Hoppa yfir valmynd

7. Gildistaka

Tilkynning um sameiningu

Ráðuneyti sveitarstjórnarmála staðfestir sameiningu sveitarfélaga með tilkynningu í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 124 gr. sveitarstjórnarlaga. Þar er tiltekið hvaða sveitarfélög hafi sameinast og hversu margir muni skipa sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags.

Hafi nafn hins nýja sveitarfélags verið ákveðið kemur nafnið fram í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram með hvaða hætti sameiningin taki gildi, þ.e. hvort kosið verði til sveitarstjórnar hins nýja sveitarfélags eða sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga taki yfir stjórn þess nýja til loka kjörtímabilsins.

Ný sveitarstjórn

Ef ákveðið er að kjósa í sveitarstjórn nýs, sameinaðs sveitarfélags fer kosningin fram að afloknum sameiningarkosningum. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála ákveður að tillögu undirbúningsnefndar hvaða dag kosningin fari fram. Um hana gildir að öðru leyti ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna um skipti á sveitarstjórnum. Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins nýja sveitarfélags 15 dögum eftir kjördag. Á sama tíma tekur sameining gildi.

Ef sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga tekur yfir stjórn þess nýja til loka kjörtímabils tekur sameining gildi á þeim degi sem ráðuneytið ákveður. Sama dag fellur umboð annarra sveitarstjórna hinna sameinuðu sveitarfélaga úr gildi.

Ákvarðanataka

Sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags skal svo fljótt sem hægt er taka til umræðu og setja nýjar samþykktir, reglugerðir og gjaldskrár fyrir nýtt sveitarfélag. Í því ferli er mikils virði að byggt sé á vandaðri vinnu undirbúningsstjórnarinnar. Ákjósanlegt er að ferlið gangi fljótt fyrir sig til að mismuna ekki íbúum innan hins sameinaða sveitarfélags.

Sveitarstjórn er heimilt að ákveða að tilteknar reglur eða samþykktir eins af sameinuðu sveitarfélögunum skuli gilda fyrir hið nýja sveitarfélag í heild á meðan unnið er að setningu nýrra reglna. Um slíka ákvörðunartöku gilda sömu reglur og um setningu nýrra reglna í viðkomandi málaflokki, þar á meðal kröfur um tvær umræður eða staðfestingu ráðherra ef við á.

Á meðan unnið er að því að setja viðeigandi reglur fyrir nýtt sveitarfélag skulu eldri reglur gilda í hverju hinna eldri sveitarfélaga þó ekki lengur en í þrjá mánuði frá gildistöku sameiningar. Að því leyti sem ákvörðunum, svo sem um skatta, verður ekki breytt innan ársins vegna ákvæða annarra laga er heimilt að hafa mismunandi reglur innan hins nýja sveitarfélags þann tíma sem af ákvæðum viðkomandi laga leiðir.

Nafngift

Sveitarstjórn tekur ákvörðun um hvaða nafn nýja sveitarfélagið fær að fenginni umsögn örnefnanefndar að því er fram kemur í  5. gr. sveitarstjórnarlaga. Algengt er að fram fari könnun meðal íbúa á því hvaða nafn þeir kjósa helst fyrir hið nýja sveitarfélaga. Þegar sú leið er farin þarf að leita umsagnar örnefnanefndar um þau nöfn sem um ræðir. Umsögn örnefnanefndar skal liggja fyrir áður en ákvörðun um nýtt heiti er staðfest af ráðuneyti sveitarstjórnarmála. Sama á við ef ákveðið er að nota nafn eins af sameinuðu sveitarfélögunum. Nýtt heiti tekur gildi við birtingu samþykktar um stjórn sveitarfélags eða við breytingu hennar til samræmis við nýtt heiti sveitarfélags.

Nafn nýja sveitarfélagsins verður að samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Ekki er skylt að nafnið beri með sér að um stjórnsýslueiningu er að ræða, þ.e. að heiti sveitarfélagsins endi á hreppur, bær, byggð, kaupstaður o.s.frv. Ef nafn sveitarfélagsins er tengt ákveðnu svæði sérstaklega og endar ekki á „skilgreiningu á stjórnsýslueiningu“ hefur myndast hefð fyrir að það skuli einkennt með orðinu „Sveitarfélag“, sbr. Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Hornafjörður og Sveitarfélagið Skagafjörður.

Síðast uppfært: 10.11.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum