6. Innleiðing
Undirbúningsstjórn
Ef sameining sveitarfélaga er samþykkt af íbúum í löglegri kosningu skipar hver sveitarstjórn 2-3 fulltrúa í undirbúningsstjórn til að undirbúa stofnun hins nýja sveitarfélags. Ekkert er því til fyrirstöðu að fulltrúar í samráðsnefndinni séu kosnir aftur í undirbúningsstjórnina með nýtt umboð.
Hlutverk
Hlutverk undirbúningsstjórnarinnar er umfangsmikið rétt eins og hlutverk samráðsnefndarinnar. Veigamikið hlutverk hennar felst í því að móta samþykkt um stjórn og fundarsköp nýja sveitarfélagsins. Stjórnin semur samþykkt fyrir nýja sveitarfélagið til að brúa bilið þar til sameinuð sveitarstjórn setur sér samþykkt. Hún getur einnig tekið ákvörðun um að samþykkt eins af sameinuðu sveitarfélögunum gildi fyrir sameinað sveitarfélag þar til ný sveitarstjórn hafi sett sér samþykkt.
Undirbúningsstjórnin tekur ákvarðanir um fjárhagsmálefni nýs sveitarfélags eftir því sem við á. Löglega kjörnar sveitarstjórnir fara með fjármálavald yfir sveitarfélagi sínu og fjárhagsáætlun hvers sveitarfélags fyrir sig er í gildi þar til nýtt sveitarfélag er stofnað. Sveitarstjórnum viðkomandi sveitarfélaga er óheimilt að skuldbinda sveitarfélag eða samþykkja greiðslur úr sveitarsjóði sem ekki leiðir af lögum, fjárhagsáætlun eða þegar samþykktum viðauka við hana nema allar hlutaðeigandi sveitarstjórnir samþykki slíka ráðstöfun.
Undirbúningur
Undirbúningsstjórnin tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir, gjaldskrár sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og hefur vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu með það að markmiði að ný sveitarstjórn geti svo fljótt sem því verður við komið tekið til umræðu og sett reglugerðir og gjaldskrá fyrir hið nýja sveitarfélag, sem gert skal innan þriggja mánaða frá gildistöku sameiningar.
Rétt er að taka fram að ólíkt því sem við á um samþykkt um stjórn og fundarsköp öðlast tillögur undirbúningsstjórnar um þessa þætti ekki gildi um leið og sameining. Hins vegar mynda þær ákaflega mikilvægan grundvöll að því að ný sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags geti gengið til verks á skýrum og upplýstum grundvelli.
Tillaga um gildistöku
Undirbúningsstjórnin gerir tillögu til ráðuneytis sveitarstjórnarmála um það með hvaða hætti sameiningin taki gildi, þ.e. hvort kosið er til sveitarstjórnar fyrir hið nýja sveitarfélag eða hvort sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga tekur yfir stjórn þess nýja til loka kjörtímabils.
Í tillögu undirbúningsstjórnar fyrir stofnun hins nýja sveitarfélags sem senda skal ráðuneytinu til staðfestingar þarf meðal annars að koma fram hversu marga fulltrúa skuli kjósa í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags. Þá þarf að koma fram með hvaða hætti staðið verði að undirbúningi og framkvæmd kosningar nýrrar sveitarstjórnar.
Fordæmi er fyrir því að sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem sameinast í nýtt sveitarfélag, kjósi sameiginlega yfirkjörstjórn en eldri yfirkjörstjórnir gegni hlutverki undirkjörstjórnar í hverju sveitarfélaginu fyrir sig.
Skrefin - yfirlit
Sameining sveitarfélaga
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.