Hoppa yfir valmynd

Norðurslóðir og Norðurheimskautaráð

Hvað er Norðurskautsráðið?

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 sem vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á norðurslóðum, með virkri þátttöku frumbyggja á svæðinu. Ráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægur samstarfsvettvangur um málefni sjálfbærrar þróunar á svæðinu. Í Norðurskautsráðinu koma saman annað hvert ár utanríkisráðherrar aðildarríkjanna og veita leiðsögn um starfsemi ráðsins. Þess á milli sinnir nefnd embættismanna sem jafnan koma frá utanríkisráðuneytum aðildarríkjanna þessu hlutverki.

Aðildarríki ráðsins eru átta: Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Konungsríkið Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Auk þess eiga sex samtök frumbyggja á norðurslóðum sæti í ráðinu: Alþjóðasamtök Alúta, Norðurslóðaráð Aþabaska, Heimskautaráð Inúíta, Alþjóðaráð Gwich‘in-frumbyggja, Samtök rússneskra frumbyggjaþjóða norðursins og Samaráðið. Þrettán ríki eiga áheyrnaraðild að ráðinu, sem og á þriðja tug alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka.

Starf Norðurskautsráðsins fer að miklu leyti fram innan sex vinnuhópa sem hafa lagt umtalsvert til aukinnar þekkingar á umhverfi, lífríki og samfélögum á norðurslóðum. Þar er jafnframt lagður grundvöllur að stefnumarkandi ráðgjöf. Starf vinnuhópanna snýr að aðgerðum gegn mengun (ACAP), umhverfisvöktun og -mati (AMAP), vörnum og viðbúnaði vegna umhverfisvár (EPPR), lífríkisvernd (CAFF), verndun hafsvæða (PAME) og ýmsu er varðar lífsskilyrði fólks á norðurslóðum (SDWG). Auk vinnuhópa Norðurskautsráðsins eru á hverjum tíma starfræktir tímabundnir starfshópar sem vinna að skýrt skilgreindum verkefnum fyrir Norðurskautsráðið.

Flest ráðuneyti og fjölmargar stofnanir á Íslandi taka þátt í starfsemi Norðurskautsráðsins fyrir Íslands hönd og fer það starf að langmestu leyti fram í vinnu- og starfshópum ráðsins. Sem dæmi má nefna að umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun sinna starfi er snýr að umhverfis- og mengunarvöktun og verndum hafsvæða, Náttúrufræðistofnun annast mál er snúa að lífríki á norðurslóðum, samgönguráðuneyti og Samgöngustofa fást m.a. við siglingar í norðurhöfum og Veðurstofan hefur tekið þátt í samstarfi sem snýr að veðurfari, ís og snjóalögum á svæðinu. Þá taka háskólar á Íslandi virkan þátt í margvíslegu starfi er snýr að málefnum norðurslóða.

Skrifstofur vinnuhóps um verndun lífríkis (CAFF) og vinnuhóps um verndum hafsvæða (PAME) eru á Akureyri. Staðsetningin er í samræmi við norðurslóðastefnu Íslands þar sem áhersla er lögð á að hluti af starfsemi Norðurskautsráðsins fari fram á Íslandi.

Þrír lagalega bindandi samningar hafa verið gerðir á vettvangi Norðurskautsráðsins: Um leit og björgun, um varnir gegn olíumengun, og um eflingu alþjóðlegrar vísindasamvinnu.

Norðurskautsríkin skiptast á formennsku í ráðinu til tveggja ára í senn. Ísland gegnir því hlutverki í annað sinn frá vori 2019, en formennskutímabilinu lýkur með ráðherrafundi í Reykjavík í maí 2021. Samfara formennsku í Norðurskautsráðinu gegnir Ísland formennsku í strandgæsluráði norðurslóða og Efnahagsráði norðurslóða á sama tímabili.

Frekari upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðu Norðurskautsráðsins, arctic-council.org en einnig er hægt er að fylgjast með starfsemi þeirra á Twitter, @ArcticCouncil.

Saman til sjálfbærni á norðurslóðum

Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og alþjóðapólitískt vægi formennskunnar hefur aukist til muna á undanförnum árum. Formennska í ráðinu er veigamikið verkefni. Ísland á ríkra hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun svæðisins og stöðugleika innan þess, enda telst landið allt og stór hluti landhelginnar innan marka norðurslóða.

Formennskan dregur athygli að Íslandi, eykur vægi landsins á alþjóðavettvangi og veitir Íslendingum þannig einstakt tækifæri til að stuðla að því að áherslur okkar á sjálfbæra þróun fái hljómgrunn meðal ríkja og samstarfsaðila ráðsins.

Yfirskrift formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, Saman til sjálfbærni á norðurslóðum,  vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjast samvinnu yfir landamæri. Hún minnir líka á að starf ráðsins hefur frá upphafi snúist öðru fremur um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu.

Þetta hlutverk Norðurskautsráðsins hefur aldrei verið brýnna en nú. Umhverfi norðurslóða tekur örum breytingum. Vegna hlýnandi loftslags hækkar hitastig sjávar, hafís minnkar og jöklar hopa. Miðað við spár vísindamanna má búast við ómældum áhrifum á viðkvæmt vistkerfi lands og sjávar. Um leið gætu breyttar aðstæður leitt til aukinna siglinga og sóknar í náttúruauðlindir.

Sú skörun sem viðfangsefni Norðurskautsráðsins hafa við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið um aðgerðir á sviði loftslagsmála er ótvíræð og því eðlilegt að formennskuáætlun Íslands taki mið af þeim áherslum sem þar eru.

Fyrir þær fjórar milljónir manna sem búa á norðurslóðum er áríðandi að spornað sé við neikvæðum áhrifum þessara breytinga og jafnframt tryggt að þau tækifæri sem í þeim kunna að felast verði nýtt með sjálfbærum hætti. Gæta þarf jafnvægis milli umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta – hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar – eins og lagt er upp með í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Formennska Íslands

Ísland tók formlega við formennskukeflinu af Finnum á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi 7. maí sl. Formennska innan Norðurskautsráðsins er til tveggja ára.

Í formennskutíð Íslands verður byggt á því góða starfi sem unnið hefur verið á vettvangi Norðurskautsráðsins á liðnum árum. Margvíslegum verkefnum vinnuhópanna verður haldið áfram. Auk þess verða ný verkefni kynnt til sögunnar en í starfsáætlun ráðsins fyrir tímabilið 2019-2021 eru talin upp hátt í hundrað verkefni.

Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi beinir íslenska formennskan kastljósinu sérstaklega að þremur áherslusviðum: málefnum hafsins, loftslagsmálum og endurnýjanlegri orku, og fólkinu á norðurslóðum. Auk þess leitast Ísland við að styrkja starfsemi Norðurskautsráðsins enn frekar, jafnt inn á við sem út á við.

Málefni norðurslóða snerta nær alla þætti íslensks samfélags. Fá ríki hafa jafn mikla hagsmuni af hagfelldri þróun á svæðinu, enda telst landið allt og stór hluti efnahagslögsögunnar innan hefðbundinna marka norðurslóða. Íslensk stjórnvöld fagna því tækifæri sem formennska í Norðurskautsráðinu felur í sér til að taka leiðandi þátt í að treysta samvinnu í þágu svæðisins og íbúa þess.

Formennskuáætlun Íslands er unnin í nánu samstarfi fjölmargra aðila, meðal annars innan Stjórnarráðsins, í fræðasamfélaginu og atvinnulífinu. Áætlunin er metnaðarfull enda hefur mikil vinna verið lögð í að inntak hennar endurspegli í senn framsýni og fagmennsku. Á fyrsta ári formennskunnar er ráðgert að fjórir meginfundir Norðurskautsráðsins verði haldnir á Íslandi, víðs vegar um land.

Málefni hafsins

Höf þekja meginhluta þess svæðis sem telst til norðurslóða og talsverður hluti íbúanna byggir afkomu sína á nýtingu auðlinda sjávar. Vegna stöðu Íslands sem eyríkis og mikilvægis sjávarútvegs í íslensku samfélagi er nærtækt að leggja áherslu á málefni hafsins á formennskutímabilinu.

Vinnuhópar Norðurskautsráðsins hafa um árabil unnið mikilvægt starf við að meta ástand hafsins, með tilliti til verndar og nýtingar, og verður því fram haldið.

Vakning hefur orðið á síðustu árum varðandi magn plastúrgangs í höfum heimsins. Norðurskautsráðið hefur unnið frumathugun á umfangi úrgangs í norðurhöfum og á formennskutímabili Íslands verður unnið að mótun áætlunar um aðgerðir til að stemma stigu við þeim vanda. Íslensk stjórnvöld hyggjast efna til alþjóðlegrar vísindaráðstefnu í Reykjavík vorið 2020 þar sem varpað yrði ljósi á eðli og útbreiðslu plastmengunar í sjó, áhrif hennar á lífríkið og mögulegar lausnir. Einnig er til skoðunar að bjóða til ráðherrafundar um málefni hafsins.

Ísland hefur náð miklum árangri í sjálfbærri nýtingu á auðlindum hafsins og hefur um árabil miðlað þekkingu á því sviði. Í samstarfi við fleiri aðildarríki er stefnt að því að hleypa af stokkunum verkefni sem miðar að því að kortleggja sóknarfæri sem felast í bláa lífhagkerfinu á norðurslóðum. Leitast verður við að greina tækifæri til sjálfbærs vaxtar með því að bæta nýtingu á sjávarfangi og ná auknum verðmætum úr aflanum.

Siglingar og haftengd ferðaþjónusta eru vaxandi atvinnugreinar á norðurslóðum og bjóða upp á margvíslega möguleika. Jafnframt kalla aukin umsvif í norðurhöfum á ráðstafanir til að efla mengunarvarnir og getu til leitar og björgunar. Æfingar á grundvelli samninga Norðurskautsríkjanna um leit og björgun og um varnir gegn olíumengun eru haldnar með reglulegu millibili. Landhelgisgæslan tekur þátt í þeim æfingum og er jafnframt aðili að samráðsvettvangi strandgæslustofnana á norðurslóðum þar sem Ísland gegnir formennsku á sama tímabili og í Norðurskautsráðinu.

Loftslagsmál og endurnýjunleg orka

Ummerki um loftslagsbreytingar eru hvergi jafn sýnileg og á norðurslóðum þar sem hækkun hitastigs hefur á síðustu áratugum verið meira en tvöföld á við meðaltalið á heimsvísu

Hlýnun veldur nú þegar áþreifanlegum og víxlverkandi breytingum á náttúrufari. Nefna má hopun íss og snævar, innstreymi ferskvatns til Norður-Íshafsins og súrnun sjávar. Allt hefur þetta áhrif á samfélög og efnahagslíf á svæðinu. Viðbrögð við afleiðingum loftslagsbreytinga eru því brýnt viðfangsefni fyrir Norðurskautsríkin sem hvert fyrir sig grípa til ráðstafana á grundvelli eigin skuldbindinga.

Norðurskautsráðið mun áfram leggja áherslu á vöktun og greiningu, sem og að efla viðnámsþol vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Vinnu sem miðar að því að draga úr losun skammlífra mengunarefna, svo sem sóts og metans, verður haldið áfram. Áheyrnarríki hafa tekið virkan þátt í verkefnum á þessu sviði og vill Ísland hvetja fleiri áheyrnaraðila til þess.

Nýlegt samstarf við Alþjóðaveðurfræðistofnunina mun styrkja grundvöllinn að vinnu Norðurskautsráðsins að loftslagsmálum. Í tengslum við aldarafmæli Veðurstofu Íslands verður sjónum einnig beint að hlýnun loftslags, hopun íss og snævar.

Skipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa eru nauðsynleg eigi að takast að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæði. Á vettvangi Norðurskautsráðsins hefur verið stutt við miðlun þekkingar varðandi hagkvæmar lausnir til orkuskipta í litlum og afskekktum samfélögum á norðurslóðum. Ísland leggur áherslu á að frekari vinna fari fram á þessu sviði.

Fólkið á Norðurslóðum

Á því svæði sem telst til norðurslóða búa alls um fjórar milljónir manna í átta ríkjum. Um tíundi hluti þeirra eru frumbyggjar. Flestir lifa í tiltölulega miklu návígi við náttúruna, eins og raunin er hér á Íslandi, og víða er bæði strjálbýlt og harðbýlt.

Efnahagslíf á norðurslóðum hefur að verulegu leyti byggst á nýtingu náttúruauðlinda, allt frá sjávarfangi, spendýrum og fuglum til olíu, gass og málma. Umhverfisbreytingar orka með margvíslegum hætti á samfélög og lífsafkomu þeirra. Styrkja verður viðnámsþol viðkvæmra byggða í norðri en samfélög frumbyggja eru að ýmsu leyti berskjaldaðri en önnur fyrir þessum breytingum.

Varðveita ber hefðbundna þekkingu á staðháttum og verklagi sem erfst hefur kynslóð frá kynslóð. Á sama tíma þarf að grípa tækifæri sem felast meðal annars í tækniþróun og bættum samgöngum til að renna stoðum undir nýsköpun og fjölbreytta atvinnuvegi, með sjálfbærni samfélaga að leiðarljósi.

Íbúar í fjarlægum og fámennum byggðum á norðurslóðum hafa mikinn hag af því að geta sótt þjónustu í gegnum netið, til að mynda fjarkennslu og heilbrigðisþjónustu. Áreiðanlegar fjarskiptatengingar eru einnig nauðsynlegar fyrir ýmsa atvinnustarfsemi, leit og björgun, og söfnun vísindalegra gagna. Bæði Norðurskautsráðið og Efnahagsráð norðurslóða hafa unnið greiningar á stöðu fjarskiptamála á norðurslóðum og mögulegum lausnum til að bæta tengingar í afskekktum samfélögum og óbyggðum. Vel fer á því að Efnahagsráðið taki leiðandi hlutverk á þessu sviði, í nánu samstarfi við Norðurskautsráðið. Á síðustu árum hefur ferðamennska aukist umtalsvert á norðurslóðum. Í því geta falist miklir möguleikar en gæta verður að því að vöxtur greinarinnar ógni ekki umhverfinu.

Jafnréttismál eru í öndvegi í íslenskri utanríkisstefnu. Í samfélögum þar sem kraftar allra fá að njóta sín skapast best skilyrði fyrir blómstrandi mannlíf og sjálfbæran vöxt. Ísland heldur áfram á formennskutímanum að leiða verkefni um jafnrétti kynjanna á norðurslóðum. Það felst meðal annars í því að byggja upp tengslanet og vettvang til þekkingarmiðlunar og skoðanaskipta. Sjónum verður einnig beint að líðan ungmenna á norðurslóðum.

Öflugra Norðurskautsráð

Ísland mun kappkosta að vera öflugur málsvari norðurslóða og viðhalda þeim góða starfsanda sem ríkt hefur í Norðurskautsráðinu. Náið samráð aðildarríkjanna og fulltrúa frumbyggja er forsenda þess að vel takist til í starfi ráðsins.

Mikilvægt er að hagnýta þekkingu og reynslu frumbyggja og annarra íbúa í norðri og tryggja að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra við stefnumótun og ákvarðanatöku.

Virk þátttaka áheyrnaraðila í ýmsum verkefnum Norðurskautsráðsins sýnir glöggt fram á mikilvægi þeirra. Mörg helstu viðfangsefni ráðsins hafa víðtæka skírskotun í alþjóðlegu samhengi og snerta hagsmuni ríkja í fjarlægum heimshlutum. Ísland mun leitast við að styrkja enn frekar hið öfluga samstarf Norðurskautsríkjanna og áheyrnaraðila.

Ísland leggur einnig áherslu á að efla tengslin milli Norðurskautsráðsins og Efnahagsráðs norðurslóða á grundvelli nýrrar samstarfsyfirlýsingar. Efnahagsráðið er skipað fulltrúum atvinnulífsins og skiptast aðildarríkin á að gegna formennsku með sama hætti og í Norðurskautsráðinu. Í tilefni þess að fimm ár verða liðin frá stofnun Efnahagsráðsins haustið 2019 verður efnt til sameiginlegs fundar ráðanna í Reykjavík.

Utanríkisráðuneytið  á í góðu samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og byggir það samstarf á samningi sem ætlað er að auka markvisst upplýsingagjöf til almennings um málefni norðurslóða. Einnig er unnið náið með Háskólanum á Akureyri, Norðurslóðaneti Íslands, Rannís og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Utanríkisráðuneytið tekur alla jafna virkan þátt í Hringborði norðurslóða auk þess sem íslensk stjórnvöld hafa átt fulltrúa á ráðstefnum Arctic Circle Forum. Utanríkisráðuneytið nýtur einnig góðs af gjöfulu samstarfi við erlendar háskóla- og vísindastofnanir. Árið 2019 gerðu utanríkisráðuneytið og The Arctic Initiative, við Harvard Kennedy-háskólann í Massachusetts í Bandaríkjunum, með sér samkomulag um samstarf í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Í upphafi árs var undirrituð viljayfirlýsing um framhald samstarfs á sviði norðurslóðafræða milli Noregs og Íslands sem felur í sér styrki til norðurslóðarannsókna auk svokallaðrar Nansen gestaprófessorsstöðu við Háskólann á Akureyri. Þá er í gildi samningur á milli utanríkisráðuneytisins og Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi sem felur í komu bandarískra fræðimanna hingað til lands til kennslu og rannsókna á sviði norðurslóðafræða.

Stefna Íslands í málefnum norðurslóða

Málefni norðurslóða eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Þessi áhersla birtist glöggt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar er dregin fram sú sérstaða sem Ísland nýtur sem norðurskautsríki og bent á að auknum siglingum og annarri starfsemi fylgi tækifæri en líka áskoranir gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Hagsmunir Íslands eru gríðarmiklir en augu alþjóðasamfélagsins beinast í sífellt auknum mæli að norðurhjaranum. Í ljósi þess hve margbrotið og viðkvæmt svæði norðurslóðir eru, hvort sem litið er til umhverfis, öryggismála, efnahagslegra eða félagslegra þátta, er mikilvægt að svæðið einkennist áfram af stöðugleika, sjálfbærni og samvinnu.

Stefna Íslands í málefnum norðurslóða á sér stoð í þingsályktun sem samþykkt var samhljóða á Alþingi vorið 2011 og felur í sér tólf megináherslur. Þær lúta m.a. að stöðu Íslands innan svæðisins, mikilvægi Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) og hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmálum, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og öryggis- og viðskiptahagsmunum. Þá er lögð áhersla á grannríkjasamstarf við Færeyjar og Grænland og réttindi frumbyggja. Ráðgert er að hefja endurskoðun stefnu Íslands í málefnum norðurslóða á meðan á formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu stendur.

Síðast uppfært: 5.6.2019 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum