Hoppa yfir valmynd

Jarðhitaleit í austanverðri Afríku

Almennt 

Íslensk stjórnvöld standa fyrir umfangsmiklu samstarfi um jarðhitarannsóknir í Austur-Afríku. Jarðhitaverkefni Íslands og Norræna þróunarsjóðsins (Nordic Development Fund, NDF) þar er liður í samstarfi Íslands og Alþjóðabankans um aukna jarðhitanýtingu í Austur-Afríku. Verkefnið miðar að því að aðstoða lönd við frumjarðhitarannsóknir til að fá úr því skorið hvort nýtanlegan jarðhita sé að finna. Fáist jákvæðar niðurstöður taka við tilraunaboranir með þátttöku Alþjóðabankans, Afríkusambandsins (African Union, AU) og fleiri aðila, til að aðstoða lönd við að taka á, og lágmarka þá áhættu sem felst í tilraunaborunum. Reynslan bendir til þess að veruleg þörf sé fyrir stuðning á þessu stigi jarðhitaþróunar.

Stefnt er að frekara samstarfi við Alþjóðabankann um beina aðkomu íslenskra sérfræðinga í jarðhitaverkefnum bankans, bæði úr einkafyrirtækjum og opinberum stofnunum.

Efst á baugi 

Frá 2013 hafa íslensk stjórnvöld staðið fyrir umfangsmiklu samstarfi um jarðhitarannsóknir í Austur-Afríku í samstarfi við Norræna þróunarsjóðinn (e. Nordic Development Fund, NDF) en verkefnið er einnig tengt viljayfirlýsingu Íslands og Alþjóðabankans (e. Geothermal Compact) um aukna jarðhitanýtingu á svæðinu. Verkefninu lauk formlega í lok árs 2017 en framkvæmd nokkurra verkþátta, sem ekki hefur náðst að ljúka, mun halda áfram 2018. Verkefnið snýr að því að aðstoða lönd við frumjarðhitarannsóknir til að skera úr um hvort nýtanlegan jarðhita sé að finna. Ef jákvæðar niðurstöður fást taka við tilraunaboranir með þátttöku Alþjóðabankans, Afríkusambandsins (e. African Union, AU) og fleiri aðila, til að aðstoða löndin við að lágmarka áhættuna sem felst í tilraunaborunum. Reynslan bendir til þess að veruleg þörf sé fyrir stuðning á þessu stigi jarðhitaþróunar.

Á árinu 2017 var aðaláhersla innan verkefnisins á samstarf við Eþíópíu, Kenía, Tansaníu og Djíbútí, enda hafa rannsóknir sýnt að þar fyrirfinnast betri jarðhitasvæði heldur en í vestari hluta sigdalsins, þar sem 109 möguleikar á nýtingu eru takmarkaðir og um mun lægri hita að ræða. Aðstoð við jarðhitarannsóknir í þessum löndum lauk að mestu á árinu 2017 en í Eþíópíu á enn eftir að veita aðstoð við rannsókn á einu svæði. Verið er að ljúka við undirbúning að verkefni sem felst í því að setja upp þurrkofn á svæði í Menengai, sem er í umsjón jarðhitafyrirtækis Kenía (e. Geothermal Development Company, GDC), til að nýta jarðhita við þurrkun matvæla en talið er að þar felist áhugaverðir möguleikar sem einnig gætu nýst fyrir löndin í kring. Í Tansaníu lauk jarðhitarannsóknum á þremur svæðum og var einnig veitt tæknileg aðstoð til jarðhitafyrirtækis landsins (e. Tanzania Geothermal Development Company, TGDC) til að aðstoða við þróun og umsóknir vegna tilraunaborana í viðkomandi sjóði Afríkusambandsins (e. Geothermal Risk Mitigation Facility, GRMF). Í Djíbútí var veitt þjálfun við yfirborðsrannsóknir, auk þess sem tæknileg aðstoð var veitt vegna undirbúnings borverkefna. Í Djíbútí er stefnt á að hefja tilraunaboranir á næsta ári.

Á síðasta ári var skrifað undir áframhaldandi samstarf við Umhverfisstofnun SÞ (e. UN Environment, UNEP) í Nairobi um jarðhitaþróun í Austur-Afríku undir Argeo-verkefninu. Því er m.a. ætlað að styðja Kenía og löndin í kring að setja á stofn þjálfunarmiðstöð í jarðhita á svæðinu. Jarðhitaskóli HSÞ á Íslandi mun einnig koma að þjálfun og ráðgjöf í tengslum við þetta starf og er reiknað með að íslensk sérþekking muni nýtast vel í því starfi.

Á sl. ári var samstarfi við Norræna þróunarsjóðinn (e. Nordic Development Fund, NDF), Jarðhitaskóla HSÞ og LaGeo, jarðhitafyrirtækis El Salvador, fram haldið um rekstur og framkvæmd jarðhitanáms í El Salvador. Námið er að fyrirmynd Jarðhitaskólans sem aðstoðar LaGeo við framkvæmd þess. Á árinu stunduðu 30 nemendur frá Mið- og Suður-Ameríku námið. Þá fór fram á vegum NDF og ráðuneytisins úttekt á náminu í tengslum við mögulegt framhald samstarfsins og var úttektin jákvæð með tilliti til þess árangurs sem náðst hafði og mögulegs frekara samstarfs. LaGeo hefur því lagt fram tillögu um áframhaldandi samstarf með stuðningi frá Íslandi og NDF.

Þá hefur einnig hafist undirbúningur að svæðasamstarfi með Alþjóðabankanum á sviði fiskimála í Vestur-Afríku. Meðal annars hefur verið skoðaður grundvöllur að þátttöku í verkefnum bankans í Síerra Leóne og Líberíu og er reiknað með að slík verkefni geti farið af stað eftir mitt ár 2018. Þar er miðað við að íslensk sérfræðingþekking nýtist m.a. á sviði fiskveiðistjórnunar og bættri meðferð afla, auk þess sem leitað verði leiða til að bæta lífskjör í fiskveiðisamfélögum.

Verkefni

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira