Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um Brexit

Það verða engin bein áhrif á Ísland til skamms tíma umfram þau sem kunna að koma fram vegna viðbragða á mörkuðum í Bretlandi eins og t.d. vegna gengisbreytinga. Bretland mun ekki ganga formlega úr ESB fyrr en í lok mars 2019 og Bretland mun áfram vera aðili að EES-samningnum fram að þeim tíma.

Samningaviðræður um bráðabirgðatímabil til að brúa bilið á milli útgöngu Bretlands úr ESB og framtíðarsamnings hófust í byrjun árs 2018. Væntingar standa til að þetta tímabil gæti varað í um tvö ár og á þeim tíma myndi regluverk ESB halda áfram að gilda í Bretlandi. EFTA-ríkin þrjú innan EES (Ísland, Noregur og Liechtenstein) vinna í sameiningu að því að tryggja að EES-samningurinn gildi áfram í samskiptum við Bretland á því tímabili, ef samningar nást á milli Bretlands og ESB um bráðabirgðatímabil.

Til lengri tíma verður þó að ganga út frá því að EES-samningurinn muni hætta að taka til Bretlands. Af því leiðir að Ísland mun þurfa að semja á ný við Bretland um atriði sem í dag falla undir EES-samninginn; einkum og sér í lagi tolla, fjárfestingar, för fólks, flugsamgöngur, svo dæmi séu tekin. Markmið íslenskra stjórnvalda er að nýr fríverslunarsamningur milli ríkjanna geti tekið gildi þegar áðurgreindu bráðabirgðatímabili muni ljúka að því gefnu að samningar náist á milli Bretlands og ESB um slíkt tímabili. Ísland og Bretland hafa einnig hafið samtal um tækifæri til framtíðarsamstarfs á ýmsum fleiri sviðum sem falla utan EES-samningsins, t.d. í öryggis- og varnarmálum. Verkefnið fram undan er að tryggja festu og stöðugleika í samskiptum landanna, að viðskiptakjör verði framvegis a.m.k. jafn góð og hingað til og að áfram verði sveigjanleiki varðandi frelsi íbúanna til ferða og búsetu í hvoru landi fyrir sig.

Heimild: Hagstofa Íslands (tölur eru í milljónum króna)

Vöruviðskipti

Útflutningur fob 2016 - 60.689
Innflutningur cif 2016 - 40.930
Útflutningur heild 2016 - 537.444,8
Innflutningur heild 2016 - 687.602

Þjónustuviðskipti

Útflutningur 2016 - 75.944
Innflutningur 2016 - 59.739
Útflutningur heild 2016 - 646.453
Innflutningur heild 2016 - 389.378

Fjöldi ferðamanna

Heildarfjöldi ferðamanna 2016 – 1.792.201
Fjöldi ferðamanna frá Bretland – 316.395

 

 

 


EES-samningurinn sem tók gildi árið 1994 og fríverslunarsamningur Íslands og ESB (þá EBE) frá árinu 1972 eru þeir samningar sem eru grundvöllur viðskiptasambands Íslands og Bretlands. Þegar Bretland gengur úr ESB verður það aftur á móti ekki lengur aðili að þessum samningum. Ekki er til staðar fríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands til að taka við af framangreindum samningum. Nauðsynlegt er því að gera nýjan viðskiptasamning við Bretland sem gæti tekið við þegar regluverk EES-samningsins og fríverslunarsamningurinn frá árinu 1972 hætta að gilda í samskiptum ríkjanna. Íslensk stjórnvöld erum í nánum í samskiptum við Bretland til að tryggja að ekki myndist lagalegt tómarúm við útgöngu Bretlands úr ESB og að viðhalda viðskiptatengslum ríkjanna.
Eins og komið hefur fram tilkynnti Bretland formlega um úrsögn úr ESB hinn 29. mars 2017 og mun það ganga formlega úr sambandinu í lok mars 2019. Nú standa yfir viðræður á milli Bretlands og ESB um útgöngusamning. Í desember 2017 tók leiðtogaráð ESB ákvörðun um að hefja viðræður um bráðabirgðatímabil og ramma fyrir framtíðarsamskipti ESB við Bretland. Fram að þeim tíma höfðu viðræður verið takmarkaðar við ákveðna útgönguskilmála, þ.e. réttindi borgara sem höfðu nýtt sér réttinn til frjálsrar farar á aðildartíma Bretlands, landamærin á Írlandi og fjárhagslegt uppgjör.

Ekki er enn ljóst hvert verður fyrirkomulag samskipta Bretlands við ESB til lengri tíma litið eða hvenær samningur um framtíðarsamskipti tekur gildi. Gert er ráð fyrir bráðabirgðatímabili þar sem regluverk ESB mun halda áfram að gilda í Bretlandi í um tvö ár eftir formlega útgöngu úr ESB. Ísland, ásamt hinum EFTA-ríkjunum innan EES (Noregi og Liechtenstein), eiga í viðræðum við Bretland og ESB til að tryggja að lagaumgjörð EES-samningsins haldi áfram að gilda í samskiptum þeirra við Bretland á hinu fyrirhugaða bráðabirgðatímabili.

Hvað varðar Ísland og eftir atvikum hin EFTA-ríkin þá verða einnig teknar upp viðræður um framtíðarsamskipti við Bretland. Samtöl og fundir með fulltrúm Bretlands hafa þegar átt sér stað þar sem mikill vilji hefur verið til að styrkja og þróa áfram samskipti ríkjanna.
Þegar valkostir Bretlands eru reifaðir er gjarnan litið til samninga sem önnur ríki hafa gert við ESB, eins og t.d. EES-samningsins, fríverslunarsamnings Kanada og ESB og tollabandalags ESB og Tyrklands. Þá er stundum talað um að Bretar geti reitt sig eingöngu á regluverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í viðskiptum við önnur ríki. Bresk stjórnvöld hafa þó sagt að engin þessara fyrirmynda henti Bretlandi og að þau vilji semja við ESB um sérsniðna lausn. Samkvæmt úrsagnarákvæði ESB-sáttmálans, skal taka tillit til framtíðarfyrirkomulags samskipta í útgönguviðræðunum. Því ætti að liggja meira fyrir um nýtt viðskiptasamband Bretlands og ESB undir lok þeirra viðræðna.
Mikilvægt er að hafa í huga að aðild að EFTA jafngildir ekki aðild að EES-samningnum. EFTA-ríkin fjögur, Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss, hafa gert fjölmarga fríverslunarsamninga við ríki víða um heim í krafti aðildar sinnar að EFTA. Aftur á móti eru eingöngu Ísland, Noregur og Liechtenstein aðilar að EES-samningnum sem tryggir aðkomu þeirra að innri markaði ESB. Tengsl Sviss við ESB eru aftur á móti byggð á ýmsum tvíhliðasamningum. Bretland getur sótt um aðild að EFTA og þá eftir atvikum orðið aðili að EES-samningnum kjósi Bretland að sækja um slíka aðild og um það semst við EFTA-ríkin og ESB. Á þessu stigi er of snemmt að útiloka nokkurn kost þegar kemur að framtíðarfyrirkomulagi. Bretar hafa þó sagt að þeir stefni á sérsniðinn samning við ESB og því ólíklegt að þeir muni sækjast eftir aðild að EFTA og/eða EES.
Tíð samskipti hafa átt sér stað milli Íslands og Bretlands frá því niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir enda hefur áhersla íslenskra stjórnvalda verið að virkja náið samstarf ríkjanna tveggja og tryggja hagsmuni. Ísland hefur einnig átt fundi með fulltrúum ESB í því skyni að koma þeim sjónarmiðum á framfæri að viðhalda því viðskiptasambandi sem ríkt hefur á milli Íslands og Bretlands í áratugi. Þá er Ísland í nánum samskiptum við samstarfsríkin innan EFTA í þessari vinnu.

Allt frá því að ljóst var um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í júní 2016 hefur íslenska stjórnsýslan unnið að því hörðum höndum að kortleggja hagsmuni Íslands með tilliti til útgöngu Bretlands úr ESB. Skipaður hefur verið stýrihópur og undir honum starfa fimm vinnuhópar sem hafa það hlutverk að meta og greina hagsmuni og markmið Íslands í tengslum við Brexit á sínum sviðum. Haft hefur verið náið samráð við hagsmunaaðila í þessari vinnu.
Íslenskir ríkisborgarar njóta á grundvelli EES-samningsins réttar til að búa og starfa í Bretlandi án sérstaks leyfis. Á grundvelli draga að samningi Bretlands um útgöngu sína úr Evrópusambandinu er gert ráð fyrir að EES-samningurinn gildi áfram á svokölluðu bráðabirgðatímabili og að staða íslenskra ríkisborgara í Bretlandi haldist því óbreytt fram til 31. desember 2020.

Undanfarna mánuði hefur Ísland, ásamt Noregi og Liechtenstein, átt í viðræðum við Bretland um að tryggja á gagnkvæmnisgrundvelli réttindi íslenskra ríkisborgara sem búa í Bretlandi eða koma til Bretlands fyrir árslok 2020 til að búa þar áfram. Miða viðræðurnar að því að tryggja íslenskum ríkisborgurum sambærileg réttindi og skv. drögum að útgöngusamningi ESB og Bretlands. Viðræðurnar hafa gengið vel og er stefnt að því að ljúka samningi um þessi réttindi nánast um leið og útgöngusamningur Bretlands og ESB liggur fyrir.

Á vef breska innanríkisráðuneytisins eru þau réttindi sem samið hefur verið um í drögum að útgöngusamningi Bretlands við ESB útskýrð og má gera ráð fyrir að sambærileg réttindi og sömu ferlar gildi einnig fyrir íslenska ríkisborgara.

Samkvæmt nýju fyrirkomulagi munu ESB-borgarar og borgarar EES-ríkjanna þurfa að staðfesta búseturétt sinn með skráningu. Bresk stjórnvöld hafa þegar upplýst að skráningarkerfið til að staðfesta búseturétt muni einnig gilda fyrir íslenska ríkisborgara. Handhafar áður útgefinna búsetuleyfa í Bretlandi þurfa einnig að skrá sig. Íslenskir ríkisborgarar sem búa í Bretlandi eða munu flytja þangað fyrir 31. desember 2020 munu hafa svigrúm frá 29. mars 2019 til 30. júní 2021 til þess að ganga frá skráningu. Samkvæmt nýja skráningarkerfinu fá þeir sem hafa búið í Bretlandi í fimm ár svokallaðan „settled status“ eða fasta búsetu en þeir sem hafa dvalið skemur geta sótt um að fá „pre-settled status“ og fá tækifæri til að safna upp í árin fimm til þess að hljóta fasta búsetu. Nánar má lesa um þetta á vef breska innanríkisráðuneytisins

Ekki liggur fyrir hver staða þeirra verður sem hyggjast flytja til Bretlands eftir 31. desember 2020. Nema um annað verði samið, ræðst staða þeirra af breskum lögum. Bresk stjórnvöld vinna nú að mótun nýrrar innflytjendalöggjafar.  

Hvað ef Bretland gengur úr ESB án samnings?
Nokkuð hefur verið spurt um hvað muni gerast ef svo ólíklega vill til Bretland gengi úr ESB án samnings. Á fundi forsætisráðherra Íslands og Bretlands í Ósló hinn 30. október 2018  sammæltust ráðherrarnir um að jafnvel þó Bretland gengi úr ESB án útgöngusamnings myndu stjórnvöld leitast við að tryggja rétt borgara hins ríkisins til áframhaldandi búsetu á gagnkvæmnisgrundvelli. Ekki hefur á þessari stundu verið útfært hvernig það yrði gert.

Ekki liggur fyrir hver staða þeirra verður sem hyggjast flytja til Bretlands eftir útgöngudag Bretlands úr ESB 29. mars 2019. Nema um annað verði samið, ræðst staða þeirra af breskum lögum. Innanríkisráðherra Bretlands gaf til kynna í bréfi til breska þingsins hinn 31. október sl. að við útgöngu Bretlands úr ESB kunni staða EES-borgara fyrst um sinn að verða óbreytt. Sendiráðið ráðleggur fólki í þessari stöðu að fylgjast með tilkynningum frá breskum stjórnvöldum hvað þetta varðar eða leita upplýsinga hjá breska sendiráðinu í Reykjavík.
 

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá voru 2.342 íslenskir ríkisborgar skráðir með lögheimili í Bretlandi þann 1. desember 2016 en fleiri Íslendingar gætu verið búsettir þar í landi. Sama dag voru 824 breskir ríkisborgarar skráðir með lögheimili á Íslandi.
Á viðskiptasviðinu skapast tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helstu afurðir inn til Bretlands með lægri tollum. Þó þarf að huga að ýmsum atriðum í þessu samhengi eins og t.d. samræmdum EES-reglum varðandi neytendavernd, heilbrigði dýra og plantna, og tæknilegar viðskiptahindranir. Að sama skapi eru fólgin tækifæri í sýn Breta um aukna fríverslun á heimsvísu. Í stefnu Bretlands felast tækifæri til samstarfs í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi – á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar – og í gerð fríverslunarsamninga þar sem Bretland mun láta til sín taka.

Opnun norðaustur siglingaleiðarinnar getur kallað á aukna samvinnu í leit og björgun milli Bretlands og Íslands, í samstarfi við önnur ríki á svæðinu. Þá eru einnig tækifæri í auknu samstarfi á sviði lögreglusamstarfs og innra öryggis, m.a. í baráttunni gegn öfgahyggju og hryðjuverkum. Þá má nefna samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Bæði ríkin eru stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og er vilji til þess meðal beggja að efla samstarf ríkjanna með sérstakri áherslu á Norður-Atlantshafið.

Íslensk stjórnvöld munu leggja áherslu á gott samstarf við Breta í tengslum við loftslagsmál og endurnýjanlega orku. Ísland og Bretland eru bæði í þeim flokki ríkja sem styðja metnaðarfull markmið til að draga úr loftslagsbreytingum og mikil tækifæri eru til samstarfs til framtíðar. Í þessu sambandi gætu ríkin haft sameiginlegan hag af þróun endurnýjanlegra orkugjafa. Þá hafa ríkin rætt óformlega um að starfa saman að jafnréttismálum innan alþjóðastofnana.
Bretland fellur í dag undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB en við útgönguna úr ESB munu Bretar fá aftur forræðið yfir eigin fiskveiðum. Bretland þarf því að setja sér sjávarútvegsstefnu og hefur lýst yfir áhuga á samstarfi og samráði við Ísland við mótun hennar. Ísland vill gjarnan miðla áratuga reynslu sinni og saman geta Ísland og Bretland orðið talsmenn sjálfbærra fiskveiða, talað gegn ríkisstyrkjum í sjávarútvegi og sótt fram í fríverslun með sjávarafurðir á heimsvísu. Hins vegar hefur útganga Bretlands úr ESB m.a. í för með sér að bresk stjórnvöld munu taka yfir það umboð sem áður var í höndum framkvæmdastjórnar ESB þegar kemur að samningaviðræðum um deilistofna á borð við makríl. Ekki er víst að fjölgun samningsaðila muni einfalda viðræður sem fram til þessa hafa reynst flóknar.
Að svo stöddu hefur útgönguferlið ekki áhrif á viðskiptakjör Íslands í Bretlandi eða á íslensk fyrirtæki sem eru með starfstöðvar í Bretlandi. EES-samningurinn gildir áfram a.m.k. þar til að Bretland gengur formlega úr ESB í lok mars 2019. Gert er ráð fyrir að samið verði um bráðabirgðatímabil þar sem að regluverk ESB muni halda áfram að gilda í Bretland í einhvern tíma eftir útgöngu. Ísland vinnur nú að því, ásamt Noregi og Liechtenstein, að tryggja að EES-samningurinn gildi einnig í samskiptum við Bretland á slíku bráðabirgðatímabili. Þá eru íslensk stjórnvöld að vinna að því að gerður verði víðtækur framtíðarviðskiptasamningur við Bretland. Leitast verður eftir því að íslenskir aðilar hafi greiðan aðgang að Bretlandi og breskum mörkuðum eins og þeir njóta í dag í krafti EES-samningsins og annarra samninga Íslands við ESB. Enn fremur verður horft til þess að bæta aðgang að breskum mörkuðum þar sem þess er kostur.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira