Hoppa yfir valmynd

Ráðstafanir og varúðarráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES

Ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES

Utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein undirrituðu þann 28. janúar 2020 samning við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB) og þar með úr Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Samningurinn leysir úr viðeigandi útgönguskilmálum með sambærilegum hætti og gert er í útgöngusamningi Bretlands og ESB. Hann tryggir m.a. að Íslendingar sem búa í Bretlandi eða flytja þangað fyrir lok aðlögunartímabilsins geti verið þar áfram og að réttindi þeirra verði í öllum grundvallaratriðum óbreytt. Þetta á einnig við um breska ríkisborgara sem búa á Íslandi. Í samningnum er einnig að finna ákvæði um tengd réttindi sem varða til að mynda almannatryggingar og viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Þá er í samningnum greitt úr ýmsum tæknilegum úrlausnarnefnum vegna útgöngu Bretlands úr EES á sviði vöruviðskipta, opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, persónuverndar og tollamála. Þar sem samningurinn er byggður á viðeigandi þáttum í útgöngusamningi Bretlands og ESB gat hann eingöngu tekið gildi þar sem útgöngusamningur Bretlands og ESB náði að lokum fram að ganga.

Lög um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES voru samþykkt á Alþingi 17. október 2019. Lögin tryggja m.a. að samningur okkar við Bretland um útgönguskilmála getur tekið gildi og skilgreinir þar að auki stöðu Bretlands á aðlögunartímabilinu.

Varúðarráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr ESB án samnings

Um langt skeið ríkti mikil óvissa um það hvort Bretland gengi úr ESB á grundvelli útgöngusamnings eða án slíks samnings. Íslensk stjórnvöld þurftu því að undirbúa sig fyrir mismunandi sviðsmyndir. Í tilfelli útgöngu án samnings þurfti að gera ráð fyrir því að ekkert aðlögunartímabili tæki gildi og að EES-samningurinn og aðrir samningar Íslands við ESB hefðu hætt að gilda um Bretland strax við útgöngu.

Skilgreind voru ákveðin forgangssvið þar sem afar mikilvægt þótti að tryggja kjarnahagsmuni á milli Íslands og Bretlands, þ.e. áframhaldandi búseturéttindi íslenskra og breskra borgara og sem minnsta röskun á vöruviðskiptum og flugi á milli ríkjanna. Þrír samningar voru gerðir við Bretland á þessum mismunandi sviðum sem hefðu getað tekið gildi ef til þess hefði komið að Bretland hefði gengið úr ESB án samnings. Ýmist var samið tvíhliða við Bretland, ásamt Norðmönnum eða í samfloti með hinum EFTA-ríkjunum innan EES.

Eftirfarandi samningar voru gerðir til að tryggja kjarnahagsmuni Íslands vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án útgöngusamnings. Þar sem Bretland gekk úr ESB á grundvelli samnings koma þessir samningar ekki til með að taka gildi. Hins vegar gæti vinna vegna undirbúnings fyrir útgöngu án samnings komið að góðum notum á ný ef svo færi að ekki næðist að ljúka viðræðum um framtíðarsamning fyrir lok árs 2020 þegar áætlað er að aðlögunartímabilinu ljúki.

Réttindi borgara til búsetu

Samningur var undirritaður 2. apríl 2019 sem hefði tryggt rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES, ef svo hefði farið að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB. Samningurinn er á milli EFTA-ríkjanna innan EES (Íslands, Liechtenstein og Noregs) og Bretlands.

Samningurinn byggir á pólitísku samkomulagi um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB. Í framhaldinu var unnið að gerð samnings um gagnkvæm réttindi borgara þessara ríkja og var endanlegur texti samningsins kynntur 8. febrúar 2019.

Þá var samkomulag (MoU) um fólksflutninga á milli Íslands og Bretlands í kjölfar hugsanlegrar útgöngu án samnings einnig undirritað.

Vöruviðskipti

Ísland, Noregur og Bretland undirrituðu 2. apríl 2019 bráðabirgðafríverslunarsamning vegna vöruviðskipta. Samningurinn hefði aðeins tekið gildi ef Bretland hefði gengið úr ESB án útgöngusamnings og felur í sér að núverandi tollkjör hefðu í grundvallaratriðum haldið áfram að gilda fyrir inn- og útflutning til og frá Bretlandi.

Loftferðir

Nauðsynlegt var að tryggja að ekki yrði rask á flugi milli Íslands og Bretlands. Lendingarréttindi voru tryggð sama hvað gerðist í viðræðum Bretlands og ESB með tvíhliða loftferðasamningi á milli Íslands og Bretlands sem hægt hefði verið að beita með skömmum fyrirvara ef til útgöngu án samnings hefði komið.

Aðrar varúrðarráðstafanir

Allar ESB-gerðir um flug, fjármálaþjónustu og aðrar varúðarráðstafanir ESB sem tengdust innri markaðnum voru teknar upp í EES-samninginn. EFTA-ríkin innan EES voru því ekki í lakari stöðu en aðildarríki ESB þegar kom að varúðarráðstöfunum vegna hugsanlegrar útgöngu án samnings.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira