Hoppa yfir valmynd

Skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Síðan 1979 hafa skólar undir regnhlíf Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) verið starfræktir á Íslandi. Af þeim er Jarðhitaskólinn elstur en árið 1998 hóf Sjávarútvegsskólinn starfsemi sína og árin 2007 og 2013 bættust Landgræðslu- og Jafnréttisskólinn í hópinn. Skólarnir starfa að því að efla getu einstaklinga og stofnana í þróunarlöndum á sínum sérsviðum. Ár hvert koma hópar sérfræðinga frá þróunarríkjum til fimm eða sex mánaða sérhæfðs náms á Íslandi, auk þess sem skólarnir halda styttri námskeið erlendis. Þar að auki gefst útskrifuðum nemendum frá öllum skólunum kostur á að sækja um styrki til masters- eða doktorsnáms á Íslandi.

Markmið Jarðhitaskólans er að tryggja aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði. Vinnur hann þar með gegn loftlagsbreytingum og neikvæðum áhrifum þeirra. Sjávarútvegsskólinn vinnur að því að efla getu stofnana og einstaklinga í þróunarríkjum til að nýta á sjálfbæran hátt lifandi auðlindir í vatni. Hlutverk Landgræðsluskólans er að vinna að vernd, endurheimt og sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbærri stjórnun skógarauðlinda, baráttu gegn eyðimerkurmyndun, stöðvun jarðvegseyðingar, endurheimt landgæða og mótspyrnu við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Tilgangur Jafnréttisskólans er að vinna að kynjajafnrétti og félagslegu réttlæti í þróunarríkjum, ríkjum þar sem ófriður geisar og í ríkjum sem hafa áður búið við vopnuð átök. Þá er markmið skólans einnig að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum þar sem konur og karlar hafa jafnan aðgang að réttarkerfi og skilvirkum og ábyrgum stofnunum.

Skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) hafa um áratuga skeið verið mikilvægur þáttur í þróunarsamvinnu Íslendinga, enda er innan þeirra hagnýtt sú sér- og tækniþekking sem til staðar er á Íslandi og henni miðlað til íbúa þróunarlandanna. Ár hvert sækja sérfræðingar frá þróunarlöndum þjálfun í fimm eða sex mánuði á Íslandi á þeim sviðum sem skólarnir bjóða upp á. Auk þess standa skólarnir að styttri námskeiðum í þróunarríkjum og veita styrki til valinna sérfræðinga frá þróunarríkjum til áframhaldandi háskólanáms á Íslandi.

Í lok 2018 höfðu 1.313 sérfræðingar hlotið þjálfun í skólum HSÞ á Íslandi og rúmlega 3.600 manns tekið þátt í styttri námskeiðum þeirra í samstarfslöndum. Fram undan eru breytingar á fyrirkomulagi á samstarfi við HSÞ. Samningaviðræður stóðu yfir milli utanríkisráðuneytisins og yfirstofnunar HSÞ í Tókýó um stofnun alþjóðlegrar stofnunar á Íslandi, en undir lok árs varð ljóst að af því yrði ekki og samstarfinu við HSÞ lýkur í lok árs 2019. Utanríkisráðuneytið leitar nú eftir samstarfi við aðrar alþjóðlegar stofnanir í samvinnu við skólana fjóra. Á árinu setti ráðherra á fót starfshóp sem fjallar um skipulag og rekstur skóla HSÞ á Íslandi. Starfshópurinn hefur verið að störfum frá desember 2018. Lokaskýrslu er að vænta í apríl 2019.

 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira