Hoppa yfir valmynd

Samningur um þátttöku útlendinga í opinberu lífi í sveitarfélögum

Strassborg, 5. II. 1992 - Safn Evrópusamninga/144

Þýðing þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins - endurbætt útgáfa, október 2002.

Inngangsorð

Aðildarríki Evrópuráðsins, sem undirrita samning þennan,

  • hafa í huga að markmið Evrópuráðsins er að efla einingu meðal aðildarríkjanna í því skyni að vernda og koma í framkvæmd þeim hugsjónum og meginreglum sem eru sameiginleg arfleifð þeirra, svo og til þess að stuðla að framförum á sviði efnahags og félagsmála, án þess að það stríði gegn mannréttindum og mannfrelsi,
  • staðfesta trú sína á algilt og óskipt eðli mannréttinda og mannfrelsis á grundvelli virðingar fyrir öllum mönnum,
  • hafa hliðsjón af 10., 11., 16. og 60. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis,
  • hafa í huga að búseta útlendinga á landsvæði þjóðríkja er nú fastur þáttur í evrópsku þjóðlífi,
  • hafa í huga að útlendingar, sem eru búsettir í landinu, hafa að jafnaði sömu skyldur sem íbúar sveitarfélags og þeir sem eru ríkisborgarar landsins,
  • gera sér grein fyrir því að útlendingar, sem eru búsettir í landinu, taka virkan þátt í mannlífi og framþróun sveitarfélaga, og eru sannfærð um að nauðsynlegt sé að auðvelda þeim að aðlagast samfélaginu, einkum með því að gera þeim hægara um vik að taka þátt í sveitarstjórnarstörfum,
  • og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. hluti

1. gr.
1. Hver samningsaðili skal beita ákvæðunum í köflum A, B og C. Þó er hverju samningsríki heimilt að lýsa yfir því, þegar það leggur fram skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, að það áskilji sér rétt til að beita ekki ákvæðum kafla B eða C eða beggja kaflanna.
2. Hver sá samningsaðili, sem hefur lýst yfir því að hann muni aðeins beita einum eða tveimur kaflanna, getur síðar tilkynnt framkvæmdastjóranum að hann fallist á að beita ákvæðum þess kafla eða þeirra kafla sem voru ekki samþykktir þegar skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild var afhent til vörslu.

2. gr.
Í samningi þessum merkir "útlendingar sem eru búsettir í landinu" þá sem eru ekki ríkisborgarar í ríkinu sem um ræðir en hafa löglega búsetu á landsvæði þess.

Kafli A – Tjáningarfrelsi, fundafrelsi og félagafrelsi

3. gr.
Hver samningsaðili skuldbindur sig til þess, með fyrirvara um ákvæði 9. gr., að tryggja útlendingum, með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgurum:
a - rétt til tjáningarfrelsis; sá réttur skal ná til skoðanafrelsis og frelsis til að taka á móti og miðla upplýsingum og hugmyndum án íhlutunar opinberra yfirvalda og án tillits til landamæra. Þessi grein skal ekki hindra að ríki setji skilyrði um starfsleyfi til reksturs hljóðvarps, sjónvarps eða kvikmyndahúsa;
b - rétt til friðsamlegra fundahalda og félagafrelsis, að meðtöldum rétti til að stofna stéttarfélög og öðlast aðild að þeim til þess að verja hagsmuni sína. Nánar tiltekið skal rétturinn til félagafrelsis fela í sér rétt útlendinga, sem eru búsettir í landinu, til að stofna eigin samtök í sveitarfélaginu með það fyrir augum að veita hver öðrum aðstoð, viðhalda menningu sinni og tjá hana eða verja hagsmuni sína í málum sem heyra undir sveitarstjórn, auk réttarins til að ganga í félög hvers konar.

4. gr.
Hver samningsaðili skal leitast við að tryggja að hæfilegt átak sé gert til að stuðla að þátttöku útlendinga sem eru búsettir í landinu þegar mál eru borin undir almenning, unnið er að skipulagsmálum og annað samráð er haft við almenning um málefni sveitarfélagsins.

Kafli B – Samráðsnefndir sem koma fram sem málsvarar útlendinga sem eru búsettir í sveitarfélaginu

5. gr.
1. Hver samningsaðili skuldbindur sig til þess, með fyrirvara um ákvæði 1. mgr. 9. gr.:
a - að gæta þess að engar hindranir, lagalegar eða af öðrum toga, geti hindrað að sveitarstjórnir, sem hafa á landsvæði sínu umtalsverðan fjölda útlendinga sem eru búsettir í landinu, setji á fót samráðsnefndir eða geri aðrar viðeigandi ráðstafanir í stjórnkerfi sínu með það fyrir augum:
i - að mynda tengsl við erlenda íbúa,
ii - að skapa útlendingum, sem eru búsettir í landinu, vettvang til að ræða og láta í ljós skoðanir sínar, óskir og áhyggjuefni á þeim sviðum sveitarstjórnarmála sem varða þá sérstaklega og ná m.a. til starfsemi og ábyrgðar sveitastjórna sem málið varðar, og
iii - að auðvelda þeim með almennum hætti að laga sig að samfélaginu;
b - að ýta undir það og auðvelda að slíkum samráðsnefndum sé komið á fót eða gerðar aðrar viðeigandi ráðstafanir í stjórnkerfinu til þess að útlendingar, sem eru búsettir í landinu, eigi þar málsvara á vegum sveitarstjórnar sem hefur á landsvæði sínu umtalsverðan fjölda útlendinga sem eru búsettir í landinu.

2. Hver samningsaðili skal sjá til þess að útlendingar, sem eru búsettir í sveitarfélaginu, geti sjálfir kosið sér fulltrúa til starfa í samráðsnefndum eða til að vinna að öðrum þeim ráðstöfunum í stjórnkerfinu, sem um getur í 1. mgr., eða að fulltrúarnir séu útnefndir af einstökum samtökum útlendinga sem eru búsettir í landinu.

Kafli C – Kosningaréttur í sveitarstjórnarkosningum

6. gr.
1. Með fyrirvara um 1. mgr. 9. gr. skuldbindur hver samningsaðili sig til þess að veita kosningarétt og kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum hverjum þeim útlendingi, sem er búsettur í landinu, enda fullnægi hann gildandi lagaskilyrðum um ríkisborgara í landinu og hafi enn fremur haft lögmæta og fasta búsetu í ríkinu um fimm ára skeið fyrir kosningarnar.
2. Þó er samningsríki heimilt að lýsa yfir því, þegar það afhendir skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, að það hyggist takmarka beitingu 1. mgr. við kosningaréttinn eingöngu.

7. gr.
Hverjum samningsaðila er heimilt að mæla fyrir um það einhliða, eða með tvíhliða eða marghliða samkomulagi, að skilyrði, sem sett eru um búsetu í 6. gr., geti talist uppfyllt með skemmri búsetutíma.

II. hluti

8. gr.
Hver samningsaðili skal leitast við að tryggja að útlendingar, sem eru búsettir í landinu, eigi kost á upplýsingum um réttindi sín og skyldur í opinberu lífi í sveitarfélaginu.

9. gr.
1. Á stríðstímum og þegar önnur hætta, sem steðjar að almenningi, ógnar þjóðlífinu er heimilt að leggja frekari hömlur á þau réttindi, sem veitt eru skv. I. hluta þeim útlendingum sem eru búsettir í landinu, að því marki sem ítrasta nauðsyn krefur og að því tilskildu að slíkar ráðstafanir stangist ekki á við aðrar skuldbindingar samningsaðilans samkvæmt þjóðarétti.
2. Þar eð réttinum, sem veittur er skv. a-lið 3. gr., fylgja bæði skyldur og ábyrgð er heimilt að binda hann tilteknum formsatriðum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum, sem kveðið er á um í lögum og eru nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi, vegna þjóðaröryggis, friðhelgi yfirráðasvæðis eða öryggis almennings, til þess að halda uppi lögum og reglu og hindra glæpi, vernda heilsu manna eða siðgæði, verja orðstír eða réttindi annarra, hindra miðlun trúnaðarupplýsinga eða til þess að viðhalda virðingu og hlutleysi dómsvaldsins.
3. Rétti þeim, sem veittur er skv. b-lið 3. gr., má ekki setja aðrar takmarkanir en þær sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar í lýðræðislegu þjóðfélagi, vegna þjóðaröryggis eða öryggis almennings, til þess að halda uppi lögum og reglu og hindra glæpi, vernda heilsu manna og siðgæði eða til þess að verja réttindi og frelsi annarra.
4. Allar ráðstafanir, sem eru gerðar í samræmi við þessa grein, skal tilkynna framkvæmdastjóra Evrópuráðsins en hann tilkynnir þær öðrum samningsaðilum. Sömu málsmeðferð skal beitt þegar slíkar ráðstafanir eru felldar úr gildi.
5. Ekkert ákvæði í samningi þessum skal túlkað á þann veg að það takmarki eða rýri réttindi sem kunna að vera tryggð samkvæmt lögum samningsaðila eða öðrum samningi sem þeir kunna að eiga aðild að.

10. gr.
Hver samningsaðili skal tilkynna framkvæmdastjóra Evrópuráðsins öll þau lagaákvæði og aðrar ráðstafanir sem lögbær yfirvöld á landsvæði hans samþykkja og varða þær skuldbindingar sem hann hefur stofnað til með þessum samningi.

III. hluti

11. gr.
Samningur þessi skal lagður fram til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.

12. gr.
1. Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að fjögur aðildarríki Evrópuráðsins lýsa sig samþykk því að vera bundin af honum í samræmi við ákvæði 11. gr.
2. Samningurinn öðlast gildi gagnvart hverju aðildarríki sem síðar lýsir sig samþykkt því að vera bundið af honum, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að skjal um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki er afhent til vörslu.

13. gr.
1. Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins boðið ríkjum utan Evrópuráðsins að gerast aðilar að samningi þessum með ákvörðun sem tekin er með þeim meirihluta sem kveðið er á um í d-lið 20. gr. stofnskrár Evrópuráðsins og með samhljóða samþykki fulltrúa samningsríkjanna sem eiga rétt til setu í nefndinni.
2. Samningurinn öðlast gildi gagnvart sérhverju ríki, sem gerist aðili, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að aðildarskjalið er afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.

14. gr.
Skuldbindingar, sem samningsaðilar stofna til síðar í samræmi við 2. mgr. 1. gr., skulu teljast óaðskiljanlegur hluti fullgildingar, staðfestingar, samþykkis eða aðildar þess samningsaðila sem stendur að tilkynningu þar að lútandi og skulu þær öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að framkvæmdastjórinn fær tilkynninguna.

15. gr.
Ákvæði samnings þessa skulu gilda um hvers konar sveitarstjórnir á landsvæði samningsaðila. Hvert samningsríki getur þó, þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, tilgreint hvers konar svæðisbundin yfirvöld það hyggst takmarka gildissvið samningsins við eða halda utan þess.

16. gr.
1. Hvert ríki getur við undirritun, eða þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, tilgreint það eða þau landsvæði sem samningur þessi skal taka til.
2. Hvert ríki getur hvenær sem er síðar, með yfirlýsingu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, látið samning þennan taka til sérhvers annars landsvæðis sem tilgreint er í yfirlýsingunni. Samningurinn öðlast gildi að því er varðar slíkt landsvæði frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að framkvæmdastjóranum berst slík yfirlýsing.
3. Afturkalla má hverja yfirlýsingu samkvæmt tveimur undanfarandi málsgreinum, að því er varðar sérhvert landsvæði sem tilgreint er í slíkri yfirlýsingu, með tilkynningu til framkvæmdastjórans. Afturköllunin öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru sex mánuðir frá því að framkvæmdastjórinn fær tilkynninguna.

17. gr.
Enga fyrirvara má gera, að því er varðar ákvæði samnings þessa, aðra en þá sem nefndir eru í 1. mgr. 1. gr.

18. gr.
1. Hver samningsaðili getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum með tilkynningu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
2. Uppsögnin öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru sex mánuðir frá því að framkvæmdastjórinn fær tilkynninguna.

19. gr.
Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins og hverju ríki, sem gerst hefur aðili að samningi þessum, um:
a - hverja undirritun,
b - afhendingu hvers skjals um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild,
c - hvern gildistökudag samnings þessa í samræmi við 12., 13. og 16. gr.,
d - hverja tilkynningu sem borist hefur við beitingu ákvæða 2. mgr. 1. gr.,
e - hverja tilkynningu sem borist hefur við beitingu ákvæða 4. mgr. 9. gr.,
f - hverja aðra gerð, tilkynningu eða orðsendingu varðandi samning þennan.

Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Strassborg 5. febrúar 1992 í einu eintaki á ensku og frönsku, sem verður afhent til vörslu í skjalasafni Evrópuráðsins og eru báðir textarnir jafngildir. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal láta hverju aðildarríki Evrópuráðsins og hverju ríki, sem boðið er að gerast aðili að samningi þessum, í té staðfest endurrit.

Síðast uppfært: 30.8.2019
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira