Hoppa yfir valmynd

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE)

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, friðs, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum sem eru fimmtíu og sjö talsins. Innan stofnunarinnar sem staðsett er í Vín fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, auk öryggis- og afvopnunarmála. Einnig má nefna víðtækt kosningaeftirlit á vegum stofnunarinnar í aðildarríkjunum. Öll ríki Evrópu eiga aðild að ÖSE auk Bandaríkjanna, Kanada, Kasakstan, Kirgisía, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.

Með framlagi stofnunarinnar á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi sendinefnda ÖSE á vettvangi (OSCE missions) í aðildarríkjunum, gegnir ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi. Ísland hefur á vettvangi ÖSE lagt sérstaka áherslu á vernd mannréttinda og baráttuna gegn mansali auk aðgerða stofnunarinnar til að stemma stigu við hryðjuverkum.

Efst á baugi 

Nú eru um 800 alþjóðlegir eftirlitsmenn frá hátt í 50 ríkjum að staðaldri í eftirlitsverkefni ÖSE í Úkraínu. Aðildarríki stofnunarinnar hvetja til þess að staðið verði við Minsk-vopnahléssamkomulagið í Austur-Úkraínu sem ætlað er að varða veginn til friðar í landinu og stutt er í orði af öllum þátttökuríkjum ÖSE. Aftur á móti hefur skort pólitískan vilja af hálfu deiluaðila til að framkvæma samkomulagið. Ástandið er enn mjög eldfimt og erfitt að sjá fyrir endann á deilunni. Mannúðarástandið á átakasvæðunum er einnig mjög slæmt og áframhaldandi brot á vopnahlé hafa áhrif á mannréttindi og lífsskilyrði almennra borgara.

Austurríki, sem tók við formennsku í ÖSE af Þýskalandi um áramótin 2016-2017, hyggst einbeita sér að því að berjast gegn róttækni- og öfgaþróun sem oftar en ekki er meginkveikjan að hatursorðræðu, fordómum, ofsóknum og hryðjuverkum. Áherslan verður á að ná til ungs fólks og einnig verður unnið að þessum málum með samstarfsríkjum ÖSE við Miðjarðarhafið. Ráðherrafundur ÖSE var haldinn í Hamborg í byrjun desember 2016. Fundurinn var árangursríkari en margir bjuggust við, sérstaklega þegar litið er til samþykkta á öryggismálasviðinu. Engar verulegar breytingar náðust þó fram, til að mynda varðandi endurskoðun Vínarskjalsins, sem er einn af grundvallarsamningum um öryggissamvinnuna í Evrópu og kveður á um gagnsæi og er ætlað að byggja upp og viðhalda trausti meðal þátttökuríkjanna.
 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira