Hoppa yfir valmynd

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE)

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, friðs, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum sem eru fimmtíu og sjö talsins. Innan stofnunarinnar sem staðsett er í Vín fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, auk öryggis- og afvopnunarmála. Einnig má nefna víðtækt kosningaeftirlit á vegum stofnunarinnar í aðildarríkjunum. Öll ríki Evrópu eiga aðild að ÖSE auk Bandaríkjanna, Kanada, Kasakstan, Kirgisía, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.

Með framlagi stofnunarinnar á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi sendinefnda ÖSE á vettvangi (OSCE missions) í aðildarríkjunum, gegnir ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi. Ísland hefur á vettvangi ÖSE lagt sérstaka áherslu á vernd mannréttinda og baráttuna gegn mansali auk aðgerða stofnunarinnar til að stemma stigu við hryðjuverkum.

Efst á baugi 

Erfitt hefur reynst að ná árangri í sáttaumleitunum í langvarandi deilum og ófriði á ÖSE-svæðinu, aðallega vegna andstöðu Rússa. Úkraínudeilan er fyrirferðamest og lítið þokast í átt að sáttum samkvæmt Minsksamkomulaginu svokallaða. Ísland hefur ítrekað stuðning sinn við sjálfstæði Úkraínu og krafist þess að alþjóðleg viðurkennd landamæri ríkisins verði virt. Atburðirnir við Kerch-sund í nóvember 2018, þar sem rússneski flotinn skaut og sigldi á úkraínsk skip og handtók áhafnir, hefur gert illt verra. Kyrrstaða er í öðrum langvarandi deilum, eins og milli Georgíu og Rússlands um Suður-Ossetíu og Abkasíu, milli Aserbaísjan og Armeníu um Ngorno-Karabakh, og Rússa og Moldóvu um Transnistríu. Þar hefur reyndar aðeins þokast í sáttaferlinu.

Andstaða Rússa við endurskoðun Vínarskjalsins kom í veg fyrir að hægt væri að ná fram samþykkt á ráðherrafundi ÖSE í Mílanó í desember 2018 um að styrkja hermálagagnsæi, minnka áhættu og koma í veg fyrir hættuleg atvik. Vínarskjalið er einn af grundvallarsamningum um öryggissamvinnu í Evrópu. Aftur á móti náðist fram samþykkt um smá- og léttvopn. Viðræðum um takmörkun vígbúnaðar hefur verið haldið áfram og þar hefur meðal annars verið rætt um netöryggi, óhefðbundinn hernað og nýjar fjandsamlegar aðgerðir. Fjarvera Rússa í sameiginlega samráðshópnum um samninginn um takmörkun hefðbundins herafla í Evrópu setur svip á starf hópsins. Í ráðgjafanefndinni um samninginn um opna lofthelgi eru góðar vonir um samvinnu um traustvekjandi aðgerðir á árinu 2019.
 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira