Hoppa yfir valmynd

8. Eftirfylgni

Virk þátttaka

Innleiðing sameiningar og nýrrar framtíðarsýnar fyrir sameinað sveitarfélag er einn mikilvægasti þáttur sameiningarferlisins. Þar skiptir virk þátttaka kjörinna fulltrúa, starfsfólks og íbúa höfuðmáli. Mest er um vert að kjörnir fulltrúar tali sig niður á sameiginlega niðurstöðu um sameiningu strax í upphafi og tali fyrir henni í öllu sameiningarferlinu enda þótt þeir þurfi vissulega að vera tilbúnir að hlusta og tileinka sér lausnamiðaða nálgun gagnvart gagnrýni íbúa.

Einnig er mikilvægt að kjörnir fulltrúar hlusti eftir og taki mið af áhyggjum starfsfólks, sýni þeim fram á ávinning og feli þeim hlutverk í sameiningarferlinu. Síðast en ekki síst er mikilsvert að kjörnir fulltrúar og aðrir hlutaðeigandi tryggi virka þátttöku íbúa í sjálfu innleiðingarferlinu, t.a.m. með því að leiða íbúa saman á hugmyndafundum eða öðrum vettvangi.

Fjármál

Vönduð fjármálastjórn er undirstaða fyrir svigrúm og getu hins nýja sveitarfélags til að ná árangri. Í Vegvísi, leiðbeiningum fyrir samstarfsnefndir um sameiningu sveitarfélaga er sveitarstjórnum m.a. ráðlagt að gera félags- og hagfræðilega greiningu á sveitarfélaginu. Greining á þáttum eins og íbúafjölda, aldurssamsetningu, atvinnulífi, menntamálum og tekjugrundvelli gefur jafnan góða mynd af væntanlegum tekjum og útgjöldum hins nýja sveitarfélags.

Þá er sveitarstjórnarfólki ráðlagt að ástunda vandaða fjármálastjórnun og vera raunsætt í mati á því hvar sé mögulegt að ná fram stærðarhagkvæmni í upphafi og á síðari stigum. Í leiðbeiningunum má einnig finna ráðleggingar um skipulag og stjórnun og fleiri mikilvæga þætti í innleiðingu nýs sveitarfélags.

Rafræn samskipti

Þróun rafrænna samskipta og stafrænnar þjónustu er mikilvægur þáttur í uppbyggingu nútímalegra starfshátta sveitarfélaga. Stafrænar samskiptaleiðir geta stuðlað að vandaðri stjórnsýslu, betra og jafnara aðgengi, faglegri þjónustu og tækifærum til virkara íbúalýðræðis.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur haft forgöngu um stofnun stafræns ráðs sveitarfélaganna til að stuðla að samlegð þeirra og samstarfi við ríkið í stafrænni umbreytingu. Með sama hætti er lögð áhersla á  eflingu rafrænnar þjónustu og íbúalýðræði í stefnu og aðgerðaráætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga til ársins 2033. Hægt er að fylgjast með stöðu stafrænna verkefna og annarra verkefna aðgerðaráætlunarinnar á vef samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytisins. Virk þátttaka sameinaðra sveitarfélaga í verkefnum á sviði stafrænnar umbreytingar auka líkur á jákvæðri upplifun íbúa af sameiningu.

Að lokum

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vonar að sameiningarvefurinn komi kjörnum fulltrúum og öðrum hagsmunaaðilum að gagni í vinnu við sameiningu sveitarfélaga. Ferli sameiningar er margþætt og getur virst flókið. Því er mikilsvert að stíga varlega til jarðar, sýna þolinmæði og leita ráðgjafar hjá ráðuneytinu eða utanaðkomandi sérfræðingum þegar á þarf að halda.

Reynsla sveitarfélaganna hefur sýnt að vel heppnað sameiningarferli er allra hagur.

Gangi ykkur vel!

Síðast uppfært: 10.11.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum