Hoppa yfir valmynd

Loftrýmiseftirlit og loftrýmisgæsla

Loftrýmiseftirlit er kerfisbundið eftirlit loftrýmis með rafrænum, sjónrænum eða öðrum aðferðum, aðallega í þeim tilgangi að bera kennsl á og afmarka hreyfingar flugskeyta og loftfara, vinveittra og óvinveittra, innan loftrýmisins þar sem eftirlitið fer fram. Loftrýmisgæsla kallast notkun loftfara og annars búnaðar í þeim tilgangi að hafa eftirlit með og gæta loftrýmisins á loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins.

Efst á baugi 

Markvisst er unnið að því að tryggja varnir Íslands og styrkja samstarfið innan Atlantshafsbandalagins. Framundan er leiðtogafundur bandalagsins og á síðasta ári var undirrituð sameiginleg yfirlýsing Íslands og Bandaríkjanna um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Þar er um að ræða viðbót við samkomulagið, sem undirritað var árið 2006, og er yfirlýsingin innan ramma tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951. Yfirlýsingin kveður m.a. á um áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi og tímabundna viðveru kafbátaleitarvéla, náið samráð um öryggis og varnarmál, viðhald og rekstur varnarmannvirkja, upplýsingaskipti og hagnýtt samstarf, m.a. á sviði æfinga, leitar og björgunar og neyðaraðstoðar. Á síðustu árum hafa umsvif Bandaríkjahers, sem og annarra aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins, aukist á norðanverðu Atlantshafi, vegna versnandi horfa í öryggismálum Evrópu.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins hér við land er með óbreyttu sniði. Árið 2016 tóku Bandaríkin, Noregur og Tékkland þátt í loftrýmisgæslu bandalagsins hér á landi, en á árinu 2017 sinna Ítalir, Kanadamenn og Bandaríkjamenn loftrýmisgæslunni. Alls hafa níu ríki staðið 26 vaktir frá árinu 2007 þegar Atlantshafsbandalagið ákvað að loftrýmisgæslu yrði komið á. Loftrýmisgæslan er liður í því að gæta að nyrðri mörkum bandalagsins og auka samstarfshæfni og viðbragðsgetu þátttökuríkja.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira