Hoppa yfir valmynd

Útganga án samnings

Um nokkurt skeið hefur ríkt talsverð óvissa um það hvort Bretland gangi úr ESB með eða án útgöngusamnings. Lengst af var gert ráð fyrir því að Bretland gengi úr sambandinu 29. mars 2019 en þar sem ríkisstjórn Bretlands hefur ekki fengið samþykki breska þingsins fyrir útgöngusamningi Bretlands og ESB hefur hún óskað eftir framlengingu á aðild Bretlands að ESB og hefur útgöngu verið frestað í tvígang. Nú liggur fyrir framlenging á aðild Bretlands að ESB til 31. október 2019 nema útgöngusamningur verði samþykktur fyrr. Vegna óvissunnar um þróun mála hefur utanríkisráðuneytið gert ráðstafanir til að bregðast við mismunandi sviðsmyndum m.a. hugsanlegri útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.

Ef útgöngusamningur nær fram að ganga má gera ráð fyrir því að aðlögunartímabil taki við eftir útgöngu og til loka árs 2020 þar sem regluverk ESB og alþjóðasamningar m.a. EES-samningurinn héldu áfram að gilda um Bretland. Ekki er heldur hægt að útiloka frekari frestun á útgöngu. Þá er sá möguleiki fyrir hendi að Bretland gangi úr ESB án samnings í lok október. Óvissan er ennþá mikil og nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld séu undirbúin fyrir þá sviðsmynd. Í því tilfelli þyrfti að gera ráð fyrir því að EES-samningurinn og aðrar samningar Íslands við ESB hætti að gilda um Bretland strax við útgöngu. Ef sú staða kemur upp hafa íslensk stjórnvöld unnið hörðum höndum að því að tryggja kjarnahagsmuni á lykilsviðum m.a. með því að gera sérstaka samninga við Bretland um áframhaldandi réttindi borgara til búsetu, vöruviðskipti og flug. Ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga eða ef samið verður um að framlengja enn aðild Bretlands að ESB taka þessir samningar ekki gildi þar sem réttindi og fríverslunarkjör verða enn um sinn tryggð á grundvelli EES-samningsins eða samningum sem taka mið af útgöngusamningi Bretlands við ESB.

Hér er fjallað nánar um þessa þætti og um afleiðingar útgöngu án samnings á öðrum sviðum. Þeir sem eiga í viðskiptum eða öðrum samskiptum við Bretland eru hvattir til að kynna sér efni þessarar síðu. Þá er að finna svör við ýmsum algengum spurningum sem tengjast Brexit á spurt og svarað síðunni. Einnig er gagnlegt að kynna sér upplýsingar frá breskum stjórnvöldum og ESB um aðgerðir á mismunandi sviðum ef til útgöngu án samnings kæmi. 

Ef frekari spurningar vakna má senda inn fyrirspurn hér

Réttindi borgara til búsetu

Samningur  var undirritaður  2. apríl 2019 sem tryggir rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES, jafnvel þó svo færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB. Samningurinn er á milli EFTA-ríkjanna innan EES (Íslands, Liechtenstein og Noregs) og Bretlands.

Í október 2018 komust forsætisráðherrar Íslands og Bretlands að pólitísktu samkomulagi um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB, jafnvel þó svo færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB. Í framhaldinu var unnið að gerð samnings um gagnkvæm réttindi borgara þessara ríkja og var endanlegur texti  samningsins kynntur 8. febrúar  síðastliðinn.

Sambærileg réttindi hafa einnig verið tryggð  ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga en þá tæki fyrst við aðlögunartímabili til loka árs 2020 þar sem EES-samningurinn gilti áfram um Bretland.

Fyrrnefndur samningur við Bretland á við um réttindi þeirra sem eru búsettir í Bretlandi fyrir útgöngudag.

Vöruviðskipti

Ísland, Noregur og Bretland undirrituðu  2. apríl 2019 bráðabirgðafríverslunarsamning vegna vöruviðskipta. Samningurinn tekur aðeins gildi ef Bretland gengur úr ESB án útgöngusamnings og felur í sér að núverandi tollkjör myndu í grundvallaratriðum halda áfram að gilda fyrir inn- og útflutning til og frá Bretlandi.

Á þessu stigi er ekki samið um framtíðarsamband Íslands og Bretlands. Markmið samningsins er að viðhalda gildandi kjörum þar til samið hefur verið um nýjan og viðameiri fríverslunarsamning á milli ríkjanna. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að styrkja enn frekar og byggja upp sambandið við Bretland eftir útgöngu.

Breska ríkisstjórnin hefur nýverið birt almenna tollskrá til bráðabirgða sem mun gilda ef Bretland gengur úr ESB án útgöngusamnings. Tollskráin mun gilda í allt að 12 mánuði og gilda gagnvart öllum aðildarríkjum WTO. Í þeim tilvikum sem hin almenna tollskrá veitir betri tollkjör en fríverslunarsamningar Bretlands munu innflytjendur njóta þeirra kjara sem betri eru. Gildir það einnig um sjávarafurðir sem flestar eru tollfrjálsar samkvæmt bráðabirgðatollskránni.

Lokatexta samningsins má nálgast hér.

Sameiginlega yfirlýsingu samningsaðila hvað varðar upprunareglur má nálgast hér.

Nánari upplýsingar um samninginn er að finna hér.

Skýrslu breska utanríkisviðskiptaráðuneytisins um samninginn má nálgast hér.

Hvað varðar matvælaöryggisreglur og tæknilegar reglur og staðla, er Ísland bundið af regluverki EES-samningsins og því ekki unnt að semja um það við Breta. Aftur á móti hafa bresk stjórnvöld staðfest að þau muni ekki krefjast heilbrigðisvottorða vegna innflutnings á matvælum frá ESB eða EES-ríkjum eftir útgöngu. Svo kann að vera að reglur í Bretlandi breytist með tímanum hvað þetta varðar en óvíst er hvenær slíkar breytingar kæmu til framkvæmda og yrðu þær vart gerðar fyrirvaralaust. Þegar kemur að innflutning frá Bretlandi, mun Ísland aftur á móti þurfa að beita þeim EES-reglum sem gilda um afurðir sem koma utan EES-svæðisins. Nánar er fjallað um afleiðingar útgöngu án samnings á markaðsaðgang og regluverk vöruviðskipta neðar á síðunni.

Flugmál

Nauðsynlegt er að tryggja að ekki verði rask á flugi milli Íslands og Bretlands. Lendingarréttindi hafa verið tryggð sama hvað gerist í viðræðum Bretlands og ESB með tvíhliða loftferðasamningi á milli Íslands og Bretlands sem hægt væri að beita með skömmum fyrirvara ef EES-reglur hættu að gilda um Bretland. Þá hafa reglugerðir á sviði flugmála sem ESB hefur samþykkt einnig verið teknar upp í EES-samninginn.

Afleiðingar útgöngu án samnings á mismunandi sviðum

Miðað við þær varúðarráðstafanir sem unnið er að hefur dregið verulega úr hættu á alvarlegri röskun vegna útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. Mikilvægt er þó að hafa í huga að útganga Bretlands úr ESB án samnings mun hafa ýmsar breytingar í för með sér hvað varðar lagalega umgjörð viðskipta Íslands og Bretlands og samskipta ríkjanna á ýmsum sviðum þar sem Bretland yrði ekki lengur aðili að EES-samningnum. Í hagsmunagreiningu vegna útgöngu Bretlands úr EES er leitast við að greina áhrif þess ef ákvæði EES giltu ekki lengur í samskiptum við Bretland.

      Þá verður einnig að hafa í huga ytri aðstæður sem gætu haft áhrif. Ekki er hægt að sjá fyrir allar hugsanlegar afleiðingar útgöngu Bretland úr ESB án samnings en undirbúningsvinna miðast við að hægt verði að bregðast hratt við slíkri stöðu. Hér þurfa hagsmunaaðilar og fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Bretland að meta stöðuna og bregðast við með viðeigandi hætti en íslensk stjórnvöld eru þó ávallt reiðubúin til að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða og greiða fyrir málum þar sem hægt er.

      Nánar er fjallað um afleiðingar útgöngu Bretlands úr ESB (og þar af leiðandi EES) á ýmsum sviðum neðar. 

1. Markaðsaðgangur

Núverandi staða

Núverandi markaðsaðgangur (þ.e.a.s. tollaumhverfi) í vöruviðskiptum á milli Íslands og Bretlands byggist á ákvæðum EES-samningsins, fríverslunarsamningi Íslands við ESB frá 1972 og samningum Íslands við ESB um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur.
      EES-samningurinn felur í sér fullt afnám tolla á iðnaðarvörum. Tollar við innflutning sjávarafurða til ríkja ESB, þ.m.t. Bretlands, eru misháir eftir því um hvers kyns afurð er að ræða og hvernig hún er unnin, og í samningi Íslands og ESB frá 2007 og nýjum samningi frá 2015, var m.a. samið um umtalsverða tollkvóta fyrir kindakjöt skyr og smjör.

Útganga Bretlands án samnings

Gildandi samningar milli Íslands og ESB um tollfrelsi, tollaívilnanir, þ.m.t. tollkvótar, falla úr gildi gagnvart Bretlandi, hafi ekki verið samið um annað. Það er afar brýnt að koma í veg fyrir að atburðarásin verði á þennan veg.

Ráðstafanir Íslands

Ísland, Noregur og Bretland hafa lokið samningaviðræðum um bráðabirgðafríverslunarsamning vegna vöruviðskipta. Samningurinn tekur gildi ef Bretland gengur úr ESB án útgöngusamnings og myndi fela í sér að núverandi tollkjör héldu í grundvallaratriðum áfram að gilda fyrir inn- og útflutning til og frá Bretlandi.

Nánari upplýsingar um samninginn er að finna hér.

2. Matvælaöryggi – Heilbrigði dýra og plantna

Núverandi staða

Ákvæði EES-samningsins um matvælaöryggi gilda um inn- og útflutning matvæla frá Íslandi, þ.m.t. útflutning til Bretlands. Reglur þessar eru ítarlegar og samræmdar, sem ná til allrar fæðukeðjunnar. Auk þess er kveðið á um hvernig eftirlit með þessum reglum skuli háttað. Þá hafa verið settar reglur um innflutning matvæla frá þriðju ríkjum, þ.e. ríkjum sem standa utan innri markaðarins.

Útganga Bretlands án samnings

Verði ekki samið sérstaklega um útgöngu Bretlands úr ESB og EES mun það teljast þriðja ríki samkvæmt reglum þessum.

Innflutningur matvæla frá Bretlandi fer því samkvæmt þeim reglum, sem íslenska ríkið hefur samþykkt að undirgangast samkvæmt EES-samningnum hvað varðar innflutning frá ríkjum utan EES-svæðisins, nánar tiltekið I. viðauka þess.

Hvað útflutning matvæla frá Íslandi til Bretlands varðar er ljóst að matvælaframleiðsla á Íslandi mun ekki lengur njóta sjálfkrafa viðurkenningar í Bretlandi í krafti EES-samningsins. Það mun ráðast að því hvaða reglur bresk stjórnvöld setja um matvælaöryggi hver hin raunverulegu áhrif á útflutning sjávarafurða og annarra matvæla til Bretlands verða. Aftur á móti hafa bresk stjórnvöld staðfest að þau muni ekki krefjast heilbrigðisvottorða vegna innflutnings á matvælum frá ESB eða EES-ríkjum, a.m.k. ekki fyrst eftir útgöngu. Rétt er að hafa í huga í þeim efnum að Bretland er einnig bundið að skuldbindingum sínum á grundvelli samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að tryggja að útganga Bretlands leiði ekki til nýrra hindrana á viðskiptum með matvæli á milli landanna tveggja, og mun Ísland leggja áherslu á það.

Samningsfrelsi Íslands, ásamt hinum EES-EFTA ríkjunum, er þó takmarkað á þessu sviði vegna skuldbindinga á grundvelli EES-samningsins. Ríkin þyrftu því að endurspegla aðgerðir ESB, ef útganga verður án samnings.
      Einhliða aðgerðum kann að verða beitt af hálfu ESB og Bretlands, til að tryggja áframhaldandi einsleitni, sem EES-EFTA ríkin myndu geta notið góðs af.

Nánari upplýsingar um inn- og útflutning dýraafurða eru að finna á heimsíðu MAST.

3. Tæknilegar kröfur og staðlar

Núverandi staða

Reglur EES-samningsins um tæknilegar kröfur og staðla fela í sér að almennt er litið svo á að vörur sem framleiddar eru í einu EES-ríki uppfylli þær tæknilegu kröfur og staðla sem gerðar eru í öðru ríki.

Útganga Bretlands án samnings

Við útgöngu Bretlands tækju ákvæði EES-samningsins ekki til vara sem framleiddar eru í Bretlandi og því væri hvorki hægt að ganga út frá því að vörur sem framleiddar væru í Bretlandi uppfylltu kröfur hér á landi né að vörur sem framleiddar eru hér á landi uppfylltu breskar kröfur.

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að tryggja að útganga Bretlands torveldi hvorki útflutning á vörum til Bretlands né innflutning frá Bretlandi á vörum sem framleiddar eru þar í landi, og mun Ísland leggja áherslu á það.

Samningsfrelsi Íslands er, ásamt hinum EES-EFTA ríkjunum, þó takmarkað á þessu sviði vegna skuldbindinga á grundvelli EES-samningsins. Ríkin þyrftu því að endurspegla aðgerðir ESB, ef útganga verður án samnings.
      Einhliða aðgerðum kann að verða beitt af hálfu ESB og Bretlands, til að tryggja áframhaldandi einsleitni, sem EES-EFTA ríkin myndu geta notið góðs af.

Nánari upplýsingar um áhrif Brexit á sviði lyfjamála sérstaklega má finna á heimasíðu Lyfjastofnunar.

Nánari upplýsingar um framleiðslu á iðnaðarvörum

Framleiðendur á Íslandi sem framleiða vörur sem falla undir samhæfða löggjöf ESB þurfa eftir því um hvaða framleiðsluvöru er að ræða að leita eftir gerðarviðurkenningum eða samræmismatsviðurkenningum. Einungis aðilar sem eru tilkynntir í NANDO gagnagrunn ESB og eru stofnsettir innan ESB/EES er unnt að skrá í NANDO og hafa rétt til slíkrar viðurkenningar á samræmi framleiðslu vöru við gildandi kröfur í Evrópurétti. Hafi íslenskir aðilar fengið gerðarviðurkenningu eða samræmismatsvottun frá faggiltum aðilum innan ESB þá falla brott þeirra réttindi ef ekki verður náð samkomulagi um útgöngu Bretalands. Af þeirri ástæðu verða innlendir aðilar framvegis að fá slíka þjónustu frá aðilum sem eru skráðir í NANDO gagnagrunnninn. Sjá nánari upplýsingar hér í tilkynningum ESB.

Gagnlegir hlekkir:

Brexit – guidance to stakeholders on impact in the field of industrial products

Questions and answers related to the United Kingdom's withdrawal from the European Union with regard to industrial products

4. Fjármálaþjónusta 

Núverandi staða

Ákvæði EES-samningsins um þjónustu- og staðfesturétt á sviði fjármálaþjónustu fela í sér afnám hindrana fyrir því að þjónustuaðili í einu ríki innan EES geti veitt þjónustu í öðrum EES-ríkjum og öðlast þar rétt til staðfestu. Enn fremur er mælt fyrir um einföldun stjórnsýsluferla og starfsleyfisskilyrða til þess að þjónustuaðilar geti notið þessara réttinda. 

Útganga Bretlands án samnings

Frá og með þeim degi sem Bretland gengur úr ESB án samnings, yrði Bretland að óbreyttu skilgreint sem þriðja ríki (ríki utan EES) á grundvelli Evrópulöggjafar á fjármálamarkaði í samskiptum við Ísland og önnur ríki innan EES. Áhrif þess á bresk og íslensk fjármálafyrirtæki munu, eðli málsins samkvæmt, fara eftir starfsemi fyrirtækja í hverju tilviki fyrir sig.

Ætla má að almenn áhrif útgöngu Bretlands úr ESB án samnings, á íslenskan fjármálamarkað, verði að mestu sambærileg fyrirsjáanlegum áhrifum sem verða á fjármálamarkaði annarra ríkja innan EES.

Útganga Bretlands úr ESB án samnings gæti m.a. haft áhrif á möguleika eða kostnað fyrirtækja innan EES við kaup á þjónustu af breskum miðlægum innviðum á sviði verðbréfamarkaðar. ESB hefur kynnt að í tilviki útgöngu Bretlands úr ESB án samnings, verði gripið til ráðstafana þannig að bankar og önnur fyrirtæki innan ESB geti haldið áfram að nýta sér þjónustu breskra miðlægra mótaðila (e. central counterparties) vegna uppgjörs afleiðuviðskipta og verðbréfamiðstöðva (e. central securities depositories). Slíkar ráðstafanir ESB, sem miða að því að tryggja hagsmuni fyrirtækja innan ESB, ber almennt að taka upp í EES samninginn. 

Fyrirtæki með staðfestu innan EES, m.a. á Íslandi, sem starfa eða veita þjónustu í Bretlandi verða þá undirorpin þarlendri löggjöf hvað varðar þá starfsemi eða þjónustu. Bretar hafa kynnt tímabundið leyfisfyrirkomulag (e. Temporary Permission Regime), en tilgangur þess er að fyrirtæki sem hafa staðfestu innan EES, og veita þjónustu yfir landamæri í Bretlandi á grundvelli tilkynningar (e. passporting), geti haldið áfram að veita þar þjónustu um tiltekið tímabil að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

Útganga Bretlands úr ESB án samnings mun hafa áhrif á réttindi breskra fyrirtækja til þess að veita þjónustu yfir landamæri til EES ríkja á grundvelli tilkynninga (e. passporting). Gangi Bretland úr ESB án samnings, munu bresk fyrirtæki ekki eiga rétt á því að veita þjónustu í ríkjum EES, þ.á m. Íslandi, á grundvelli starfsleyfi síns í Bretlandi. Þetta hefur þá þýðingu að bresk fyrirtæki munu falla undir lagaramma sem gildir um þriðju ríki (fyrirtæki utan EES), og ber að sækja um starfsleyfi á Íslandi til að geta veitt þjónustu hér á landi. 

Þá kann útganga Bretlands úr ESB án samnings að geta haft áhrif á samninga við fyrirtæki í Bretlandi, t.a.m. á sviði vátrygginga.

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að íslenskir aðilar á fjármálamarkaði meti sjálfir áhættu, afleiðingar og nauðsynlegar ráðstafanir sem grípa þyrfti til vegna útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. 

Fjármálaeftirlit EES ríkja eiga í samstarfi um mat á áhættu í tengslum við útgöngu Bretlands úr ESB, og gegna Evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði (EBA, ESMA og EIOPA) ákveðnu samhæfingarhlutverki. Evrópsku eftirlitsstofnanirnar útbúa og birta, hver á sínu sviði, upplýsingar ætlaðar til þess að aðstoða fyrirtæki á fjármálamarkaði til að búa sig undir útgöngu Breta úr ESB. Þær tilkynningar, sem almennt er beint til fyrirtækja innan ESB, eiga í þessu sambandi almennt einnig við um fyrirtæki í ríkjum innan EES, þ.á m. á Íslandi.

Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er fylgst vel með þróun mála hvað varðar útgöngu Bretlands úr ESB, og mismunandi sviðsmyndum þar að lútandi. Í tilviki útgöngu Bretlands úr ESB án samnings, munu íslensk stjórnvöld leitast við að þær aðgerðir sem ESB grípur til, til þess að tryggja brýna hagsmuni fyrirtækja innan ESB, verði teknar upp í EES samninginn og gildi þannig fyrir íslensk fyrirtæki á fjármálamarkaði.

Það er mikilvægt hagsmunamál að tryggja áframhaldandi hindranalausan rétt ríkisborgara og fyrirtækja á Íslandi og Bretlandi til staðfestu og til að veita fjármálaþjónustu í ríkjunum tveimur, til framtíðar. Í tilviki útgöngu Bretlands úr ESB án samnings, hvað varðar málefni fjármálamarkaða, er þó ekki talin brýn þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum í reglum eða löggjöf af hálfu íslenskra stjórnvalda. 

Hlekkir – frekari upplýsingar 

Fjármálaeftirlitið

Framkvæmdastjórn ESB:

Evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði:

Bresk stjórnvöld:

5. Orkumál

Núverandi staða

Reglur EES-samningsins um orkumál fela í sér sameiginlegar reglur um raforkuviðskipti á milli EES-ríkjanna. Ákvæðum EES-samningsins um orkumál er ætlað að koma á fót sameiginlegum innri markaði fyrir raforku og gas, auka samkeppni á orkumarkaði, auka orkuöryggi og notkun endurnýjanlegra orkugjafa, auk þess að bæta orkunýtni í aðildarríkjunum.

Útganga Bretlands án samnings

Við útgöngu Bretlands munu ákvæði samningsins um orkumál ekki gilda í samskiptum Íslands og Bretlands. Sem stendur eru ekki bein viðskipti með raforku milli Íslands og Bretlands eða annarra Evrópuríkja.

Ráðstafanir Íslands

Fyrir orkumál almennt eru takmörkuð áhrif vegna Brexit án útgöngusamnings, og því ekki talin þörf á sérstökum ráðstöfunum.

6. Samkeppnismál

Núverandi staða

EES-samningurinn skapar umgjörð utan um samstarf á milli stjórnvalda Íslands og Bretlands á sviði samkeppnismála, einkum varðandi upplýsingaskipti, aðstoð og samstarf við rekstur einstakra mála.

Útganga Bretlands án samnings

Samstarf Íslands og Bretlands á sviði samkeppnismála byggist fyrst og fremst á upplýsingaskiptum og aðstoð/samstarfi við rekstur mála. Hið lagalega umhverfi sem EES samningurinn kveður á um einfaldar slíkt samstarf og skapar vettvang fyrir það. Ljóst er að ef Bretland gengur úr Evrópusambandinu kann það að hafa áhrif á þetta samstarf.

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að tryggja að vettvangur verði fyrir áframhaldandi samstarf á sviði samkeppnismála milli Íslands og Bretlands.
      Ekki hefur verið talin þörf á sérstökum ráðstöfunum af hálfu Íslands á þessu sviði að svo stöddu.
 

7. Ríkisaðstoð

Núverandi staða

EES-samningurinn hefur að geyma ákvæði um ríkisaðstoð sem miða að því að koma í veg fyrir að stjórnvöld í EES-ríkjunum raski samkeppni á Evrópska efnahagssvæðinu með því að ívilna tilteknum fyrirtækjum eða atvinnugreinum.

Útganga Bretlands án samnings

Útganga Bretlands hefði ekki áhrif á beitingu þessara reglna hér á landi. Áfram myndu gilda innlendar samkeppnisreglur sem að einhverju marki koma í veg fyrir óæskileg inngrip í samkeppnisumhverfi fyrirtækja.

Þá yrði Bretland eftir sem áður bundin af ákvæðum samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunaraðgerðir frá 1994.

Ráðstafanir Íslands

Ekki þykir nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafanna á þessu sviði.

8. Opinber innkaup

Núverandi staða

Með reglum EES-samningsins um opinber innkaup er komið á fót sameiginlegum markaði um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þeim felst að opinberum aðilum beri að fylgja ákveðnu verklagi við innkaup sem eru yfir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem skilgreindar eru í reglunum og eiga öll fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu að njóta sama aðgangs að innkaupum opinberra aðila í EES-ríkjunum.

Útganga Bretlands án samnings

Bretar hafa gengist undir samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup (Government Procurement Agreement; GPA-samninginn) sem eitt af ríkjum Evrópusambandsins og hefur því ekki sjálfstæða aðild að samningum.

Gangi Bretland úr Evrópusambandinu þarf ríkið að gangast undir GPA samninginn til þess að hann nái til opinberra innkaupa í Bretlandi.

Fastlega er búist við að svo verði en Bretar og ESB hafa unnið í sameiningu að því að tryggja það.

Ráðstafanir Íslands

Ekki þykir nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana á þessu sviði að svo stöddu. Nánast fullvíst er að Bretland gerist sjálfstæður aðili að GPA samningi WTO og munu ákvæði þess samnings því gilda um aðgang íslenskra og breskra fyrirtækja að opinberum innkaupum í hvoru ríkinu fyrir sig.

9. Hugverkaréttindi

Núverandi staða

EES-samningurinn hefur að geyma reglur um hugverkaréttindi, þ.m.t. reglur um skráð réttindi á borð við einkaleyfi, vörumerki, verndun hönnunar, afurðaheiti, viðbótarvottorð fyrir lyf og plöntuvernd, og óskráð réttindi á borð við höfundarétt.

EES-samningurinn felur í sumum tilfellum í sér aukna vernd hugverkaréttinda umfram alþjóðasamninga á sviði hugverkaréttinda, og á öðrum sviðum auðveldar samningurinn skráningu og skilvirka vernd slíkra réttinda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Á grundvelli slíkra samræmingarreglna hafa íslenskir aðilar getað fengið vörumerki eða hönnun skráða með einni umsókn sem gildir í öllum aðildarríkjum ESB, þar á meðal í Bretlandi, hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO).

Útganga Bretlands án samnings

Með útgöngu Bretlands er ljóst að íslenskir aðilar verða að velja aðrar leiðir þegar vernda skal hugverkaréttindi í Bretlandi, einkum hvað varðar vörumerki og hönnun hjá EUIPO. Aðrir samningar munu halda þeim leiðum áfram opnum.

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að útganga Bretlands valdi ekki röskun á verndun hugverkaréttinda íslenskra rétthafa. Ljóst þykir þó að rétthafar verði að gæta sinna eigin hagsmuna í þessu tilliti, og því þykir ekki nauðsynlegt á þessu stigi að grípa til sérstakra ráðstafana stjórnvalda á þessu sviði.

10. Neytendavernd

Núverandi staða

EES-samningurinn inniheldur reglur um neytendavernd sem miða að því að neytendur geti treyst því að þeir njóti sömu lagalegu réttinda í viðskiptum yfir landamæri EES ríkja eins og þeir njóta samkvæmt reglum sem gilda í þeirra heimaríki.

Útganga Bretlands án samnings

Útganga Bretlands úr ESB mun þýða að ákvæði EES-samningsins um neytendavernd munu ekki gilda í viðskiptum við Bretland.

Neytendur sem versla í Bretlandi, sem lenda í vandræðum með vöru eða þjónustu, munu ekki lengur geta treyst á þá neytendavernd sem leiðir af EES-samningnum. Þeir verða í staðinn að reiða sig á bresk neytendalög.

Ráðstafanir Íslands

Ísland og íslenskir neytendur hafa átt og eiga í miklum viðskiptum við Bretland, í netverslun, á ferðalögum og með vörur, og því mikilvægt að tryggja áframhaldandi gott samstarf við bresk stjórnvöld um neytendavernd í viðskiptum á milli Íslands og Bretlands. Ekki þykir þó nauðsynlegt að svo stöddu að grípa til sérstakra ráðstafana á þessu sviði.

11. Hljóð- og myndmiðlun

Núverandi staða

Markmið reglna EES-samningsins um hljóð- og myndmiðlun er að koma á sameiginlegum markaði með hljóð- og myndmiðlun, þ.m.t. sjónvarpsútsendingar. Samkvæmt tilskipuninni er almenna reglan sú að EES-ríki hafa lögsögu yfir þeim fjölmiðlaveitum, þ.m.t. sjónvarpsstöðvum, sem hafa staðfestu í viðkomandi ríki. Leyfi til útsendinga í einu EES-ríki veitir heimild til að senda einnig út efni til annarra EES-ríkja.

Útganga Bretlands án samnings

Flestar sjónvarpsstöðvar sem sendar eru út hér á landi hjá íslenskum aðilum, svo sem Sýn og Símanum, eru í breskri lögsögu. Ef ekki næst samkomulag fyrir útgöngu Bretlands falla niður framangreindar heimildir til að senda efni frá Bretlandi til EES-ríkja.

Ráðstafanir Íslands

Ekki er þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum sem stendur enda fellur það efni sem er sýnt frá sjónvarpsstöðvum með aðsetur í Bretlandi undir breskar reglur sem að efni til svipa til tilskipunar ESB um hljóð- og myndmiðlun. Einnig verður athugað með að Ísland gerist aðili að og fullgildi sjónvarpssáttmála Evrópuráðsins sem Bretar eru einnig aðilar að. Hann hefur ekki verið uppfærður eftir að gerðar voru breytingar á hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB á árinu 2007, en hefur engu að síður að geyma lágmarksreglur um vernd barna, bann við hatursorðræðu og um framsetningu auglýsinga.

12. Persónuvernd

Núverandi staða

Reglur um flutning persónuupplýsinga milli Íslands og Bretlands byggjast á reglum EES-samningsins um persónuvernd, sem má finna í viðauka nr. XI við samninginn. Núgildandi meginlöggjöf Evrópusambandsins á sviði persónuverndar er reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB (almenna persónuverndarreglugerðin). Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hinn 6. júlí 2018 og innleidd í íslensk lög með lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Útganga Bretlands án samnings

Þegar útganga Breta úr ESB kemur til framkvæmda má gera ráð fyrir að staða Bretlands gagnvart Íslandi verði sambærileg stöðu ríkja utan EES, þ.e. eins og annarra þriðju ríkja. Ákvæði V. kafla almennu persónuverndarreglugerðarinnar mæla fyrir um heimildir til miðlunar persónuupplýsinga til þriðju landa eða alþjóðastofnana. Þó ekki náist útgöngusamningur milli Bretlands og ESB er líklegt að ESB muni taka ákvörðun um að Bretland veiti fullnægjandi vernd skv. 45 gr. almennu persónuverndargerðarinnar enda hefur Bretland þegar innleitt reglugerðina í sína löggjöf. 

Ráðstafanir Íslands

Ef ekki lægi fyrir ákvörðun á grundvelli 45. gr. almennu persónuverndargerðarinnar kæmi til skoðunar að beita 46. og 47. gr. reglugerðarinnar. Þá gæti ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili (fyrirtæki eða stofnun) því aðeins miðlað persónuupplýsingum til þriðja lands eða alþjóðastofnunar að hann hafi gert viðeigandi verndarráðstafanir og með því skilyrði að fyrir hendi séu framfylgjanleg réttindi og skilvirk lagaleg úrræði fyrir skráða einstaklinga. Innan þessa fyrirkomulags yrði því hver ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili fyrir sig að tryggja heimild fyrir miðlun persónuupplýsinga til Bretlands. 

Nánari upplýsingar til fyrirtækja má finna á vef Persónuverndar.

Einnig má finna leiðbeiningar á vef evrópska persónuverndarráðsins

13. Fjarskipti, netöryggi, póstmál og almannaskráning 

Núverandi staða

Reglur EES-samningsins um fjarskipti og póstþjónustu fela í sér samræmingu á löggjöf á innanlandsmarkaði í hverju EES-ríki fyrir sig. Megintilgangurinn er að stuðla að virkri samkeppni í þessum málaflokkum og um leið tryggja ákveðin lágmarksréttindi borgara á EES–svæðinu til tiltekinna þátta fjarskipta- og póstþjónustu, sem þeim skal standa til boða á viðráðanlegu verði og óháð búsetu.

Útganga Bretlands án samnings

Bretland yrði að óbreyttu skilgreint sem þriðja ríki í samskiptum við Ísland og önnur lönd EES–svæðisins. Samkvæmt íslenskum lögum er öllum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) heimilt að starfa á sviði fjarskipta hér á landi. Úrsögn Bretlands getur haft áhrif á reikiþjónustu á milli landanna en nú gildir hámarksverð um reikiþjónustu innan EES-svæðisins, bæði í heildsölu og smásölu. Hugsanlega gæti þetta leitt til hærra reikiverðs milli landanna.

Ráðstafanir Íslands

Úrsögn Bretlands hefur lítil áhrif á fjarskipti og póstþjónustu hér á landi. Ekki er þörf á varúðarráðstöfunum er varðar ofangreinda málaflokka.

14. Almannatryggingar

Núverandi staða

Í EES-samningnum eru ítarleg ákvæði um almannatryggingar sem ætlað er að vernda áunnin almannatryggingaréttindi ríkisborgara aðildarríkjanna og fjölskyldna þeirra þegar þeir flytjast eða fara á milli ríkja innan EES, hvort heldur er til starfa, náms eða búsetu. 

Útganga Bretlands án samnings

Framangreind ákvæði EES-samningsins falla niður milli Íslands og Bretlands. Lög og reglur í Bretlandi og á Íslandi gilda þá án frávika varðandi réttindi og skyldur í almannatryggingakerfum ríkjanna.   

Ráðstafanir Íslands

Leitast er við að tryggja áframhaldandi réttindi íslenskra í Bretlandi sem og breskra borgara hér á landi þótt Bretland gangi úr ESB án samnings og er þetta hluti af samningi við Bretland um áframhaldandi réttindi borgara til búsetu.

15. Útsendir starfsmenn

Núverandi staða

Samkvæmt almannatryggingaákvæðum EES-samningsins hafa vinnuveitendur hér á landi getað sent starfsmenn til tímabundinna starfa í Bretlandi. Þeir hafa á starfstímanum fallið áfram undir íslenska almannatryggingalöggjöf og tryggingagjöld verið greidd áfram  hér á landi. Staðfesting þess efnis er gefin út á vottorði A1. Starfsmennirnir hafa á sama tíma ekki áunnið sér réttindi í breska tryggingakerfinu og vinnuveitendur og/eða starfsmenn undanþegnir því að greiða tryggingagjöld í Bretlandi. Sama á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Sérákvæði gilda um starfsfólk í flugþjónustu, s.s. flugmenn og flugþjóna, þá sem stunda þjónustuviðskipti og um íslenska sjómenn sem vinna fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki um borð í skipum er sigla undir breskum fána.  Sama  gildir um útsenda starfsmenn frá Bretlandi til Íslands.

Þá hafa bresk fyrirtæki getað sent hingað útsenda starfsmenn til þjónustu fyrir innlend notendafyrirtæki og breskar starfsmannaleigur hafa að sama skapi getað starfað hér á landi. 

Útganga Bretlands án samnings

Framangreind ákvæði EES-samningsins falla niður milli Íslands og Bretlands. Launþegar sem sendir eru til starfa í Bretlandi og vinnuveitendur þeirra þurfa að greiða gjöld til breska tryggingakerfisins í samræmi við bresk lög og reglur og atvinnuleyfi þarf væntanlega einnig að vera fyrir hendi í samræmi við bresk lög. Hins vegar geta þeir haldið áfram að falla undir íslenskar almannatryggingar að fullnægðum tilteknum skilyrðum.  Þeir sem hyggjast starfa hér á landi á vegum vinnuveitenda í Bretlandi geta ekki verið undanþegnir íslenskri löggjöf og þurfa greiða tryggingagjöld hér á landi og þurfa einnig dvalar- og atvinnuleyfi. Þá hættir útgáfa og móttaka A vottorða (SED/PD skjala) milli Íslands og Bretlands og útgefin vottorð falla úr gildi.

Ráðstafanir Íslands

Ekki er talið að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana.

16. Lífeyristryggingar almannatrygginga

Núverandi staða

Í EES-samningnum eru ítarleg ákvæði um almannatryggingar sem ætlað er að vernda áunnin almannatryggingaréttindi við för milli ríkjanna. M.a. er unnt að nota tryggingartímabil frá öðru hvoru ríkinu upp að ákveðnu marki til að fullnægja skilyrðum fyrir lífeyrisrétti í hinu ríkinu og greiða ber áunnin lífeyri vegna örorku eða elli þótt lífeyrisþeginn hafi búsetu í hinu ríkinu. 

Útganga Bretlands án samnings

Framangreind ákvæði EES-samningsins falla niður. Ekki verður unnt að nýta tryggingatímabil í Bretlandi til að fullnægja skilyrðum íslenskra laga um lágmarkstryggingatímabil fyrir bótarétti og lífeyrir almannatrygginga verður ekki greiddur úr landi til lífeyrisþega sem búsettir eru í Bretlandi. Það fer eftir breskum lögum hvort eða hvernig breskur lífeyrir verður greiddur til lífeyrisþega sem búsettir eru á Íslandi.  

Ráðstafanir Íslands

Leitast er við að tryggja áframhaldandi greiðslu áunnins lífeyris milli Íslands og Bretlands og er þetta hluti af samningi við Bretland um áframhaldandi réttindi borgara til búsetu.

17. Fæðingarorlofsgreiðslur

Núverandi staða

Almannatryggingaákvæði EES-samningsins gilda einnig um fæðingarorlofsgreiðslur, m.a. um að unnt sé að nýta tryggingartímabil frá öðru ríkinu upp að ákveðnu marki til að fullnægja skilyrðum fyrir bótarétti í hinu ríkinu og um greiðslu bóta þótt sá sem hefur áunnið sér réttindin sé búsettur í hinu ríkinu.

Útganga Bretlands án samnings

Framangreind ákvæði EES-samningsins falla niður. Gildir þá hið sama og um þá sem koma frá löndum utan EES.   

Ráðstafanir Íslands

Ekki er er talið að grípa þurfi til sérstakra ráðstafna.

18. Atvinnuleysisbætur

Núverandi staða

Almannatryggingaákvæði EES-samningsins gilda einnig um atvinnuleysisbætur. M.a. er unnt að nýta tryggingatímabil frá Bretlandi að ákveðnu marki til að fullnægja skilyrðum íslenskra laga um lágmarkstryggingatímabil fyrir bótarétti og hægt er að fara til Bretlands í atvinnuleit í tiltekinn tíma og halda atvinnuleysisbótum sínum hér á landi á meðan með vottorði U2. Sama gildir um þá sem fá atvinnuleysisbætur greiddar í Bretlandi skv. breskum lögum, þeir geta komið hingað til lands í atvinnuleit með vottorði U2.

Útganga Bretlands án samnings

Framangreind ákvæði EES-samningsins falla niður. Þá hættir útgáfa og móttaka U vottorða (SED/PD skjala) til og frá Bretlandi og útgefin vottorð falla úr gildi. Gildir þá hið sama og um þá sem koma frá ríkjum utan EES. 

Ráðstafanir Íslands

Ekki er talið að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana.

19. Vinnuverndarmál

Núverandi staða

EES-samningurinn hefur að geyma ákvæði um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna og fela þessar reglur í sér ákveðnar lágmarkskröfur á þessum sviðum sem öllum ríkjum innan EES ber að uppfylla.

Útganga Bretlands án samnings

Við útgöngu úr ESB mun Bretland ekki lengur vera bundið af framangreindum lágmarkskröfum. Innleiddar tilskipanir á Íslandi er varða öryggi- og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna eru svæðisbundnar í eðli sínu og hafa ekki bein áhrif á samskipti ríkja.

Ráðstafanir Íslands

Ekki er talið að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana.

20. Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi 

Núverandi staða

EES-borgarar, sem vilja starfa í öðru EES-ríki en þeir öðluðust upprunalega starfsréttindi sín, geta fengið starfsmenntun sína og hæfi viðurkennd á grunni 30. gr. EES-samningsins.

Útganga Bretlands án samnings

Við útgöngu Bretlands úr ESB myndu reglur EES-samningsins um gagnkvæma viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, t.d. viðurkenningu á sérnámi í læknisfræði, ekki gilda. Um háskólagráður er ekki veita starfsréttindi lögverndaðra starfsstétta gilda samningar Bologna samstarfsins, sem Bretland og Ísland eiga áfram aðild að þrátt fyrir Brexit. 

Ráðstafanir Íslands

Huga þarf að réttindum þeirra íslensku ríkisborgara sem þegar dvelja, hafa dvalið eða munu dvelja í Bretlandi í kjölfar Brexit þegar kemur að viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Fyrirhugaður samningur við Bretland um áframhaldandi búseturéttindi í tilfelli útgöngu án samnings tryggir réttindi þeirra sem fengið hafa prófskírteini sín viðurkennd fyrir útgöngudag eða umsókn um slíkt hefur verið lögð fram fyrir útgöngudag.

Nánari upplýsingar um starfsréttindi heilbrigðisstarfsmanna í kjölfar Brexit má finna á heimasíðu Embætti landlæknis.

21. Mennta- menningar- og vísindasamstarf

Vísað er til samantekta Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Rannís:

Áhrif Brexit á mennta- menningar- og vísindasamstarf: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/02/04/Ahrif-Brexit-a-mennta-menningar-og-visindasamstarf/

Hvaða áhrif hefur Brexit á þátttöku í Erasmus+?:  https://www.erasmusplus.is/um/frettir/hvada-ahrif-hefur-brexit-a-thatttoku-i-erasmus

Spurt og svarað: https://www.erasmusplus.is/um/brexit/ 

 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira