Hoppa yfir valmynd

Það helsta

Aðgerðaáætlunin sýnir að Ísland mun uppfylla skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, auk þess sem stjórnvöld setja markið á enn frekari samdrátt 

 • Viltu lesa samantektina sem pdf?

 • Vísindin sýna fram á hraðar breytingar á vistkerfum jarðar. Loftslagsváin er stóra áskorun samtímans. Ríki heims verða að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til þess þarf öflugar aðgerðir, þvert á allt samfélagið.

 • Ný útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er hér sett fram. Áætlunin samanstendur af 48 aðgerðum og þar af eru 15 nýjar.

 • Breyttar ferðavenjur fá meira vægi en í fyrri útgáfu, úrgangsmál og sóun eru dregin sérstaklega fram og áhersla er lögð á aðgerðir þar sem ríkið getur gengið á undan með góðu fordæmi. Áætluninni er enn fremur skipt upp eftir því hvernig aðgerðirnar tengjast skuldbindingum Íslands, sem og því hvaðan losunin kemur. Allt kallast þetta á við innsendar athugasemdir og niðurstöður úr samráði við vinnslu áætlunarinnar.

 • Áhersla hefur verið lögð á að hrinda aðgerðum strax í framkvæmd og 28 aðgerðir af 48 eru þegar hafnar.

 • Með aðgerðum í þessari útgáfu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er áætlað að árið 2030 muni losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands hafa dregist saman um ríflega milljón tonn af CO2-ígildum miðað við losun ársins 2005. Þetta þýðir að Ísland nær skuldbindingum sínum í loftslagsmálum um 29% samdrátt í losun frá 2005 og gott betur, eða 35% samdrætti. Til viðbótar við þetta eru aðgerðir í mótun taldar geta skilað 5-11% samdrætti, eða samtals 40-46%.

Með aðgerðaráætlunnni næst verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda
- enn meiri árangur næst með aðgerðum sem verið er að móta 

Losun á beinni ábyrð Íslands frá 2005 til 2030, þúsund tonn CO2-ígildi

Með aðgerðaráætlunnni næst verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda - enn meiri árangur næst með aðgerðum sem verið er að móta

Mynd. Söguleg þróun losunar gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands til 2018 og áætluð losun til 2030 án aðgerðaáætlunar, með aðgerðaáætlun og aðgerðum í mótun.

 • Stjórnvöld setja markið hærra en alþjóðlegar skuldbindingar kveða á um (29% samdráttur árið 2030 miðað við 2005) og ætla sér að draga úr losun á beinni ábyrgð Íslands um að minnsta kosti 40% árið 2030. Útfærsla aðgerða miðar að þessu marki auk þess sem leitað er leiða til að gera enn betur.

 • Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað við að meta ávinning aðgerða. Aðgerðir voru metnar af sérfræðingum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sérfræðingum Umhverfisstofnunar og teymi vísindafólks við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

 • Loftslagsbreytingar virða hvorki landamæri né losunarbókhald og mikilvægt er að taka á losun óháð því hvar hún bókfærist. Aðgerðaáætlunin miðar að þessu en á myndinni hér að neðan sést væntur árangur aðgerða og tengsl þeirra við skuldbindingar Íslands. Þar má meðal annars undir liðnum „landnotkun“ sjá stóraukinn ávinning vegna aukinnar kolefnisbindingar og endurheimtar votlendis, eða ríflega 500% miðað við árið 2005. Þessar aðgerðir gegna mikilvægu hlutverki við að ná markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040.

Áætlaður samdráttur í losun á beinni ábyrgð Íslands er 35% frá 2005 til 2030
- kolefnisbinding með bættri landnotkun verður stóraukin

Skipting á árlegri losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbinding eftir flokkum, þúsund tonn CO2-ígildi

Áætlaður samdráttur í losun á beinni ábyrgð Íslands er 35% frá 2005 til 2030 - kolefnisbinding með bættri landntkun verður stóraukin

Mynd. Skipting á árlegri losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu eftir flokkum samkvæmt aðgerðaáætlun.

Losun 2005: Losun gróðurhúsalofttegunda árið 2005 á Íslandi – viðmiðunarár fyrir samdrátt í losun skv. markmiðum og skuldbindingum.

Áætluð losun 2030: Áætluð losun gróðurhúsalofttegunda og binding árið 2030 eftir að tekið hefur verið tillit til aðgerða í áætluninni og grunnsviðsmyndar.

 • Dæmi um nýjar aðgerðir sem rötuðu inn í áætlunina í kjölfar samráðs eru aðgerðir til þess að auka innlenda grænmetisframleiðslu, fjölga vistvænum bílaleigubílum, styðja við orkuskipti í þungaflutningum, fanga kolefni frá stóriðju, bæta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun og draga úr losun frá byggingariðnaði.

 • Dugi aðgerðir ekki til verður ráðist í nýjar og/eða hertar aðgerðir. Auk þess hafa fjölmargir aðilar sýnt frumkvæði í loftslagsmálum, sveitarfélög, fyrirtæki og aðrir, sem ætla má að skili sér í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í losunarbókhaldi Íslands. Mikilvægt er að styðja við það frumkvæði því aðgerðir ríkisins duga ekki einar og sér til að ná árangri í loftslagsmálum.

 • Aðgerðaáætlunin tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem samþykkt voru af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015 og krefjast einmitt þátttöku og samstarfs fjölmargra og ólíkra hagsmunaaðila.

 • Brýnt er að ná markmiðum Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar innan við 2°C og að leitast við að halda hlýnuninni innan við 1,5°C. Skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, frá 20181 dró skýrt og greinilega fram að það mun afstýra miklum búsifjum ef tekst að ná 1,5°C markinu. Ísland hefur skipað sér í hóp þeirra ríkja sem telja brýnt að takmarka hlýnun andrúmsloftsins við 1,5°C, á grunni áðurnefndrar skýrslu IPCC. Ljóst er að það krefst afar metnaðarfullra aðgerða að ná að halda hlýnun innan þeirra marka og mikilvægt að ríki eins og Ísland séu þar í fararbroddi og sýni gott fordæmi.

 • Ljóst er að vísindunum hefur fleygt fram á þeim tíma sem liðinn er frá undirritun Parísarsamningsins. Loftslagsvísindin gefa sífellt dekkri mynd af stöðu loftslagsmála og neyðarástand hefur ríkt víða um heim vegna loftslagsbreytinga. Þörf er á kraftmiklum aðgerðum svo sporna megi við þessu. Samkvæmt skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist er gerð krafa um samdrátt á hverju ári og miðar aðgerðaáætlunin að því.

 • Tækninni fleygir sífellt fram og gera má ráð fyrir að nýjar hagkvæmar leiðir til að draga úr losun líti dagsins ljós. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er því skjal í sífelldri þróun. Mat á aðgerðum verður stöðugt bætt, náið fylgst með þróun losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingu og aðgerðir útfærðar enn frekar.

 • Fjármagn til aðgerða í loftslagsmálum er á ólíkum tímaás og fer í gegnum stjórnkerfið eftir mismunandi leiðum. Gert er ráð fyrir að verja að lágmarki 46 milljörðum króna til helstu aðgerða í loftslagsmálum á fimm ára tímabili, 2020-2024.

 • Áætlunin verður nú sett í Samráðsgátt stjórnvalda í þrjá mánuði og eftirfylgni hennar tryggð með skilvirkum hætti. Eftir því sem aðgerðum vindur fram verða þær uppfærðar í rafrænni útgáfu áætlunarinnar hér á vefnum.

 • Áætlunin verður auk þess rýnd með tilliti til áhrifa aðgerða á mismunandi tekjuhópa. Hún verður einnig greind með tilliti til kostnaðar og ábata, meðal annars þjóðhagslegra áhrifa aðgerða. Mikilvægt er að aðgerðir í loftslagsmálum miði samhliða að auknu jafnrétti og jöfnuði, en verði ekki til þess að auka á misrétti. Réttlát umskipti eigi sér þannig stað.

 • Í aðgerðaáætluninni er enn fremur kveðið á um að gefi mælingar til kynna að losun verði í framtíðinni meiri en skuldbindingar segja til um beri umhverfis- og auðlindaráðherra ábyrgð á því að gripið verði til viðeigandi ráðstafana. Gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp með slíku ákvæði.

Í áætluninni eru 48 aðgerðir sem skiptast í þrjá hluta

 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira