Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um Brexit

Bretland mun ganga formlega úr ESB í lok mars 2019 og er áfram aðili að EES-samningnum fram að þeim tíma. Í drögum að útgöngusamningi Bretlands og ESB er gert ráð fyrir svokölluðu bráðabirgðatímabili sem tekur gildi fyrst eftir útgöngu og stendur yfir til loka árs 2020 með möguleika á framlengingu. Að því gefnu að útgöngusamningurinn verði endanlega samþykktur mun regluverk ESB og allir alþjóðasamningar, þ.m.t. EES-samningurinn, halda áfram að gilda um Bretland fyrst eftir útgöngu. Á bráðabirgðatímabilinu yrði því engin marktæk breyting á samskiptum Íslands og Bretlands þar sem þau munu áfram byggja á samningum Íslands við ESB.

Ekki er þó á þessu stigi víst að útgöngusamningurinn verði endanlega samþykktur og því er ekki hægt að útiloka að Bretland hverfi úr ESB án samnings 29. mars nk. Óvissan er mikil og nauðsynlegt er að íslensk stjórnvöld séu undirbúin fyrir þá sviðsmynd. Í því tilfelli þyrfti að gera ráð fyrir því að EES-samningurinn og aðrar samningar Íslands við ESB hætti að gilda um Bretland strax við útgöngu. Nánari upplýsingar um ráðstafanir vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings má finna hér.

Mikilvægt er að hafa í huga að útgöngusamningur Bretlands og ESB fjallar ekki um framtíðarsamband þeirra heldur eingöngu um útgönguskilmála. Ekki verður samið um framtíðarfyrirkomulag fyrr en eftir útgöngu 29. mars 2019. Erfitt er að meta nákvæmlega hver áhrif Brexit verða á Íslandi fyrr en meiri vissa ríkir um framtíðarsamband annars vegar Bretlands og ESB og hins vegar Íslands og Bretlands. Ef útgöngusamningurinn nær fram að ganga verða áhrifin samt mjög takmörkuð til skamms tíma vegna bráðabirgðatímabilsins. Íslensk stjórnvöld munu leitast eftir að gera víðtækan og náinn framtíðarsamning við Bretland til að tryggja áfram góð viðskiptakjör og sterk tengsl ríkjanna.

Bretland er næsthelsta viðskiptaland Íslands á eftir Bandaríkjunum. Árið 2017 námu vöru- og þjónustuviðskipti Íslands við Bretland samtals u.þ.b. 235 milljörðum króna (£1,7bn), eða 10% af heildarumfangi utanríkisviðskipta Íslands. Hagstofa Íslands hefur ekki enn birt endanlegar tölur um þjónustuviðskipti fyrir árið 2018 en eins og fjallað verður um hér að neðan jukust vöruviðskiptin umtalsvert á síðasta ári.

Vöruviðskipti

Vöruútflutningur frá Íslandi til Bretlands nam tæpum 60 milljörðum króna (£412m) árið 2018 og jókst um 11 milljarða frá árinu áður þegar hann nam tæpum 49 milljörðum króna (£353m). Að Hollandi undanskildu var Bretland aðaláfangastaður útflutnings frá Íslandi á síðasta ári. Verðmæti útflutningsins náðu hámarki árið 2015 en samhliða styrkingu krónunnar og veikingu pundsins tóku útflutningsverðmætin að dragast saman til ársins 2017, og á sama tíma jukust innflutningsverðmætin. Útflutningsverðmæti jukust á ný á síðasta ári, bæði af sjávarafurðum (sérstaklega ýsu, rækju og botnfiski) og iðnaðarvörum (áli/álafurðum og jarðolíum/olíuvörum).

 

Rúmlega 60% af vöruútflutningnum samanstendur af sjávarafurðum enda er Bretland stærsti útflutningsmarkaður Íslendinga fyrir sjávarafurðir. Íslenskir fiskútflytjendur eiga einnig gífurlega hlutdeild í breska fiskmarkaðnum en samkvæmt HMRC mældust innflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi til Bretlands meiri en frá nokkru öðru útflutningsríki árin 2016 og 2017 (a.m.k. fyrri helminga áranna).

Vöruinnflutningur frá Bretlandi til Íslands nam rúmum 44 milljörðum króna árið 2018 og samanstóð aðallega af ýmsum vélbúnaði og samgöngutækjum.

Þjónustuviðskipti

Þjónustuútflutningur Íslands til Bretlands hefur aukist hratt á undanförnum árum og þjónustujöfnuðurinn hefur verið jákvæður frá árinu 2015. Hagstofan hefur ekki enn birt endanlegar tölur um þjónustuviðskipti milli Íslands og Bretlands árið 2018 en árið 2017 nam þjónustuútflutningur frá Íslandi til Bretlands tæpum 79 mö. kr. og innflutningur tæpum 65 mö. kr.  

 

Þjónustuútflutningurinn samanstendur aðallega af ferðalögum (58%) og flugsamgöngum (21%) og það sama má segja um þjónustuinnflutninginn. Aukninguna í þjónustuútflutningi síðustu ár má aðallega rekja til aukins umfangs ferðaþjónustunnar en skv. Ferðamálastofu og Isavia heimsóttu Ísland tæplega 300.000 breskir ferðamenn á síðasta ári en Bretar eru næstfjölmennasta þjóðin í hópi ferðamanna á Íslandi á eftir Bandaríkjamönnum. 

Þá ber einnig að nefna að samkvæmt vefritinu turisti.is voru að meðaltali farnar 10 flugferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli til London í desember árið 2018, og flugferðir til London áttu 16,7% hlutdeild í heildarflugumferð frá Keflavíkurflugvelli. Tíðni flugferða til London var meiri en til nokkurrar annarrar borgar, en næstflestar ferðir voru farnar til Kaupmannahafnar sem áttu þó aðeins 5,7% hlutdeild í flugumferðinni.

 

 

Viðskipti Íslands og Bretlands árið 2017 og 2018:

   2017  2018
 Heildarútflutningur:       127 ma. kr. (£926m)   
 Heildarinnflutningur :     108 ma. kr. (£783m)  
 Heildarviðskiptajöfnuður:   20 ma. kr. (£143m)  
     
 Vöruútflutningur:   49 ma. kr. (£353m)  59,5 ma. kr. (£412m)
 Vöruinnflutningur:  43 ma. kr. (£314m)  44,2 ma. kr. (£306m)
 Vöruskiptajöfnuður:  6 ma. kr. (£39m)  15,3 ma. kr. (£106m)
     
 Þjónustuútflutningur:      79 ma. kr. (£572m)  
 Þjónustuinnflutningur:    65 ma. kr. (£470m)  
 Þjónustujöfnuður:   14  ma. kr. (£102m)

(Upphæðir námundaðar og reiknaðar miðað við meðalgengi hvors árs)

EES-samningurinn sem tók gildi árið 1994 og fríverslunarsamningur Íslands og ESB (þá EBE) frá árinu 1972 eru þeir samningar sem eru grundvöllur viðskiptasambands Íslands og Bretlands í dag. Þegar Bretland gengur úr ESB verður það aftur á móti ekki lengur aðili að þessum samningum. Ekki er til staðar fríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands til að taka við af framangreindum samningum. Nauðsynlegt er því að gera nýjan viðskiptasamning við Bretland sem gæti tekið við þegar regluverk EES-samningsins og fríverslunarsamningurinn frá árinu 1972 hætta að gilda í samskiptum ríkjanna. Íslensk stjórnvöld erum í nánum í samskiptum við Bretland til að tryggja að ekki myndist lagalegt tómarúm við útgöngu Bretlands úr ESB og að viðhalda viðskiptatengslum ríkjanna.

Ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga tekur bráðabirgðatímabil gildi fyrst eftir útgöngu og á því tímabili myndi EES-samningurinn og aðrir samningar Íslands við ESB halda áfram að gilda um Bretland. Leitast yrði eftir að gera víðtækan og náinn framtíðarsamning við Bretland til að tryggja áfram góð viðskiptakjör og sterk tengsl ríkjanna á bráðabirgðatímabilinu.

Ekki er hægt að útiloka að Bretland hverfi úr ESB án samnings. Í því tilfelli er unnið að gerð bráðabrigðasamnings á milli Íslands, Noregs og Bretlands sem myndi fela í sér að í grundvallaratriðum byggi inn- og útflutningur til og frá Bretlandi við sömu tollkjör fyrir sömu vörur og gilda í dag. Unnið yrði að gerð viðameiri samnings um leið og færi gæfist. Nánari upplýsingar um ráðstafanir vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings má finna hér.
Eins og komið hefur fram tilkynnti Bretland formlega um úrsögn úr ESB hinn 29. mars 2017 og mun það ganga formlega úr sambandinu tveimur árum síðar, í lok mars 2019. Viðræður á milli Bretlands og ESB um útgöngusamning hófust um sumarið 2017. Samningamenn Bretlands og ESB tilkynntu að kvöldi 13. nóvember 2018 að þeir hefðu náð samningi um útgönguskilmála og var hann samþykktur á fundi leiðtogaráðs ESB 25. nóvember sl.

Útgöngusamningurinn gerir ráð fyrir bráðabirgðatímabili þar sem regluverk ESB og alþjóðasamningar þ.m.t. EES-samningurinn munu halda áfram að gilda í Bretlandi í um tvö ár eftir formlega útgöngu úr ESB. Þá verða teknar upp viðræður um framtíðarsamskipti við Bretland.

Ljóst er að útgöngusamningurinn er umdeildur í Bretlandi og óvíst er að hann hljóti brautargengi á breska þinginu. Sá möguleiki er fyrir hendi að Bretland gangi úr ESB án samnings. Þá yrði að gera ráð fyrir því að EES-samningurinn hætti að gilda um Bretland í lok mars 2019. Í því samhengi hafa stjórnvöld unnið að því að tryggja kjarnahagsmuni á lykilsviðum. Nánari upplýsingar um ráðstafanir vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings má finna hér.

 
Þegar valkostir Bretlands eru reifaðir er gjarnan litið til samninga sem önnur ríki hafa gert við ESB, eins og t.d. EES-samningsins, fríverslunarsamnings Kanada og ESB og tollabandalags ESB og Tyrklands. Þá er stundum talað um að Bretar geti reitt sig eingöngu á regluverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í viðskiptum við ESB. Bresk stjórnvöld hafa þó sagt að engin þessara fyrirmynda henti Bretlandi og að þau vilji semja við ESB um sérsniðna lausn. Drögum að útgöngusamningi Bretlands og ESB fylgir pólitísk yfirlýsing um ramma fyrir framtíðarsamskipti þeirra. Í henni er m.a. fjallað um viðskiptasamning (e. economic partnership) og samning um samstarf á sviði öryggismála.  Einnig er fjallað um fiskveiðimál og samstarf á sviði utanríkis- og varnarmála. Yfirlýsingin lýsir víðtæku samstarfi en opin hvað varðar dýpt samstarfsins og form. Á viðskiptasviðinu gæti ramminn þannig innifalið sviðsmyndir frá hefðbundnum fríverslunarsamningi langleiðina að EES-nálgun og tollabandalagi. Á þessari stundu er ekki ljóst að útgöngusamningur Bretlands og ESB nái endanlega fram að ganga. Í því tilfelli færu viðskipti Bretlands við ESB fram á WTO kjörum a.m.k. fyrst um sinn en bæði Bretland og ESB hafa birt áætlanir um aðgerðir ef til útgöngu án samnings kæmi. Nánari upplýsingar um ráðstafanir vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings má finna hér.
Mikilvægt er að hafa í huga að aðild að EFTA jafngildir ekki aðild að EES-samningnum. EFTA-ríkin fjögur, Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss, hafa gert fjölmarga fríverslunarsamninga við ríki víða um heim í krafti aðildar sinnar að EFTA. Aftur á móti eru eingöngu Ísland, Noregur og Liechtenstein aðilar að EES-samningnum sem tryggir aðkomu þeirra að innri markaði ESB. Tengsl Sviss við ESB eru aftur á móti byggð á ýmsum tvíhliðasamningum. Bretland getur sótt um aðild að EFTA og þá eftir atvikum orðið aðili að EES-samningnum kjósi Bretland að sækja um slíka aðild og um það semst við EFTA-ríkin og ESB. Á þessu stigi er of snemmt að útiloka nokkurn kost þegar kemur að framtíðarfyrirkomulagi. Bresk stjórnvöld hafa þó sagt að þeir stefni á sérsniðinn samning við ESB og því ólíklegt að þau muni sækjast eftir aðild að EFTA og/eða EES.

Tíð samskipti hafa átt sér stað milli Íslands og Bretlands frá því niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir enda hefur áhersla íslenskra stjórnvalda verið að virkja náið samstarf ríkjanna tveggja og tryggja hagsmuni. Ísland hefur einnig átt samráð við ESB og er í nánu samstarfi við hin EFTA-ríkin í þessari vinnu.

Frá því að viðræður hófust á milli Bretlands og ESB um útgöngusamning var ljóst að ýmiss atriði sem samið var um snertu einnig Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES. Ásamt Noregi og Liechtenstein hefur því verið unnið að gerð samnings við Bretland vegna fyrirhugaðrar útgöngu þess úr ESB og þar af leiðandi EES. Drög að samningi liggja nú fyrir þar sem leyst er úr öllum viðeigandi útgöngumálum með sambærilegum hætti og gert er í útgöngusamningi Bretlands og Evrópusambandsins. Samningurinn mun m.a. tryggja að Íslendingar sem búa í Bretlandi geti verið þar áfram eftir útgöngu Bretlands og að réttindi þeirra verða í öllum grundvallaratriðum óbreytt. Þetta á einnig við um breska ríkisborgara sem búa á Íslandi. Í samningnum eru einnig tæknileg úrlausnarnefni vegna útgöngu Bretlands úr EES á sviði vöruviðskipta, opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, persónuverndar og tollamála.

Þar sem samningur Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland byggir á útgöngusamningi Bretlands úr ESB, verður hann eingöngu undirritaður ef útgöngusamninginn nær fram að ganga. Ágreiningur er innan breska þingsins um útgöngusamninginn og óvíst að hann hljóti þar brautargengi. Íslensk stjórnvöld eru því einnig að vinna að varúðarráðstöfunum ef til þess kæmi að Bretland gengi úr ESB án samnings. Nánari upplýsingar um ráðstafanir vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings má finna hér. Þá hefur mikil undirbúningsvinna átt sér stað fyrir framtíðarviðræður við Bretland sem geta hafist eftir útgöngu. 

 

Ísland hefur, ásamt Noregi og Liechtenstein, unnið að gerð samnings við Bretland vegna fyrirhugaðrar útgöngu þess úr ESB og þar af leiðandi EES. Drög að samningi liggja nú fyrir og hann mun m.a. tryggja að Íslendingar sem búa í Bretlandi geti verið þar áfram eftir útgöngu Bretlands úr ESB og að réttindi þeirra verða í öllum grundvallaratriðum óbreytt. Þetta á einnig við um breska ríkisborgara sem búa á Íslandi. Þar sem þessi samningur byggir á útgöngusamningi Bretlands og ESB, mun hann eingöngu taka gildi að því gefni að útgöngusamningurinn nái endanlega fram að ganga.

Ef svo færi að Bretland hyrfi úr ESB án útgöngusamnings, ríkir pólitískt samkomulag um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES 29. mars 2019, jafnvel þó svo færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB. 
Samningaviðræðum EFTA-ríkjanna innan EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, við Bretland um áframhaldandi búseturéttindi borgara ef útgöngusamningur Bretlands og Evrópusambandsins (ESB) nær ekki fram að ganga er lokið. Hafa lokadrög samningsins nú verið birt.

Nánari upplýsingar um réttindi til búsetu í Bretlandi eftir Brexit má finna hér.  

Útgöngusamningur Bretlands og ESB gerir ráð fyrir bráðabirgðatímabili þar sem regluverk ESB og alþjóðasamningar þ.m.t. EES-samningurinn munu halda áfram að gilda í Bretlandi a.m.k. til loka árs 2020. Ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga, verður Íslendingum því heimilt að flytja til Bretlands og stunda þar nám eða störf á því tímabili. Óvíst er hvaða reglur muni gilda að bráðbirgðatímabilinu loknu. 

Í tilfelli útgöngu Bretlands úr ESB án samnings, hafa bresk stjórnvöld nýlega birt upplýsingar um reglur sem munu gilda um EES-borgara sem vilja vinna eða leggja stund á nám í Bretlandi eftir útgöngu Bretlands úr ESB. Í grófum dráttum fela þær í sér að EES-borgarar sem vilja koma til Bretlands til náms eða starfa eftir útgöngudag geti sótt um dvalarleyfi sem gildir í 36 mánuði. Nánari upplýsingar má finna hér.

Nánari upplýsingar um réttindi til búsetu í Bretlandi eftir Brexit má finna hér.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu voru tæplega 2.400 íslenskir ríkisborgarar skráðir með lögheimili í Bretlandi þann 1. nóvember 2018. Hafa ber í huga að Íslendingar gætu verið búsettir þar í landi án þess að hafa skráð lögheimili þar, t.d. vegna tímabundinnar dvalar við nám eða störf. Um eitt þúsund breskir ríkisborgarar eru búsettir á Íslandi.

Bretland fellur í dag undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB en við útgönguna úr ESB munu Bretar fá aftur forræðið yfir eigin fiskveiðum. Bretland þarf því að setja sér sjávarútvegsstefnu og hefur lýst yfir áhuga á samstarfi og samráði við Ísland við mótun hennar. Ísland vill gjarnan miðla áratuga reynslu sinni og saman geta Ísland og Bretland orðið talsmenn sjálfbærra fiskveiða, talað gegn ríkisstyrkjum í sjávarútvegi og sótt fram í fríverslun með sjávarafurðir á heimsvísu. Hins vegar hefur útganga Bretlands úr ESB m.a. í för með sér að bresk stjórnvöld munu taka yfir það umboð sem áður var í höndum framkvæmdastjórnar ESB þegar kemur að samningaviðræðum um deilistofna á borð við makríl. Ekki er víst að fjölgun samningsaðila muni einfalda viðræður sem fram til þessa hafa reynst flóknar.

EES-samningurinn gildir áfram um Bretland a.m.k. þar til að Bretland gengur formlega úr ESB í lok mars 2019. Samkvæmt drögum að útgöngusamningi Bretlands og ESB er gert ráð fyrir bráðabirgðatímabili fyrst eftir útgöngu þar sem að regluverk ESB muni halda áfram að gilda í Bretland í einhvern tíma. EES-samningurinn myndi einnig gilda í samskiptum við Bretland á slíku bráðabirgðatímabili. Þá eru íslensk stjórnvöld að vinna að undirbúningi þess að gerður verði víðtækur framtíðarviðskiptasamningur við Bretland sem tekið gæti gildi eftir lok bráðbirgðatímabilsins. Leitast verður eftir því að íslenskir aðilar hafi greiðan aðgang að Bretlandi og breskum mörkuðum. Enn fremur verður horft til þess að bæta aðgang að breskum mörkuðum þar sem þess er kostur. 

Ef til þess kæmi að Bretland gengi úr ESB án samnings eru íslensk stjórnvöld að vinna að því að tryggja kjarnahagsmuni á sviði vöruviðskipta en íslensk fyrirtæki eru þó eindregið hvött til að kynna sér breytingar sem gætu orðið á viðskiptaumhverfinu. Nánari upplýsingar um ráðstafanir vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings má finna hér.

Miðað við þær varúðarráðstafanir sem unnið er að hefur dregið verulega úr hættu á alvarlegri röskun vegna útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. Mikilvægt er þó að hafa í huga að útganga Bretlands úr ESB án samnings mun hafa ýmsar breytingar í för með sér hvað varðar lagalega umgjörð viðskipta Íslands og Bretlands og samskipta ríkjanna á ýmsum sviðum þar sem Bretland yrði ekki lengur aðili að EES-samningnum. Í hagsmunagreiningu vegna útgöngu Bretlands úr EES er leitast við að greina áhrif þess ef ákvæði EES giltu ekki lengur í samskiptum við Bretland.

Þá verður einnig að hafa í huga ytri aðstæður sem gætu haft áhrif. Mögulegt er að gengi pundsins veikist og breskt efnahagslíf almennt, a.m.k. til skamms tíma. Þá gætu flöskuhálsar myndast við landamæri Bretlands og Frakklands fyrst um sinn sem gæti t.d. haft áhrif á umflutning íslensks fisks frá Bretlandi yfir á meginland Evrópu. Hér þurfa hagsmunaaðilar og fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Bretland að meta stöðuna og bregðast við með viðeigandi hætti en íslensk stjórnvöld eru þó ávallt reiðubúin til að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða og greiða fyrir málum þar sem hægt er.

 

Þótt samningamenn Bretlands og ESB hafi náð samkomulagi um útgöngusamning í nóvember 2018 er ekki víst að hann verði samþykktur á breska þinginu. Því er ekki hægt að útiloka að Bretland hverfi úr ESB án samnings 29. mars nk. Óvissan er mikil og nauðsynlegt er að íslensk stjórnvöld séu undirbúin fyrir þá sviðsmynd. Í því tilfelli þyrfti að gera ráð fyrir því að EES-samningurinn og aðrar samningar Íslands við ESB hætti að gilda um Bretland strax við útgöngu. Ef sú staða kemur upp eru íslensk stjórnvöld að vinna að því að tryggja kjarnahagsmuni á lykilsviðum sérstaklega hvað varðar áframhaldandi réttindi borgara til búsetu, vöruviðskipti og flug. Nánari upplýsingar um ráðstafanir vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings má finna hér. Í hagsmunagreiningu vegna útgöngu Bretlands úr EES er einnig leitast við að greina áhrif þess ef ákvæði EES giltu ekki lengur í samskiptum við Bretland. Þeir sem eiga í viðskiptum eða öðrum samskiptum við Bretland eru auk þess hvattir til að kynna sér upplýsingar frá breskum stjórnvöldum og ESB um aðgerðir á mismunandi sviðum ef til útgöngu án samnings kæmi.

Unnið er að gerð bráðabirgðasamnings á milli Íslands, Noregs og Bretlands sem myndi fela í sér að í grundvallaratriðum byggi inn- og útflutningur til og frá Bretlandi við sömu tollkjör fyrir sömu vörur og gilda í dag. Vinna við gerð samningsins er vel á veg komin og stefnt er á að hægt yrði að beita samningnum ef til þess kæmi að Bretlands gengi úr ESB án samnings í lok mars. Í framhaldinu yrði unnið að því að bæta markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir til Bretlands enn fremur til langs tíma. 

Hvað varðar matvælaöryggisreglur og tæknilegar reglur og staðla, er Ísland bundið af regluverki EES-samningsins og því ekki unnt að semja um það við Breta. Aftur á móti hafa bresk stjórnvöld gefið til kynna að þau muni ekki krefjast heilbrigðisvottorða fyrir vörur frá ESB eða EES-ríkjum eftir útgöngu a.m.k ekki fyrst um sinn. Svo kann að vera að reglur í Bretlandi breytist með tímanum hvað þetta varðar en óvíst er hvenær slíkar breytingar kæmu til framkvæmda og yrðu þær vart gerðar fyrirvaralaust. Þegar kemur að innflutning frá Bretlandi, mun Ísland aftur á móti þurfa að beita þeim EES-reglum sem gilda um afurðir sem koma utan EES. Nánari upplýsingar um ráðstafanir vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings má finna hér.

 

Lyfjastofnun hefur tekið saman spurningar og svör fyrir markaðsleyfishafa, umboðsmenn, apótek og heilbrigðisstofnanir.

Varðandi innflutning á efnum gilda efnalög nr. 61/2013 og reglugerðir settar á grundvelli þeirra. Í löggjöfinni er að finna kröfur sem gerðar eru til viðkomandi efna sem þarf að uppfylla til þess að viðkomandi vara megi vera markaðssett á Evrópska efnahagssvæðinu. Sömu reglur gilda burtséð hvort varan er framleidd á Evrópska efnahagssvæðinu eða í þriðja ríki. Það gilda hins vegar ólíkar reglur um innflutning milli landa innan svæðisins og innflutning frá þriðja ríki. Fari svo að Bretland gangi úr ESB án samnings mun innflutningur frá Bretlandi flokkast sem innflutningur frá þriðja ríki og aðrar reglur gilda þá um innflutninginn. Það mun væntanlega hafa í för með sér aukna umsýslu hjá þeim aðilum sem eru að flytja inn efni frá Bretlandi. Efnastofnun Evrópu (ECHA) undirbýr það sem snýr að efnalöggjöfinni og stofnuninni vegna útgöngu Bretlands úr ESB í lok mars 2019 og tekur undirbúningurinn mið af því að samningar náist ekki (Hard Brexit).  Ýmsar upplýsingar fyrir fyrirtæki hafa verið settar á heimasíðu ECHA og er verið að aðlaga tölvukerfið þannig að það verði tilbúið fyrir þessar breytingar þegar þær skella á.  ECHA hefur haft beint samband við einstök fyrirtæki og opnaður verður „Brexit window“ í REACH-IT til að einfalda fyrirtækjum á EES-svæðinu og í Bretlandi breytingarnar. 

Sjá: https://echa.europa.eu/uk-withdrawal-from-the-eu og https://www.youtube.com/watch?v=p0UCfD08cvc

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira