Hoppa yfir valmynd

Siðareglur Íslensku friðargæslunnar

1. gr.

Friðargæsluliðar sýna heiðarleika, nærgætni, sanngirni og háttprýði í störfum sínum erlendis. Þeim ber að hafa hugfast að sem fulltrúar íslenska ríkisins á erlendri grund gegna þeir mikilvægri trúnaðarstöðu fyrir íslensku þjóðina. Friðargæsluliðar eru ávallt minnugir þess að starf þeirra er helgað hugsjón jarðarbúa um frið og mannúð. Þeir skulu auðsýna heimamönnum í því landi sem þeir starfa fyllstu virðingu og kurteisi. Friðar­gæslu­liðar sýna ennfremur skilning á þeirri staðreynd að viðkvæmt ástand ríkir í landi heimamanna og að lið erlendra hermanna og borgara er þar við friðargæslustörf.

2. gr.

Friðargæsluliðar breyta ávallt af ráðvendni og vammleysi, og með heiður íslensku friðar­gæslunnar að leiðarljósi. Þeir nýta sér aldrei stöðu sína á óviðurkvæmilegan hátt, svo sem í hagnaðarskyni fyrir sjálfa sig eða aðra. Þeir gæta þess að gefa heimamönnum og öðrum sem þeir eiga samskipti við aldrei tilefni til að ætla að þeir ætlist til einhvers konar endurgjalds fyrir starf sitt.

3. gr.

Friðargæsluliðar virða mannréttindi allra og sýna sérstaka aðgát gagnvart þeim sem höllum fæti standa, svo sem hungruðum, sjúkum, særðum og þeim er syrgja. Þeir láta aldrei stjórnast af illvilja, hefnigirni eða ofbeldi, til dæmis gagnvart föngum eða fólki í varðhaldi.

4. gr.

Friðargæsluliðar fara ekki í manngreinarálit. Þeir mismuna fólki ekki á grundvelli kyns, litarháttar, uppruna, trúarbragða, aldurs, stjórnmálaskoðana, kynhneigðar eða fötlunar. Friðargæsluliðar virða lög og menningu þeirra landa sem þeir starfa í, og skulu ekki tala af lítilsvirðingu eða með móðgandi hætti um landið, þjóðina eða samstarfsaðila sína. Íslenskir friðargæsluliðar virða friðargæsluliða annarra landa. Friðargæsluliðar forðast að valda skaða á náttúru eða vistkerfum í þeim löndum sem þeir starfa.

5. gr.

Friðargæsluliðum er óheimilt að kaupa vændisþjónustu eða eiga kynferðisleg samskipti við nokkurn sem friðargæsluliðinu er háður. Friðargæsluliðar áreita aldrei kynferðislega heimamenn, samstarfsmenn eða aðra.

6. gr.

Friðargæsluliðar rækja skyldur sínar í hvívetna og láta ekki undan hótunum eða þrýstingi. Þeir forðast hvers kyns glæpastarfsemi. Þeim ber að gæta þess að taka ekki við gjöfum eða mútum í neinu formi, svo sem með þátttöku í vöruviðskiptum eða kaupum á þjón­ustu sem hafa í för með sér óeðlilega mikinn ávinning fyrir þá. Friðargæsluliðar sýna fyllstu ábyrgð og heilindi í meðhöndlun fjármuna, eigna og tækja í almannaeigu.

7. gr.

Friðargæsluliðar eru bundnir trúnaði um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara. Helst sá trúnaður eftir að friðargæsluliði lætur af störfum. Friðargæsluliðar nota tölvur, rafeinda- og tæknibúnað á þann hátt að sæmi þeim og samræmist íslenskum lögum og reglum. Þeir skulu hvorki sækja, nota eða dreifa klámfengnu eða meiðandi efni.

8. gr.

Friðargæsluliðar skulu gæta varkárni við upplýsingagjöf, hvort sem er á vefsíðum, með tölvupóstum, í máli eða myndum. Friðargæsluliðar miðla ekki upplýsingum um atriði sem leynt eiga að fara samkvæmt reglum og eðli máls. Áður en friðargæsluliðar láta fjöl­miðlum í té upplýsingar um atriði sem tengjast starfi þeirra við friðargæslu skulu þeir hafa samráð við íslensku friðargæsluna.

9. gr.

Friðargæsluliðar drekka ekki áfengi við störf og neyta áfengis í hófi þegar þeir eiga frí frá vinnu. Friðargæsluliðar stýra aldrei ökutæki þegar áfengis hefur verið neytt.

10. gr.

Meðhöndlun og varsla lyfseðilsskyldra lyfja á vegum friðargæslunnar er aðeins heimil friðargæsluliðum sem hafa til þess tilskilin réttindi og menntun.

11. gr.

Friðargæsluliðar virða yfirboðara sína og framfylgja öllum lögmætum fyrirmælum þeirra. Þeir eru snyrtilegir til fara við vinnu sína. Þeir friðargæsluliðar sem bera þurfa einkennis­klæðnað vegna starfa sinna skulu eingöngu nota fatnaðinn við störf sín og eins og reglur viðkomandi verkefnis kveða á um.

12. gr.

Friðargæsluliða sem talinn er brjóta gegn siðareglum þessum má kalla heim frá verkefni án fyrirvara, með ákvörðun yfirmanns íslensku friðargæslunnar.

Siðareglur þessar eru settar skv. 3. mgr. 6. gr. laga um íslenska friðargæslu og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu, nr. 73/2007.

Utanríkisráðuneytinu, 9. október 2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Grétar Már Sigurðsson.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 20.7.2017
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira