2. Formlegar viðræður
Samstarfsnefnd
Þegar óformlegar viðræður leiða til ákvörðunar sveitarstjórnar um að hefja formlegar sameiningarviðræður er skipuð samstarfsnefnd viðkomandi sveitarfélaga til að vinna að svokölluðu áliti um sameiningu sveitarfélaganna. Hver sveitarstjórn kýs fulltrúa (venjulega tvo) í samstarfsnefndina. Hefð hefur skapast fyrir því að samstarfsnefndir hafi með höndum viðamikinn undirbúning sameiningarinnar.
Fyrsta verk hennar er að velja sér formann og skipuleggja vinnuna framunda, þ.e. setja upp verk- og tímaáætlun. Veigamikill þáttur í vinnu samstarfsnefndarinnar er að skipa og fylgja eftir vinnu undirhópa um ólíka starfsemi sveitarfélaganna ásamt því að tryggja samráð og upplýsingamiðlun til íbúa á á svæðinu.
Stuðningur Jöfnunarsjóðs
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að tryggja að kostnaður sveitarfélaga við sameiningar standi ekki í vegi fyrir mögulegri sameiningu og að hið nýja sameinaða sveitarfélag standi ekki verr að vígi gagnvart Jöfnunarsjóði en hvert um sig gerði fyrir sameiningu.
Jöfnunarsjóður veitir fjárhagslega aðstoð við sameiningu sveitarfélaga á grundvelli reglugerðar nr. 782/2020. Í reglugerðinni er ítarlega farið yfir skilyrði fyrir aðstoðinni. Þar kemur til að mynda fram að veittur sé styrkur fyrir raunkostnaði sveitarfélaga af könnun og hagkvæmni sameiningar, kynningu á sameiningartillögum og framkvæmd atkvæðagreiðslu um sameiningartillöguna.
Skilyrði fyrir framlaginu er að lögð hafi verið fyrir ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs áætlun um kostnaðinn áður en stofnað er til hans. Ekki er þó gert ráð fyrir framlagi vegna vinnu starfsfólks sveitarfélaga við upplýsingagjöf sameiningarnefndar eða starfsfólks þeirra.
Með sama hætti er veittur styrkur til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga við sameiningu og til endurskipulagningar þjónustu og stjórnsýslu í allt að sjö ár frá sameiningu. Þá er veitt svokallað byggðaframlag á grundvelli íbúafjölda síðustu fimm ára fyrir sameiningu. Ef fjölgun íbúa í sveitarfélagi hefur verið undir meðalfjölgun íbúa á landsvísu er veitt 500.000 kr. framlag fyrir hvern íbúa sem vantar til að ná landsmeðaltali. Ef íbúum hefur fækkað á tímabilinu er veitt einnar milljón króna framlag fyrir hvern íbúa undir landsmeðaltali. Framlag samkvæmt þessum lið getur að hámarki numið 200 milljónum króna.
Athygli er vakin á yfirliti um fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs við sveitarfélög óháð því hvaða sveitarfélagi er sameinast.
Skrefin - yfirlit
- Óformlegar viðræður
- Formlegar viðræður
- Undirbúningur
- Kynning
- Sameiningarkosningar
- Innleiðing
- Gildistaka
- Eftirfylgni
Sameining sveitarfélaga
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.