Hoppa yfir valmynd

Konur, friður og öryggi

Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 var samþykkt hinn 30. október 2000. Með henni viðurkenndi öryggisráðið í fyrsta skipti sérstöðu kvenna á átakasvæðum og mikilvægi framlags þeirra til friðar. Útgangspunktur ályktunar 1325 er sá að konur geta bæði haft áhrif í vopnuðum átökum og að átök hafa sérstakar afleiðingar fyrir þær. Ályktunin undirstrikar mikilvægt hlutverk kvenna við átakavarnir, friðsamlega lausn átaka og friðaruppbyggingu og leggur áherslu á jafna þátttöku þeirra og aðild að öllum aðgerðum sem ætlað er að viðhalda og stuðla að friði og öryggi. Ályktun 1325 ítrekar enn fremur nauðsyn þess að framkvæma að fullu alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög sem vernda réttindi kvenna og stúlkna í átökum og í kjölfar átaka. Í ályktuninni kemur auk þess fram að nauðsynlegt sé að jafnréttis- og kynjasjónarmið séu samþætt í allar aðgerðir sem stuðla eiga að friði og öryggi á alþjóðavettvangi. Ályktun 1325 brýnir fyrir aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna að grípa til aðgerða til að vinna markvisst að framgangi hennar. Þáverandi framkvæmdastjóri SÞ, Kofi Annan, kallaði í skýrslu sinni til öryggisráðsins um konur, frið og öryggi árið 2004 eftir því að aðildarríki SÞ settu sér sérstaka áætlun um framkvæmd ályktunarinnar.

Ísland var á meðal fyrstu ríkja til að setja slíka framkvæmdaáætlun um ályktun 1325 árið 2008. Hún var endurskoðuð (sjá niðurstöður hér að neðan) og ný áætlun gefin út sem gildir tímabilið 2013-2016. Nýja áætlunin byggir niðurstöðum endurmatsins auk þess sem litið er til reynslu annarra ríkja. Hún tekur mið af tillögum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um samræmi í skýrslugerð aðildarríkja og byggist á fjórum stoðum og fjórum meginmarkmiðum: 1. Fræðslu og málsvarastarfi 2. Þátttöku, 3. Fyrirbyggjandi starfi, vernd, aðstoð og endurhæfingu og 4. Samstarfi og samráði. Þá er með nýrri áætlun lögð aukin áhersla á aðgerðir, eftirfylgni og árangur.

Fyrsta framkvæmdaáætlun Íslands (2008-2011)

Endurmat á áætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi (2008-2011)

Í áætlun Íslands frá árinu 2008 um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, var kveðið á um að hún skyldi endurskoðuð að þremur árum liðnum. Árið 2011 var fenginn óháður sérfræðingur til að vinna endurmatið og skilaði hann niðurstöðum sem birtar eru á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Í skýrslunni er fjallað um helstu styrkleika og veikleika áætlunarinnar, auk þess sem rætt er um þann lærdóm sem draga má af framkvæmdinni.

Helstu styrkleikar áætlunarinnar voru m.a. taldir að Ísland hafi verið með fyrstu ríkjum að setja sér áætlun um ályktunina, hlutverk Íslands sem málsvara ályktunarinnar sé skýrt og að áætlunin hafi verið tengd almennri stefnu stjórnvalda. Þá var talinn styrkleiki að þátttaka kvenna í ákvarðanatöku og friðarferli hafi verið í forgrunni auk þess sem hún var bæði sértæk og almenn og rúmaði þannig margvíslegar aðgerðir.

Í endurmatinu kom fram að helstu veikleikar áætlunarinnar voru áþekkir annarra fyrstu kynslóðar áætlana. Hafi t.d. samráð við konur sem hafa búið við vopnuð átök skort, hún hafi ekki tekið til verkefna utan utanríkisráðuneytisins sem tengjast ályktuninni og ekki tekið til allra sviða utanríkismála og ekki skýrt kveðið á um eftirfylgni og árangursmat. 

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 25.7.2018
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira