Hoppa yfir valmynd

Ákvarðanataka innan EES

Regluverk EES

EES-samningurinn er virkur og síbreytilegur þar sem samstarfið felur í sér samræmingu reglna sem gilda á milli ESB og EFTA-ríkjanna og tryggja frjálsa för vöru, þjónustu, fólks og fjármagns (fjórfrelsið). Af þessum sökum er nauðsynlegt að EES-samningurinn taki breytingum í samræmi við þróun reglna ESB sem á endanum taka gildi á öllu EES–svæðinu. Þetta er stundum nefnt einsleitni innan EES–svæðisins og felur í sér að reglur sem ESB setur og falla undir efnissvið EES-samningsins eru teknar upp í samninginn og síðan íslenska löggjöf.

Málsmeðferð við upptöku ESB-gerða í EES-samninginn

Þegar framkvæmdastjórnin leggur fram tillögu er tekið fram hvort hún hafi þýðingu fyrir EES eða ekki (e. EEA relevant). Er það þá í höndum sameiginlegu EES-nefndarinnar að meta hvort ný gerð varði efnissvið EES-samningsins, í hvaða viðauka gerðin skuli tekin upp og hvernig aðlögun að EES-samningnum skuli háttað.

Hver gerð gengur í gegnum ákveðið vinnsluferli áður en hún er tekin upp í EES-samninginn. Þegar ESB hefur gengið frá lagatextanum sendir EFTA-skrifstofan í Brussel EFTA/EES-ríkjunum þær gerðir sem falla undir samninginn. Það ráðuneyti sem hefur umsjón með málaflokknum sem gerð fjallar um tekur við henni og greinir með tilliti til íslenskra hagsmuna. Lagt er mat á hvort gerð kallar á aðlögun vegna sérstakra aðstæðna og er þá samið sérstaklega við ESB um það. Einnig er metið hvort upptaka gerðar í EES-samninginn kalli á lagabreytingar og er hún þá send utanríkismálanefnd Alþingis til umfjöllunar, sbr. 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Þegar greiningu á gerð innan íslenskrar stjórnsýslu er lokið gerir EFTA-skrifstofan drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka gerðina upp í EES-samninginn. Hafi verið samið um aðlögun við gerðina birtist texti þess efnis í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ákvarðanir um að taka gerðir upp í EES-samninginn eru síðan teknar af sameiginlegu EES-nefndinni. Nefndin fundar um það bil átta sinnum á ári og er aðalviðfangsefni hennar að taka ákvarðanir um að taka ESB-gerðir upp í EES-samninginn, eins og fjallað er um í hlutanum um stofnanakerfi EES. Algengt er að um 50 gerðir séu teknar inn í EES-samninginn á hverjum fundi.

Á vefsíðunni EEA-Lex er að finna ítarlegar upplýsingar um stöðu gerða sem eru til athugunar hjá EFTA/EES ríkjunum og gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Fyrir gerðir sem teknar hafa verið upp í samninginn má t.d. finna upplýsingar um gildistöku, slóð á viðeigandi gerð í íslenskri þýðingu og slóð á viðeigandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Verklag við undirbúning ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Þegar löggjöf sem varðar EES-samninginn hefur verið samþykkt hjá ESB hefst hið formlega ferli við upptöku gerða í EES-samninginn. Sjá nánar á vefsíðu EFTA skrifstofunnar.

Innleiðing í íslenskan rétt

Þegar sameiginlega EES-nefndin hefur tekið ákvörðun um að taka gerð upp í EES-samninginn er gerðin orðin hluti samningsins. EFTA-ríkjunum ber þá að taka hana upp í landsrétt sinn eftir efni og aðlögun að EES-samningnum. Innleiðing gerða í íslenskan rétt getur verið með ýmsum hætti, svo sem með lagasetningu, reglugerðarsetningu, breytingum á eldri reglugerðum eða með öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.

Innleiðingin er á ábyrgð þess ráðuneytis sem hefur umsjón með viðkomandi málaflokki. Eftirlit með innleiðingu í íslenskan rétt er í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Ætlast er til að upplýsingar um innleiðingu séu sendar til ESA strax og gerð hefur öðlast gildi með innleiðingu hér á landi, en einnig er hægt að senda þær fyrr hafi reglur verið settar eða gerð innleidd áður en hún tekur gildi hér á landi.

Eftirlitsstofnun EFTA

Íslenskum stjórnvöldum ber að upplýsa ESA um með hvaða hætti EES-gerðir hafa verið innleiddar. Eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) með innleiðingu er í grófum dráttum sem hér segir. Strax eftir gildistöku ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar minnir ESA hlutaðeigandi ráðuneyti á að gerð hafi öðlast gildi og að hana beri að innleiða. Sé gerð óinnleidd þremur mánuðum eftir gildistöku sendir stofnunin hlutaðeigandi ráðuneyti formlegt áminningarbréf (e. letter of formal notice) og er það fyrsta stig samningsbrotaferlis.

Hafi gerðin ekki enn verið innleidd sjö mánuðum eftir gildistöku sendir stofnunin hlutaðeigandi ráðuneyti rökstutt álit (e. reasoned opinion) sem er undanfari þess að máli er vísað til EFTA dómstólsins. Hafi gerð ekki verið innleidd ári eftir gildistöku má reikna með að ESA vísi málinu til EFTA-dómstólsins þar sem úrbætur hafi ekki verið gerðar. Ef um efnislegan ágreining er að ræða má reikna með að ferlið taki lengri tíma og að samskipti íslenskra stjórnvalda og ESA séu með margvíslegum hætti.

Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

 ESA birtir tvisvar á ári upplýsingar um frammistöðu EES-EFTA-ríkjanna við innleiðingu EES-gerða. Þar er gerð grein fyrir árangri EES-EFTA-ríkjanna við innleiðingu EES-gerða og gerður samanburður á frammistöðu þeirra og aðildarríkja Evrópusambandsins.

Íslenska ríkið leggur áherslu á bætta framkvæmd EES-samningsins og hagsmunagæslu innan samstarfsins. Mikilvægur þáttur í því er að þegar ákveðið hefur verið að taka tilteknar reglur inn í EES-samninginn að þær séu þá innleiddar hér á landi tímanlega og með réttum hætti. Með því er best tryggt að íslenskir borgarar og fyrirtæki sitji við sama borð og aðrir á EES-svæðinu.

Úttektir á innleiðingum gerða í EES-samninginn

Leita að gerð

Síðast uppfært: 19.7.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum