Hoppa yfir valmynd

Atlantshafsbandalagið

Þátttaka í starfi Atlantshafsbandalagsins

Ísland gerðist stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) árið 1949. Öryggisumhverfi í Evrópu er gjörbreytt frá því sem áður var þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað en markmiðin eru þau sömu, þ.e. að tryggja öryggi og frið í álfunni. Auk varnar- og öryggisþáttarins gegnir NATO lykilhlutverki sem pólitískt bandalag lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. NATO hefur lagað sig að breyttum aðstæðum í Evrópu með inngöngu nýrra aðildarríkja og auknu samráði og samvinnu við önnur ríki. Ísland á ríka samleið með öðrum aðildarríkjum NATO í bandalagi sem byggist á meginreglum lýðræðis. 

Efst á baugi

Árið 2019 eru 70 ár liðin frá stofnun Atlantshafsbandalagsins og þess var minnst á utanríkisráðherrafundi bandalagsins í Washington í byrjun aprílmánaðar. Jafnframt koma leiðtogar bandalagsríkjanna saman í London undir árslok 2019.

Tímamótunum er fagnað þegar Atlantshafsbandalagið lagar sig að nýju öryggisumhverfi í Evrópu sem rekja má til Úkraínudeilunnar, aukins hernaðarviðbúnaðar Rússlands á norðurslóðum og baráttu gegn öfgasamtökum á borð við ISIS við syðri mörk bandalagsins. Varnarviðbúnaður bandalagsins til austurs hefur verið aukinn, fjölgað hefur verið í viðbragðsliði þess, varnaráætlanir uppfærðar og ákvarðanataka gerð skilvirkari. Samvinna við aðrar alþjóðastofnanir og náin samstarfsríki bandalagsins, meðal annars Finnland og Svíþjóð, hefur verið aukin.

Stefna rússneskra stjórnvalda og hernaðarumsvif þeirra hafa grafið undan öryggi í Evrópu og hafa samskiptin mótast af því að Rússland hefur snúið baki við alþjóðlegum sáttmálum og skuldbindingum í öryggismálum. Þessi staða og samskiptin við Rússland er eitt af meginverkefnum Atlantshafsbandalagsins.

Stjórnvöld í Rússlandi hafa notast við fjölþættar ógnir og meðal annars staðið fyrir undirróðri og netárásum til að hafa áhrif á umræðu og þróun stjórnmálaumræðu í mörgum löndum. Við þetta bættist eiturefnaárásin í Salisbury árið 2018 og meint tilraun til að hafa áhrif á rannsókn Alþjóðaefnavopnastofnunarinnar á málinu.

Ýmsir samningar á sviði afvopnunar og vígbúnaðartakmarkana eiga einnig undir högg að sækja en Bandaríkjamenn sögðu nýverið upp tvíhliða samningi við Rússland um meðaldræg kjarnavopn (INF) og taka bandalagsríkin undir með Bandaríkjunum um brot Rússlands á samningnum. Þetta hefur haft í för með sér aukna áherslu á afvopnunarmál og vígbúnaðartakmarkanir og Ísland var gestgjafi á vel sóttri fjölþjóðaráðstefnu bandalagsins um gereyðingarvopn og afvopnunarmál í október 2018. Önnur mál í umræðu á vettvangi bandalagsins eru baráttan gegn hryðjuverkum, stuðningur við Afganistan, uppbyggingarverkefni bandalagsins í Írak, Jórdaníu og Túnis. Auk þessa fer nú meira fyrir umræðu um fjölþættar ógnir og netöryggi á vettvangi bandalagsins.

Jöfnun byrða bandalagsríkja hvað varðar varnarframlög og verkefni í Atlantshafssamstarfinu hafa verið og verða áfram áberandi í umræðu á vettvangi bandalagsins. Á leiðtogafundinum í Wales 2014 skuldbatt Ísland sig til að auka framlög til öryggis- og varnarmála. Á síðasta leiðtogafundi í Brussel 2018 var sérstök áhersla lögð á að ríki hröðuðu aukningu framlaga með það fyrir augum að 2% af þjóðarframleiðslu árið 2024 rynni til öryggis- og varnarmála. Ísland fellur ekki undir 2% viðmiðið í þessu tilliti og góður skilningur er á því innan bandalagsins að framlag Íslands verði ávallt á borgaralegum forsendum. Engu að síður ber Íslandi að axla auknar byrðar á eigin og sameiginlegum vörnum og það hafa stjórnvöld viðurkennt með því að auka framlög jafnt og þétt frá 2016, aukinni þátttöku sérfræðinga í verkefnum og í alþjóðastarfsliði í höfuðstöðvum og herstjórnarkerfi bandalagsins. Einnig hafa aukin framlög farið til innviðafjárfestinga og gistiríkisstuðnings vegna varnarmannvirkja hér á landi.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins leggur Ísland áherslu á pólitíska samstöðu um eflingu öryggis, stöðugleika og sameiginlegra varna, samhliða því að leita leiða til að draga úr spennu og byggja upp traust. Öryggismál og viðbúnaður á Norður-Atlantshafi, vopnatakmarkanir og afvopnunarmál, auk virkrar þátttöku kvenna í öryggismálum eru forgangsmál. Herstjórnarkerfi bandalagsins hefur nýlega verið endurskoðað með virkri þátttöku Íslands. Sú endurskoðun felur meðal annars í sér að sett verður á laggirnar ný herstjórn í Norfolk í Bandaríkjum sem mun gegna verulega auknu hlutverki í öryggismálum á Norður-Atlantshafinu. Ísland leggur til tvo sérfræðinga til starfa í alþjóðastarfsliði bandalagsins í Norfolk.

 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira