Hoppa yfir valmynd

Samstarf ríkis og sveitarfélaga

Samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um stafræna þróun hins opinbera var skipuð 12. janúar 2022 og veitti fjármála- og efnahagsráðuneytið nefndinni forystu á hennar fyrsta starfsári, en fulltrúar stjórnsýslustiga skiptast á að vera í forystu. Nefndin er skipuð á grundvelli 5. kafla samkomulags ríkis og sveitarfélaga um afkomu og efnahag sveitarfélaga frá árinu 2020; með vísan í stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera og stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.Nefndin starfar í umboði samstarfsnefndar ríkis og sveitarfélaga (Jónsmessunefndar), sbr. 2. mgr.128 gr. sveitarstjórnarlaga. Jónsmessunefndin skipar fulltrúa í samráðsnefndina samkvæmt tilnefningum, samþykkir árlegar starfsáætlanir hennar og fylgist með framgangi þeirra.

Í 5. kafla samkomulags ríkis og sveitarfélaga um afkomu og efnahag sveitarfélaga er kveðið á um að aukið og nánara samstarf um umbætur í opinberri starfsemi og eflingu stafrænnar þjónustu verði formgert, m.a. í samræmi við þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019 – 2033, sbr. aðgerð 10, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið ber ábyrgð á, um átak til að efla stafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga.

Tiltekið er að áhersla verði lögð á hagnýtingu upplýsingatækniinnviða sem byggðir hafi verið upp og þekkingu á stafrænum lausnum hins opinbera. Haldið verði áfram þróun á miðlægu þjónustugáttinni Ísland.is og sameiginlegu rafrænu pósthólfi á þeim vef þar sem opinberir aðilar sameinist um að birta skjöl til einstaklinga.

Samráðsnefndinni er því annars vegar ætlað að miðla upplýsingum um stafræna þróun milli ráðuneyta og sveitarfélaga til að stuðla að bættri yfirsýn og hagnýtingu stafrænna lausna hins opinbera og hins vegar að styrkja samstarf við veitingu þjónustuferla í gegnum þjónustugáttina Ísland.is. Leitað verður leiða til að tryggja flæði viðeigandi upplýsinga milli stjórnsýslustiga.

Markmið samráðsins er að tryggja heildarsýn og samhæfingu í stefnumótun, þróun og framkvæmd stafrænna málefna hins opinbera og auðvelda aðgengi almennings að opinberri þjónustu. Samráðið skal jafnframt stuðla að betri nýtingu á fjármagni og þekkingu hins opinbera. Í þeim tilgangi verður m.a. leitað eftir sjónarmiðum sveitarfélaganna við stafræna þróun ríkisins.

Skipun og starfshættir

Nefndin er skipuð einum fulltrúa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, einum fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis, einum fulltrúa Verkefnastofu um stafrænt Ísland, einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa Reykjavíkurborgar. Skipar hver framangreindra aðila bæði einn aðal- og varafulltrúa í nefndina.
Fulltrúar ríkis og sveitarfélaga skiptast á að veita nefndinni forystu til 12 mánaða í senn. Samráðsnefndin fundar eins oft og þurfa þykir, skipar undirhópa og kallar til sín sérfræðinga m.a. frá öðrum ráðuneytum eftir þörfum. Nefndin heldur fundargerðir og stendur skil á þeim til Jónsmessunefndar.

Jónsmessunefnd kveður á um skiptingu kostnaðar af störfum samráðsnefndarinnar. Fjármála- og efnahagsráðuneyti leggur nefndinni til starfsmann. Ekki er greidd þóknun fyrir störf í þágu nefndarinnar og standa aðilar hver um sig straum af kostnaði vegna starfa sinna fulltrúa í samráðsnefndinni.

Verkefni

Meginverkefni samráðsnefndarinnar felst í stefnumörkun um samhæfingu og framþróun stafrænna samskipta opinberrar stjórnsýslu.

Helstu áherslur hennar eru eftirfarandi:

  • Aukin samkeppnishæfn
  • Markvissari opinber þjónusta
  • Öruggari innvið
  • Nútímalegra starfsumhverfi

Mælikvarðar

Árangur samráðsins skal mældur með eftirfarandi mælikvörðum

  • Vaxandi nýting íbúa á stafrænum ferlum hins opinbera.
  • nægja íbúa með stafræna opinbera þjónustu
  • Fjöldi sameiginlegra verkefna ríkis og sveitarfélaga á sviði stafrænna umbreytinga.

Samráðið byggir á jafnréttisgrundvelli og felur m.a. í sér vilyrði ríkis og sveitarfélaga til að greiða
aðgengi aðila að samskiptum við undirstofnanir ríkisins og sveitarfélög.
Jónsmessunefnd tekur fyrir ágreiningsmál innan nefndarinnar ef þau koma upp.

Fundargerðir nefndarinnar: Síðast uppfært: 12.1.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira