Hoppa yfir valmynd

Tímalína

Fyrsti fasi og bráðabirgðatímabilið

Tryggja þarf sem minnsta röskun í samskiptum við Bretland, einkum á þeim sviðum sem heyra undir EES-samninginn. Hagsmunagæsla Íslands á bráðabirgðatímabilinu svokallaða, þ.e. fyrstu misserin eftir að Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu, er afmörkuð í tíma og er samofin hagsmunum annarra EES-/EFTA-ríkja. Formleg útganga Breta úr Sambandinu verður 29. mars 2019, og munu Bretar þá jafnframt ganga úr EES. Fyrirferðarmesta verkefni bráðabirgðatímabilsins er að viðhalda virkni innri markaðarins á þessu 20 mánaða tímabili, sem líða mun frá formlegri útgöngu til 31. desember 2020. Á síðustu misserum hefur utanríkisþjónustan fylgst grannt með þróun mála í viðræðum Breta og Evrópusambandsins um bráðabirgðafyrirkomulag og meginforsendur útgöngusamnings og hefur átt náið samráð við bresk stjórnvöld, fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkja þess, auk virks samráðs við EES-/EFTA-ríkin. Meginmarkmið þeirrar hagsmunagæslu hefur verið að EES-samningurinn geti virkað snurðulaust og að hagsmunir EES-/EFTA-ríkjanna á innri markaðinum verði ekki fyrir borð bornir í útfærslu bráðabirgðasamkomulags Breta og ESB. Var efnt til þó nokkurs átaks í því skyni að kynna sameiginlega afstöðu EES-/EFTA-ríkjanna um að tryggja aðkomu og hagsmuni Íslands í tengslum við útgöngusamninginn í ljósi þess að samningaviðræður fara fram á grundvelli 50. gr. sáttmálans um Evrópusambandsins sem útilokar að gildissvið útgöngusamningsins nái til þriðju ríkja. Hvað hagsmuni Íslands varðar eru meginatriðin í niðurstöðu leiðtogaráðs ESB frá 23. mars þau að Bretland verður bundið af löggjöf ESB, þ.m.t. alþjóðsamningum, til 31. desember 2020 með sama hætti og það væri aðildarríki. Bretland tekur hins vegar ekki þátt í ákvarðanatöku og kemur einungis að framkvæmd eða undirbúningi ákvarðana þar sem þær varða Bretland beint. Í öðru lagi mun ESB tilkynna þeim ríkjum sem eiga alþjóðasamninga við ESB að á bráðabirgðatímabilinu skuli meðhöndla Bretland með sama hætti og það væri aðildarríki ESB og með því er lagður grunnur að því að EES-samningurinn gildi óbreyttur frá lokum mars 2019 til ársloka 2020. Í þriðja lagi var komist að samkomulagi um það að á bráðabirgðatímabilinu getur Bretland samið um, undirritað og staðfest alþjóðasamninga á sviðum sem annars falla innan valdheimilda ESB (þ.m.t. fríverslunarsamninga), að því gefnu að þeir samningar taki ekki gildi eða verði beitt fyrr en eftir að bráðabirgðatímabilinu lýkur. Slíkir samningar geti þó tekið gildi á bráðabirgðatímabilinu ef ESB veitir sérstaka heimild til þess. Og í fjórða lagi munu borgarar njóta áfram réttar til frjálsrar farar á bráðabirgðatímabilinu og viðmiðunardagsetning vegna réttar til áframhaldandi dvalar verður 31. desember 2020.

Þegar kemur að aðskilnaðarsamningnum milli ESB og Bretlands hafa öll EFTA-ríkin innan EES (Ísland, Liechtenstein og Noregur) áþekka hagsmuni og eru það því sameiginlegir hagsmunir þeirra að hið sama eða svipað gildi fyrir þau og það sem gilda mun eftir samninga milli Bretlands og ESB varðandi útgöngu, enda löggjöfin, sem semja þarf, að hluta til hin sama. Með þeirri ráðstöfun að Bretland slítur sig frá innri markaði ESB, rýfur það einnig tengsl sín við innri markaðinn varðandi EFTA-ríkin. Því er rökrétt að sömu uppgjörsreglur, varðandi t.d. réttindi borgaranna, frjálst flæði vöru, o.fl., gildi með líkum hætti annars vegar milli Bretlands og ESB og hins vegar milli Bretlands og EFTA-ríkjanna. Eðli málsins samkvæmt eru þó fleiri málaflokkar undir að því er snertir skilnað Bretlands við aðildarríki ESB heldur en aðskilnaðinn við EES-/EFTAríkin, þar eð mun fleiri málaflokkar eru til grundvallar samkvæmt stofnsáttmálum ESB heldur en samkvæmt EES-samningnum. Þótt hagsmunir EES-/EFTA-ríkjanna séu svipaðir varðandi skilnaðarsamninginn kann að gegna öðru máli hvað varðar samning um framtíðarfyrirkomulag hvers og eins EES-EFTA-ríkisins við Bretland, þar sem áherslur EFTA-ríkjanna kunna að vera mismunandi.

Framtíðarfyrirkomulag í öðrum fasa

Framtíðarfyrirkomulag viðskipta Bretlands og Íslands er hitt meginverkefnið í hagsmunagæslu íslenskra stjórnvalda í málefnum Brexit, enda afar mikilvægt að vel takist til við að skapa traustan ramma utan um efnahagsleg samskipti ríkjanna. Hefur utanríkisráðuneytið að undanförnu tekið mikið frumkvæði í því að ræða framtíðarmálin, bæði gagnvart breskum stjórnvöldum og einnig gagnvart hinum EFTA-ríkjunum. Síðustu mánuði hafa átt sér stað viðræður við Breta um grundvallarforsendur framtíðarfyrirkomulags á fríverslun Breta og Íslendinga samhliða nánara pólitísku og efnahagslegu samstarfi eftir útgöngu Bretlands úr ESB. Ísland stefnir að því að slíkur fríverslunarsamningur byggi ofan á það viðskiptafrelsi sem Ísland nýtur á vettvangi EES og er m.a. horft til fulls afnáms tolla á sjávarafurðum. Utanríkisráðherra hefur reifað stefnumið Íslands í þessa veru á fundum sínum með breskum ráðherrum, auk þess að ræða þessi mál við ráðherra EFTA-ríkjanna.

Málefni framtíðarfyrirkomulags eru enn sem komið er að mestu í tvíhliða ferli á milli Íslands og Bretlands. Eftir því sem mál þokast áfram og línur skýrast verður unnt að meta hvort æskilegt sé að EFTA-ríkin semji í sameiningu eða hvort taka skuli mið af samningum ESB og Bretlands þegar það á við. Formlegar samningaviðæður um slíkan samning munu að öllum líkindum ekki geta hafist fyrr en á fyrirhuguðu bráðabirgðatímabili eftir útgöngu Bretlands úr ESB í lok mars 2019. Bresk stjórnvöld hafa lagt mikla vinnu í að greina viðskiptahagsmuni sína og forgangsraða þeim ríkjum og ríkjahópum sem samningaviðræður munu hefjast við á bráðabirgðatímabilinu. Mikið er í húfi fyrir Ísland að vera ofarlega á þeim forgangslista.

 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira