Hoppa yfir valmynd

Atlantshafsbandalagið

Þátttaka í starfi Atlantshafsbandalagsins

Ísland gerðist stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) árið 1949. Öryggisumhverfi í Evrópu er gjörbreytt frá því sem áður var þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað en markmiðin eru þau sömu, þ.e. að tryggja öryggi og frið í álfunni. Auk varnar- og öryggisþáttarins gegnir NATO lykilhlutverki sem pólitískt bandalag lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. NATO hefur lagað sig að breyttum aðstæðum í Evrópu með inngöngu nýrra aðildarríkja og auknu samráði og samvinnu við önnur ríki. Ísland á ríka samleið með öðrum aðildarríkjum NATO í bandalagi sem byggist á meginreglum lýðræðis. 

Efst á baugi

Atlantshafsbandalagið hefur verið að bregðast við breyttum öryggisaðstæðum og endurspegla ákvarðanir leiðtogafundar þess í Varsjá þær áherslur. Annars vegar hefur verið unnið að því að efla hefðbundinn varnarviðbúnað og fælingarmátt. Hins vegar er aukin áhersla á stöðugleika handan landamæra bandalagsins með samvinnu við nágrannaríki og alþjóðastofnanir.

Unnið hefur verið að því að styrkja varnarviðbúnað bandalagsins, ekki síst í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, svo og í ríkjunum við Svartahaf. Á sama tíma hefur samráði við Rússa á vettvangi NATO-Rússlandsráðsins verið viðhaldið með það að markmiði að auka gagnsæi og draga úr spennustigi, m.a. á hernaðarsviðinu. Bandalagið fylgist grannt með innleiðingu Minsk-samkomulagsins af hálfu Úkraínu og Rússlands, en bandalagsríkin aðstoða Úkraínumenn í umbótum í öryggis- og varnarmálum. Viðvarandi átök í Austur-Úkraínu og skyndiæfingar Rússa ásamt auknum hernaðarumsvifum á sjó, landi og í lofti hafa viðhaldið aukinni spennu í öryggismálum Evrópu. Atlantshafsbandalagið hefur gripið til gagnaðgerða til að auka fælingarmátt bandalagsins í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir að atburðir á borð við þá sem áttu sér stað í mars 2014 endurtaki sig.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og þá sérstaklega í Sýrlandi heldur áfram að valda verulegum áhyggjum. Öryggisáskorunum til suðurs er mætt með bættu eftirliti, samstarfi við Evrópusambandið og stuðningi við umbætur í öryggis- og varnarmálum. Aukin áhersla á samstarf bandalagsins, m.a. við Flóaríkin og samstarfsríki í Norður-Afríku og við Miðjarðarhaf, er þáttur í þeirri stefnu að stuðla enn frekar að stöðugleika handan landamæra í því skyni að styrkja innviði veikburða ríkja.

Auk áframhaldandi aðgerða í Afganistan og í Kósovó hóf Atlantshafsbandalagið eftirlitsverkefni á Eyjahafi í febrúar á síðasta ári í samstarfi við Frontex, landamærastofnun ESB og strandríkin Tyrkland og Grikkland. Markmið þess var að draga úr smygli á flóttamönnum. Bandalagið hefur einnig sett á laggirnar eftirlitsverkefni á Miðjarðarhafi og lagt til ratsjárflugvélar til aðgerða fjölþjóðaliðsins gegn ISIL-hryðjuverkasamtökunum frá október síðastliðnum. Enn fremur hefur bandalagið um nokkurt skeið séð Tyrkjum fyrir eldflaugavarnabúnaði og unnið að því að efla viðnámsgetu og stöðugleika samstarfsríkja, m.a. með stuðningi við þjálfun Íraka og Jórdana, en hefur jafnframt lýst sig reiðubúið til stuðningsverkefna í Líbíu.

Ljóst er að einstök ríki megna ekki ein og sér að stemma stigu við hryðjuverkum, flóttamannastraumi, útbreiðslu gereyðingarvopna, alþjóðlegri glæpastarfsemi eða þeim öryggisógnum sem felast í fátækt, umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum. Til að tryggja öryggi Íslands er nauðsynlegt að taka þátt í því margvíslega fjölþjóðlega öryggissamstarfi sem ætlað er að taka á þessum ógnum. Aðeins þannig geta Íslendingar axlað fulla ábyrgð á sameiginlegum úrlausnarefnum.

 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira