Hoppa yfir valmynd

Þjóðréttarmál

Laga- og stjórnsýsluskrifstofa sinnir málefnum á sviði þjóðarréttar, það er alþjóðalaga. Skrifstofan hefur umsjón með samningum Íslands við erlend ríki og gerð þeirra. Hún annast frágang og undirbýr undirritun og fullgildingu alþjóðasamninga, þar með talið þinglega meðferð þeirra. Skrifstofan sér um birtingu samninga í C-deild Stjórnartíðinda og útgáfu skrár um þá. Skrifstofan veitir einstökum fagskrifstofum utanríkisráðuneytisins og fagráðuneytum ráðgjöf um þjóðréttarleg atriði. Stór þáttur í starfi skrifstofunnar er hafréttarmál sem mikil áhersla er lögð á af Íslands hálfu. Hún fer einnig með önnur þjóðréttarmál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Efst á baugi

Ákvörðun Hugverkastofu ESB (EUIPO) vegna kröfu sem íslensk stjórnvöld, Íslandsstofa og Samtök atvinnulífsins lögðu fram í nóvember 2016 um ógildingu skráningar Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu ,,Iceland“ í Evrópusambandinu lá fyrir fyrr í aprílmánuði. Hugverkastofan féllst á kröfur Íslands í málinu og ákvað að skráning Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu ICELAND skuli vera ógild í heild sinni. Krafa Íslands í málinu byggðist á því að um þekkt landfræðilegt heiti væri að ræða og einnig að merkið ,,Iceland“ væri almennt, sérkennalaust og hefði aldrei átt að fást skráð. Fallist var á flest rök Íslands og talið var að sýnt hafi verið fram á það með fullnægjandi hætti að neytendur í Evrópusambandinu, að minnsta kosti í enskumælandi löndum, tengi merkið ICELAND við landið Ísland eða séu líklegir til að gera það í framtíðinni. Merkið sé því lýsandi um landfræðilegan uppruna og uppfylli ekki kröfur um sérkenni sem er ein meginforsenda þess að vörumerki fáist skráð. Þessi niðurstaða er auðvitað ánægjuleg fyrir Ísland og hún er fordæmisgefandi á þessu réttarsviði ef hún stendur óhögguð. Iceland Foods Ltd. hefur áfrýjað niðurstöðunni til kærunefndar Hugverkastofu Evrópusambandsins. Greinargerð fyrir íslensk stjórnvöld, Íslandsstofu og Samtök atvinnulífsins, var skilað seinni hluta október 2019 og reiknað er með niðurstöðu kærunefndarinnar á innan nokkurra mánaða.

Stjórnvöld héldu einnig áfram að vinna að málum varðandi vernd landaheita á almennum grunni á vettvangi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO). Fulltrúar stjórnvalda hafa sótt fundi um málið reglulega undanfarin misseri. Á vettvangi WIPO hefur Ísland verið meðflytjandi að tillögum um vernd landaheita í DNS kerfinu (e. Domain Name System) og sem vörumerki. Tillögurnar hafa ekki náð fram að ganga en áfram verður unnið að málinu á vettvangi WIPO. 

Ítarefni

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira