Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um svartolíu og reglugerðarbreytingu sem bannar notkun hennar

„Svartolía“ er samheiti yfir þungar og seigar olíur sem eru með ákveðna skilgreinda eiginleika og oftast hátt brennisteinsinnihald. Svartolía er m.a. notuð í skipasiglingum og veldur meiri mengun en annað eldsneyti. Þegar hún brennur losnar m.a. mikið af sóti. Sótagnirnar eru skaðlegar heilsu fólks og auka einnig bráðnun íss. Brennisteinsinnihald í svartolíu sem var markaðssett hér á landi árið 2017 var á bilinu 0,64-1,94% en meðaltalið á heimsvísu samkvæmt gögnum frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) var 2,59%. Við bruna svartolíu losnar brennisteinn út í andrúmsloftið.

Leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er innan landhelgi Íslands og innsævis verður lækkað úr 3,5% niður í 0,1% þann 1. janúar 2020. Samhliða fyrirhuguðum breytingum tekur gildi sú breyting að leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti í mengunarlögsögunni utan landhelginnar lækkar niður í 0,5%.

Þetta útilokar í raun brennslu svartolíu, þar sem hún hefur í langflestum tilvikum hærra brennisteinsinnihald en þetta. Þó geta skip brennt svartolíu ef þau nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun brennisteinsdíoxíðs. Sérstakur hreinsibúnaður (e. scrubber) dregur þá að miklu leyti úr losun brennisteins út í andrúmsloftið.

Því hreinna eldsneyti sem er notað því betra fyrir umhverfið. Auk tilætlaðs ávinnings fyrir loftslagið er breytingunni ætlað að stuðla að betri loftgæðum við strendur Íslands og hvetja til notkunar á loftslagsvænni orkugjöfum á skipum.

Frá og með 1. janúar 2020 verður leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti innan landhelgi Íslands og innsævis 0,1%. Hámarkið í dag er 3,5%.

Sama dag taka einnig þær breytingar gildi að innan mengunarlögsögunnar en utan landhelginnar mun leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti lækka niður í 0,5%. Það er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt viðauka VI í MARPOL-samningnum sem Ísland fullgilti í febrúar 2018. Samkvæmt ákvæðum viðaukans verður heimilt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti 0,5% frá og með 1. janúar 2020 á hafsvæði þeirra ríkja sem hafa fullgilt viðauka VI við MARPOL-samninginn. 

Með þessu verður leyfilegt brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti á Íslandi 0,1% innan landhelginnar og á innsævi, þ.e. einnig í fjörðum og flóum. Þegar komið er lengra út á sjó og út fyrir landhelgina má brennisteinsinnihaldið ekki vera meira en 0,5%. Til samanburðar var brennisteinsinnihald í svartolíu sem var markaðssett hér á landi árið 2017 á bilinu 0,64-1,94% en meðaltalið á heimsvísu samkvæmt gögnum frá IMO var 2,59%.

Landhelgi er skilgreind sem svæði 12 sjómílur út frá grunnlínu sem dregin er á milli ákveðinna staða við sjávarsíðuna skv. lögum um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn.

Mengunarlögsaga nær aftur á móti bæði yfir innsævi, landhelgi og efnahagslögsögu. Ísland getur ekki einhliða sett reglur um mengun frá skipum innan mengunarlögsögunnar, utan landhelginnar, nema þær séu í samræmi við milliríkjasamninga.

Ísland getur óskað eftir innan MARPOL-samningsins að sett verði upp sk. ECA-svæði (e. Emission Control Areas) í mengunarlögsögunni, þar sem strangari reglur gilda en almennt um mengun, s.s. af völdum brennisteins í skipaeldsneyti. Slík svæði hafa verið sett upp t.d. í Eystrasalti og á Norðursjó. Alls óvíst er hvort slíkt svæði yrði samþykkt við Ísland vegna þeirra skilyrða sem MARPOL-samningurinn gerir ráð fyrir að séu uppfyllt til að fá slík svæði samþykkt. Ísland getur hins vegar einhliða sett reglur um mengun í landhelgi sinni og með reglugerðinni sem nú er lögð til er því gengið jafn langt í að setja strangar mengunarvarnareglur í landhelgi Íslands og innsævi og er á ECA-svæðum.

Í reglugerðinni er veitt heimild til 1. september 2020, til að klára ónýttar birgðir af skipaeldsneyti með hærra brennisteinsinnihald sem eru til staðar í brennsluolíutönkum skipa við gildisstöku reglugerðarinnar. Skilyrði fyrir því er þó að útgerð skips tilkynni til Umhverfisstofnunar fyrir 1. janúar 2020 um hvert það skip sem nýta skal heimild fyrir og hvert uppsafnað magn skipaeldsneytis á olíutönkum skipanna er.

Síðast uppfært: 11.9.2020
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira