Hoppa yfir valmynd

Tímarammi

 

Athuga skal að útgöngu Bretlands úr ESB hefur verið frestað til 31. janúar 2020. Ekki liggur þó enn fyrir hvernig útgöngunni verður háttað, þ.e. hvort hún verði með eða án samnings við ESB. Bretland gæti gengið út fyrr ef breska þingið samþykkir útgöngusamning fyrir þann tíma. Ekki er heldur hægt að útiloka frekari frestun á útgöngu. Þá er sá möguleiki fyrir hendi að Bretland gangi úr ESB án samnings í lok janúar 2020.

Mikilvægt er að hafa í huga að útgönguviðræður Bretlands og ESB fjalla ekki um framtíðarsamband þeirra heldur eingöngu um útgöngumál einna helst fjármálauppgjör,  áframhaldandi réttindi borgara til búsetu, ákvæði um aðlögunartímabili, úrlausn deilumála og lausnir til að fyrirbyggja landamæragæslu á milli Írlands og Norður-Írlands. Ekki verður samið um framtíðarfyrirkomulag fyrr en eftir útgöngu. EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, hafa samið við Bretland um öll útgöngumál sem varða þau og leyst verður úr þeim með sambærilegum hætti og milli Bretlands og ESB. 

Í útgöngusamningi Bretlands og ESB er gert ráð fyrir svokölluðu aðlögunartímabili sem tekur gildi fyrst eftir útgöngu og stendur yfir til loka árs 2020 með möguleika á framlengingu. Á því tímabili mun regluverk ESB og allir alþjóðasamningar, þ.m.t. EES-samningurinn, halda áfram að gilda um Bretland. Á aðlögunartímabilinu verður engin marktæk breyting á samskiptum Íslands og Bretlands þar sem þau munu áfram byggja á samningum Íslands við ESB. 

Íslensk stjórnvöld gera ráð fyrir hefja viðræður við Bretland um framtíðarsamning á sama tíma og ESB fljótlega eftir útgöngu. Mikil undirbúningsvinna hefur átt sér stað fyrir framtíðarviðræður sem miðað hefur að því að skilgreina hagsmuni og markmið Íslands á mismunandi sviðum í samráði við hagsmunaaðila. Í því samhengi verður tekið mið af framtíðarsamningi Bretlands og ESB þar sem það á við og samræmist hagsmunum Íslands. Einnig verður skoðað hvort hagstætt sé að samið verði ásamt hinum EFTA-ríkjunum innan EES, Noregi og Lichtenstein, amk á sumum sviðum. 

Eins og komið hefur fram er ennþá óljóst hvernig framtíðarsamskiptum Bretlands og ESB verður háttað. Drögum að útgöngusamningi Bretlands og ESB fylgir pólitísk yfirlýsing um ramma fyrir framtíðarsamskipti þeirra og verður hún greind með það fyrir augum að kanna hvort innihald hennar hafi áhrif á markmiða- og hagsmunagreiningu Íslands. Í henni er m.a. fjallað um viðskiptasamning (e. economic partnership) og samning um samstarf á sviði öryggismála.  Einnig er fjallað um fiskveiðimál og samstarf á sviði utanríkis- og varnarmála. Yfirlýsingin lýsir víðtæku samstarfi en opin hvað varðar dýpt samstarfsins og form. Á viðskiptasviðinu gæti ramminn þannig innifalið sviðsmyndir frá hefðbundnum fríverslunarsamningi langleiðina að EES-nálgun og tollabandalagi. Viðræður um útfærslu framtíðarsamninganna munu hefjast við upphaf aðlögunartímabilsins.

Erfitt er að meta nákvæmlega hver áhrif Brexit verða á Íslandi fyrr en meiri vissa ríkir um framtíðarsamband annars vegar Bretlands og ESB og hins vegar Íslands og ESB. Ef útgöngusamningurinn nær fram að ganga verða áhrifin samt mjög takmörkuð til skamms tíma vegna aðlögunartímabilsins. Íslensk stjórnvöld munu leitast eftir að gera víðtækan og náinn framtíðarsamning við Bretland til að tryggja áfram góð viðskiptakjör og sterk tengsl ríkjanna. 

Ljóst er að útgöngusamningurinn er umdeildur í Bretlandi og óvíst að hann hljóti brautargengi. Vegna þeirrar óvissu sem hefur ríkt um gang mála hafa íslensk stjórnvöld búið sig undir mismunandi sviðsmyndir, m.a. þann möguleika að Bretland gangi úr ESB án samnings. Í því samhengi hafa kjarnahagsmunir á lykilsviðum verið tryggðir. Nánari upplýsingar um undirbúningsvinnu Íslands fyrir hugsanlega útgöngu án samnings eru að finna hér

Á eftirfarandi slóðum má svo nálgast skýringargögn við útgönguskilmálana frá annars vegar breskum stjórnvöldum og hins vegar ESB

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira