Hoppa yfir valmynd

Evrópsk samgönguvika

Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu um að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Yfirskrift átaksins er Evrópsk Samgönguvika og er hún haldin 16. – 22. september ár hvert. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. 

Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtökum geta einnig skráð til leiks einstaka viðburði eða aðgerðir sem ætlað er að ýta undir vistvænar samgöngur. Yfirskrift þessa verkefnis er MobilityActions á ensku sem hefur verið þýtt sem Samgönguplús á íslensku.

Nánar má lesa um Evrópska samgönguviku á evrópskum vef átaksins, www.mobilityweek.eu.

Þema Samgönguviku ársins 2019 er Göngum'etta

Dagskrá 2019

Á Akureyri verður ljósmyndasamkeppni í gangi alla vikuna. Þemað er Göngum'etta. Hvetjum fólk til að taka mynd sem tengist þemanu, deila á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #GöngumAkureyri og senda myndina á [email protected] Glæsileg verðlaun.

Mánudagur 16. september

 • Upphaf samgönguviku / Dagur íslenskrar náttúru.
 • Mosfellsbær - 15:00. Vígsla á nýju aðkomutákni Mosfellsbæjar við Vesturlandsveg fer fram á samgöngustíg/hjólastíg við Úlfarsfell Þátttakendur hvattir til að koma á hjóli í vígsluna.
 • Reykjavík - 18:00-19:30. Hjólafærni, Listasafn Reykjavíkur og Landssamtök hjólreiðamanna bjóða upp á hjólatúr með leiðsögn á milli listaverka á mismunandi stöðum í Reykjavík. Að þessu sinni verður hjólað um Laugardalinn og Fossvog. Náttúru og umferð verða gerð sérleg skil í ferðinni. Staldrað verður við verk og staði og sagt frá því sem fyrir augu ber. Lagt er af stað frá Ásmundarsafni. Nánari upplýsingar
 • Garðabær - Hjólabraut verður í efri Lundum.

Þriðjudagur 17. september

 • Mosfellsbær - 16:00 17:00. Dr. Bæk aðstoðar við hjólastillingar og minniháttar lagfæringar reiðhjóla á miðbæjartorginu.
 • Garðabær - Viðgerðarstandar verða fyrir reiðhjól á Garðatorgi, Ásgarðslaug og Álftaneslaug.

Miðvikudagur 18. september

 • Akureyri - Lýðheilsuganga Ferðafélags Akureyrar meðfram Glerárgili og Glerá 18. september kl. 18 – 19:30. Ingvar Teitsson mun leiða gönguna og lagt er af stað frá bílastæðinu við Bakaríið við brúna.
 • Garðabær - 18:00. Lýðheilsuganga á Álftanesi. Gengið verður frá Kasthúsatjörn meðfram sjónum og umhverfis Bessastaðatjörn og sú ganga er einnig í samvinnu við SÍBS, Vesen og vergang og Wapp leiðsöguappið.
 • Mosfellsbær - Lógó Mosfellsbæjar málað á samgöngustíg undir Úlfarsfelli við Vesturlandsveg og strandstíg við Úlfarsá við sveitarfélagamörk.

Fimmtudagur 19. september 

 • Mosfellsbær - 17:00 - 19:00. Hjólaþrautir og BMX sýning á miðbæjartorginu við Þverholt. BMX kappar sýna listir sínar og leysa krefjandi hjólaþrautir.
 • Garðabær - 18:00 - 21:00. Hjólaferð um Garðabæ - upphitun fyrir ráðstefnu morgundagsins! Við hjólum um Garðabæinn og skoðum hvernig aðstæður eru þar til að vera hjólandi í samgöngum. Einnig skoðum við fjallahjólabrautina við Lundaból, leynd perla þar sem ungviði bæjarins leikur sér óspart á hjólunum sínum. Við hjólum að lokum að IKEA og fáum okkur snarl þar í ferðalok. Lagt af stað frá Garðatorgi. Nánari upplýsingar. 

Föstudagur 20. september

 • 8:45 Hist í kaffi í Bakarameistaranum Suðurveri og hjólað svo þaðan kl. 9:00 á ráðstefnuna Hjólað til framtíðar sem haldin verður á Garðatorgi í Garðabæ. 
 • 10:00 - 16:00 Ráðstefnan Hjólum til framtíðar í Sveinatungu á Garðatorgi í Garðabæ. Níunda ráðstefna Hjólafærni og Landssamtaka hjólreiðaamanna í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Meginþema ráðstefnunnar er hið sama og slagorð Samgönguviku, "Göngum'etta!"  Þó það sé frábært að hjóla er ekkert sem jafnast á við að ganga til samgangna – en það hefur eiginlega alveg orðið út undan í hugsuninni um fjölbreyttar ferðavenjur. Annar aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Jim Walker frá Walk21 en hinn aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Hans Voerknecht sem hefur um árabil leitt þróun lausna fyrir hjólandi vegfarendur í Hollandi með ráðgjöf og stefnumótun undir hatti Hollenska hjólasendiráðsins. Nánari upplýsingar. Skráning.
 • Akureyri - Stæðaæði – Park (ing) Day. Þá fá bílastæði í miðbænum nýtt hlutverk og þeim breytt í reiðhjólastæði og almenningsgarð.

Laugardagur 21. september

 • Mosfellsbær - Íbúar Mosfellsbæjar eru hvattir til að nota sér fjölbreytt úrval hjólastíga til útivistar og samgangna. Vakin athygli á hjóla- og göngustígakortum Mosfellsbæjar á heimasíðu bæjarins og þau höfð aðgengilegt á íþróttamiðstöðvum og víðs vegar um bæ. Athygli vakin á hjólakorti sem sýnir aðal hjólreiðaleiðir á höfuðborgarsvæðinu með samræmdum merkingum og leiðbeiningum.

Sunnudagur 22. september – Bíllausi dagurinn

 • Frítt í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og að venju á Akureyri.
 • Akureyri - Aukavagn keyrir í áætlun dagsins svo strætisvagnar á leið 6 ganga á 30 mínútuna fresti. Þetta er kjörið tækifæri til að ferðast um bæinn á þægilegan hátt, frá morgni til kvölds, án þess að hafa áhyggjur af bílastæðum eða eldsneytiskostnaði. Þá verður boðið upp á bækur og blöð til lestrar í almenningsvögnum bæjarins.
 • 13:00 Bíllausa gangan / Reykjavík Mobility Parade er fjölskylduviðburður og skrúðganga fyrir fjölbreytta ferðamáta um Miklubraut og Hringbraut að Lækjartorgi. Mæting er á Klambratún við horn Lönguhlíðar og Miklubrautar kl. 12:30. Í göngunni verða allir mögulegir fararskjótar aðrir en einkabílar og eru t.a.m gangandi, hlaupandi, hlaupabretti, hjólaskautar, hjól, rafhjól, rafhlaupahjól, nytjahjól, burðarhjól og létt bifhjól innilega velkomin. Samstaða og gleði verður allsráðandi í göngunni og restina reka tveir hljóðlátir raf-Strætóar sem gangandi geta fengið far með. Á Lækjartorgi og Lækjargötu verður margt um að vera. Viðburður verður við gatnamót Bankastrætis og Lækjargötu með ávörpum og tónlist. Hjólaviðgerðir, kynningarstandar, matarvagnar og fleira. Nánari upplýsingar

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira