Evrópsk samgönguvika

Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu um að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Yfirskrift átaksins er Evrópsk Samgönguvika og er hún haldin 16. – 22. september ár hvert. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. 

Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtökum geta einnig skráð til leiks einstaka viðburði eða aðgerðir sem ætlað er að ýta undir vistvænar samgöngur. Yfirskrift þessa verkefnis er MobilityActions á ensku sem hefur verið þýtt sem Samgönguplús á íslensku.

Nánar má lesa um Evrópska samgönguviku á evrópskum vef átaksins, www.mobilityweek.eu.

Dagskrá 2017

Alla vikuna

 • Heilmerktur strætó með Samgönguvikukrúttunum í aðalhlutverki ekur um götur borgarinnar.
 • Akureyri efnir til ljósmyndasamkeppni alla vikuna – þemað er „samferða“. Glæsileg verðlaun í boði. Sendu mynd á netfangið [email protected] eða merktu hana #samak17 á Instagram og facebook.
 • Reykjavíkurborg og Samtök um bíllausan lífsstíl efna til átaks á samfélagsmiðlum þar sem fólk er hvatt til þess að taka myndir af sér með hjólinu sínu og setja á samfélagsmiðla með myllumerkinu #hjóliðmitt.
 • Hafist verður handa við að merkja Litaðar lykilleiðir hjólastíga í Reykjavík. 

Laugardagur 16. september

 • 12:30 Hjólaferð fjölskyldunnar á Akureyri. Hjólreiðafélag Akureyrar leiðir hjólalestir frá grunnskólum bæjarins að ráðhústorgi. Lestarstjórar verða frá öllum grunnskólum. Brekkuskóla, Lundarskóla, Naustaskóla,
  Glerárskóla, Síðuskóla, Oddeyrarskóla og Giljaskóla. 
 • 13:30 Akureyri. Dagskrá á Ráðhústorgi þar sem reiðhjól og önnur vistvæn ökutæki verða í forgrunni, börn skreyta götur og torg og boðið er upp á myndatöku í Strætó. Nánari upplýsingar (pdf-skjal) 

Sunnudagur 17. september

 • 13:00 Akureyri Hjólreiðafélag Akureyrar heldur skemmtilegt hjólreiðamót fyrir börnin. Rásmark er við Minjasafnið og hjólað við tjörnina. Keppt er í aldursflokkunum: 5-7 ára, 8-10 ára, 11-13 ára og 14-16 ára. 

Mánudagur 18. september

 • 14:30 – 16:00 Festa og Reykjavíkurborg efna til fundar í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur um samgönguáætlanir fyrirtækja þar sem tækifæri þeirra til að skipuleggja samgöngur sínar betur verða í brennidepli. Í lok fundarins afhendir borgarstjóri Samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar. Nánari upplýsingar

Þriðjudaginn 19. september 

 • 15:00 Slysavarnafélagið Landsbjörg ýtir úr vör verkefninu sínu „Vertu snjall undir stýri“ í Ökuskóla 3 að Álfhellu í Hafnarfirði í samvinnu við fyrirtæki í atvinnuakstri. Sjá nánari upplýsingar á www.landsbjorg.is og Facebook : slysavarnafelagid landsbjorg.
 • 17:30 Akureyri Göngu- og fræðsluferð um fólkvanginn í Krossanesborgum. Mæting er á bílastæði norðan Byko.

Fimmtudagur 21. september

 • Á Akureyri er tekið forskot á frídag bílsins. Alltaf er frítt í almenningssamgöngur innanbæjar og nú verður
  farþegum boðið uppá bækur/blöð til lestrar í almenningsvögnum bæjarins. Íbúar eru hvattir til að leggja bílnum og ferðast frítt um allan bæ frá morgni til kvölds án þess að hafa áhyggjur af bílastæðum eða eldsneytiskostnaði.
 • 11:00 Bæjarstjóri Garðabæjar nýtur liðsinnis barna úr Sjálandsskóla við að kynna hraðahindrandi aðgerðir á stígnum við Sjáland. Mæting er við skólann. 
 • Úrslit ljósmyndasamkeppni á Akureyri verða kunngjörð.
 • 18:00 Hjólafærni og Landssamtök hjólreiðamanna bjóða uppá rólega hjólaferð um höfuðborgarsvæðið frá Farfuglaheimilinu í Laugardal. Árni Davíðsson leiðir þátttakendur um áhugaverða staði í þeirri öru þróun sem hefur átt sér stað í reiðhjólamiðuðum lausnum í umferðinni.

Föstudagur 22. september – frídagur bílsins

 • Frítt í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og að venju á Akureyri.
 • Stæðaæði - park(ing) day - á Akureyri. Bílastæði í göngugötu eða Skipagötu fær nýtt hlutverk og verður breytt í reiðhjólastæði og hugsanlega lítinn almenningsgarð.
 • 9:00 Hjólalest leggur af stað frá Suðurveri í Hafnarfjörð á hina árlegu hjólaráðstefnu Hjólum til framtíðar en hún kemur við í Hamraborginni í Kópavogi kl. 9:20.
 • 9:05 Opnun hjólastígsins í Fossvoginum, sem tengir saman Reykjavík og Kópavog. Þaðan verður hjólað saman í Hafnarfjörðinn á hina árlegu hjólaráðstefnu Hjólum til framtíðar.
 • 10:00 – 16:00 Ráðstefnan Hjólum til framtíðar í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Sjöunda ráðstefna Hjólafærni og Landssamtaka hjólreiðamanna í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Meginþema ráðstefnunnar er ánægja og öryggi hjólandi vegfarenda en aðalræðumaður ráðstefnunnar er Ton Daggers, sem er hollenskur sérfræðingur um þróun nytjahjóla og nýtingu á þeim í borgum. Nánari upplýsingar eru á www.lhm.is.    Skráning 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn