Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um Brexit

Í útgöngusamningi Bretlands og ESB eru ákvæði um aðlögunartímabil fyrst eftir útgöngu og til loka árs 2020 með möguleika á framlengingu. Þetta þýðir að regluverk ESB og allir alþjóðasamningar, þ.m.t. EES-samningurinn, gilda áfram um Bretland fyrst eftir útgöngu. Á aðlögunartímabilinu er því engin marktæk breyting á samskiptum Íslands og Bretlands þar sem þau byggja áfram á samningum Íslands við ESB.

Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa undirritað samning við Bretland vegna útgöngu þess úr ESB og þar með úr EES. Samningurinn tryggir m.a. réttindi Íslendinga sem búsettir eru í Bretlandi og Breta sem búa hér á landi ásamt öðrum úrlausnarefnum sem tækju gildi að aðlögunartímabilinu loknu. Lög um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu tryggja að samningurinn geti tekið gildi á Íslandi og lögfestir auk þess aðlögunartímabilið.

Á aðlögunartímabilinu verður samið um framtíðarsamband Íslands og Bretlands. Erfitt er að meta nákvæmlega hver áhrif Brexit verða á Íslandi fyrr en meiri vissa ríkir um útkomu framtíðarsamninga. Leitast er eftir að gera víðtækan og náinn framtíðarsamning við Bretland til að tryggja áfram góð viðskiptakjör og sterk tengsl ríkjanna.

Bretland er næsthelsta viðskiptaland Íslands á eftir Bandaríkjunum. Árið 2017 námu vöru- og þjónustuviðskipti Íslands við Bretland samtals u.þ.b. 235 milljörðum króna (£1,7bn), eða 10% af heildarumfangi utanríkisviðskipta Íslands.

Vöruviðskipti

Vöruútflutningur frá Íslandi til Bretlands nam tæpum 60 milljörðum króna (£412m) árið 2018 og jókst um 11 milljarða frá árinu áður þegar hann nam tæpum 49 milljörðum króna (£353m). Að Hollandi undanskildu var Bretland aðaláfangastaður útflutnings frá Íslandi á síðasta ári. Verðmæti útflutningsins náðu hámarki árið 2015 en samhliða styrkingu krónunnar og veikingu pundsins tóku útflutningsverðmætin að dragast saman til ársins 2017, og á sama tíma jukust innflutningsverðmætin. Útflutningsverðmæti jukust á ný á síðasta ári, bæði af sjávarafurðum (sérstaklega ýsu, rækju og botnfiski) og iðnaðarvörum (áli/álafurðum og jarðolíum/olíuvörum).

Rúmlega 60% af vöruútflutningnum samanstendur af sjávarafurðum enda er Bretland stærsti útflutningsmarkaður Íslendinga fyrir sjávarafurðir. Íslenskir fiskútflytjendur eiga einnig gífurlega hlutdeild í breska fiskmarkaðnum en samkvæmt HMRC mældust innflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi til Bretlands meiri en frá nokkru öðru útflutningsríki árin 2016 og 2017 (a.m.k. fyrri helminga áranna).

Vöruinnflutningur frá Bretlandi til Íslands nam rúmum 44 milljörðum króna árið 2018 og samanstóð aðallega af ýmsum vélbúnaði og samgöngutækjum.

Þjónustuviðskipti

Þjónustuútflutningur Íslands til Bretlands hefur aukist hratt á undanförnum árum og þjónustujöfnuðurinn hefur verið jákvæður frá árinu 2015. Árið 2017 nam þjónustuútflutningur frá Íslandi til Bretlands tæpum 79 mö. kr. og innflutningur tæpum 65 mö. kr.  

Þjónustuútflutningurinn samanstendur aðallega af ferðalögum (58%) og flugsamgöngum (21%) og það sama má segja um þjónustuinnflutninginn. Aukninguna í þjónustuútflutningi síðustu ár má aðallega rekja til aukins umfangs ferðaþjónustunnar en skv. Ferðamálastofu og Isavia heimsóttu Ísland tæplega 300.000 breskir ferðamenn á síðasta ári en Bretar eru næstfjölmennasta þjóðin í hópi ferðamanna á Íslandi á eftir Bandaríkjamönnum. 

Þá ber einnig að nefna að samkvæmt vefritinu turisti.is voru að meðaltali farnar 10 flugferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli til London í desember árið 2018, og flugferðir til London áttu 16,7% hlutdeild í heildarflugumferð frá Keflavíkurflugvelli. Tíðni flugferða til London var meiri en til nokkurrar annarrar borgar, en næstflestar ferðir voru farnar til Kaupmannahafnar sem áttu þó aðeins 5,7% hlutdeild í flugumferðinni.

 

Viðskipti Íslands og Bretlands árið 2017 og 2018:

 

2017

2018

Heildarútflutningur:

127 ma. kr. (£926m)

 

Heildarinnflutningur :

108 ma. kr. (£783m)

 

Heildarviðskiptajöfnuður:

20 ma. kr. (£143m)

 

 

 

 

Vöruútflutningur:

49 ma. kr. (£353m)

59,5 ma. kr. (£412m)

Vöruinnflutningur:

43 ma. kr. (£314m)

44,2 ma. kr. (£306m)

Vöruskiptajöfnuður:

6 ma. kr. (£39m)

15,3 ma. kr. (£106m)

 

 

 

Þjónustuútflutningur:

79 ma. kr. (£572m)

 

Þjónustuinnflutningur:

65 ma. kr. (£470m)

 

Þjónustujöfnuður:

14ma. kr. (£102m)

(Upphæðir námundaðar og reiknaðar miðað við meðalgengi hvors árs)

EES-samningurinn sem tók gildi árið 1994 og fríverslunarsamningur Íslands og ESB (þá EBE) frá árinu 1972 eru þeir samningar sem eru grundvöllur viðskiptasambands Íslands og Bretlands í dag. Þessir samningar gilda á aðlögunartímabilinu sem tók við eftir útgöngu Bretlands úr ESB 31. janúar 2020 en nýir samningar þurfa að vera til staðar þegar því lýkur. Leitast er eftir að gera víðtækan og náinn framtíðarsamning við Bretland til að tryggja áfram góð viðskiptakjör og sterk tengsl ríkjanna á aðlögunartímabilinu.

Vegna undirbúnings fyrir hugsanlega útgöngu Bretlands úr ESB án samnings luku Ísland, Noregur og Bretland bráðabirgðafríverslunarsamningi vegna vöruviðskipta. Sá samningur hefði tekið gildi ef Bretland hefði gengið úr ESB án útgöngusamnings. Samkvæmt honum hefðu núverandi tollkjör haldið áfram að gilda fyrir inn- og útflutning til og frá Bretlandi. Sá möguleiki er fyrir hendi að aðlögunartímabilinu ljúki áður en framtíðarsamningur hefur tekið gildi. Komi til þess gæti þessi samningur tryggt kjarnahagsmuni Íslands á sviði vöruviðskipta þar til viðræðum um víðtækari framtíðarsamning er lokið.

Útgöngusamningi Bretlands og ESB fylgir pólitísk yfirlýsing um ramma fyrir framtíðarsamskipti þeirra. Í henni er m.a. fjallað um viðskiptasamning (e. economic partnership) og samning um samstarf á sviði öryggismála.  Einnig er fjallað um fiskveiðimál og samstarf á sviði utanríkis- og varnarmála. Yfirlýsingin lýsir víðtæku samstarfi en er opin hvað varðar dýpt samstarfsins og form.

Þann 3. febrúar 2020 birtu bæði Evrópusambandið og Bretland samningsmarkmið sín fyrir framtíðarsamning. Samningsmarkmið Evrópusambandsins má nálgast á vefsíðu Evrópusambandsins og samningsmarkmið Bretlands má nálgast á vefsíðu breskra stjórnvalda..

Nánari upplýsingar um viðræður Bretlands og ESB um framtíðarsamband þeirra eru að finna á heimasíðu samningateymis ESB og breskra stjórnvalda.

Mikilvægt er að hafa í huga að aðild að EFTA jafngildir ekki aðild að EES-samningnum. EFTA-ríkin fjögur, Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss, hafa gert fjölmarga fríverslunarsamninga við ríki víða um heim í krafti aðildar sinnar að EFTA. Aftur á móti eru eingöngu Ísland, Noregur og Liechtenstein aðilar að EES-samningnum sem tryggir aðkomu þeirra að innri markaði ESB. Tengsl Sviss við ESB eru aftur á móti byggð á ýmsum tvíhliðasamningum. Bretland getur sótt um aðild að EFTA og þá eftir atvikum orðið aðili að EES-samningnum kjósi Bretland að sækja um slíka aðild og um það semst við EFTA-ríkin og ESB. Hvorki aðild að EFTA né EES eru þó á stefnuskrá breskra stjórnvalda um þessar mundir.

Tíð samskipti hafa átt sér stað milli Íslands og Bretlands frá því niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir um sumarið 2016 enda hefur áhersla íslenskra stjórnvalda verið á að virkja náið samstarf ríkjanna tveggja og tryggja hagsmuni. Ísland hefur einnig átt samráð við ESB og er í nánu samstarfi við hin EFTA-ríkin í þessari vinnu.

Nánari upplýsingar vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES má finna í kaflanum „Ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES“ og upplýsingar um viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands má finna í kaflanum „Framtíðarsamningar við Bretland.“

Ísland hefur, ásamt Noregi og Liechtenstein, gert samning við Bretland vegna fyrirhugaðrar útgöngu þess úr ESB og þar af leiðandi EES. Hann tryggir m.a. að Íslendingar sem búa í Bretlandi geti verið þar áfram eftir lok aðlögunartímabilsins (e. transition period) og að réttindi þeirra verða í öllum grundvallaratriðum óbreytt. Þetta á einnig við um breska ríkisborgara sem búa á Íslandi.

Nánari upplýsingar um réttindi til búsetu í Bretlandi má finna í kaflanum „Réttindi til búsetu og dvalar í Bretlandi.“

Nánari upplýsingar um réttindi til búsetu í Bretlandi eftir Brexit má finna í kaflanum „Réttindi til búsetu og dvalar í Bretlandi.“

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu voru tæplega 2.400 íslenskir ríkisborgarar skráðir með lögheimili í Bretlandi þann 1. nóvember 2018. Hafa ber í huga að Íslendingar gætu verið búsettir þar í landi án þess að hafa skráð lögheimili þar, t.d. vegna tímabundinnar dvalar við nám eða störf. Um eitt þúsund breskir ríkisborgarar eru búsettir á Íslandi.

EES-samningurinn gildir áfram um Bretland á aðlögunartímabilinu sem stendur yfir a.m.k. til loka árs 2020. Verið er að vinna að gerð víðtæks framtíðarviðskiptasamnings við Bretland sem tekið gæti gildi eftir lok aðlögunartímabilsins. Leitast er eftir því að íslenskir aðilar hafi greiðan aðgang að Bretlandi og breskum mörkuðum. Enn fremur er horft til þess að bæta aðgang að breskum mörkuðum þar sem þess er kostur. Erfitt er að meta nákvæmlega hver áhrif Brexit verða á Íslandi fyrr en meiri vissa ríkir um útkomu framtíðarsamninga. Nánari upplýsingar um viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands má finna í kaflanum „Framtíðarsamningar við Bretland“ og um breytingar sem munu eiga sér stað í kaflanum „Undirbúningur fyrir lok aðlögunartímabilsins."

Við lok aðlögunartímabilsins munu Bretar ekki lengur falla undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB. Bretland þarf því að setja sér sjávarútvegsstefnu og hefur átt samráði við Ísland við mótun hennar. Ísland vill gjarnan miðla áratuga reynslu sinni og bæði Ísland og Bretland eru talsmenn sjálfbærra fiskveiða. Ísland og Bretland deila ekki fiskveiðilöggsögu. Hins vegar hefur útganga Bretlands úr ESB m.a. í för með sér að bresk stjórnvöld munu taka yfir það umboð sem áður var í höndum framkvæmdastjórnar ESB þegar kemur að samningaviðræðum um deilistofna á borð við makríl.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira