að mæta breytingakostnaði við tilfærsluna, styttingu á biðlistum eftir þjónustu og þróunarverkefni vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar – svonefndu NPA verkefni. Greiðslur vegna þessa kostnaðar og verkefna fara í gegnum sérdeild jöfnunarsjóðs og einnig greiðslur vegna lengdrar viðveru fatlaðra barna í 5.-10. bekk grunnskóla og nemenda í framhaldsskóla.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira