Hoppa yfir valmynd

Framtíðarsamningar við Bretland

Engin marktæk breyting mun verða á samskiptum Íslands og Bretlands á þessu ári heldur byggjast þau áfram á samningum Íslands við ESB. Þótt möguleiki sé á allt að tveggja ára framlengingu aðlögunartímabilsins stefna Bretar að fullum aðskilnaði frá ESB í lok ársins.

Um leið og undirbúningur hófst árið 2017 fyrir viðræður um framtíðarsamband við Bretland settu íslensk stjórnvöld fram þrjú skýr markmið: 

  • að gerður verði djúpur og víðfeðmur efnahags- og samstarfssamningur við Bretland sem undirstrikar náin tengsl landanna á helstu sviðum
  • að EFTA-ríkin fjögur (Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss) eða EFTA-ríkin þrjú innan EES (EFTA-ríkin utan Sviss) semji í sameiningu við Bretland þegar það á við og samræmist hagsmunum Íslands
  • að samningur við Bretland taki mið af samningum ESB og Bretlands þegar það á við og samræmist hagsmunum Íslands

Í desember s.l. skipaði utanríkisráðherra aðalsamningamann og samninganefnd sem falið hefur verið það hlutverk að skilgreina samningsmarkmið og leiða viðræður af Íslands hálfu um framtíðarsamband við Bretland eftir brotthvarf þess úr EES-samningum. Ljóst er að framtíðarviðræður munu snerta svið sem falla undir öll ráðuneyti og náin samvinna á milli þeirra því mjög mikilvæg. Þeir vinnuhópar sem skipaðir voru vegna útgöngunnar og sem í eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta halda áfram störfum. Samninganefndin getur þannig dregið á sérfræðiþekkingu og stuðning þeirra í framtíðarviðræðum við Bretland. Nefndin starfar í umboði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra en umsjón og umsýsla viðræðnanna verður á verksviði viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Nánari upplýsingar um samninganefndina og vinnuhópana má finna í kaflanum „Skipulag."

Framtíðarfyrirkomulag viðskipta og annarrar samvinnu á milli Íslands og Bretlands kemur til með að byggjast á víðtækum fríverslunarsamningi með mögulegum viðbótarsamningum á sviðum sem ekki er venjulega samið um í fríverslunarviðræðum. Í fríverslunarsamningi verður m.a. samið um markaðsaðgang fyrir vöruviðskipti, þjónustuviðskipti og fjárfestingu og opinber innkaup. Samningurinn mun jafnframt innihalda ákvæði um upprunareglur og tollamál, tæknilega staðla og reglur um plöntu og dýraheilbrigði, hugverkaréttindi, sjálfbæra þróun og vinnuréttarmál. Jafnframt þessu leggur Ísland m.a. áherslu á að ræða málefni sem varða sjávarútvegsmál, búsetu- og atvinnuréttindi, námsréttindi og skólagjöld, rannsóknir og menntun, loftferðir, reikigjöld og samstarf á sviði lögreglumála og tollgæslu.

Utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra hefur kynnt ríkisstjórninni fyrstu samningsmarkmið Íslands fyrir framtíðarviðræðurnar. Þau byggja á fyrirliggjandi undirbúningsvinnu og samráði við hagsmunaaðila, önnur ráðuneyti og viðkomandi stofnanir. Samráð við Alþingi, ráðuneyti, viðkomandi stofnanir og hagsmunaaðila verður áfram forgangsatriði í komandi viðræðum. 

Þann 3. febrúar birti Breska ríkisstjórnin samningsmarkmið sín fyrir viðræður við Evrópusambandið. Þar er stiklað á stóru en fram kemur að líklega verði um að ræða fleiri samninga en einn. Víðtækur fríverslunarsamningur verði gerður sem myndi ná yfir öll svið viðskipta. Er í því sambandi vísað til fríverslunarsamnings Evrópusambandsins og Kanada sem mögulegrar fyrirmyndar. Þar að auki verði gerðir samningar um fiskveiðar, samningar um loftferðir og samvinnu á sviði kjarnorkumála. Sameiginlegri stofnanauppbyggingu verði komið á fót fyrir samninga af þessu tagi auk sjálfstæðs ferils til lausnar deilumála á milli aðila. Jafnframt kemur fram að koma þurfi á fót samvinnu vegna innflytjendamála, samkeppnismála, ríkisstyrkja, umhverfismála, félagsmála og vernd persónuupplýsinga. Breska ríkisstjórnin sér þó ekki fyrir sér sameiginlegt stofnanakerfi eða ákvæði um lausn deilumála vegna þessara málaflokka. Sérstaklega er tekið fram í samningsmarkmiðunum að sambærileg sjónarmið eigi við fyrir samningaviðræður við EFTA ríkin.

Drög að samningsmarkmiðum Evrópusambandsins voru jafnframt birt þann 3. febrúar s.l. Samningsmarkmið ESB eru mun ítarlegri og þar er lagt upp með einn samning sem á að ná yfir öll svið samstarfsins. ESB skiptir mögulegum framtíðarsamningi niður í þrjú megin svið: (a) almenn ákvæði um grunngildi, meginreglur og stofnanauppbyggingu, (b) efnahagslegar ráðstafanir sem myndu ná yfir viðskipti og jöfn samkeppnisskilyrði, og (c) ákvæði um öryggismál á sviði löggæslu, samstarfs á sviði dómsmála, utanríkismál og öryggis og varnarmál.

Í megindráttum er nokkur samhljómur á milli samningsmarkmiða Evrópusambandsins og Bretlands. Báðir aðilar virðast stefna að nánu efnahagslegu samstarfi og yfirgripsmiklum fríverslunarsamningi en á sama tíma mun Bretland ganga út úr innri markaðnum.

Íslensk stjórnvöld hafa átt í nánum samskiptum við fulltrúa bresku ríkisstjórnarinnar, við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem og EFTA-ríkin og þá sérstaklega EFTA-ríkin innan EES varðandi undirbúning viðræðna. Sendiráð Íslands í London og Brussel hafa þjónað mikilvægu hlutverki í þessu sambandi og munu gera það áfram í samningaviðræðunum.

Mögulegt er að vegna EES-samningsins komi atriði í samningum Bretlands og ESB til með að hafa bein áhrif á efni samnings Íslands og Bretlands. Ísland hefur því lagt áherslu á að samningaviðræður Íslands og Bretlands, og eftir atvikum hinna EFTA- ríkjanna innan EES, fari fram samhliða viðræðum Bretlands og ESB og hafa bresk stjórnvöld staðfest að svo verði.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira