Hoppa yfir valmynd

Loftrýmiseftirlit og loftrýmisgæsla

Loftrýmiseftirlit er kerfisbundið eftirlit loftrýmis með rafrænum, sjónrænum eða öðrum aðferðum, aðallega í þeim tilgangi að bera kennsl á og afmarka hreyfingar flugskeyta og loftfara, vinveittra og óvinveittra, innan loftrýmisins þar sem eftirlitið fer fram. Loftrýmisgæsla kallast notkun loftfara og annars búnaðar í þeim tilgangi að hafa eftirlit með og gæta loftrýmisins á loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins.

Efst á baugi 

Rekstur varnarmannvirkja á öryggissvæðunum og starfræksla ratsjár- og fjarskiptakerfisins sem nær yfir umfangsmikið svæði á Norður-Atlantshafinu er veigamikill þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna bandalagsins og bandalagsríkjanna allra. Árið 2018 náðist samkomulag um fjármögnun bandalagsins á viðhaldi og endurnýjun á hluta kerfisins. Allnokkur endurnýjun á þeim kerfum stendur fyrir dyrum og ýmis viðhaldsverkefni eru einnig í farvatninu. Á síðustu misserum hafa umsvif herliðs Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins aukist á norðaustanverðu Atlantshafi vegna breyttra aðstæðna í öryggismálum og versnandi öryggisumhverfis í Evrópu. Bandaríski sjó- og flugherinn hafa aukið reglulega viðveru á Keflavíkurflugvelli og samhliða því ráðist í nýjar framkvæmdir til að styðja við þessa viðveru. Það er gert á grundvelli sérstaks samkomulags íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá árinu 2016. Hafnar eru framkvæmdir við breytingu á flugskýli til að hýsa nýjar kafbátaleitarflugvélar sjóhersins og sérstakri þvottastöð fyrir þessar sömu vélar. Á næstu tveimur árum hefjast framkvæmdir við akstursbrautir, flugvélastæði, lýsingar og bráðabirgðahúsnæði fyrir liðsafla. Jafnframt kosta íslensk stjórnvöld byggingu nýs gistirýmis vegna vaxandi tímabundinnar viðveru liðsafla bandalagsríkja á Íslandi.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins hér við land er með óbreyttu sniði. Árið 2018 tóku Bandaríkin, Danmörk og Ítalía þátt í henni. Alls hafa 11 ríki sinnt verkefnum á 33 gæslutímabilum frá árinu 2008 þegar Atlantshafsbandalagið hóf reglubundna loftrýmisgæslu hér við land. Loftrýmisgæslan er liður í því að hafa eftirlit með nyrðri mörkum bandalagsins og auka samstarfshæfni og viðbragðsgetu þátttökuríkja. Á þetta reyndi í tvígang í mars 2019 þegar rússneskar sprengjuflugvélar flugu inn á loftrýmisgæslusvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land en utan íslenskrar lofthelgi. Í báðum tilvikum flugu til móts við þær ítalskar flugvélar sem voru hér á landi við loftrýmisgæslu.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira