Hoppa yfir valmynd

Útgefið efni

Úttektir skipa mikilvægan sess í verklagi þróunarsamvinnu, enda skila þær þekkingu um árangur verkefna og þann lærdóm sem draga má af því sem vel gengur og þess sem betur mætti fara. Á árinu 2016 var unnið markvisst að því að innleiða heildrænt kerfi úttekta og eftirlit á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins (ÞSS). Bæði var byggt á þeim verkferlum sem þróaðir höfðu verið áður hjá Þróunarsamvinnustofnun (ÞSSÍ) og aðlögun þeirra að starfi þróunarsamvinnuskrifstofu (ÞSS), sem og þeirri vinnu sem verið hafði í gangi hjá ÞSS. Unnið var að úttektarstefnu þar sem markmið og framkvæmd úttekta eru skilgreind í samræmi við alþjóðlegt verklag og kröfur OECD/DAC um úttektir.

Á árinu 2017 var unnið samkvæmt samþykktri úttektarstefnu þar sem markmið og framkvæmd úttekta eru skilgreind í samræmi við alþjóðlegt verklag og kröfur DAC um úttektir. Alls voru framkvæmdar fimm úttektir á árinu 2017. Í verklagi þróunarsamvinnu gegna úttektir mikilvægu hlutverki, enda skila þær þekkingu um árangur verkefna og þann lærdóm sem draga má af því sem vel gengur og sýna fram á það sem betur mætti fara. Þar til í lok árs 2017 fór sérstök deild innan þróunarsamvinnuskrifstofu með úttektarmál en nú hefur hluti af verkefnum deildarinnar færst yfir í nýja eftirlitsdeild sem fellur undir skrifstofu ráðuneytisstjóra og fer með eftirlit með stjórnsýsluframkvæmd utanríkisþjónustunnar og almennri nýtingu mannauðs og fjármuna. Þessi skipulagsbreyting var lögð til í jafningjarýni DAC og síðar undirstrikuð í skýrslu stýrihóps um Utanríkisþjónustu til framtíðar.

Lokaúttekt á fiskgæðaverkefni í Úganda 2009-2015 lauk á sl. ári. Markmið verkefnisins var að draga úr fátækt og bæta lífsafkomu fólks í fiskiþorpum í Úganda. Úttektin var framkvæmd af óháðum úttektaraðila og fór fram á tímabilinu mars-maí 2017. Var henni ætlað að varpa ljósi á hvort verkefnið hefði tekist eins og lagt var upp með og að hvaða marki það hafi haft áhrif á íbúa fiskisamfélaganna í út frá settum markmiðum. Helstu niðurstöður voru þær að verkefnið hefði verið vel viðeigandi og mætt þörfum þeirra haghafa sem bjuggu á svæðinu. Þau markmið og áhrif sem lagt var upp með náðust að mestu leyti. Úttektaraðilinn taldi einnig að þverlægt markmið um jafnrétti og umhverfisáhrif hafi náðst að fullnægjandi marki með verkefninu. Þó komu fram áhyggjur vegna sjálfbærni verkefnisins, m.a. í tengslum við vatnsveitur. Í kjölfarið var brugðist við þeim ábendingum og vinna sett af stað við að renna tryggari stoðum undir rekstur þessara vatnsveitna til lengri tíma.

Á árinu var lokið við áreiðanleikakönnun á samstarfi við borgarasamtök í þróunarsamvinnu, sem PwC framkvæmdi. Þá fór af stað síðari hluta árs úttekt á verkefnum Rauða Kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu, Malaví, Úganda og Hvíta Rússlandi. Þeirri úttekt er bæði ætlað að varpa ljósi á og meta árangur verkefnanna, sem og að draga ályktanir almennt um árangur og virðisaukandi framlag borgarasamtaka í þróunarsamvinnuverkefnum. Lokaskýrslu þessarar úttektar er að vænta fljótlega.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira