Hoppa yfir valmynd

Útganga án samnings

Þótt samningamenn Bretlands og ESB hafi náð samkomulagi um útgöngusamning í nóvember 2018 er ekki víst að hann verði samþykktur á breska þinginu. Því er ekki hægt að útiloka að Bretland hverfi úr ESB án samnings. Þetta myndi þýða að EES-samningurinn og aðrir samningar Íslands við ESB myndu hætta að gilda um Bretland strax við útgöngu 29. mars 2019. Í hagsmunagreiningu vegna útgöngu Bretlands úr EES er leitast við að greina áhrif þess ef ákvæði EES giltu ekki lengur í samskiptum við Bretland.

Ef sú staða kemur upp eru íslensk stjórnvöld að vinna að því að tryggja kjarnahagsmuni sérstaklega hvað varðar vöruviðskipti, flug og áframhaldandi réttindi borgara til búsetu. Hvað varðar búseturéttindi ríkir pólitískt samkomulag um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES 29. mars 2019, jafnvel þó svo færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB. Er það vilji ríkjanna að þessi réttindi verða í framhaldinu tryggð með samningi um gagnkvæm réttindi borgara þessara landa, hvernig sem fer í viðræðum Bretlands og ESB. Náið samstarf á sér nú stað við Bretland um tæknilega útfærslu á þessu samkomulagi.

Þeir sem eiga viðskipti eða önnur samskipti við Bretland eru hvattir til að kynna sér upplýsingar frá breskum stjórnvöldum og ESB um aðgerðir á mismunandi sviðum ef til útgöngu án samnings kæmi. Stjórnvöld vinna náið með Bretlandi og EFTA-ríkjunum innan EES og eru einnig í góðum tengslum við ESB. Ef til útgöngu án samnings kemur verður tekið mið af þeim aðgerðum ESB sem varða EES en ESB birti nýlega aðgerðaáætlun til að milda neikvæða áhrif útgöngu án samnings. Í henni er m.a. fjallað um flug og aðgerðir til að koma í veg fyrir truflanir á því sviði.

Nánar er fjallað um hugsanleg áhrif útgöngu án samnings á vöruviðskipti bæði hvað varðar markaðsaðgang og regluverk neðar.

1. Markaðsaðgangur

Núverandi staða

Núverandi markaðsaðgangur (þ.e.a.s. tollaumhverfi) í vöruviðskiptum á milli Íslands og Bretlands byggist á ákvæðum EES-samningsins, fríverslunarsamningi Íslands við ESB frá 1972 og samningum Íslands við ESB um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur.

EES-samningurinn felur í sér fullt afnám tolla á iðnaðarvörum. Tollar við innflutning sjávarafurða til ríkja ESB, þ.m.t. Bretlands, eru misháir eftir því um hvers kyns afurð er að ræða og hvernig hún er unnin, og í samningi Íslands og ESB frá 2007 og nýjum samningi frá 2015, var m.a. samið um umtalsverða tollkvóta fyrir kindakjöt skyr og smjör.

Útganga Bretlands án samnings

Gildandi samningar milli Íslands og ESB um tollfrelsi, tollaívilnanir, þ.m.t. tollkvótar, falla úr gildi gagnvart Bretlandi, hafi ekki verið samið um annað. Það er afar brýnt að koma í veg fyrir að atburðarásin verði á þennan veg.

Ráðstafanir Íslands

Talsverð vinna hefur átt sér stað í þessum málaflokki. Sérfræðingar Íslands hafa átt gagnlega fundi með Bretum, bæði á tvíhliða og marghliða grundvelli, með Noregi og Liechtenstein, með það markmið að koma í veg fyrir að markaðsaðgangur og kjör verði með lakari hætti en verið hefur og helst betri hvað sjávarafurðir varðar.

2. Matvælaöryggi – Heilbrigði dýra og plantna

Núverandi staða

Ákvæði EES-samningsins um matvælaöryggi gilda um inn- og útflutning matvæla frá Íslandi, þ.m.t. útflutning til Bretlands. Reglur þessar eru ítarlegar og samræmdar, sem ná til allrar fæðukeðjunnar. Auk þess er kveðið á um hvernig eftirlit með þessum reglum skuli háttað. Þá hafa verið settar reglur um innflutning matvæla frá þriðju ríkjum, þ.e. ríkjum sem standa utan innri markaðarins.

Útganga Bretlands án samnings

Verði ekki samið sérstaklega um útgöngu Bretlands, og ríkið gengur út af innri markaði 29. mars 2019, mun það teljast þriðja ríki samkvæmt reglum þessum.

Innflutningur matvæla frá Bretlandi fer því samkvæmt þeim reglum, sem íslenska ríkið hefur samþykkt að undirgangast samkvæmt EES-samningnum hvað varðar innflutning frá ríkjum utan EES-svæðisins, nánar tiltekið I. viðauka þess.

Hvað útflutning matvæla frá Íslandi til Bretlands varðar er ljóst að matvælaframleiðsla á Íslandi mun ekki lengur njóta sjálfkrafa viðurkenningar í Bretlandi í krafti EES-samningsins. Það mun ráðast að því hvaða reglur bresk stjórnvöld setja um matvælaöryggi hver hin raunverulegu áhrif á útflutning sjávarafurða og annarra matvæla til Bretlands verða. Rétt er að hafa í huga í þeim efnum að Bretland er einnig bundið að skuldbindingum sínum á grundvelli samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að tryggja að útganga Bretlands leiði ekki til nýrra hindrana á viðskiptum með matvæli á milli landanna tveggja, og mun Ísland leggja áherslu á það.

Samningsfrelsi Íslands, ásamt hinum EES-EFTA ríkjunum, er þó takmarkað á þessu sviði vegna skuldbindinga á grundvelli EES-samningsins. Ríkin þyrftu því að endurspegla aðgerðir ESB, ef útganga verður án samnings.

Einhliða aðgerðum kann að verða beitt af hálfu ESB og Bretlands, til að tryggja áframhaldandi einsleitni, sem EES-EFTA ríkin myndu geta notið góðs af.

3. Tæknilegar kröfur og staðlar

Núverandi staða

Reglur EES-samningsins um tæknilegar kröfur og staðla fela í sér að almennt er litið svo á að vörur sem framleiddar eru í einu EES-ríki uppfylli þær tæknilegu kröfur og staðla sem gerðar eru í öðru ríki.

Útganga Bretlands án samnings

Við útgöngu Bretlands tækju ákvæði EES-samningsins ekki til vara sem framleiddar eru í Bretlandi og því væri hvorki hægt að ganga út frá því að vörur sem framleiddar væru í Bretlandi uppfylltu kröfur hér á landi né að vörur sem framleiddar eru hér á landi uppfylltu breskar kröfur.

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að tryggja að útganga Bretlands torveldi hvorki útflutning á vörum til Bretlands né innflutning frá Bretlandi á vörum sem framleiddar eru þar í landi, og mun Ísland leggja áherslu á það.

Samningsfrelsi Íslands er, ásamt hinum EES-EFTA ríkjunum, þó takmarkað á þessu sviði vegna skuldbindinga á grundvelli EES-samningsins. Ríkin þyrftu því að endurspegla aðgerðir ESB, ef útganga verður án samnings.

Einhliða aðgerðum kann að verða beitt af hálfu ESB og Bretlands, til að tryggja áframhaldandi einsleitni, sem EES-EFTA ríkin myndu geta notið góðs af.

4. Orkumál

Núverandi staða

Reglur EES-samningsins um orkumál fela í sér sameiginlegar reglur um raforkuviðskipti á milli EES-ríkjanna. Ákvæðum EES-samningsins um orkumál er ætlað að koma á fót sameiginlegum innri markaði fyrir raforku og gas, auka samkeppni á orkumarkaði, auka orkuöryggi og notkun endurnýjanlegra orkugjafa, auk þess að bæta orkunýtni í aðildarríkjunum.

Útganga Bretlands án samnings

Við útgöngu Bretlands munu ákvæði samningsins um orkumál ekki gilda í samskiptum Íslands og Bretlands. Sem stendur eru ekki bein viðskipti með raforku milli Íslands og Bretlands eða annarra Evrópuríkja.

Ráðstafanir Íslands

Fyrir orkumál almennt eru takmörkuð áhrif vegna Brexit án útgöngusamnings, og því ekki talin þörf á sérstökum ráðstöfunum.

5. Samkeppnismál

Núverandi staða

EES-samningurinn skapar umgjörð utan um samstarf á milli stjórnvalda Íslands og Bretlands á sviði samkeppnismála, einkum varðandi upplýsingaskipti, aðstoð og samstarf við rekstur einstakra mála.

Útganga Bretlands án samnings

Samstarf Íslands og Bretlands á sviði samkeppnismála byggist fyrst og fremst á upplýsingaskiptum og aðstoð/samstarfi við rekstur mála. Hið lagalega umhverfi sem EES samningurinn kveður á um einfaldar slíkt samstarf og skapar vettvang fyrir það. Ljóst er að ef Bretland gengur úr Evrópusambandinu kann það að hafa áhrif á þetta samstarf.

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að tryggja að vettvangur verði fyrir áframhaldandi samstarf á sviði samkeppnismála milli Íslands og Bretlands.

Ekki hefur verið talin þörf á sérstökum ráðstöfunum af hálfu Íslands á þessu sviði að svo stöddu.

6. Ríkisaðstoð

Núverandi staða

EES-samningurinn hefur að geyma ákvæði um ríkisaðstoð sem miða að því að koma í veg fyrir að stjórnvöld í EES-ríkjunum raski samkeppni á Evrópska efnahagssvæðinu með því að ívilna tilteknum fyrirtækjum eða atvinnugreinum.

Útganga Bretlands án samnings

Útganga Bretlands hefði ekki áhrif á beitingu þessara reglna hér á landi. Áfram myndu gilda innlendar samkeppnisreglur sem að einhverju marki koma í veg fyrir óæskileg inngrip í samkeppnisumhverfi fyrirtækja.

Þá yrði Bretland eftir sem áður bundin af ákvæðum samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunaraðgerðir frá 1994.

Ráðstafanir Íslands

Ekki þykir nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafanna á þessu sviði.

7. Opinber innkaup

Núverandi staða

Með reglum EES-samningsins um opinber innkaup er komið á fót sameiginlegum markaði um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þeim felst að opinberum aðilum beri að fylgja ákveðnu verklagi við innkaup sem eru yfir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem skilgreindar eru í reglunum og eiga öll fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu að njóta sama aðgangs að innkaupum opinberra aðila í EES-ríkjunum.

Útganga Bretlands án samnings

Bretar hafa gengist undir samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup (Government Procurement Agreement; GPA-samninginn) sem eitt af ríkjum Evrópusambandsins og hefur því ekki sjálfstæða aðild að samningum.

Gangi Bretland úr Evrópusambandinu þarf ríkið að gangast undir GPA samninginn til þess að hann nái til opinberra innkaupa í Bretlandi. Fastlega er búist við að svo verði en Bretar og ESB hafa unnið í sameiningu að því að tryggja það.

Ráðstafanir Íslands

Ekki þykir nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana á þessu sviði að svo stöddu. Nánast fullvíst er að Bretland gerist sjálfstæður aðili að GPA samningi WTO og munu ákvæði þess samnings því gilda um aðgang íslenskra og breskra fyrirtækja að opinberum innkaupum í hvoru ríkinu fyrir sig.

8. Hugverkaréttindi

Núverandi staða

EES-samningurinn hefur að geyma reglur um hugverkaréttindi, þ.m.t. reglur um skráð réttindi á borð við einkaleyfi, vörumerki, verndun hönnunar, afurðaheiti, viðbótarvottorð fyrir lyf og plöntuvernd, og óskráð réttindi á borð við höfundarétt.

EES-samningurinn felur í sumum tilfellum í sér aukna vernd hugverkaréttinda umfram alþjóðasamninga á sviði hugverkaréttinda, og á öðrum sviðum auðveldar samningurinn skráningu og skilvirka vernd slíkra réttinda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Á grundvelli slíkra samræmingarreglna hafa íslenskir aðilar getað fengið vörumerki eða hönnun skráða með einni umsókn sem gildir í öllum aðildarríkjum ESB, þar á meðal í Bretlandi, hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO).

Útganga Bretlands án samnings

Með útgöngu Bretlands er ljóst að íslenskir aðilar verða að velja aðrar leiðir þegar vernda skal hugverkaréttindi í Bretlandi, einkum hvað varðar vörumerki og hönnun hjá EUIPO. Aðrir samningar munu halda þeim leiðum áfram opnum.

Ráðstafanir Íslands

Mikilvægt er að útganga Bretlands valdi ekki röskun á verndun hugverkaréttinda íslenskra rétthafa. Ljóst þykir þó að rétthafar verði að gæta sinna eigin hagsmuna í þessu tilliti, og því þykir ekki nauðsynlegt á þessu stigi að grípa til sérstakra ráðstafana stjórnvalda á þessu sviði.

9. Neytendavernd

Núverandi staða

EES-samningurinn inniheldur reglur um neytendavernd sem miða að því að neytendur geti treyst því að þeir njóti sömu lagalegu réttinda í viðskiptum yfir landamæri EES ríkja eins og þeir njóta samkvæmt reglum sem gilda í þeirra heimaríki.

Útganga Bretlands án samnings

Útganga Bretlands úr ESB mun þýða að ákvæði EES-samningsins um neytendavernd munu ekki gilda í viðskiptum við Bretland.

Neytendur sem versla í Bretlandi, sem lenda í vandræðum með vöru eða þjónustu, munu ekki lengur geta treyst á þá neytendavernd sem leiðir af EES-samningnum. Þeir verða í staðinn að reiða sig á bresk neytendalög.

Ráðstafanir Íslands

Ísland og íslenskir neytendur hafa átt og eiga í miklum viðskiptum við Bretland, í netverslun, á ferðalögum og með vörur, og því mikilvægt að tryggja áframhaldandi gott samstarf við bresk stjórnvöld um neytendavernd í viðskiptum á milli Íslands og Bretlands. Ekki þykir þó nauðsynlegt að svo stöddu að grípa til sérstakra ráðstafana á þessu sviði.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira