Hoppa yfir valmynd

Jarðhitaleit í austanverðri Afríku

Yfirmarkmið, Heimsmarkmið nr. 7

  • Að auka nýtingu jarðhita og endurnýjanlegrar orku í þróunarríkjum.

Verkefni:

  • Tæknileg aðstoð og þjálfun fyrir lönd í Sigdalnum í Austur Afríku, þar sem möguleikar eru til staðar varðandi nýtingu jarðhita.
  • Samstarfi við Alþjóðabankann um tæknilega aðstoð í tengslum við stærri verkefni í öllum heimshlutum.
  • Staða sérfræðings í jarðhita við Alþjóðabankann, og samlegð vegna annarra þátta í þróunarsamvinnu Íslands, m.a. Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Almennt 

Íslensk stjórnvöld standa fyrir umfangsmiklu samstarfi um jarðhitarannsóknir í Austur-Afríku. Jarðhitaverkefni Íslands og Norræna þróunarsjóðsins (Nordic Development Fund, NDF) þar er liður í samstarfi Íslands og Alþjóðabankans um aukna jarðhitanýtingu í Austur-Afríku. Verkefnið miðar að því að aðstoða lönd við frumjarðhitarannsóknir til að fá úr því skorið hvort nýtanlegan jarðhita sé að finna. Fáist jákvæðar niðurstöður taka við tilraunaboranir með þátttöku Alþjóðabankans, Afríkusambandsins (African Union, AU) og fleiri aðila, til að aðstoða lönd við að taka á, og lágmarka þá áhættu sem felst í tilraunaborunum. Reynslan bendir til þess að veruleg þörf sé fyrir stuðning á þessu stigi jarðhitaþróunar.

Stefnt er að frekara samstarfi við Alþjóðabankann um beina aðkomu íslenskra sérfræðinga í jarðhitaverkefnum bankans, bæði úr einkafyrirtækjum og opinberum stofnunum.

Efst á baugi 

Frá 2013 hafa íslensk stjórnvöld staðið fyrir umfangsmiklu samstarfi um jarðhitarannsóknir í 13 ríkjum í Sigdalnum mikla í Austur-Afríku í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn (Nordic Development Fund, NDF). Verkefnið er tengt viljayfirlýsingu Íslands og Alþjóðabankans um aukna jarðhitanýtingu á svæðinu. Verkefninu lauk formlega í lok árs 2017 en framkvæmd nokkurra verkþátta hefur dregist og lýkur þeim verkefnahlutum formlega fyrri hluta árs 2019. Á árinu lauk yfirborðsrannsóknum í Tansaníu og aðstoð við Djíbútí um gerð hugmyndalíkana fyrir jarðhitasvæði.

Óháð lokaúttekt á svæðaverkefninu hófst í október og lýkur í apríl 2019. Síðar á árinu 2019 stendur til að skoða ítarlega hvernig má veita áframhaldandi stuðning til jarðhitaþróunar í Austur-Afríku og væntanlegar tillögur úr úttekt á jarðhitaverkefni Íslands og NDF nýtast í þeirri vinnu. Síðastliðin þrjú ár hefur ráðuneytið átt í góðu samstarfi við Norræna þróunarsjóðinn, Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og LaGeo, jarðhitafyrirtæki El Salvador, um rekstur og framkvæmd jarðhitanáms í El Salvador. Námið er að fyrirmynd Jarðhitaskólans sem aðstoðar LaGeo við framkvæmd þess. Á árinu stunduðu 30 nemendur frá Mið- og Suður-Ameríku námið. Þátttaka í verkefninu viðheldur áframhaldandi tengingu Íslands við málefni jarðhita í álfunni, en íslenskir sérfræðingar taka þátt í kennslunni. Ísland var öflugur þátttakandi á Argeo C7-jarðhitaráðstefnunni sem haldin var í höfuðborg Rúanda, Kígali, í nóvember síðastliðnum og jafnframt voru haldin tvö námskeið í samstarfi við Jarðhitaskólann. Ísland studdi áfram við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Environment) í Naíróbí og kom að stofnun og starfsemi þjálfunarmiðstöðvar í jarðhita í Kenya í samstarfi við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Þá var í tengslum við jarðhitasamstarfið stutt við íslensku jarðhitaráðstefnuna (Iceland Geothermal Conference) sem sérfræðingar frá samstarfslöndum Íslands í Afríku sóttu, ásamt því að stuðningur var veittur við málstofu IRENA (The International Renewable Energy Agency) á ráðstefnunni um beina nýtingu jarðhita og fæðuöryggi. Jafnframt var í gegnum ÖSE stutt við heimsókn orkusérfræðinga frá Armeníu, Georgíu, Kirgistan og Úkraínu ásamt orkusérfræðingi ÖSE. Hópurinn kynnti sér beina nýtingu jarðhita á Íslandi, meðal annars til húshitunar og þótti heimsóknin takast afar vel.

Verkefni

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira