Hoppa yfir valmynd

5. Sameiningarkosningar

Tímasetning

Sveitarstjórnir ákveða sameiginlega í samráði við dómsmálaráðuneytið hvenær sameiningarkosning fer fram og er kosið í öllum sveitarfélögum sama dag. Kosningin fer fram í samræmi við lög um kosningu til sveitarstjórna nr. 5/1998 hvað varðar kjörskrár og um meðferð þeirra og tímafresti þar að lútandi og alla framkvæmd kjörfundar.

Framkvæmd

Brýnt er að sveitarstjórn eða samstarfsnefnd haldi fund með formönnum kjörstjórna með góðum fyrirvara þar sem farið er yfir framkvæmd kosningarinnar. Rétt er að talning atkvæða hefjist alls staðar á sama tíma en ekki er skilyrði að opnunartími kjörstaða sé alls staðar hinn sami. Að öðru leyti skal atkvæðagreiðslan fara eftir ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna kosningu til sveitarstjórna nr. 5/1998  eftir því sem við getur átt.

Kosningaréttur

Kosningarétt hafa allir íslenskir ríkisborgarar 18 ára og eldri með lögheimili í sveitarfélögunum. Einnig hafa danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, kosningarétt. Aðrir erlendir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, hafa einnig kosningarétt. Miðað er við skráningu lögheimilis þremur vikum fyrir kjördag.

Aðgengi

Mikilvægt er að huga að aðgengi og réttindum allra til að taka þátt í kosningunum. Athygli er vakin á 57. gr laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 sem kveður á um að það þurfi að vera til staðar spjald jafnstórt kjörseðli með upphleyptum listabókstöfum og blindraletri, með glugga framan við hvern staf og vasa á bakhlið þannig að blindir geti gegnum gluggann sett kross framan við þann lista er þeir gefa atkvæði sitt og á þann hátt kosið í einrúmi og án aðstoðar. Þá er einnig vakin athygli á 63. gr. sömu laga um rétt fatlaðs fólks til þess að njóta aðstoðar við að greiða atkvæði.

Einnig er bent á leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl. nr. 820/2017. skv. 58. gr. laga um kosningar til Alþingis, sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla um sameiningar fellur undir. Þar segir að kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða er vistmaður þar, er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða vistmaður á stofnun fyrir fatlað fólk, sé heimilt að greiða atkvæði á viðkomandi stað. Sömu reglur gilda um fangelsi og vistmenn þar.

Atkvæðaseðill

Sveitarstjórn sér um gerð og samræmingu atkvæðaseðils og skal hann staðfestur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Fyrirsögn og litur kjörseðils er mismunandi fyrir hvert sveitarfélag en að öðru leyti mega seðlarnir vera eins. Þvert yfir miðjuna skal setja brot til þess að hægt sé að brjóta kjörseðilinn saman þannig að óprentaða hliðin snúi út. Ráðlagt er að brotið nái ekki alveg út að hægri hlið seðilsins heldur örfáir millimetrar skildir eftir til þess að auðvelda talningu.

Hér má sjá sýnishorn af atkvæðaseðli um sameiningu:

sýnishorn af atkvæðaseðli um sameiningu

Niðurstaða

Hafi kjósendur í einu sveitarfélaganna fellt sameiningartillöguna geta þó sveitarstjórnir hinna sveitarfélaganna sem stóðu að sameiningarviðræðum ákveðið sameiningu þeirra sveitarfélaga þar sem kjósendur samþykktu sameiningu. Við þessar aðstæður þarf ekki að greiða atkvæði að nýju til þess að af sameiningu þessara sveitarfélaga geti orðið.

Síðast uppfært: 21.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum