Hoppa yfir valmynd

Framtíðarsamningar við Bretland

Samningaviðræður Íslands og Bretlands um framtíðarsamband ríkjanna standa nú yfir og munu nýjir samningar leysa af hólmi EES-samninginn og aðra samninga Íslands við ESB í samskiptum Íslands og Bretlands 31. desember 2020 þegar aðlögunartímabilinu lýkur. Samningaviðræðurnar eru afar umfangsmiklar og skiptast í megindráttum í tvennt - fríverslunarviðræður og  viðræður um önnur mál sem falla utan hefðbundins fríverslunarsamnings. Ísland semur ásamt hinum EFTA-ríkjunum innan EES, Noregi og Liechtenstein, um víðtækan fríverslunarsamning við Bretland.Viðræðurnar taka m.a. á markaðsaðgangi fyrir vörur, þjónustu og fjárfestingu. Samningurinn mun jafnframt innihalda ákvæði um upprunareglur og tollamál, tæknilega staðla og reglur um dýraheilbrigði, hugverkaréttindi og sjálfbæra þróun.  Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur kynnt ríkisstjórninni samningsmarkmið Íslands fyrir framtíðarviðræðurnar. Þau byggja á fyrirliggjandi undirbúningsvinnu og samráði við hagsmunaaðila, önnur ráðuneyti og viðkomandi stofnanir.

Samningsaðilar vinna nú hörðum höndum að því að ljúka viðræðum svo að nýr fríverslunarsamningur geti tekið gildi við lok ársins 2020 þegar aðlögunartímabilinu lýkur. Sá möguleiki er þó fyrir hendi að aðlögunartímabilinu ljúki áður en nýr framtíðarsamningur hefur tekið gildi. Komi til þess er stefnt að því að bráðabirgða fríverslunarsamningur sem Ísland og Noregur gerðu við Bretland geti tryggt kjarnahagsmuni Íslands þar til viðræðum um víðtækari framtíðarsamning er lokið. Bráðabirgðasamningurinn kveður á um að núverandi tollkjör myndu í grundvallaratriðum halda áfram að gilda fyrir inn- og útflutning til og frá Bretlandi þar til samið hefur verið um nýjan og viðameiri fríverslunarsamning á milli ríkjanna. Þó að samningurinn hafi upprunalega verið gerður vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings væri mögulegt að beita honum til að brúa bilið eftir lok aðlögunartímabilsins verði viðræðum um yfirgripsmeiri fríverslunarsamning ekki lokið í tæka tíð. 

Hér er því um að ræða tvær mögulegar sviðsmyndir. Annars vegar að nýr fríverslunarsamningur taki gildi um áramót og hins vegar að bráðabirgðafríverslunarsamningur um vöruviðskipti taki gildi um áramót með minniháttar breytingum komi samningsaðilar  sér saman um það. Bráðabirgðasamningurinn myndi gilda tímabundið þangað til nýr fríverslunarsamningur tæki gildi. Í báðum tilvikum myndi inn- og útflutningshagsmunir íslenskra fyrirtækja verða tryggðir þegar kemur að álagningu tolla, þ.e. að álagðir tollar í inn- og útflutningi myndu a.m.k. vera þeir sömu og þeir eru í dag undir EES-samningnum.    

Viðræður um framtíðarsamband við Bretland á öðrum sviðum

Í viðræðum um önnur mál sem falla utan fríverslunarviðræðna liggur þegar fyrir loftferðasamningur á milli Íslands og Bretlands sem tekur gildi í lok árs 2020 og hafa áframhaldandi lendingarréttindi því verið tryggð. Þá eru íslensk stjórnvöld að ræða við Bretland um framtíðarsamstarf ríkjanna á mikilvægum sviðum á borð við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, dvalarleyfi, rannsóknir og menntun, flugöryggismál, sjávarútvegsmál, gagnkvæma viðurkenningu á ökuskírteinum og innra öryggi. Unnið er að því að ljúka viðræðum eins fljótt og auðið er en niðurstöður flestra þeirra munu þó að öllum líkindum ekki liggja fyrir fyrr en 2021.

Nánar um samningsmarkmið Bretlands og ESB

Þann 3. febrúar birti Breska ríkisstjórnin samningsmarkmið sín fyrir viðræður við Evrópusambandið. Þar er stiklað á stóru en fram kemur að líklega verði um að ræða fleiri samninga en einn. Víðtækur fríverslunarsamningur verði gerður sem myndi ná yfir öll svið viðskipta. Er í því sambandi vísað til fríverslunarsamnings Evrópusambandsins og Kanada sem mögulegrar fyrirmyndar. Þar að auki verði gerðir samningar um fiskveiðar, samningar um loftferðir og samvinnu á sviði kjarnorkumála. Sameiginlegri stofnanauppbyggingu verði komið á fót fyrir samninga af þessu tagi auk sjálfstæðs ferils til lausnar deilumála á milli aðila. Jafnframt kemur fram að koma þurfi á fót samvinnu vegna innflytjendamála, samkeppnismála, ríkisstyrkja, umhverfismála, félagsmála og vernd persónuupplýsinga. Breska ríkisstjórnin sér þó ekki fyrir sér sameiginlegt stofnanakerfi eða ákvæði um lausn deilumála vegna þessara málaflokka. Sérstaklega er tekið fram í samningsmarkmiðunum að sambærileg sjónarmið eigi við fyrir samningaviðræður við EFTA ríkin.

Drög að samningsmarkmiðum Evrópusambandsins voru jafnframt birt þann 3. febrúar s.l. Samningsmarkmið ESB eru mun ítarlegri og þar er lagt upp með einn samning sem á að ná yfir öll svið samstarfsins. ESB skiptir mögulegum framtíðarsamningi niður í þrjú megin svið: (a) almenn ákvæði um grunngildi, meginreglur og stofnanauppbyggingu, (b) efnahagslegar ráðstafanir sem myndu ná yfir viðskipti og jöfn samkeppnisskilyrði, og (c) ákvæði um öryggismál á sviði löggæslu, samstarfs á sviði dómsmála, utanríkismál og öryggis og varnarmál.

Í megindráttum er nokkur samhljómur á milli samningsmarkmiða Evrópusambandsins og Bretlands. Báðir aðilar stefna að nánu efnahagslegu samstarfi og yfirgripsmiklum fríverslunarsamningi en á sama tíma mun Bretland ganga út úr innri markaðnum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira