Hoppa yfir valmynd

Alþjóðleg öryggismál

Í utanríkisráðuneytinu er fjallað um fjölbreytt svið hnattrænna málefna sem varða hag lands og þjóðar bæði með beinum og óbeinum hætti. Sem sjálfstætt og fullvalda ríki hefur Ísland skyldum að gegna í alþjóðasamstarfi, tekur virkan þátt í störfum alþjóðastofnana og á í tvíhliða samskiptum við önnur ríki. Hlutverk utanríkisþjónustunnar er að viðhalda traustum alþjóðatengslum, gæta hagsmuna Íslands í hvívetna og tryggja að rödd Íslands heyrist á alþjóðavettvangi. Með aðild að alþjóðasamningum, alþjóðlegu regluverki og dómstólum, tekst Ísland á hendur ýmsar skyldur, en nýtur jafnframt réttinda sem skipt geta miklu um þjóðarhag.

Utanríkisstefnan byggist á grundvallargildum um frið, lýðræði, mannréttindi og kvenfrelsi og baráttu gegn fátækt, misskiptingu og félagslegu ranglæti. Stjórnvöld láta mjög til sín taka á sviði mannréttinda og hafa í auknum mæli sett kynjajafnrétti, réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks á oddinn í málflutningi alþjóðlega.

Í auðlinda- og umhverfismálum fer saman mikilvægi þess að verja rétt Íslands til auðlindanýtingar með sjálfbærum hætti og ábyrg stefna í loftslagsmálum og umhverfisvernd. Orkuöryggi er vaxandi umfjöllunarefni í alþjóðastarfi og er orkuöflun, kaup og sala, mikilvægt málefni í samskiptum ríkja. Vaxandi eftirspurn er eftir því alþjóðlega að Íslendingar miðli af þekkingu sinni og reynslu á sviði orkumála, sérstaklega hvað varðar jarðhitanýtingu.

Afvopnunarmál

Afvopnunarmál í víðu samhengi taka til fækkunar eða eyðingar hergagna eða vopnategunda (disarmament), takmarkana á hergögnum í magni eða tegundum (arms control) og aðgerða gegn útbreiðslu hergagna eða vopna (non-proliferation).

Þær vopnategundir sem um ræðir eru annars vegar hefðbundin vopn og hins vegar gereyðingarvopn og burðarkerfi þeirra. Gereyðingarvopn eru kjarnavopn, efanvopn og lífefnavopn.

Árangur í afvopnunarmálum er mikilvæg forsenda þess að árangur náist á öllum þessum sviðum. Helstu ástæður þess eru:

  • Grundvallar mannréttindi verða ekki tryggð nema fólk búi við lágmarksöryggi, en talið er að hálf milljón manns deyi á ári hverju í heiminum af völdum smá- og léttvopna.
  • Árangur í þróunarsamvinnu verður ætíð takmarkaður ef öryggisumhverfið er ótryggt, en ómældur fjöldi óbreyttra borgara deyr af völdum jarðsprengja og klasasprengja í þróunarlöndum á ári hverju.
  • Afvopnunarmál skipa stóran sess í friðsamlegri lausn deilumála, hvort sem um ræðir fækkun vopna og herja eða trausvekjandi aðgerðir.
  • Margir samningar á sviði afvopnunarmála teljast hluti af mannúðarlögum, t.d. samningar sem banna notkun jarðsprengja, geislavopna, eldvarpa o.s.frv.

Hergagnaflutningar

Hergagnaflutningar fara fram um allan heim, í lofti, á láði og legi. Flutningur hergagna með borgaralegum loftförum um íslenskt yfirráðasvæði er óheimill nema með sérstöku leyfi Flugmálastjórnar Íslands. Flutningur hergagna með ríkisloftförum um íslenskt yfirráðasvæði er óheimill nema með leyfi utanríkisráðherra.

Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir, fyrst og fremst öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins, setja verulegar hömlur á hergagnaflutninga.

Engin gereyðinarvopn mega koma inn á íslenskt yfirráðasvæði, þ.m.t. kjarnavopn, efnavopn eða lífefnavopn.

Kjarnorkumál

Engin kjarnorkuver eða kjarnakleyf efni eru á Íslandi. Notkun jónandi geislunar á Íslandi er einkum í heilbrigðiskerfinu. Bæði er um að ræða greiningu og meðferð sjúkdóma. Einnig er um notkun að ræða í iðnaði og menntakerfinu svo og á rannsóknastofnunum. Helmingur geislaálags Íslendinga er vegna náttúrulegrar geislunar.

Ísland tekur virkan þátt í alþjóðasamstarfi í kjarnorkumálum, bæði vegna þeirrar geislunarstarfsemi sem fer fram á Islandi og ekki síst vegna þess að erlend kjarnastarfsemi og kjarnöryggismál í nágrannalöndum hafa þýðingu fyrir öryggi Íslands og íslenskra hagsmuna.

Skipulögð glæpastarfsemi

Á undanförnum árum hafa aðgerðir ríkja á sviði alþjóðlegra öryggismála í auknum mæli beinst gegn samtökum og hópum, en eru ekki eingöngu umfjöllunarefni milli ríkja. Skipulögð glæpastarfsemi kemur víða við sögu, m.a. í tengslum við vopnasmygl og útbreiðslu gereyðingarvopna og íhluti í þau. Þessi starfsemi er talin ein af megin öryggisógnum við lýðræðisríki.

Mörkin eru oft óljós milli glæpastarfsemi og vopnaðra átaka. Átök snúast ekki endilega um pólítískan eða hernaðarlegan ávinning, heldur fremur um að ná fram hruni á ríkjastarfssemi eða um aðgang að eða viðskipti með náttúruauðlindir, svo sem demanta eða eiturlyf. Átökin stjórnast ekki aðallega af skipulögðum herjum, heldur hópum eða fylkingum sem oft fremja mannúðar eða mannréttindabrot, einkum gegn konum og börnum.

Náist samkomulag um gerð vopnaviðskiptasamnings (ATT) standa vonir til að ólögleg vopnaviðskipti skipulagðra glæpasamtaka muni minnka.

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi (Palermo-samningurinn) var gerður 15. nóvember 2000 og tók gildi 29. september 2004. Bókunin gegn ólögmætri framleiðslu og sölu skotvopna var gerð 31. maí 2001 og gekk hún í gildi 3. júlí 2005.

Útgeimurinn

Nútíma fjarskipti og leiðsögutækni byggja á gervihnattakerfi í útgeimnum, sem gerir það að mögulegu skotmarki í stríðsátökum. Ríki heims hafa vaxandi áhyggjur af hættunni á nýju vopnakapphlaupi í útgeimnum. Tæknin er þegar fyrir hendi. Kína skaut niður eigin gervihnött í janúar 2007 í 850 km hæð. Bandaríkin skutu niður gallaðan gervihnött í febrúar 2008 sem var í 200 km hæð.

Yfirflugs- og lendingarleyfi

Viss borgarleg loftför þurfa leyfi Flugmálastjórnar Íslands til yfirflugs- og lendingar á íslensku yfirráðasvæði, Ríkisloftför þurfa leyfi utanríkisráðherra til yfirflugs- og lendingar á íslensku yfirráðasvæði.

Ísland er aðili að Samningum um opna lofthelgi (TOS). Samráðsnefndin um opna lofthelgi (OSCC) hjá ÖSE fjallar um framkvæmd hans.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira