Hoppa yfir valmynd

Áherslulönd í þróunarsamvinnu

Lönd sem teljast áherslulönd eru ríki sem njóta umtalsverðs stuðnings af Íslands hálfu til að framkvæma þróunarstefnu sína. Ísland hefur þó ekki viðveru í áherslulöndum en styður uppbyggingarstarf í gegnum fjölþjóðastofnanir og félagasamtök. Slíkur stuðningur, miðast til lengri tíma og getur falist í útsendum sérfræðingum, fjárhagslegum stuðningi við áætlanir fjölþjóðastofnana í viðkomandi ríki, sem og stuðningi við félagasamtök heimamanna. Aukinheldur getur þessi stuðningur falist í tvíhliða pólitísku samráði og málflutningi á alþjóðavettvangi. Áherslulönd Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu eru Mósambík, Palestína og Afganistan.

Íslensk utanríkisþjónusta og alþjóðleg þróunarsamvinna hefur lagt áherslu á samstarf við Palestínu frá árinu 2007 þegar ríkisstjórn Íslands samþykkti sérstaka aðgerðaráætlun um Mið-Austurlönd sem miðaði m.a. að því að bæta aðstæður Palestínumanna. Stuðningur Íslands við Palestínu hvílir nú á viðurkenningu ríkisstjórnar Íslands á sjálfstæði og fullveldi Palestínuríkis innan landamæra frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt liggur að grunni stuðningnum samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Íslands og heimastjórnar Palestínu frá júlí 2011.

UNRWA

Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) er lykilstofnun í samstarfi íslenskra stjórnvalda við Palestínu. Ísland hefur stutt starf stofnunarinnar frá árinu 1967 í formi fjárframlaga og útsendra sérfræðinga. Stofnunin starfar á Gaza, Vesturbakkanum, Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi þar sem hún aðstoðar flóttafólk og sér þeim fyrir menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð. Stofnunin veitir einnig neyðaraðstoð þegar aðstæður krefjast. Í febrúar 2018 undirritaði ráðherra rammasamning við UNRWA en samningurinn felur í sér loforð um ISK 25 milljónir í kjarnaframlög á ári.

UN Women

Ísland hefur veitt framlög til stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) í Palestínu um árabil. Sú breyting varð þó á, að frá og með árinu 2015 er framlagi Íslands beint í almenna framkvæmd ársáætlunar stofnunarinnar, í stað þess að vera varið til ákveðinna afmarkaðra verkefna líkt og fyrri ár. Með þessari breytingu fær stofnunin svigrúm til að framkvæma áætlanir og veita fé þangað sem þörf er talin á. Af verkefnum UN Women í Palestínu má nefna stuðning stofnunarinnar við gerð frumvarps sem fjallar um regluverk og viðbrögð við heimilisofbeldi og aðstoð við þróun verklagsreglna fyrir saksóknara sem sinna málum tengdum kynbundnu ofbeldi.

UNICEF

Ísland veitir framlög beint til heilbrigðisáætlunar UNICEF í Palestínu en í þeirri áætlun er lögð áhersla á mæðra- og barnavernd. Felur það m.a. í sér að auka framboð og aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir mæður og börn. Af verkefnum UNICEF í Palestínu má nefna þjálfun heilbrigðisstarfsmanna og dreifingu á brýnum lækningatækjum á vökudeildir heilbrigðisstofnana. Þá hefur verið sett á laggirnar átak til að stuðla að bættum næringarvenjum kvenna og barna og ýta undir brjóstagjöf mæðra.

Félagasamtök

Íslenskt stjórnvöld hafa stutt við starf palestínsku félagasamtakanna Palestinian Medical Relief Society (PMRS) frá árinu 2007 og Women‘s Centre for Legal Aid and Counselling (WCLAC) síðan 2008.

Bæði samtökin gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki varðandi þjónustu og málsvarastarf í Palestínu. Stuðningur íslenskra stjórnvalda þjónar þeim meginmarkmiðum mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu að lina þjáningar og efla viðnámsþrótt samfélagsins.

Mósambík breyttist úr tvíhliða samstarfslandi Íslands í áhersluland í lok árs 2017.

UN Women

Ísland veitir framlag til verkefnis UN Women í Mósambík sem snýr að framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Verkefnið miðar að því að tryggja að hugað sé að jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna í ferlum og áætlunum sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í Mósambík. Með verkefninu er m.a. miðað að því að tryggja að konur og stúlkur sem hafa fyrir ofbeldi hafi aðgang að fjölþættri aðstoð á flóttamanna- og endurreisnarsvæðum. Einnig er lögð áhersla á að geta ráðuneytis jafnréttismála til að samræma, hafa eftirlit með og gera grein fyrir framvindu aðgerðaáætlunar um ályktun 1325 verði aukin.

UNICEF

Í lok árs 2017 var skrifað undir samning um annan áfanga samstarfs við UNICEF í Mósambík um aðgengi að heilnæmu drykkjarvatni og viðunandi salernisaðstöðu í Zambezía-fylki, í norðurhluta landsins. Samningurinn gildir frá 2018-2020. Fyrsti áfanginn, fyrir tímabilið 2014-2017, bar góðan árangur og leiddi til verulegra umbóta í sex héruðum fylkisins. Í öðrum áfanga verður haldið áfram á sömu braut og gert ráð fyrir 150 þúsund nýjum notendum með viðunandi salernisaðstöðu, 25 þúsund nýjum notendum með aðgengi að heilnæmu vatni og 15 skólum sem fái bætta vatns- og salernisaðstöðu.

Afganistan er eitt áherslulanda Íslands í stefnu um alþjóðalega þróunarsamvinnu 2019-2023. Stuðningi við Afganistan er beint í gegnum tvær stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women).

UNESCO

Í aðgerðaáætlun stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands er UNESCO tiltekin sem samstarfsstofnun og gerður var rammasamningur við stofnunina í apríl  2019 til fimm ára. Ísland mun á næstu árum styðja við verkefni UNESCO á sviði menntunar (Capacity Development for Education Programme, CapED) í Afganistan, með sérstakri áherslu á menntun stúlkna þar í landi, í samræmi við áherslur Íslands á menntun og jafnréttismál. Ísland kom að stofnun CapED árið 2003 og gaf úttekt frá 2016 til kynna að markmið verkefnisins hefðu náðst og að það hafi forskot umfram önnur til að vinna að heimsmarkmiði 4. Hitt meginverkefnið sem Ísland styður varðar tjáningarfrelsi og öryggi fjölmiðlafólks (Freedom of Expression and Safety of Journalists) sem er einn þeirra grundvallarþátta sem styðja við virka lýðræðisþróun og vernd mannréttinda, sem Ísland leggur jafnframt ríka áherslu á í sinni þróunarsamvinnu.

UN Women

Ísland veitir framlög beint í aðgerðaáætlun UN Women í Afganistan. Af verkefnum UN Women í Afganistan má nefna stuðning við miðstöðvar fyrir upplýsinga- og fjarskiptatækni og vitundavakningu um Kvennasáttmálann (CEDAW) meðal háskólanema, embættismanna og fulltrúa borgarasamtaka í gegnum vinnustofur og námskeið. Einnig veitir stofnunin ríkistjórninni stuðning við gerð áætlunar um og eftirlit við framkvæmd ályktunar um konur, frið og öryggi.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira