Barnahjálp SÞ (UNICEF)
Almennt
Hlutverk Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er að bæta hag barna, ungs fólks og kvenna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grunnurinn að starfi stofnunarinnar. Styrkur UNICEF felst í kraftmiklu starfi á vettvangi í 190 löndum, bæði í þróunarríkjum og með starfsemi landsnefnda.
UNICEF hefur mikla reynslu af starfi meðal ungs fólks og kvenna sem miðar að því að tryggja félagsleg réttindi þeirra. Starfsemi UNICEF er í eðli sínu þverfagleg en mikil áhersla er lögð á verkefni á sviði heilbrigðismála, menntamála og neyðaraðstoðar, auk þess sem umbætur í hreinlætismálum eru á forgangslista stofnunarinnar.
Efst á baugi
Í gildi er rammasamningur milli íslenskra stjórnvalda og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UN Children´s Fund, UNICEF) sem veitir heildstæða umgjörð um samstarfið. Ætla má að kjarnaframlög Íslands til UNICEF hafi náð til milljóna barna víðs vegar um heim. Ráðuneytið undirritaði áframhaldandi samstarfssamning við UNICEF í Mósambík, sem nær frá 2018 til 2020, um að bæta vatns-, salernis- og hreinlætisaðstöðu í einu fátækasta fylki landsins, Zambezíu. Fyrsta samstarfsáætlunin, fyrir tímabilið 2014–2017, bar góðan árangur í sex héruðum fylkisins. Umbætur varðandi aðgengi að hreinu vatni náði til 63 þúsund íbúa með byggingu 160 vatnsbóla og umbætur í salernismálum náðu til 67 þúsund íbúa. Þá voru vatns- og hreinlætisumbætur gerðar í 85 grunnskólum. Endurnýjaður var samningur vegna samstarfsverkefnis UNICEF og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (United Nations Population Fund, UNFPA) um upprætingu limlestinga á kynfærum kvenna og stúlkna í 17 löndum í Afríku. Samningurinn var endurnýjaður á síðasta ári til fimm ára. Áætlað er að fleiri en 200 milljónir kvenna hafi þurft að þola þessa meðferð en limlesting á kynfærum kvenna er heilbrigðis-vandamál, brot á mannréttindum og birtingarmynd á kynbundnu misrétti og ofbeldi.
Ísland hefur einnig stutt við heilsutengd verkefni UNICEF í Palestínu frá árinu 2011 og studdi meðal annars ljósmæðraeftirlit með mæðrum í viðkvæmri stöðu. Úttekt á verkefninu frá 2018 sýnir að mikil þörf var á þjónustunni sem talin er hafa átt stóran þátt í að draga úr bæði mæðra- og ungbarnadauða. Þá er í gildi samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og landsnefndar UNICEF fyrir árin 2017–2019 sem felst, auk kynningarstarfa, meðal annars í því að landsnefndin veiti útsendum sérfræðingum fræðslu áður en þeir hefja störf á vettvangi.
Sjá einnig:
Lög
Reglugerðir
Áhugavert
Fjölþjóðleg þróunarsamvinna
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.