Hoppa yfir valmynd

Greining hagsmuna - helstu niðurstöður skýrslu

Nánar má lesa um niðurstöður í skýrslunni sem var gefin út í nóvember 2017:

Markaðsaðgangur

Markaðsaðgangur (þ.e.a.s. tollaumhverfi) í vöruviðskiptum á milli Íslands og Bretlands byggist nú á ákvæðum EES-samningsins, fríverslunarsamningi Íslands við ESB frá 1972 og samningi Íslands við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. EES-samningurinn felur í sér fullt afnám tolla á iðnaðarvörum. Verði ekki samið um fríverslun með iðnaðarvörur færu viðskipti fram samkvæmt þeirri almennu tollskrá sem Bretland kann að setja sér, þ.e. á svokölluðum WTO-kjörum. Tollar við innflutning sjávarafurða til ríkja ESB, þ.m.t. Bretlands, eru misháir eftir því um hvers kyns afurð er að ræða og hvernig hún er unnin. Við úrsögn Bretlands úr ESB mun Ísland að óbreyttu glata núverandi markaðsaðgangi fyrir sjávarafurðir þar en tryggja mætti áframhaldandi greiðan markaðsaðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir til Bretlands með gerð hagfellds fríverslunarsamnings. Slíkur samningur gæti jafnvel skapað tækifæri fyrir enn greiðari aðgang en nú er með því að tollar féllu einnig niður af afurðum, sem nú bera toll, inn til ESB. Þá er Bretland mikilvægur markaður fyrir útflutning á íslenskum landbúnaðarvörum. Í samningi við ESB frá 2007 og nýjum samningi frá 2015, sem áætlað er að taki gildi 2018, var m.a. samið um umtalsverða tollkvóta fyrir kindakjöt skyr og smjör. Ákjósanlegt er að tryggja einnig hagstætt viðskiptaumhverfi á milli Íslands og Bretlands fyrir slíkar vörur eftir útgöngu Breta úr ESB.

Matvælaöryggi

Ákvæði EES-samningsins um matvælaöryggi gilda um inn- og útflutning matvæla frá Íslandi, þ.m.t. útflutning til Bretlands. Mikilvægt er að tryggja að útganga Bretlands leiði ekki til nýrra hindrana á viðskiptum með matvæli á milli landanna tveggja.

Tæknilegar kröfur og staðlar

Reglur EES-samningsins um tæknilegar kröfur og staðla fela í sér að almennt er litið svo á að vörur sem framleiddar eru í einu EES-ríki uppfylli þær tæknilegu kröfur og staðla sem gerðar eru í öðru ríki. Við útgöngu Bretlands tækju ákvæði EES-samningsins hins vegar ekki til vara sem framleiddar eru í Bretland og því væri hvorki hægt að ganga út frá því að vörur sem framleiddar væru í Bretlandi uppfylltu kröfur hér á landi né að vörur sem framleiddar eru hér á landi uppfylltu breskar kröfur. Er því mikilvægt að tryggja að útganga Bretlands torveldi hvorki útflutning á vörum til Bretlands né innflutning frá Bretlandi á vörum sem framleiddar eru þar í landi. Lyf framleidd í Bretlandi yrðu til dæmis að óbreyttu að fá markaðsleyfi frá öðru EES-ríki eða frá Lyfjastofnun Evrópu áður en heimilt yrði að flytja þau til Íslands.

Orkumál

Reglur EES-samningsins um orkumál fela í sér sameiginlegar reglur um raforkuviðskipti á milli EES-ríkjanna. Sem stendur eru ekki bein viðskipti með raforku milli Íslands og Bretlands eða annarra Evrópuríkja en ef áform um hugsanlegan sæstreng á milli Íslands og Bretlands yrðu að veruleika væri mikilvægt að fyrir hendi væri sambærilegur lagarammi ef tengja ætti raforkukerfi landanna saman.

Frjáls för fólks

Ákvæði EES-samningsins tryggir íslenskum ríkisborgurum rétt til frjálsrar farar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Að óbreyttu falla því niður réttindi íslenskra ríkisborgara til þess að leita sér atvinnu í Bretlandi án þess að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi, einnig réttindi þeirra til að taka fjölskyldur sínar með sér. Sömu sögu er að segja um réttindi námsmanna til að dvelja í Bretland vegna náms án dvalarleyfis. Þá mundu sambærileg réttindi breskra ríkisborgara hér á landi falla niður.

Almannatryggingar

Ákvæði EES-samningsins um almannatryggingar mæla fyrir um aðgengi ríkisborgara aðildarríkjanna og fjölskyldna þeirra að almannatryggingum, tryggingavernd og um réttindi og skyldur þegar farið er á milli ríkja innan EES til starfa, náms eða búsetu. Við útgöngu Bretlands úr ESB munu þessi ákvæði EES-samningsins ekki gilda milli Íslands og Bretlands nema samið verði um annað. Þetta á t.d. við um rétt íslenskra ferðamanna til aðstoðar vegna veikinda eða slysa hjá heilbrigðisþjónustu hins opinbera í Bretlandi og öfugt, og um rétt lífeyrisþega til að fá lífeyri greiddan þótt þeir séu búsettir í Bretlandi. Þetta á einnig við um rétt til að nota tryggingartímabil frá Bretlandi til að fullnægja skilyrðum fyrir tryggingavernd hér á landi sem og reglur sem undanþiggja útsenda starfsmenn sem sendir eru til starfa tímabundið í Bretlandi og vinnuveitendur þeirra frá greiðslu gjalda til opinbera tryggingakerfisins þar. Sama á við um útsenda starfsmenn frá Bretlandi til Íslands.

Gagnkvæm viðurkenning á faglegri menntun og hæfi

Við útgöngu Bretlands úr ESB myndu reglur EES-samningsins um gagnkvæma viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, t.d. viðurkenningu á sérnámi í læknisfræði, ekki gilda. Það sama á við um aðrar stéttir eins og hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, lyfjafræðinga, dýralækna, tannlækna og arkitekta. Huga þarf að réttindum þeirra íslensku ríkisborgara sem þegar dvelja, hafa dvalið eða munu dvelja í Bretlandi í kjölfar Brexit, sérstaklega varðandi rétt til atvinnu, dvalar, almannatrygginga og gagnkvæmrar viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi.

Fjármálaþjónusta

Samkvæmt reglum EES-samningsins um fjármálaþjónustu er fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi í EES-ríki, þ.m.t. Bretlandi og Íslandi, almennt kleift að veita þjónustu innan EES (stofnun fyrirtækja, útibúa eða veiting þjónustu yfir landamæri á grundvelli tilkynningar (e. passporting)). Aðgangur fjármálafyrirtækja utan EES að innri markaðinum er í ýmsum tilvikum háður því að unnt sé að sýna fram á að reglur og eftirlit í viðkomandi þriðja ríki uppfylli kröfur Evrópureglna sem gilda um starfsemina (séu „jafngildar“). Löggjöf í Bretlandi um fjármálaþjónustu byggist, eins og er á Evrópureglum. Sú staðreynd kann að greiða fyrir slíkum ákvörðunum um jafngildi þar sem þær er/verður að finna í Evrópulöggjöf en engin trygging er fyrir slíku til framtíðar. Standi Bretland alfarið utan innri markaðar ESB má gera ráð fyrir að íslensk fyrirtæki á fjármálamarkaði þurfi að sækja um sjálfstætt starfsleyfi í Bretlandi. Komi jafnframt til þess að bresk fjármálafyrirtæki geti ekki reitt sig á ákvæði Evrópulöggjafar sem kveða á um jafngildi þriðju ríkja, og sé ekki um annað samið, standa líkur til þess að þau þurfi að sækja um starfsleyfi innan EES til þess að þeim sé unnt að veita þar fjármálaþjónustu. Ýmis starfsemi fjármálafyrirtækja er á milli landanna tveggja. Þannig hafa íslensk fjármálafyrirtæki tilkynnt um þjónustu í Bretlandi og að sama skapi hafa bresk fyrirtæki tilkynnt um þjónustu hér. Bresk fyrirtæki hafa þá umtalsverða starf17 semi á vátryggingamarkaðnum hér á landi. Hagsmunir felast í því að bresk fyrirtæki geti áfram boðið íslenskum aðilum slíka þjónustu, og íslensk fjármálafyrirtæki geti áfram, og til framtíðar, boðið breskum aðilum fjármálaþjónustu, s.s. verðbréfaþjónustu og á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar. Huga verður þá að vaxandi mikilvægi starfsemi s.k. fjártæknifyrirtækja (e. fintech). Þá er mikilvægt að íslenskir aðilar geti áfram sótt fjármálaþjónustu til Bretlands, t.d. fara fjárfestingar lífeyrissjóðanna oft á tíðum fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja í Bretlandi og fjárvarsla vegna erlendrar verðbréfaeignar lífeyrissjóða er að hluta framkvæmd af fyrirtækjum í Bretlandi. Einhverjir hagsmunir kunna þá að vera fólgnir í samræmdu Evrópuregluverki á sviði fjármálaeftirlits sem og skila- og slitameðferðar fjármálafyrirtækja á milli landa.

Þjónusta og staðfesturéttur

Ákvæði EES-samningsins um þjónustu og staðfesturétt fela í sér afnám allra hindrana sem standa í vegi fyrir því að þjónustuaðili geti öðlast rétt til staðfestu í hvaða EES-ríki sem er og veitt þjónustu í þeim ríkjum. Í þeim er enn fremur mælt fyrir um einföldun stjórnsýsluferla og leyfisskilyrða til þess að geta notið þessara réttinda. Í dag er víða mælt fyrir um í íslenskum lögum að til að geta stundað tiltekna starfsemi verði forsvarsmaður/stofnandi starfseminnar að vera EES-borgari. Semja mætti um sambærileg gagnkvæm réttindi við Bretland.

Fjarskipti og póstþjónusta

Reglur EES-samningsins um fjarskipti og póstþjónustu fela fyrst og fremst í sér samræmingu á löggjöf á innanlandsmarkaði í hverju EES-ríki fyrir sig og mun úrsögn Bretlands almennt hafa lítil áhrif varðandi fjarskipti- og póstþjónustu hér á landi. Samkvæmt íslenskum lögum er öllum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar heimilt að starfa á sviði fjarskipta hér á landi. Hins vegar hafa reikigjöld verið afnumin innan EES og kann útganga Bretlands að þýða að fjarskiptafyrirtæki þar í landi verði yrðu ekki lengur bundin af því hámarksverði sem mælt er fyrir um í EES-samningnum og að sama skapi yrðu fjarskiptafyrirtæki innan EES ekki lengur bundin af því að veita breskum fjarskiptafyrirtækjum reikiþjónustu á þessum kjörum.

Frjáls för fjármagns

Reglur um frjálsa för fjármagns milli Íslands og Bretlands byggja á reglum EES-samningsins. Ljóst er að eftir útgöngu Breta úr ESB að þeir verða, nema um annað sé samið, ekki bundnir af Evrópureglum hvað þetta varðar. Óljóst er hvort eða hvaða áhrif sú staðreynd hefði almennt á íslenskan fjármálamarkað.

Persónuvernd

Reglur um flutning persónuupplýsinga milli Íslands og Bretlands byggjast á reglum EES-samningsins um persónuvernd og yrði að tryggja að Bretland teldist áfram öruggt ríki fyrir vinnslu persónuupplýsinga skv. reglum EES-samningsins til að tryggja áfram óhindraðan flutning persónuupplýsinga milli Íslands og Bretlands.

Hljóð- og myndmiðlun

Hvað varðar hljóð- og myndmiðlun kann Brexit að skapa óvissu um lögsögu yfir sjónvarpsútsendingar frá Bretlandi, þ.m.t. lögsögu fjölmiðlanefndar hér á landi.

Umferð á vegum

Hvað varðar reglur EES-samningins um umferð á vegum hefur útganga Bretlands úr ESB helst áhrif á þrjá þætti, þ.e. viðurkenningu ökuskírteina, skráningar- og gerðarviðurkenningar ökutækja og ökurita. Í EES-samningnum er m.a. mælt fyrir um gagnkvæma viðurkenningu ökuskírteina sem þýðir að Íslendingar sem búa í öðru EES-ríki þurfa ekki að afla sér þar nýs ökuskírteinis. Þá kynni útganga Breta að hafa áhrif á heildargerðarviðurkenningar vegna ökutækja sem framleidd eru í Bretlandi, en hafa ber í huga að skv. EES-reglum er mögulegt fá viðurkenningu á ökutækjum og búnaði sem framleidd eru utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá myndi að óbreyttu það gagnkvæma fyrirkomulag sem nú gildir á Evrópska efnahagssvæðinu um ökumannskort sem notuð er í ökuritum ekki gilda gagnvart Bretland.

Flutningar á sjó

Reglur EES-samningsins um flutninga á sjó heimila íslenskum sjómönnum að fá útgefið alþjóðlegt skírteini sem heimilar þeim að starfa á skipum skráðum innan EES. Tryggja þarf áframhaldandi gagnkvæma viðurkenningu þessara réttinda gagnvart Bretlandi.

Flugsamgöngur

Flugsamgöngur á milli Íslands og Bretlands falla nú að mestu leyti undir reglur EES-samningsins. Njóta flugrekendur þess að engar hindranir eru á heimild til flugrekstrar á innri markaðnum og fljúga þrír íslenskir flugrekendur í reglubundnu áætlunarflugi til og frá Bretlandi. Þá fljúga þrír breskir flugrekendur milli Íslands og Bretlands auk þess sem írskur flugrekandi stundar reglubundið áætlunarflug milli landanna. Áætlunarferðir til Bretlands eru nálægt 20 brottförum á dag þegar mest er yfir vetrartímann. Erlendir ferðamenn frá Bretlandi voru 316 þúsund árið 2016 og kemur stór hluti þeirra hingað á veturna. Nær öll flugfrakt frá Íslandi til Bretlands fer með skipulögðu áætlunarflugi en íslensk leiguflugfélög sinna jafnframt verkefnum á Bretlandi. Ákvæði EES-samningsins um flugsamgöngur taka ekki aðeins til flugrekstrar heldur fela einnig í sér samræmingu reglna um flugleiðsögu, lofthæfi, framleiðslu, neytendavernd, flugvernd og gagnkvæma viðurkenningu skírteina og vottorða. Tryggja þarf að þessar umfangsmiklu flugsamgöngur milli ríkjanna raskist ekki.

Samkeppnismál

EES-samningurinn skapar umgjörð utan um samstarf á milli stjórnvalda Íslands og Bretlands á sviði samkeppnismála, einkum upplýsingaskipti og aðstoð og samstarf við rekstur einstakra mála.

Ríkisaðstoð

EES-samningurinn hefur að geyma ákvæði um ríkisaðstoð sem miða að því að koma í veg fyrir að stjórnvöld í EES-ríkjunum raski samkeppni á Evrópska efnahagssvæðinu með því að ívilna tilteknum fyrirtækjum eða atvinnugreinum en útganga Bretlands hefði ekki áhrif á beitingu þessara reglna hér á landi.

Opinber innkaup

Með reglum EES-samningsins um opinber innkaup er komið á fót sameiginlegum markaði um opinber innkaup á EES. Við útgöngu Bretlands yrðu Bretar að semja um aðild sína að endurskoðuðum samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup (Government Procurement Agreement).

Hugverkaréttindi

EES-samningurinn hefur að geyma reglur um hugverkaréttindi, þ.m.t. reglur um skráð réttindi á borð við einkaleyfi, vörumerki, verndun hönnunar, afurðaheiti, viðbótarvottorð fyrir lyf og plöntuvernd og óskráð réttindi á borð við höfundarétt. EES-samningurinn felur í sumum tilfellum í sér aukna vernd hugverkaréttinda umfram alþjóðasamninga á sviði hugverkaréttinda og á öðrum sviðum auðveldar samningurinn skráningu og skilvirka vernd slíkra réttinda á Evrópska efnahagssvæðinu. Mikilvægt er að tryggja að útganga Bretlands valdi ekki röskun á verndun hugverkaréttinda íslenskra rétthafa.

Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna

EES-samningurinn hefur að geyma ákvæði um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna og fela þessar reglur í sér ákveðnar lágmarkskröfur á þessum sviðum sem öllum ríkjum innan EES ber að uppfylla. Við útgöngu úr ESB mun Bretland ekki lengur vera bundið af þessum
 lágmarkskröfum.

Neytendavernd

EES-samningurinn inniheldur reglur um neytendavernd sem miða að því að neytendur geti treyst því að þeir njóti sömu lagalegu réttinda í viðskiptum yfir landamæri EES ríkja eins og þeir njóta samkvæmt reglum sem gilda í þeirra heimaríki. Útganga Bretlands úr ESB mun þýða að ákvæði EES-samningsins um neytendavernd munu ekki gilda í viðskiptum við Bretland. Ísland og íslenskir neytendur hafa átt og eiga í miklum viðskiptum við Bretland, í netverslun, á ferðalögum og með vörur og því mikilvægt að tryggja áframhaldandi gott samstarf við bresk stjórnvöld um neytendavernd í viðskiptum á milli Íslands og Bretlands.

Umhverfismál

Megintilgangur löggjafar ESB á sviði umhverfismála er að stuðla að sjálfbærri þróun og vernd umhverfis og hefur sá lagarammi því einkum áhrif innan hvers EES-ríkis. Þó ber að geta þess að við úrsögn Bretlands úr ESB mun það verða skilgreint sem þriðja ríki en talsvert sveigjanlegri reglur gilda um flutning úrgangs á milli EES-ríkja en til þriðju ríkja. Þá kann úrsögn Bretlands hafa áhrif á viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda þar sem færri heimildir verða á markaði í kerfinu. Enn fremur kann úrsögn Bretlands að hafa breytingar í för með sér hvað varðar skyldu til að upplýsa nálæg ríki um framkvæmdir sem hafa áhrif yfir landamæri.

Hagskýrslugerð

EES-samningurinn hefur að geyma ákvæði um hagskýrslugerð en útganga Bretlands hefur ekki áhrif á framkvæmd þessara reglna.

Reglur um félög

Reglur EES-samningsins fela annars vegar í sér almennar reglur um félög af tiltekinni gerð og hins vegar reglur um reikningsskil slíkra félaga og endurskoðun. Mikilvægt er að tryggja að íslenskir ríkisborgarar og fyrirtæki geti áfram stofnað og starfrækt fyrirtæki í Bretlandi hindrunarlaust. Jafnframt er mikilvægt að tryggja að breskir ríkisborgarar og fyrirtæki geti áfram stofnað og starfrækt fyrirtæki hér á landi.

Mennta-, menningar- og vísindamál

EES-samningurinn gerir Íslandi kleift að taka þátt í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á margvíslegum sviðum til að mynda í mennta-, menningar- og vísindamálum. Bretar hafa verið einn helsti samstarfsaðili Íslands í slíkum samstarfsáætlunum, sérstaklega í vísindasamstarfinu. Hætti Bretland þátttöku í samstarfsáætlunum ESB yrði því skarð fyrir skildi, auk þess sem brotthvarf Bretlands kynni að hafa áhrif á fjárframlög til slíkra áætlana. Hins vegar er vel hugsanlegt að Bretland muni semja um áframhaldandi þátttöku í slíkum samstarfsáætlunum.

Nánar má lesa um niðurstöður í skýrslunni:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira