Hoppa yfir valmynd

Almennt um ferlið

Nánar má lesa um verkefnið í skýrslunni:

Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) er afar umfangsmikið utanríkispólitískt verkefni sem snertir með beinum hætti hagsmuni Íslands og annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Mikilvægt er að koma í veg fyrir að útganga Breta valdi því að múrar rísi um þau hindrunarlausu viðskipti sem almenningur í Evrópuríkjunum hefur notið góðs af á síðustu áratugum. Enn er talsverð óvissa um þróun mála og í viðbrögðum einstakra Evrópuríkja kristallast áherslumunur m.a. um framtíðarþróun Evrópusambandsins (ESB) og munu áhrif þessa ná langt út fyrir raðir aðildarríkja ESB. En útganga Breta úr ESB er ekki eingöngu áskorun heldur felast í henni tækifæri ef rétt er á málum haldið. Það er skylda íslenskra stjórnvalda að búa svo um hnútana að hagsmuna þjóðarbúsins sé gætt og leitað sé allra leiða til að grípa þau tækifæri sem útganga Breta úr ESB getur fært.

Allt frá því að ljóst var um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í júní 2016 hefur íslenska stjórnsýslan unnið að því hörðum höndum að kortleggja hagsmuni Íslands með tilliti til útgöngu Bretlands. Þótt enn sé margt óljóst um þróun mála er líklegt að niðurstaða samninga Breta og ESB verði fríverslunarsamningur af nýrri kynslóð slíkra samninga. Þar verður leitast við að brúa bilið milli ákalls um áframhaldandi hindrunarlaus viðskipti annars vegar og sérstöðu Bretlands hins vegar. Margt á eftir að gerast áður en niðurstaða fæst í framtíðarsamninga ESB og Bretlands og á meðan óvissan er svo mikil er mikilvægt að íslensk stjórnvöld sýni frumkvæði í því að gæta hagsmuna sinna vegna viðskiptanna við Bretland sem er meðal allra mikilvægustu markaðssvæða Íslands. Frá upphafi hafa stjórnvöld sett fram þrjár skýrar sviðsmyndir sem stjórnsýslan vinnur eftir:

  • að gerður verði djúpur og víðfeðmur efnahags- og samstarfssamningur við Bretland sem undirstrikar náin tengsl landanna á helstu sviðum
  • að EFTA-ríkin fjögur (Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss) eða EFTA-ríkin þrjú innan EES (EFTA-ríkin utan Sviss) semji í sameiningu við Bretland þegar það á við og samræmist hagsmunum Íslands
  • að samningur við Bretland taki mið af samningum ESB og Bretlands þegar það á við og samræmist hagsmunum Íslands

Hafa skal í huga að hver þessara leiða útilokar ekki aðra. Á sumum sviðum gæti þannig verið æskilegt að gera sameiginlegan samning með hinum EFTA-ríkjunum innan EES sem endurspeglar samning Bretlands og ESB. Á öðrum sviðum gæti aftur á móti verið ákjósanlegt að gera tvíhliða samning á milli Íslands og Bretlands. Greina þarf vel hvert svið fyrir sig til að meta hvaða leið er best. Óháð því hvaða leið verður farin er ljóst að með útgöngu Bretlands úr ESB verður vendipunktur í samskiptum Íslands og Bretlands. Viðskipta- og efnahagssamstarfið hefur á síðustu 23 árum nær alfarið byggst á EES-samningnum og nú stendur Bretland ásamt samstarfslöndum frammi fyrir því að móta samskiptin á nýjum grunni. Þetta felur í sér tækifæri og möguleika til að þróa áfram samskiptin milli Íslands og Bretlands, báðum löndum til hagsbóta. Bretland er ekki aðeins nágrannaríki Íslands í Atlantshafinu heldur eitt stærsta hagkerfi heims og viðskiptaveldi sem hefur metnað til að ryðja brautina í alþjóðlegri fríverslun.

Ísland er með útflutningsdrifið og opið hagkerfi og deilir sameiginlegum hagsmunum með Bretlandi á mörgum sviðum. Því skiptir miklu máli að nýta vel þau sóknarfæri sem þessar breytingar skapa og varðveita núverandi samband. Íslensk stjórnvöld verða að undirbúa viðræður við Bretland af kostgæfni og í nánu samráði við hagsmunaaðila og Alþingi.
 
Náin tengsl eru á milli Íslands og Bretlands. Bretland er meðal mikilvægustu markaða fyrir íslenskar útflutningsvörur, yfir 2000 Íslendingar búa á Bretlandseyjum og Bretar eru annar fjölmennasti hópur ferðamanna á Íslandi, svo fátt eitt sé nefnt. Það er því forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda að tryggja að tengsl Íslands og Bretlands verði áfram sterk og að íslenskir aðilar hafi greiðan aðgang að Bretlandi og breskum mörkuðum eins og þeir njóta í dag í krafti EES-samningsins og annarra samninga Íslands við ESB. Enn fremur verður horft til þess að bæta aðgang að breskum mörkuðum þar sem þess er kostur. Þá er mikilvægt að huga að réttindum íslenskra borgara sem búa á Bretlandseyjum. 

Að nýta tækifærin sem best

Í grófum dráttum má segja að verkefnið sé tvíþætt. Annars vegar að tryggja sem minnsta röskun í samskiptum við Bretland, sérstaklega á þeim sviðum sem undir EES-samninginn heyra, og hins vegar að skilgreina hvernig framtíðarskipan samskipta Íslands og Bretlands verði best háttað í þágu íslenskra og breskra borgara og fyrirtækja.

Að tryggja að samskipti milli Íslands og Bretlands verði snurðulaus er stórt verkefni en úrsögnin felur jafnframt í sér tækifæri á þeim sviðum sem samningar ESB hafa gilt um samskiptin. Jafnvel þótt EES- samningurinn feli í sér góð viðskiptakjör fyrir útflutning til Bretlands og að stærstur hluti íslensks útflutnings til Bretlands njóti annað hvort tollfrelsis eða tollaívilnana þá tryggir EES-samningurinn ekki fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir. Á viðskiptasviðinu er því ljóst að með úrsögn Breta úr ESB skapast nýtt tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helstu afurðir inn til Bretlands og ESB með lægri tollum. Markmiðið á að vera að tryggja neytendum og fyrirtækjum viðskiptakjör sem endurspegla þarfir þeirra í dag og framtíðarsýn fyrir næstu ár.

Að sama skapi eru fólgin tækifæri í sýn Breta um aukna fríverslun á heimsvísu. Hagvöxtur næstu ára mun að miklu leyti verða til á nýmörkuðum – eftirspurn eftir íslenskum og breskum vörum á heimsvísu mun aukast utan kjarnamarkaðanna í Evrópu. Um leið og við verðum að passa upp á þessa kjarnamarkaði verðum við að vera vakandi fyrir tækifærum. Íslendingar búa nú við opið útflutningshagkerfi en þekkja þó vel hvaða afleiðingar verndarhyggja í viðskiptamálum getur haft. Í því sambandi er rétt að minna á að þegar erlendir markaðir hafa lokast vegna stríðsátaka þá hafa Bretar opnað markaði sína svo Ísland geti komið vörum sínum á erlenda markaði – báðum til hagsbóta. Í stefnu Bretlands felast tækifæri til samstarfs í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi – á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar – og í gerð fríverslunarsamninga þar sem Bretland mun láta til sín taka.

Útganga Bretlands úr ESB mun hafa víðtæk áhrif sem ná einnig út fyrir málefnasvið EES-samningsins. Einnig er brýnt að hafa í huga að farsælt samstarf ríkja á milli á öðrum vettvangi hefur bein og óbein áhrif á viðskiptalega hagsmuni. Í þessu samhengi má til dæmis nefna stjórnun fiskveiða og samstarf á sviði sjávarútvegsmála, samstarf Evrópuríkja á sviði löggæslu- og dómsmála og öryggis- og varnarmála og í sumum tilvikum getur útganga Bretlands leitt til breytinga í samskiptum ríkja í Evrópu, falið í sér ný viðfangsefni og skapað tækifæri til að styrkja enn frekar samskipti Íslands og Bretlands.

Íslendingar hafa ríkan skilning á því að Bretar kjósi að taka sjávarútvegsmálefni aftur í sínar hendur eftir að sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB sleppir. Íslenskur sjávarútvegur hefur áratuga reynslu af sjálfbærum fiskveiðum, byggður á vísindaráðgjöf og eftir að Bretland gengur úr ESB, munu bresk stjórnvöld skipuleggja eigið fiskveiðistjórnunarkerfi. Ísland vill gjarnan miðla áratuga reynslu sinni og saman geta Ísland og Bretland orðið talsmenn sjálfbærra fiskveiða, talað gegn ríkisstyrkjum í sjávarútvegi og sótt fram í fríverslun með sjávarafurðir á heimsvísu. Í þessu samhengi er einnig vert að nefna mikilvægi norðurslóða sem fer vaxandi, ekki síst með opnun norðaustur siglingaleiðarinnar. Þetta getur kallað á aukna samvinnu í leit og björgun milli Bretlands og Íslands, í samstarfi við önnur ríki á svæðinu. Þá eru einnig tækifæri í auknu samstarfi á sviði lögreglusamstarf og innra öryggis, m.a. í baráttunni gegn öfgahyggju og hryðjuverkum. Þá má nefna samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Bæði ríkin eru stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og er vilji til þess meðal beggja að efla samstarf landanna með sérstakri áherslu á Norður-Atlantshafið.
Íslensk stjórnvöld munu leggja áherslu á gott samstarf við Breta í tengslum við loftslagsmál og endurnýjanlega orku. Ísland og Bretland eru bæði í þeim flokki ríkja sem styðja metnaðarfull markmið til að draga úr loftslagsbreytingum og mikil tækifæri eru til samstarfs til framtíðar. Í þessu sambandi gætu ríkin haft sameiginlegan hag af þróun endurnýjanlegra orkugjafa. Þar er svigrúm til að auka samstarf, m.a. með því að deila reynslu og þekkingu sérfræðinga og fyrirtækja.

Leiðin fram á við

Til þess að nýta megi þetta tækifæri til fullnustu er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld mæti vel undirbúin til leiks þegar kemur að viðræðum um framtíðarskipan samskipta Íslands og Bretlands. Fyrsta skrefið í þeim undirbúningi er að greina samskipti Íslands og Bretlands í dag og hvernig þau kunna að breytast við það að Bretland verði ekki lengur aðildarríki ESB. Samskipti Íslands við Bretland á þeim sviðum sem falla undir ESB byggjast í dag á þeim samningum við Evrópusambandið sem Ísland á aðild að. Þar ber vitaskuld hæst samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn). Úrsögn Bretlands úr ESB mun fela í sér að Bretland verður ekki lengur aðili að EES-samningnum. Því er mikilvægt að greina nánar þann aðgang sem EES-samningurinn tryggir að breskum mörkuðum og hvers konar umgjörð hann setur um samskipti Íslands og Bretlands.
 
Á þessu stigi ríkir talsverð óvissa um hvernig framtíðarsamskiptum Bretlands og ESB verður háttað sem aftur leiðir til þess að erfitt er að fullyrða um hvert verði fyrirkomulag samskipta Íslands við Bretland á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til. 

Skilvirkt samráð á alþjóðavettvangi

Tíð samskipti hafa átt sér stað milli Íslands og Bretlands frá því niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu Bretlands úr ESB lágu fyrir enda hefur áhersla íslenskra stjórnvalda verið á að virkja náið samstarf ríkjanna tveggja með það fyrir augum að tryggja hagsmuni. Málefni Brexit og markmið Íslands í því samhengi hafa þannig verið til umræðu á nánast öllum fundum utanríkisráðherra Íslands með breskum starfsbræðrum og systrum frá júní 2016. Megináherslan hefur verið á að halda á lofti hversu mikilvægur breski markaðurinn er fyrir íslenska útflutningshagsmuni, þeim ríka samhljómi sem er í utanríkisviðskiptastefnu Íslands og Bretlands og mikilvægi þess að fyrirbyggja rof í viðskiptum. Þá hefur verið stofnað til formlegs samráðs embættismanna EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands þar sem tíð samskipti  eiga sér stað. Náið samtarf er á milli EFTA-ríkjanna innan EES og reglulegt samráð er haft við ESB og aðildarríki þess. 

Skipulag og næstu skref

Á vettvangi ríkisstjórnar Íslands er að störfum sérstök Brexit-ráðherranefnd sem hefur yfirumsjón með undirbúningi að framtíðarsamskiptum Íslands og Bretlands. Þá var nefnd ráðuneytisstjóra komið á laggirnar um leið og niðurstaða þjóðaratkvæðisins lá fyrir enda hefur Brexit áhrif á málaflokka í öllum ráðuneytum. Utanríkisráðuneytið leiðir stýrihóp sem hefur á sínum snærum fimm öfluga vinnuhópa og í honum sitja fulltrúar utanríkisráðuneytisins og fagráðuneyta. Á þeim vettvangi á sér stað mikið samráð við hagsmunaaðila víðs vegar í íslensku samfélagi og sú vinna mun halda áfram uns framtíðarfyrirkomulag er í höfn. Stýrihópur og vinnuhópar utanríkisráðuneytisins halda jafnframt utan um samskipti við erlenda aðila, hvort sem um er að ræða fulltrúa breskra stjórnvalda, fulltrúa hinna EFTA-ríkjanna eða fulltrúa ESB-ríkjanna og stofnana ESB, með fulltingi sendiráða Íslands í London, Brussel og Ósló og fastanefnd Íslands gagnvart EFTA í Genf. Þá hefur utanríkismálanefnd Alþingis verið gerð grein fyrir stöðu mála með reglulegum hætti og því verður fram haldið.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira